3.1.2000

Aldamótaár hafið - enginn 2000-vandi - Jeltsín hættir

Ég óska gestum á vefsíðu mína gleði og farsældar á nýju ári!

Aldamótaárið er hafið. Árið 2000, sem lengi sýndist svo fjarlægt, er byrjað að líða. Oft hefur verið sagt, að fyrstu ár 20. aldarinnar hafi verið eitthvert mesta blómaskeið, sem menn muna. Þá hafi farið um heiminn andi bjartsýni og frelsis. Nútímaleg þróun var þá að komast á verulegt skrið og stjórnarhættir að taka á sig þá mynd, sem síðan hefur orðið að því lýðræði, sem við þekkjum nú á tímum. Íslendingar fengu fyrsta íslenska ráðherrann og stjórnarráðið inn í landið með Hannesi Hafstein í febrúar 1904. Þar með hófst samfellt framfaraskeið, sem staðið hefur alla tíð síðan.

Heimsmyndin gjörbeyttist með tveimur heimsstyrjöldum á öldinni, uppgangi fasisma og kommúnisma, tilkomu kjarnorkusprengjunnar og alhliða tæknivæðingu með ferðum til annarra hnatta.

Á einni öld höfum við Íslendingar þróað þjóðfélag, sem stenst fyllilega samanburð við hið besta í heiminum. Staða okkar við upphaf aldamótaárs er þannig, að við erum í hópi þeirra þjóðfélaga, þar sem borgararnir eru taldir njóta bestu kjara, þegar notaðar eru alþjóðlegar mælistikur. Þegar lesnar eru prýðilegar ævisögur skáldanna Jónasar Hallgrímssonar og Einars Benediktssonar, sem út komu fyrir þessi jól, má í sjónhendingu gera sér grein fyrir hinni gífurlegu breytingu, sem orðið hefur í landi okkar á síðustu 150 árum eða svo. Sumir telja, að nútíminn hafi hafist á fyrri hluta nítjándu aldar og í þeim skilningi má tvímælalaust líta á Jónas Hallgrímsson sem brautryðjanda nútímans í íslensku þjóðlífi, þótt hann og félagar hans hafi að nokkru einangrað sig frá meginstraumum með því að halda ofurfast við kröfuna um að alþingi yrði endurreist á Þingvöllum og jafnvel vilja, að Íslendingar tækju upp nýjan rithátt. Jónas og Einar gerðu sér glögga grein fyrir því eins og Jón Sigurðsson, að Íslendingar næðu ekki miklum árangri nema með því að eiga náin samskipti við aðrar þjóðir.

Á árinu 2000 er enginn íslenskur áhrifamaður fylgjandi því, að Íslendingar eingangri sig eða dragi úr samskiptum við aðrar þjóðir, þótt menn geti greint á um það, hvort eigi til dæmis að stefna að inngöngu í Evrópusambandið eða búa þannig um hnúta, að fleiri kostir séu fyrir hendi. Þá búum við enn við það einstæða ástand, að hér er stjórnmálaflokkur, sem er andvígur aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og telur óþarft að gerðar séu ráðstafanir til að verja land og þjóð eins og nú er með tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin.

Allur almenningur getur nú með fjölbreyttari hætti en nokkru sinni fyrr ræktað samband sitt við umheiminn. Tölvur, fjarskiptatækni, dreifing sjónvarps- og útvarpsefnis, ferðalög til útlanda, krafa um endurmenntun og símenntunn, allt er þetta til þess fallið, að við fylgjumst náið með því, sem er að gerast í umheiminum. Þessi tækni öll gerir okkur einnig betur kleift en nokkru sinni fyrr að koma því á framfæri, sem íslenskt er. Aðalatriðið er, að menn hafi eitthvað fram að færa, sem öðrum þykir athyglisvert. Í ljósi þessa er það brýnast, að á árinu 2000 og komandi árum beinum við athygli okkar að öllu, sem auðveldar okkur að standa áfram í fremstu röð þjóða, þar sem menntun, menning, rannsóknir og vísindi skipta sífellt meira máli.

Síðasti áratugur 20. aldar hefur einkennst af miklum umræðum um menntamál samhliða því, sem unnið er að því að hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd. Í nítíu ára sögu íslenskrar fræðslulöggjafar hefur ekki fyrr verið staðið að breytingum í menntamálum með þessum hætti, þegar settar eru samtímis nýjar námskrár fyrir þrjú fyrstu skólastigin og háskólastiginu skapaður nýr starfsrammi.

Sagan geymir margar frásagnir um ótta þjóða og mannkyns alls við aldamót, svo að ekki sé minnst á það, þegar nýtt árþúsund eða þúsöld hefur sitt skeið. Fyrir innreið ársins 2000 höfðu menn spáð því, að mikil hætta gæti verið á ferðum. 2000-vandinn byggðist á því, að tölvukerfi mundu hrynja með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Einnig var því spáð, að sértrúarsöfnuðir fremdu fjöldasjálfsmorð og Bandaríkjastjórn sendi frá sér sérstaka áskorun til bandarískra borgara um að gæta sín á hryðjuverkamönnum. Í skóla nokkrum í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum söfnuðu kennarar og nemendur vistum til að verða ekki hörmungum að bráð við innreið ársins 2000.

Þessi ótti reyndist sem betur fer ástæðulaus. Menn segja nú, að viðbrögðin vegna 2000 vandans hafi verið svo skipuleg, að honum hafi verið ýtt til hliðar. Að sjálfsögðu getum við ekki sýnt fram á hið gagnstæða en hljótum að fagna, að ekki urðu neinar hamfarir á tímamótunum, hvorki í sýndarveruleikanum né í hinum. Er óvenjulegt að heyra embættismenn gagnrýnda fyrir að hafa staðið þannig að verki, að hið óttalega gerðist ekki og saka þá síðan um að hafa gert of mikið úr verkefninu, sem þeir sinntu.

Hið eina, sem kom nokkuð á óvart síðasta dag ársins ,var, að Boris Jeltsín. forseti Rússlands, gerði sér lítið fyrir og gaf út tilkynningu um eigin afsögn í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar. Aðdragandi brotthvarfs Jeltsíns hefur verið skrautlegur og margar vísbendingar hafa verið gefnar um, að hann hafi í raun verið orðinn ófær um að gegna hinu háa embætti sínu. Minnti margt á það, sem sagt var um Leoníd Brezhnev á sínum tíma, eins og til dæmis, að hann vissi ekki, hvar hann væri staddur í ræðu, sem hann var að flytja.

Eitt fyrsta embættisverk Vladimirs Putins, arftaka Jeltsíns, var að fara til rússnesku hermannanna í Tsjetsjeníu og gefa þeim veiðihnífa í nýársgjöf: Hann sagði einnig, að stríðið gegn Tsjetjsenum væri ekki einungis til að brjóta þá á bak aftur heldur alla, sem ynnu gegn einingu Rússlands. Rússneska ríkið er ekki síður samsafn margra ólíkra þjóða en Sovétríkin voru og sumir spá því, að við munum sjá rússneska sambandsríkið brotna upp í smærri einingar eins og Sovétríkin fyrir áratug. Sovéska valdakerfið byrjaði að hrynja, þegar Mikhaíl Gorbatsjov sagði við einræðisherra kommúnista í Austur-Þýskalandi, að hann mundi ekki senda Rauða herinn til að aðstoða þá við að brjóta almenning á bak aftur. Valdamenn í Kreml eru minnugir þess, sem síðan gerðist, og meðal annars í því ljósi ber að skoða blóðuga herför þeirra gegn Tsjetsjenum. Öllum ætti þó að standa nokkur stuggur af því, að leiðin til æðstu valda í Rússlandi sé sú, sem Putin hefur farið með því að beita hernum af fullum þunga. Þegar skýrt var frá afsögn Jeltsíns tóku fjölmiðlamenn fram, að hann hefði tryggt, að Putin ætlaði ekki að aðhafast neitt vegna ásakana um spillingu innan Kremlar í þágu fjölskyldu Jeltsíns. Dóttir Jeltsíns hefur að vísu verið rekin úr Kreml, enda var hún ímyndarráðgjafi föður síns og sögð hafa í fórum sínum greiðslukort á kostnað svissnesks stórfyrirtækis.