16.1.2000

Efnistök fjölmiðlamanna - Kúbudrengur - menningardeilur

Aðferðir blaðamanna til að fá fréttir frá okkur stjórnmálamönnunum eða úttekt þeirra á störfum okkar hafa verið nokkuð til umræðu. Er fundið að því, að ekki sé gengið nægilega hart fram til að króa okkur stjórnmálamennina af og fá okkur til þess að standa á gati gagnvart féttamönnum, helst í beinni útsendingu. Er þá gjarnan borið saman við það, sem gerist erlendis og hvernig fjallað er um stjórnmálamenn þar. Eitt er að ganga harkalega að stjórnmálmönnum í fjölmiðlum annað að ræða við þá málefni, sem koma þeim í koll. Umræður um flókin og vandasöm málefni skila sjaldan miklu nema allir þátttakendur í þeim séu sæmilega vel að sér um viðfangsefnið.

Í umræðum um efnistök fjölmiðlamanna er einnig gefið er til kynna, að hér sé ekki tekið á málum, sem vekja miklar umræður í öðrum löndum og varpa gjarnan skugga á stjórnmálamenn. Í því sambandi má ekki gleyma, að hér hafa ekki komið upp mál, sem eru sama eðlis og víða í útlöndum, nægir þar að minna á vandræði Bills Clintons vegna vináttu hans við Monicy Lewinsky.

Sjónvarpsstöðvar hér á landi sýndu á dögunum kafla úr þætti, sem franska einkastöðin Canal+ lét gera um Íslenska erfðagreiningu og átti meðal annars að sýna, að um fjárhagsleg tengsl fyrirtækisins og stjórnmálaflokka hefði verið að ræða. Nú hef ég ekki séð þennan þátt fyrir utan brotin, sem hér voru sýnd. Er mér sagt, að rætt hafi verið tvo Íslendinga í mynd í þættinum, þau Valdimar Jóhannesson, sem hefur verið í heilögu stríði við stjórnvöld vegna kvótamálanna og gekk í flokk með Sverri Hermannssyni, og Birnu Þórðardóttur, sem er kunnust fyrir framgöngu sína gegn NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin. Þá var birt felumynd af manni, sem sagður var sitja á alþingi, og sagði hann, að Íslensk erfðagreining hefði veitt íslenskum stjórnmálaflokkum fjárstuðning. Hins vegar létu sjónvarpsmennirnir til dæmis hjá líða að hafa nokkuð eftir Tómasi Inga Olrich alþingismanni, áttu þeir þó langt samtal við hann.

Ég veit ekki, hvort þeir, sem hvetja til umbóta á íslenskri fjölmiðlun vilja, að okkur séu kynnt mál frá öðrum löndum eða hér heima fyrir með þessum aðferðum Canal+. Franski þátturinn leiddi meðal annars til þess, að Íslensk erfðagreining upplýsti, að hún hefði orðið við tilmælum allra stjórnmálaflokkanna, sem sóttu um styrk, það er allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins.

Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri flokks Sverris Hermannssonar og Valdimars Jóhannessonar, Frjálslynda flokksins, sagði hins vegar í sjónvarpsviðtali, að hún hefði ekki séð neina peninga frá Íslenskri erfðagreiningu í kosningabaráttunni en í ljósi yfirlýsinga félagsins hefði hún fullan hug á að sækja þangað fjárstyrk! Steingrímur J. Sigfússon, formaður rauðgrænna lét orð falla á þann veg í sjónvarpi, að flokkur sinn hefði safnað um 4 m.kr. og mátti skilja hann svo, að allt að 500 þús. kr. af því fé hefði komið frá Íslenskri erfðagreiningu, sem er um 12% af öllu fé, sem flokkurinn safnaði, þannig að Íslensk erfðagreining er einskonar fjárhagslegur máttarstólpi rauðgrænna, en Ögmundur Jónasson, þingmaður flokksins, var sá. sem barðist einna harðast gegn hinum miðlæga gagnagrunni, en lagasetning um hann á að vera helsta staðfestingin á því, að Íslensk erfðagreining hafi keypt sér stuðning stjórnmálamanna og flokka.

Traust á erlendum fjölmiðlum minnkar oft, þegar þeir taka sér fyrir hendur að fjalla um mál, sem maður þekkir af eigin raun. Er sérkennilegt, hve þeir leyfa sér að fara frjálslega með mál eða leggja út af þeim á skrýtinn hátt. Hins vegar hefur ekki skapast hér á landi í sjónvarpi sama hefð og víða annars staðar fyrir góðum og upplýsandi samtalsþáttum, þar sem þaulreyndir spyrjendur leiða fram þekkingu viðmælanda sinna, skoðanir þeirra eða lífsreynslu á skemmtilegan og fræðandi hátt. Á Breiðbandinu er nú unnt að fylgjast með BBC World, sem er alþjóðleg fréttasjónvarpsstöð BBC, keppinautur CNN og Sky News. Þar er gamalreyndur fréttamaður BBC World Service, Tim Sebastian, með viðtalsþáttinn Hardtalk, er hann meðal annars sýndur á kvöldin klukkan 19.30, þegar Kastljós og Stöð 2 keppa um athygli manns. Hef ég staðið mig að því að festast frekar við BBC World en íslensku stöðvarnar á þessum tíma. Til dæmis sá ég viðtal við enskt par, sem hafði verið lengi í gislingu í Tsjetsjeníu og lýsti raunum sínum. Miðað við lýsinguna vakti undrun hve fólkið var vel á sig komið, en hún sagði skýringuna meðal annrs þá, að þau hefðu lagt stund á Qigong eða Chi Kung, sem er kínverskt þjálfunarkerfi fyrir sál og líkama.

Ýmsir þeir, sem eru að kvarta undan því, hvernig fjölmiðlamenn ganga að okkur stjórnmálamönnum, eru í raun fulltrúar sjónarmiða, sem hafa orðið undir í pólitískum umræðum og telja, að þeirra málstaður hefði sigrað, ef meira hefði verið saumað að málsvörum þeirra sjónarmiða, sem meirihluti á aþingi eða annars staðar aðhyllist. Aðrir myndu frekar segja, að ýmis mál séu svo þaulrædd í fjölmiðlum, að þau fari að lokum fyrir ofan garð og neðan vegna þess hve þau eru orðin útjöskuð og sama platan hefur lengi verið spiluð.

Eitt mál, sem nú vekur alheimsathygli, er fjölmiðlastríðið vegna kúbverska drengsins Elian Gonzales, sem flúði með móður sinni á bát frá Kúbu, en komst einn af og bjargaðist til Miami í Flórída. Með einörðum stuðningi Fidels Castrós og eftir miklar fjöldagöngur og mótmælafundi krefst faðir drengsins þess, að hann snúi aftur til Kúbu. Stríðið er ekki lengur aðeins háð í fjölmiðlum heldur fer það nú einnig fram á götum Havana og fyrir bandarískum dómstólum. George J Borjas, prófessor við Harvard Kennedy-skólann, flúði með móður sinni frá Kúbu árið 1962. Hann segir í nýlegri grein í The New York Times, að allir, sem hafi búið á Kúbu, fyllist grunsemdum, þegar þeir sjá föður Elíans lesa sérhannaðar ræður til að útmála grimmd bandarískra stjórnvalda. Þeir séu sannfærðir um, að fengi faðirinn að segja hug sinn allan, mundi hann óska hælis í Bandaríkjunum. Hvers vegna hafi þau þessar grunsemdir? Nýlega ·¡·@Svarta bókin um kommúnisma·¡¢\ upplýsi menn um að Castró-stjórnin hafi látið drepa meira en 15.000 Kúbverja og meira en 100.000 hafi verið dæmdir í fangelsi vegna stjórnmálaskoðana sinna. Veltir hann því fyrir sér, hvort þeir í Bandaríkjunum, sem vilja senda Elian til Kúbu, telji það örugglega best fyrir hann að snúa aftur til þessara stjórnarhátta.

Laugardaginn 15. janúar fór ég Norræna húsið, þar sem Stofnun Sigurðar Nordals stóð fyrir málþingi um rit Sigurðar Íslenzka menningu. Fluttu fjórir ungir fræðimenn fyrirlestra um bókina og síðan voru pallborðsumræður, sem ég heyrði ekki. Fróðlegt var að hlusta á Jón Karl Helgason ræða um þá ákvörðun Máls og menningar að fá Sigurð Nordal til að stjórna fimm binda ritröð undir heitinu Arfur Íslendinga, en Íslenzk menning er eina bindið, sem birtist og kom það út um haustið 1942. Varð ákvörðunin, sem var kynnt 1939, tilefni þess, að Morgunblaðið varaði fólk við verkinu vegna þess að kommúnistum væri ekki treystandi til að standa að útgáfu slíks verks. Samstarf Máls og menningar við Sigurð varð tilefni harðrar ádeilu Jónasar frá Hriflu á Sigurð. Rifjaði Jón Karl þetta allt upp og gaf jafnframt til kynna í fyrirlestrinum, að enn mætti sjá anga af þessum deilum í íslensku þjóðfélagi.

Er mér sagt, að í pallborðsumræðunum hafi Jón Karl vitnað í pistil á heimasíðu minni, þar sem ég fjallaði um gagnrýni Gunnars Karlssonar á þá ákvörðun menntamálaráðuneytisins að taka tilboði Nýja bókafélagsins um að annast útgáfu á sögukennslubókum fyrir framhaldsskóla. Eftir að hafa hlýtt á lýsingu Jóns Karls á hinum hatrömmu deilum og þungu orðum, sem féllu í lok fjórða og upphafi fimmta áratugarins vegna Arfs Íslendinga og hættunnar af kommúnistum, hlýt ég að telja það hreinan barnaleik, sem hann tengir sambærilegum ágreiningi í samtímanum, að minnsta kosti að því er mig varðar. Líklega er það eitt af einkennum samtímans, að stjórnmálamenn eru miklu mildari í orðum um menn og málefni en áður var og línur eru ekki dregnar með jafnskörpum hætti og þegar stjórnmálamenn vissu, að þeir áttu alltaf hauk í horni, þar sem flokksblöðin voru, og hanskinn var að jafnaði tekinn upp fyrir þá, hvað sem á dundi. Raunar heyrir einnig til undantekninga að íslensk blöð eða fjölmiðlar deili innbyrðis. Þetta er kannski einn liður í því, að ýmsum þykir ekki nóg og mikið púður í almennum umræðum hér. Svo eru það hinir, sem alltaf kvarta og kveinka sér, þegar til dæmis forsætisráðherra segir skoðun sína með afdráttarlausum hætti. Í hópi þeirra eru fastir dálka- eða pistlahöfundar í hljóðvarpi ríkisins, Dv og sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Á málþinginu um Íslenzka menningu vakti Ármann Jakobsson bókmenntafræðingur athygli á hinum sérstæða stíl, sem Sigurður Nordal notar í bókinni, þegar hann hikar ekki við að nálgast viðfangsefnið frá heimspekilegum og persónulegum sjónarhóli. Að sjálfsögðu ritar enginn fræðimaður um neitt mál án þess að persónuleg afstaða hans, heimspekileg og hugmyndafræðileg setji svip sinn á verkið. Á þeim tíma, sem Íslenzk menning var að fæðast settu þjóðernisleg viðhorf sterkan svip á allar umræður. Við nálgumst viðfangsefnið frá öðru sjónarhorni núna en á síðustu árum sjálfstæðisbaráttunnar og við upphaf síðari heimsstyrjaldar. Í umræðum um mörg ljóða, sem ort voru undir áhrifum sósíalisma, eða sagnfræðirit, sem skrifuð voru í anda marxismans, kemur fram, að þau viðhorf eru jafnvel enn framandlegri og andkannalegri núna en þjóðernisstefna um miðja 20. öld eða rómantík á 19. öld.