8.1.2000

Einkaframkvæmd - kvótadómur - Össur í framboð

Iðnskólinn í Hafnarfirði er að flytja í nýtt húsnæði. Var það vígt við hátíðlega athöfn að morgni laugardagsins 7. janúar. Fyrir utan að skapa skólastarfinu glæsilega umgjörð er skólahúsnæðið einstakt að því leyti, að það er hið fyrsta, sem er reist á grundvelli samnings um einkaframkvæmd milli ríkisins, Hafnarfjarðarbæjar og þriggja einkafyrirtækja, Nýsis hf., Ístaks hf. og Íslandsbanka hf. Voru samningar um þetta undirritaðir 18. desember 1998, fyrsta skóflustunga að skólahúsinu var tekin í mars 1999 og hinn 9. janúar 2000 hefst síðan kennsla við þessar nýju, frábæru aðstæður. Í 25 ár munu ríki og Hafnarfjarðarbær greiða eigendum hússins tæpar 70 m.kr. í árlega leigu fyrir afnot af húsinu og fyrir margvíslega aðra þjónustu, sem eigendur hússins veita, þeir sjá meðal annars um tölvukerfi skólans, rekstur mötuneytis og alla ræstingu auk viðhalds og frágangs og umhirðu lóðar.

Með því að skapa Iðnskólanum í Hafnarfirði þessa stórbættu aðstöðu er enn verið að treysta ytri umgjörð starfsnáms. Síðustu ár hefur Borgarholtsskóli komið til sögunnar og verknámsálma við Menntaskólann í Kópavogi auk þess er unnið að því að stækka Verkmenntaskólann á Akureyri.

Við víglsu nýja skólahússins í Hafnarfirði var rifjað upp, að skömmu eftir að ég varð menntamálaráðherra kom skólanefnd skólans á minn fund og lýsti hinni slæmu aðstöðu hans, á ég þá að hafa sagt, að röðin að framkvæmdum við skólann kæmi ekki fyrr en eftir 20 ár. Í apríl 1996 komu þeir hins vegar að nýju á minn fund Jóhannes Einarsson skólameistari og Jóhann Bergþórsson, sem þá var formaður skólanefndar. Kynntu þeir mér teikningar, sem þeir höfðu látið gera að nýju skólahúsi og knúðu enn á um að ráðist yrði sem fyrst í framkvæmdir. Á þessum tíma var til umræðu á vettvangi ríkisstjórnar að frumkvæði Friðriks Sophussonar fjármálaráðherra, að hugað skyldi að nýmælum við framkvæmdir á vegum ríkisins með samvinnu við einkaaðila, það er að einkaframtakið yrði nýtt til að reisa, eiga og reka mannvirki, sem ríkið nýtti undir starfsemi á sínum vegum. Hreyfði ég því við þá Jóhannes og Jóhann, hvort þeir vildu ekki kanna áhuga verktaka á því að koma að því að reisa og eiga skólahúsið en ríkið myndi semja um langtímaleigu á því.

Hugmyndin var síðan þróuð áfram á vettvangi menntamálaráðuneytisins í samvinnu við fjármálaráðuneytið og Hafnarfjarðarbæ. Var óskað tilboða með opinberri auglýsingu og á grundvelli þeirra síðan gengið til samninga við Nýsi, Ístak og Íslandsbanka. Sigfús Jónsson, forstjóri Nýsis, sagði við vísgluathöfnina, að líta mætti á Hvalfjarðargöngin, sem fyrstu einkaframkvæmdina, en þó bæri að hafa í huga, að þar hefði verið hafist handa að frumkvæði einkaaðila, en vegna Iðnskólans í Hafnarfirði hefði allt frumkvæði komið frá ríkinu og Hafnarfjarðarbæ.

Það má segja, að það hafi frekar liðið 20 mánuðir en 20 ár, frá því að ákvörðun var tekin um að flytja Iðnskólann í Hafnarfirði í nýtt húsnæði, þar til það gerðist. Þessi einstæði hraði er meðal kosta einkaframkvæmdar og verður hann seint metinn til fjár. Er það von okkar allra, sem að þessu máli höfum komið, að samvinna eigenda skólahússins og stjórnenda skólans eigi eftir að gefast vel. Frá mínum bæjardyrum séð er ómetanlegt að fa jafnöfluga aðila og Ístak, Íslandsbanka og Nýsi að því að skapa menntastofnun framúrskarandi aðstæður. Slíkt samstarf skóla og atvinnulífs á ekki síður eftir að skila miklum árangri en samstarf um inntak mennuntar.

Athöfnin í Iðnskólanum í Hafnarfirði var hin þriðja, sem ég sótti á einni viku til Hafnarfjarðar. Miðvikudaginn 5. janúar var ég þar til að rita undir þriggja ára samning við Hafnarfjarðarbæ og Hafnarfjarðarleikhúsið. Fimmtudaginn 6. janúar var ég viðstaddur, þegar nýtt tölvu- og upplýsingakerfi var tekið í notkun í Flensborgarskóla. Er ánægjulegt að fylgjast með því, hve mikill áhugi er á öllum þessum málum hjá stjórnendum Hafnarfjarðarbæjar og hve mikla áherslu þeir leggja á að búa sem best að menningu og menntun. Þeir eru fremstir meðal sveitarfélaga með þróun hugmynda um að fela einkaaðilum aukna hlutdeild í öllu skólastarfi.

----------------

Dómurinn, sem felldur var í vikunni, svonefndur Vatneyrardómur vegna veiða skips án veiðiheimilda, hefur enn á ný vakið heitar umræður um kvótakerfi. Niðurstaðan minnir okkur á þá staðreynd, að öll verk okkar stjórnmálamannanna eru undir smásjá annarra. Er fráleitt, þegar menn ganga fram fyrir skjöldu og halda því blákalt fram, að hér ríki einhver ofstjórn, sem erfitt sé að una. Enn einkennilegra er að gera því skóna, að stjórnmálamenn megi ekki lýsa skoðunum sínum og svara fyrir sig, í því felist einhver skerðing á mannréttindum. Stjórnmálamenn vinna starf sitt fyrir opnum tjöldum og takast á með orðum. Að sjálfsögðu verður þeim aldrei bannað að láta í ljós skoðanir sínar. Er álíka fráleitt að gera kröfu um að stjórnmálamenn gerini ekki frá viðhorfum sínum og halda að unnt sá að leggja grunn að góðum stjórnarháttum með ritskoðun.

Ákveðið hefur verið að áfrýja hinum umdeilda kvótadómi. Hann kemur því til kasta hæstaréttar og telja menn, að þar muni fást afstaða réttarins til 7. gr. kvótalaganna en eftir að dómstóllinn fjallaði um 5. gr. þeirra breytti alþingi lögum til að koma til móts við niðurstöðu réttarins. Þá var meðal annars vakin athygli á því, að hæstiréttur hefði ekki séð ástæðu til að fjölga dómurum, sem dæmdu málið, eins og eðlilegt er, þegar um meiriháttar mál er að ræða.

Davíð Oddsson forsætisráðherra hefur með einörðum hætti skýrt þjóðinni frá því, hvað staðfesting hæstaréttar á Vatneyrardómnum hefði í för með sér. Vegna ummæla Davíðs settust forystumenn stjórnarandstöðunnar niður og sömdu sameiginlega fréttatilkynningu til að finna að orðum hans. Er líklega einsdæmi í stjórnmálasögunni að slíkt gerist, en tilgangurinn er greinilega talinn helga meðalið. Hitt er þó ljóst, að stjórnarandstaðan er alls ekki einhuga um viðbrögð í þessu máli, eru jafnvel uppi kröfur um að alþingi komi saman og breyti lögum, áður en málið kemur til kasta hæstaréttar til að binda hendur hans á einhvern ákveðinn hátt. Í því felst miklu róttækari aðgerð en Davíð hefur hreyft, því að hann hefur einfaldlega lýst því, sem hann telur, að gerist, ef hæstiréttur staðfestir niðurstöðu héraðsdómarans.


Össur Skarphéðinsson sækir markvisst fram í yfirvofandi formannsslag innan fylkingar vinstrisinna. Er greinilegt, að hann kann að nýta sér DV, þar sem hann var ritstjóri um tíma, til hins ýtrasta. Flennifyrirsögn var á forsíðu blaðsins fyrir nokkrum dögum um framboð Össurar og á baksíðu var gefið til kynna, að hann nyti stuðnings allra helstu þungavigtarmanna innan fylkingarinnar, þó sýndist ekki vitnað í neinn orðrétt nema Vilhjálm H. Vilhjálmsson laganema, sem varla verður talinn hafa sérstaka þungavigt. Síðan DV kynnti Össur til leiks með þessum áberandi hætti hefur blaðið haldið áfram að flytja af honum fréttir og birti laugardaginn 8. janúar við hann opnuviðtal með fjölskyldumynd á forsíðu. Er langt síðan stjórnmálamaður hefur hafið baráttu fyrir forystu í eigin röðum með jafnmiklum þunga og Össur að þessu sinni.

Eftir að Össur tók af skarið um eigið framboð með þessum hætti, hefur komið fram, að þau Guðmundur Árni Stefánsson og Jóhanna Sigurðardóttir sækist einnig eftir formannssætinu. Má því búast við líflegum umræðum um formennsku í fylkingunni á næstu vikum. Það verður ekki sagt um nein af þessum þremur, að af þeim sé nokkurt nýjabragð, en Margrét Frímannsdóttir, talsmaður fylkingarinnar, hefur haft um það orð, að æskilegt kynni að vera að fá einhvern nýjan til að láta að sér kveða sem formaður fylkingarinnar. Hljóta menn nú að bíða í ofvæni eftir því hvort einhver nýr og óvæntur kemur fram á sjónarsviðið, því að átök milli þeirra þriggja, sem hér eru nefnd, væru aðeins endurtekning á því, sem áður hefur gerst á vettvangi Alþýðuflokksins sáluga. Reynslan þaðan kennir, að Jóhanna sé líkleg til að yfirgefa hið pólitíska selskab, ef menn átti sig ekki nægilega vel á því, að hennar tími sé enn og aftur kominn.

Framboð Össurar tekur af öll tvímæli um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er ekki reiðubúin til að taka að sér forystuhlutverk í fylkingunni. Hefur hún raunar svo oft lýst áhugaleysi sínu á því undanfarið, að frávist hennar þarf ekki að koma neinum á óvart. Össur hefur verið talsmaður þess að Ingibjörg Sólrún yrði þarna foringi, enda sækja þau fylgi sitt á svipaðar slóðir, það er til þeirra, sem hafa verið að þokast jafnt og þétt til hægri frá róttækri vinstrimennsku og sósíalisma á námsárum. Össur fór um Alþýðubandalagið með viðkomu á Þjóðviljanum sem ritstjóri en Ingibjörg Sólrún fór um kvennalistann. Ýmsar yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar benda til þess, að hún sé ekki tilbúin til forsytu í fylkingunni núna, en henni kunni að snúast hugur síðar. Þessar yfirlýsingar geta komið Össuri vel, því að hann getur lýst sig sem hinum mikla brúarsmiði gagnvart sameiginlegum stuðningsmönnum, hann sitji aðeins meðan verið sé að brúa bilið við Ingibjörgu Sólrúnu. Skilyrt formennska af þessu tagi er að vísu ekki mikið styrkleikamerki en hún kann að þykja nauðsynleg til að losa fylkinguna úr núverandi úlfakreppu.