23.1.2000

Varnarmálaumræður - Varðarfundur - framhaldsskólafundir

Ánægjulegt var að taka þátt í fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs um öryggis- og varnarmál Íslands síðdegis þriðjudaginn 18. janúar vegna þess hve vel hann var sóttur. Umræðurnar sýndu, að Steingrímur J. Sigfússon, forystumaður rauð/grænna, er enn við svipað heyðgarðshorn og kommúnistar á tímum kalda stríðsins. Hann telur sér trú um, að heimurinn hljóti að batna svo mikið, að óþarft sé fyrir þjóðir að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi sitt, helst megi setja traust sitt á eitthvert óskilgreint alþjóðlegt öryggiskerfi undir merkjum Sameinuðu þjóðanna. Steingrímur J. taldi, að illa hefði verið farið með Rússa, þeim hefði verið haldið utan samstarfs í evrópskum öryggismálum. hann lýsti andstöðu við NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin og talaði í raun á sama hátt um samstarf vestrænna þjóða og sósíalistar gerðu, þegar þeir töldu kommúnistaríkin bjóða annan og betri kost en hin vestrænu. Ég gerði sérstaklega athugasemd við ummæli hans um Rússland. Það er ekki með nokkrum rökum unnt að halda því fram, að Rússar hafi ekki átt öll tækifæri til að verða virkir þátttakendur í samstarfi um öryggismál. Það sýnist hins vegar vísasti vegurinn til vinsælda í Rússlandi að ala á tortryggni í garð NATO.

Á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í nóvember sl. flutti Steingrímur J. ræðu um öryggismál og lýsti andstöðu sinni við afskipti NATO í Kosovo. Þá stóð upp norskur þingmaður og lýsti undrun sinni yfir þessum málflutningi, því að hann væri með öðrum hætti en hjá vinstri sósíalistum í Noregi, sem ekki hefðu snúist gegn NATO vegna Kosovo. Hef ég áður á þessum síðum sagt, að afstaða rauð/grænna í öryggismálum eigi sér tæplega hliðstæðu meðal lýðræðisflokka í Evrópu utan Rússlands og Serbíu.

Menn taka þessari afstöðu rauð/grænna eins og margir tóku afstöðu kommúnista á árum áður, þeir hlusta á hana, yppta öxlum en leggja sig lítið fram um að brjóta til mergjar hvað í henni felst, enda eru líklega fáir, sem kjósa þennan flokk vegna utanríkismálanna og fylgisaukning hans í skoðanakönnunum byggist á öðru en stuðningi við stefnu hans í utanríkis- og öryggismálum. Ef rauð/grænir kæmust hins vegar í þá aðstöðu að geta framkvæmt stefnu sína í þessum málaflokki, mundu þeir stofna flestum grunnþáttum í íslenskum utanríkissamskiptum í uppnám, án þess að þeir hefðu nokkurn annan skynsamlegan kost. Stefnan er að vera á móti og síðan er leitast við að rökstyðja hana á þann veg, að með því mundi heimurinn batna svo mikið, að ekki þyrfti að hafa neinar áhyggjur af úrræðum til að tryggja varnir og öryggi.

Segja má, að þetta sé róttækur kostur en hann er ekki raunhæfur og þar að auki stórskaðlegur, yrði unnið að framkvæmd hans. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður fylkingar vinstri manna, Samfylkingarinnar var að vísu ekki alfarið á móti NATO, en taldi þó, að heimurinn yrði betri án þess. Hún minntist ekki einu orði á gildi varnarsamningsins við Bandaríkin. Festi það enn í sessi þá skoðun mína, að forystumönnum fylkingarinnar sé ekki treystandi í varnarmálum.

Við Þórunn og Ögmundur Jónasson, þingmaður rauð/grænna, héldum áfram umræðum um utanríkismálin í hinum ágæta spjallþætti Egils Helagsonar, Silfri Egils á Skjáeinum, í hádeginu sunnudaginn 23. janúar. Þar sagði Þórunn, að fylkingin styddi viðræður við Bandaríkjamenn um framhals varnarsamstarfsins en þó sagðist hún helst vilja sjá herlaust land.

Við Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður og líklegur frambjóðandi til formennsku í fylkingunni, höfum skipst á skoðunum um utanríkismál á síðum Morgunblaðsins. Leitaðist ég við að rökstyðja þar, að Guðmundur Árni liti þannig á, að varnarsamstarfið við Bandaríkin mundi líða undir lok, honum væri sama um það svo framarlega, sem áhrifin á atvinnulíf á Suðurnesjum yrðu ekki of alvarleg. Þessa skoðun sína áréttaði Guðmundur Árni í útvarpsþætti með Kristjáni Þorvaldssyni á rás 2 sunnudaginn 16. janúar, þegar hann sagði, að við ættum að búa okkur undir, að Bandaríkjamenn hættu varnarsamstarfi við okkur. Guðmundur Árni virtist ekki hafa aðra skoðun á málinu en að þá þyrftum við að huga að nýjum störfum fyrir þá, sem nú sinna verkefnum fyrir varnarliðið. Hvergi örlaði á hugsun um nauðsyn þess, að gerðar væru ráðstafanir til að tryggja varnir og öryggi Íslands. Mér þótti svipaðra sjónarmiða gæta hjá Þórunni í Silfri Egils, best væri að hafa landið herlaust en það ætti samt að ræða um varnarmál við Bandaríkjamenn.

Innan SVS hafa þeir starfað úr Alþýðuflokknum sáluga, sem vilja gjarnan skilgreina rætur flokks síns til stærstu stundanna í sögu hans, þegar hann stóð að því 1949, að Ísland yrði stofnaðili að NATO, en þá var Stefán Jóhann Stefánsson úr Alþýðuflokki foræstisráðherra. Ástæða fyrir því, að fylkingin er svona utangátta í stjórnmálastarfi, er, að hún leggur ekki rækt við neitt úr stjórnmálasögu eða stjórnmálaþróun síðustu áratuga. Fylkingin vill færast á einhvern óskilgreindan byrjunarreit og horfa þaðan á heiminn, helst ekki eins og hann er heldur eins og fylkingarfólk telur sér trú um, að hann sé. Fyrir gamla hægri krata, sem hafa barist fyrir því af mikilli einurð, að flokkur þeirra stæði að baki hinni farsælu utanríkisstefnu þjóðarinnar, hlýtur að vera beinlínis sársaukafullt að hlusta á þá, sem tala um utanríkis- og varnarmál fyrir hönd fylkingarinnar.

Í stuttu máli áréttaði ég þá skoðun mína á þessum fundi, að í öryggis- og varnarmálum skipti varnarsamningurinn við Bandaríkin enn sköpum fyrir okkur Íslendinga. Hann yrði jafnvel enn pólitískt mikilvægari á komandi árum, ef ESB-ríki ætluðu að fara að kljúfa samstöðu innan NATO með einhverju sérstöku evrópsku öryggiskerfi. Ég taldi, að annað ætti við um okkur en Noreg, þegar litið væri til þessarar þróunar, af því að Norðmenn hefðu ekki gert varnarsamning við Bandaríkjamenn vegna friðmælastefnu sinnar gagnvart Sovétríkjunum. Norðmenn óttuðust því einangrun, ef til einhvers klofnings kæmi milli Evrópu og Bandaríkjanna í öryggismálum. Við Íslendingar ættum áfram að leggja til grundvallar, að gott samstarf yrði milli Evrópu og Bandaríkjanna í öryggismálum. Ég sagði einnig, að ekkert hefði komið fram frá bandarískum stjórnvöldum, sem sýndi, að þau vildu draga úr varnarsamstarfinu við okkur, þvert á móti hefði Strobe Talbott, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagt í Morgunblaðinu 9. október 1999, að gagnkvæmt samband Bandaríkjanna og Íslands í varnarmálum væri ein af varanlegum staðreyndum lífsins, hvorki meira né minna, og sambandið mundi halda áfram að styrkjast, sem þýddi vitaskuld, að bandarískur her yrði áfram á Íslandi.

Ábyrðgarleysi í varnar- og öryggismálum er jafnalvarlegt núna og á tímum kalda stríðsins, ástandið í Evrópu er því miður blóðugra núna en það var þá. Enginn veit hvað það á eftir að kosta að koma á lýðræði og jafnvægi í álfunni eftir að þjóðirnar í austurhluta hennar losnuðu undan oki kommúnsimans. Þess vegna er enn nauðsynlegt að ræða um stöðu Íslands og ráðstafanir til að tryggja öryggi þess og varnir. Samtök um vestræna samvinnu er góður vettvangur til slíkra umræðna. Vakti athygli margra, að Steingrímur J. Sigfússon skyldi samþykkja að tala á þessum fundi. Hann er ekki fyrsti vinstrisinninn sem gerir það. Magnús Torfi Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og menntamálaráðherra, flutti ræðu á fundi SVS á níunda áratugnum. Ræða hans var að því leyti merkari en ræða Steingríms J., að Magnús Torfi lýsti þeirri skoðun, að nauðsynlegt væri fyrir Íslendinga að gæta öryggishagsmuna sinna og þeir gerðu það með skynsamlegum hætti með aðild að NATO og varnarsamstarfi við Bandaríkin.

Síðdegis laugardaginn 22. janúar efndu reykvískir sjálfstæðismenn til kjördæmisþings og síðan opins fundar um vaxtartækifæri í íslensku atvinnulífi. Baldur Guðlaugsson hrl. lét af störfum sem formaður Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, eftir 11 ára farsælt og óeigingjarnt starf. Er mikils virði fyrir hvern stjórnmálaflokk að fá slíka öndvegismenn til að leiða grasrótarstarf sitt. Í stað Baldurs var Margeir Pétursson, lögfræðingur og stórmeistari í skák, einróma kjörinn formaður Varðar, þannig að góður maður hefur áfram valist þar til forystu. Raunar má segja, að Sjálfstæðisflokkurinn sé eini stjórnmálaflokkurinn sem heldur uppi skipulögðu stjórnmálastarfi í höfuðborginni eftir að R-listinn kom til sögunnar, því að hinir flokkarnir hafa allir tapað sérkennum sínum með því að leggjast í R-lista-sængina. Vilji þeir bjóða kjósendum skýra kosti, dugar ekki að sýna á sér mörg andlit. Stjórnmálastarf í Reykjavík á eftir að þróast inn á nýjar brautir næstu misseri, þegar unnið verður að því að skipuleggja það með hliðsjón af því, að borginni verður skipt í tvö kjördæmi í þingkosningum. Fyrst verður þó tekist á um forystu í borgarstjórn árið 2002 og hlýtur að vera höfuðmarkmið sjálfstæðismanna að losa borgina undan stjórn R-listans.

Að loknum aðalfundi Varðar fluttu þau ræður Eyþór Arnalds, Íslandssíma, Hrönn Greipsdóttir, Radisson SAS, Bjarni Ármannsson, FBA, Frosti Bergsson, Opnum kerfum, og Guðbrandur Sigurðsson, ÚA. en Ingunn Guðmundsdóttir, Flugleiðum, stjórnaði umræðum. Allar voru þessar ræður hinar fróðlegustu og juku mönnum bjartsýni um að þjóðin væri á réttri leið, ef einkaframtakið og einstaklingurinn fengi sem mest svigrúm til athafna.

Hvarvetna standa menn framm fyrir nýjum og spennandi viðfangsefnum, en öllum verður betur ljóst, að ekki er unnt að nýta þau til fullnustu nema með vel menntuðu og hæfu starfsfólki. Þess vegna lögðu allir ræðumenn áherslu á góða menntun, sem tæki mið af nýjum kröfum. Frosti Bergsson minnti á þau orð Magnúsar Jónssonar prófessors, að Íslendingar ættu að bregðast við fámenni sínu með því að mennta hvern Íslending betur. Þegar forystumenn í atvinnulífi ræða menntamál líta þeir að sjálfsögðu til þeirra frá sínum sjónarhóli og kann að þykja, að þróunin þar haldi ekki í við þróun atvinnulífsins. Breytingar innan skólakerfisins þessi misserin eru ekki síður miklar en í atvinnulífinu. Hins vegar tekur lengri tíma að hrinda þeim í framkvæmd í skólunum, því að nemendur eru mörg ár að tileinka sér þá þekkingu, sem skólinn býður.

Athyglisvert var að heyra Hrönn Greipsdóttur lýsa áhyggjum sínum yfir skorti á menntuðu fólki til starfa við matargerð og framreiðslu eða aðra þjónustu við ferðamenn. Hvergi hefur ytri umbúnaður skólastarfs breyst meira til batnaðar en á þessum sviðum, eftir að verknámsálma Menntaskólans í Kópavogi var tekin í notkun. Til fárra starfsnámsgreina er varið meira fé af opinberri hálfu. Þess vegna hlýtur það að vekja áhyggjur hjá fleirum en Hrönn, ef nemendur laðast ekki að þessu námi eða það svarar ekki kröfum tímans. Við mótun inntaks námsins gegnir atvinnulífið lykilhlutverki, því að starfsgreinaráð þess gerir tillögu til menntamálaráðuneytis um námskrár.

Í vikunni heimsótti ég þrjá framhaldsskóla, Kvennaskólann, Flensborgarskóla og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Í skólunum hitti ég nemendur og kennara á fundum og ræddi einkum um nýju námskrána en einnig önnur mál, sem fundarmenn hreyfðu. Eftir heimsóknina í Flensborgarskóla fór ég í Fiskvinnsluskólann, sem er rekinn undir hatti Flensborgarskóla. Þar snerust umræður um sjálfa framtíð námsins, því að nemendum þykir skólinn ef til vill ekki hafa verið skilgreindur rétt innan skólakerfisins. Á Varðarfundinum kom fram, að tæknin breytir fiskvinnslunni óðfluga auk þess sem landvinnsla skiptir minna máli en áður. Þess vegna er mjög mikilvægt, að þeir, sem hafa það hlutverk að skilgreina inntak í námi í fiskvinnslugreinum á vettvangi starfsgreinaráðs, hafi auga á þessari þróun og geri tillögur í samræmi við hana. Fjölbrautaskólinn á Akranesi var einn þeirra skóla, sem vildi opna sjávarútvegsbraut, en hann hefur ekki gert það vegna þess að engir nemendur hafa fengist. Ef til vill skilgreinum við þessa undirstöðugrein of þröngt á vettvangi skólakerfisins, það eigi ekki að mennta fólk sérstaklega undir merkjum hennar heldur leggja rækt við almennt starfsnám í viðskipta- og tæknigreinum, þar sem menn læra algildar aðferðir til að beita í sjávarútvegi eins og öðrum greinum, en afli sér síðan sérþekkingar með störfum í greininni sjálfri og á símenntunarnámskeiðum.

Heimsóknir í framhaldsskólana hafa verið lærdómsríkar fyrir okkur úr ráðuneytinu, en ég ætla að geyma það til betri tíma að fjalla um þau áhrif, sem þær hafa á mig, því að reynsla mín er sú, að það þurfi fleiri en þrjá fundi til að sjá myndina í heild, en alls er ætlunin að heimsækja að minnsta kosti 28. skóla næstu vikur.