13.2.2000

Háskólaþingi aflýst - fylkingarslagur ofl.

Tvisvar í þessari viku hefur veðrið sett strik í reikninginn, þegar ég ætlaði að sinna skyldum mínum. Í fyrra skiptið var það miðvikudaginn 9. febrúar, en þá var ætlun okkar ráðuneytisfólks að fara til Vestmannaeyja og funda í framhaldsskólanum þar, síðara skiptið var síðan laugardaginn 12. febrúar, þegar taka varð þá stóru og leiðinlegu ákvörðun að aflýsa háskólaþingi, sem við höfðum verið að undirbúa í marga mánuði. Síðdegis á föstudaginn skall á með miklu roki og blindhríð á köflum, gerðist þetta eins og hendi væri veifað. Þá var kvöldverðarboð fyrir erlenda sendiherra og ríkisstjórn að Bessastöðum og komust ekki allir þangað vega veðurofsans, var erfitt að aka suður eftir og uppúr miðnætti, þegar haldið var heim komumst við ekki lengra en inn í Hlíðarnar af Kringlumýrarbrautinni á bílnum, því að hann festist. Jeppi selflutti okkur síðasta spölinn heim en komst þó ekki alla leið og urðum við að klofa snjóinn í kjólfötum og síðum kjól.

Veðrið gekk niður sunnanlands upp úr klukkan 2 um nóttina en versnaði þá mjög fyrir vestan og norðan. Að morgni laugardags var enn erfið færð í Reykjavík en alveg ófært úr Borgarfirði, þar sem eru tveir háskólar, og frá Akureyri en frá báðum þessum stöðum ætluðu nokkrir fyrirlesarar að koma og einnig frá útlöndum, en seinkunn varð og mikil röskun á öllu millilandaflugi. Þótt um 40 sýningarbásar hefðu verið settir upp í Háskólabíói og fólk þar væri reiðubúið að sinna sínum skyldum, var ekki annað unnt en aflýsa þinginu, það hefði orðið svipur hjá sjón auk þess sem við hefðum mismunað háskólum með því að útiloka suma alveg frá þátttöku. Nú þarf að íhuga, hvað er til ráða, en víða létu menn í ljós mikinn áhuga á þinginu, sem er hið fyrsta í sögu okkar og tímabært í ljósi þess, hve miklar breytingar eru að verða á háskólastiginu.

Nokkrar umræður hafa orðið um rannsóknir og vísindi og háskólamál undanfarið, einkum í Morgunblaðinu. Um síðustu helgi lýstu læknar áhuga sínum á rannsóknum og ræddu hugmyndir um háskólasjúkrahús og laugardaginn 12. febrúar er skýrt frá því, hvaða áhrif nýjar reiknireglur hafa á störf sangfræðiskorar í Háskóla Íslands. Í Morgunblaðinu 13. febrúar birtir úthlutunarnefnd Vísindasjóðs greinargerð þar sem hún lýsir viðhorfum sínum. Er gagnlegt að ræða þessi mál á opinberum vettvangi. Mikilvægt er, að missa þó ekki sjónar á aðalatriðum. Eitt þeirra er meðal annars það, sem úthlutunarnefndin áréttar, að orðin umsókn og styrkir gefa ef til vill ekki rétta mynd af því, sem um er að ræða, þegar rætt er um stuðning við rannsóknir, því að þar er verið að fjárfesta í störfum vísindamanna, sem keppa um fé á jafnréttisgrundvelli og er úthlutað því af fagmönnum. Nauðsynlegt er jafnframt að það komi fram, sem framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs sagði á dögunum, þegar úthlutað var verðlaunum í verkefninu Upp úr skúffunum, en hann nefndi, að meiri áhugi væri nú hjá fjárfestum að binda fé í vísindastarfi en nokkru sinni fyrr og nóg fé væri til í því skyni, menn þyrftu aðeins að vita um góðu hugmyndirnar. Spurning er hvort vísindamenn gera nóg af því að kynna hugmyndir sínar á öðrum vettvangi en í hinu hefðbundna styrkja- og umsóknaferli innan eigin raða. Einnig verður þess vart, að sumir háskóla- og vísindamenn telja það eins og aðra peninga, sem renna til þeirra frá einkaaðilum en hinu opinbera, og aðrar skuldbindingar fylgi því að þiggja einkafé en opinbert.

Þegar rætt er um grunnrannsóknir og skýrsluna, sem ég beitti mér fyrir að Inga Dóra Sigfúsdóttir vann í samvinnu við Þórólf Þórlindsson prófessor og kynnt var í nóvember sl., er nauðsynlegt að minnast þess, að skýrslan sýndi mun betri árangur á þessu sviði heldur en margir hefðu getað ætlað að óathuguðu máli. Þessi mikli árangur hefur náðst við þær aðstæður, sem íslenskum rannsóknum eru búnar. Skýrslan sýnir, að hér má ná góðum árangri við ríkjandi aðstæður. Ég er ekki viss um að fara þurfi nokkrar krókaleiðir til að útskýra þennan árangur, hann er öllum ljós.

Ég hef ekki orðið var við gagnrýni á þær hugmyndir í skýrslunni, að leggja beri meiri áherslu á árangur, þegar fjármunum er úthlutað til rannsókna hér. Skynsamlegra sé að velja færri góð verkefni en dreifa fjármunum um of. Hitt er að sjálfsögðu skiljanlegt, að vísindamenn á öllum sviðum vilji meira fjárhagslegt svigrúm til að sinna störfum sínum - hver vill það ekki? Mér sýnist hins vegar, að ekki sé alveg samstaða um það, hvaða leiðir eigi að fara, þótt flestir hallist nú að því að forgangsraða beri í þágu grunnrannsókna, væntanlega þá með því að efla Vísindasjóð. Þá sjá einnig æ fleiri kostina við að efla meistara- og doktorsnám, eins Páll Skúlason nefndi í Morgunblaðsgrein fimmtudaginn 10. febrúar. Unnið er að því að efla styrki til umhverfismála og upplýsingatækni á grundvelli samnings um auknar fjárveitingar til Rannsóknarráðs Íslands. Áherslan virðist nú vera einkum á það, að ríkisvaldið láti meira til sín taka varðandi grunnrannsóknir og menntun ungra vísindamanna, sem síðan tengist rannsóknastofnunum og verði þannig virkir tengiliðir milli þeirra og háskóla.

Skipting fjár innan Háskóla Íslands og annarra skóla eða opinberra stofnana vekur alltaf umræður. Fjárveitingar til Háskóla Íslands jukust töluvert árið 2000 og taka nú mið af samningi milli ráðuneyta og háskólayfirvalda. Lagðar eru til grundvallar reiknireglur, sem unnar hafa verið í samvinnu háskólans og ráðuneyta. Framkvæmd reglnanna innan háskólans er í höndum yfirvalda þar. Við því er að búast, að nýjar aðferðir við að veita fé til starfsemi einstakra deilda og skora í Háskóla Íslands og annars staðar veki umræður og komi misjafnlega niður á deildum eftir því hvernig staða þeirra er almennt í samanburði við aðra. Skólar og deildir verða að fara að þeim leikreglum, sem gilda. Mælistikan getur virkað ströng en hún er orðin til á grundvelli mikilla umræðna, ekki síst á vettvangi háskólanna. Kennarar og aðrir starfsmenn í háskóla- og vísindasamfélaginu eru vanir að starfa eftir ströngum mælistikum á sviði fræðanna og við kennslu. Nú þurfa þeir að laga sig að nýjum leikreglum við ráðstöfun fjármuna.

Þriðja árið í röð vinnur menntamálaráðuneytið nú að samstarfi um rekstur framhaldsskólanna á grundvelli skólasamninga og reiknilíkans um fjárgreiðslur. Síðastliðið sumar spurði ég skólameistara, hvort þeir vildu ganga að nýju inn í gamla kerfið og fékk ég afdráttarlaust nei við þeirri spruningu. Öllum er ljóst, að það tekur óhjákvæmilega sinn tíma að laga sig að skólasamningum en það má ekki verða til þess að þessu góða samskipta- og stjórntæki verði ýtt til hliðar.

Í vikunni hef ég heimsótt þrjá framhaldsskóla á Selfossi, Laugarvatni og í Reykjanesbæ. Hvarvetna hafa orðið líflegar umræður bæði við nemndur og kennara. Hefur meðal annars verið spurt út í þætti varðandi reiknilíknaið og hvernig það mælir einstaka þætti. Til dæmis er spurt, hvort ekki sé í sumum tilvikum unnt að hafa nemendur í áfanga færri en líkanið leyfir, einkum þegar kemur að sérhæfðara námi í efri bekkjum. Þá velta menn því fyrir sér, hvort nægilegt tillit sé tekið til annarra starfa í skólunum en þeirra, sem beinlínis snerta kennslu. Þessi þáttur líkansins hefur stækkað aðeins og er það á valdi hvers skólameistara að ákveða, hvernig hann nýtir fjármunina, hvort þeir renna til forvarna, námsráðgjafar, alþjóðastarf, sálfræðiþjónustu og svo framvegis. Hefur fengist nokkur viðurkenning fjárveitingavaldsins á þessum lið en þó má vaflaust gera betur eins og á öllum sviðum.

Í Morgunblaðinu eru frambjóðendur til stúdentaráðskosninga í Háskóla Íslands einnig að kynna sig um þessar mundir. Í greinum þeirra er vakin athygli á ýmsu, sem má betur fara en einnig því, sem vel er gert. Ég las meðal annars grein um það, að gera þyrfti betur í húsnæðismálum Háskóla Íslands og það væri til skammar, ef ég skildi það rétt, að háskólinn treysti á tekjur af happdrætti til að standa undir byggingarkostnaði sínum. Var sú röksemd notuð, að útlendingum þætti þetta skrýtið kerfi! Varla eru þeir meira undrandi á þessu en lottó-kerfunum víða um heim sem þjóna menntun og menningu í mörgum löndum. Þegar litið er á happdrættisheimild HÍ til tekjuöflunar og hvaða hag skólinn hefur haft af happdrættinu undanfarna áratugi er furðulegt, að sjálfstæði HÍ í þessu efni skuli hallmælt af forystumönnum stúdenta við HÍ. Er ég viss um að margar opinberar stofnanir vildu vera í þessum sporum HÍ. Nægir aðeins að vísa til þess, hvernig happdrætti HÍ er kynnt um hver áramót, þegar kvatt er til endurnýjunar og miðakaupa. Þar kemur aldrei neitt annað fram en happdrættið sé mjög mikilvægt fyrir HÍ.. Ef ráðist er í framkvæmdir við Háskólann á Akureyri eða Kennaraháskóla Íslands verður það ekki gert nema á grundvelli samnings við ráðuneyti og á grundvelli vilyrða um fé úr ríkissjóði, allar hugmyndir um nýbyggingar og annað eru háðar samþykki ráðuneyta. Háskóli Íslands hefur mikla meira frjálsræði í þessum efnum og hefur raunar haf sérstakan arkitekt í þjónustu sinni, sem hefur teiknað hús á lóð skólans og fylgist með smíði þeirra. Sú spurning hlýtur hins vegar að vakna innan HÍ eins og hvarvetna annars staðar, hvort rétt sé staðið að nýtingu happdrættisfjár miðað við nýjar forsendur um samstarf skóla og einkafyrirtækja, vísa ég þar til dæmis til samningsins um Iðnskólann í Hafnarfirði, þar sem einkaaðilar eiga og reka skólahúsið auk tölvukerfis, mötuneytis o. fl. Eðlileg verkaskipting í þjóðfélaginu leiðir einfaldlega til þess að sumir sérhæfa sig í að fjármagna, byggja og reka hús, aðrir beina kröftum sínum að kennslu og rannsóknum.Þessa eðlilegu verkaskiptingu ber að virða á vettvangi háskóla eins og annars staðar.

Að morgni föstudagsins 11. febrúar var rætt við Margréti Frímannsdóttur, talsmann Samfylkingar, fylkingar vinstri manna, og formann Alþýðubandalagsins, í morgunfréttum hljóðvarps ríkisins. Fór ekki á milli mála, að talin voru stórtíðindi að gerast og sagði fréttamaður eitthvað á þá leið, að mönnum kynni að svelgjast á morgunkaffinu við að heyra það, að Margrét ætlaði að sækjast eftir varaformennsku í nýjum flokki vinstrisinna en ekki formennsku. Mér brá að vísu ekki mikið við að heyra þetta en greinilegt er, að línur eru teknar að skýrast allnokkuð í þessum sérkennilega formannsslag. Var útspil Margrétar túlkað á þann hátt, að hún væri að styðja Össur Skarphéðinsson til formennsku og einhvers staðar sagði hún, að þeir Össur og Guðmundur Árni væru ný nöfn í sínum huga, því að hvorugur hefði áður gegnt formennsku í stjórnmálaflokki, en hið sama væri ekki unnt að segja um Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi Þjóðvakaformann.

Össur lætur ekki eins líklega um framboð sitt eins og á dögunum, þegar honum var hampað sem mest í DV. Kannski hafa honum ekki þótt viðbrögðin við þeirri mælingu nógu góð fyrir sig. Hann hefur minni orð um hugsanlegt framboð sitt en Guðmundur Árni um væntanlegan hlut sinn i formannsslagnum. Nokkur fleiri nöfn eru að vísu nefnd eins og til dæmis Svans Kristjánssonar prófessors, sem jafnan er kallaður á vettvang, þegar spá þarf í stórpólitísk spil. Haft var eftir Svani einhvers staðar, að hann væri að íhuga framboð, þótt hann viðurkenndi, að fólk stæði ekki í hópum í garðinum við heimili sitt og hvetti sig til dáða.