27.12.1999

Þinghlé - 1700 dagar - af Fjölnismönnum

Síðustu dagar á þingi fyrir jólin voru með sama svip og oft áður. Stjórnarandstaðan lét í veðri vaka, að hún mundi ekki láta bjóða sér afgreiðslu á tillögunni til þingsályktunar um Fljótsdalsvirkjun. Var hópur manna á mælendaskrá mánudaginn 20. desember, en þegar leið á daginn tók málið þá stefnu, sem við öllu blasti, að ekki þýddi fyrir minnihlutann að tefja fyrir framgangi þess, sem meirihlutinn vildi og á þriðjudeginum greiddist úr málinu. Var tillagan samþykkt með miklum meirihluta og vakti sérstaka athygli, að fjórir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu tillögunni atkvæði.

Rök þeirra, sem studdu tillöguna og gerðu grein fyrir atkvæði sínu við nafnakall um hana, voru á þann veg, að með samþykkt tillögunnar væru menn að leggja því lið að sporna við frekari byggðaröskum á Austurlandi, studdust menn í því efni við eindregnar áskoranir Austfirðinga, ekki síst sveitarstjórnamanna þar. Með hliðsjón af því hvað byggðasjónarmið vógu þungt hjá stuðningsmönnum tillögunnar, kemur á óvart að vinstri eða rauðgrænir skuli vera jafnhatrammir gegn Fljótsdalsvirkjun og raun sýnir. Þessi flokkur er ekki síður sprottinn upp af byggðasjónarmiðum en umhyggju fyrir umhverfismálum. Í þessu máli tók flokkurinn afstöðu með náttúrunni frekar en mannfólkinu. Verður málflutningur talsmanna hans um byggðamál heldur holur eftir það, sem á undan er gengið í umræðum á alþingi um Fljótsdalsvirkjun.

Síðasta stóruppákoman í málinu voru útvarpsfréttir að morgni þriðjudagsins 21. desember, þar sem skýrt var frá því, að frásögn norska sendiherrans á Íslandi hefði verið dreift til fjölmiðla í Noregi og þar mætti meðal annars lesa mat hans á umræðum Fljótsdalsvirkjun á Íslandi auk þess sem hann vitnaði í viðtal sitt við Siv Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda. Stjórnarandstaðan bað um umræður um útvarpsfréttirnar strax við upphaf þingfundar 21. desember. Taldi hún sig greinilega hafa gott vopn í höndunum til að berja á ríkisstjórninni, en óhætt er að segja, að þetta vopn hafi síður en svo bitið sem ætlað var, því að málflutningur stjórnarandstæðinga rann út í sandinn. Var það ekki í fyrsta sinn á haustþinginu sem stjórnarandstaðan lenti í slíkum vandræðum, þótt góð vopn að hennar mati séu lögð í hendur henni.

Um klukkan 22.00 að kvöldi þriðjudags 21. desember lauk fundum alþingis fyrir jól með samþykkt nálægt 30 lagafrumvarpa, þar á meðal voru breytingar á lögunum um framhaldsskóla. Þótt þær breytingar snerti beint störf á fjölmennustu vinnustöðum landsins, varð ég ekki var við, að þær vektu neina athygli í fjölmiðlum. Ætlan mín er að heimsækja alla framhaldsskóla í landinu í janúar, febrúar og mars árið 2000 og ræða við kennara og nemendur þær breytingar, sem eru að verða í skólunum. Þá er einnig brýnt að kynna breytingar á samræmdum prófum og á framhaldsskólunum fyrir grunnskólanemendum og foreldrum þeirra.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 9.30 að morgni mánudagsins 27. desember og þar var skýrt frá því, að Finnur Ingólfsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra, væri í hópi þeirra, sem sótt hefði um starf seðlabankastjóra. Jafnframt var vísað til þess, að samkvæmt nýsamþykktri lagabreytingu um stöðu Seðlabanka Íslands kæmi það í hlut forsætisráðherra að veita stöðuna eftir að bankaráð seðlabankans hefði farið yfir umsóknir og sagt á þeim álit sitt.

Þess var minnst á dögunum, að 1700 dagar voru liðnir frá því að Ingibjörg Pálmadóttir hefði tekið við störfum heilbrigðis- og tryggingaráðherra. Hið sama á við um okkur hina, sem tókum setu í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 23. apríl 1995, þar á meðal Finn Ingólfsson, og höfum setið í sama embætti síðan. Verði Finnur skipaður seðlabankastjóri er hann hinn fjórði úr þessum hópi, sem hverfur til starfa utan stjórnmálanna, hinir eru Friðrik Sophusson, Þorsteinn Pálsson og Guðmundur Bjarnason.

Þessir 1700 dagar hafa verið ótrúlega fljótir að líða og lesendur þessara síðna minna geta fylgst með því eða kynnt sér, hvað hefur á daga mína drifið á þessum tíma. Raunar veit ég ekki, hve margir hafa heimsótt síðurnar mínar á þessum tíma. Hvað sem því líður eru þær heimild um það, sem mér finnst bera hæst á hverjum tíma og eiga heima á vettvangi sem þessum. Vandinn er oft að greina á milli þess, sem er opinbert á líðandi stundu, og hins, sem eðli máls, verður að hvíla í trúnaði, þar til lengra er liðið frá atburðum.

Um þessi jól koma út margar fróðlegar bækur, þar sem menn eru að rýna í gömul skjöl og draga af þeim ályktanir. Hjá þeim, sem skrifuðu bréfin eða skjölin og höfðu fyrir augum sér á sínum tíma, mundi það vafalaust oft vekja mikla mikla undrun, ef þeir gætu fylgst með því, hvernig gögnin eru metin árum, áratugum eða öldum síðar. Öll erum við bundin af eigin umhverfi og eigin hugarheimi, þegar við metum það, sem gerðist á fyrri tímum. Við stöndum aldrei í sömu sporum og forverar okkar og getum ekki litið hluti frá sama sjónarhorni og þeir.

Í bók Páls Valssonar um Jónas Hallgrímsson er leitast við að skýra og skilgreina samtíma skáldsins og stöðu hans af mörgum heimildum. Hefur höfundur víða leitað fanga en þó bendir hann jafnframt á, að myndin verði aldrei öll dregin vegna skorts á heimildum. Mér finnst sannfærandi sú niðurstaða, að of mikið hafi verið gert úr drykkjuskap Jónasar Hallgrímssonar. Hann hefði ekki jafnoft og jafnlengi verið valinn til forystu meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn, ef samtímamenn hefðu talið hann óalandi sökum áfengisdrykkju. Á hinn bóginn er ljóst, að Jónas og félagar um Fjölni hafa verið of einsýnir til að afla sér vinsælda. Tilraunir Konráðs Gíslasonar til að innleiða nýja stafsetningu eru í ætt við viðleitni byltingarmanna til að hverfa til einhvers nýs upphafs og dæma þá úr leik, sem sætta sig ekki við hinn nýja sið. Krafan um að alþingi verði endurreist á Þingvöllum breytist í sérviskulega þráhyggju. Saga Jónasar staðfestir einnig, að ekki þarf fjölmennan hóp til að móta almenningsálitið, en hópurinn nær ekki árangri nema vel og skipulega sé unnið og tekið mið af skoðunum annarra en hinna innvígðu.