Fjárlög 2000, fylkingin og Fljótsdalsumræður
Alþingi er um þessar mundir að ljúka störfum fyrir jólaleyfi og eins og endranær er tekist á um ýmis mál. Fjárlög ársins 2000 voru afgreidd á þinginu fimmtudaginn 16. desember, en samkvæmt þingsköpum ber að halda þannig á málum, að þriðja umræða um fjárlagafrumvarpið fari fram 15. desember, gekk það eftir að þessu sinni, í fyrsta sinn í sögunni. Auk þess er afgangur á fjárlögum meiri en nú en nokkru sinni síðan 1962. Við afgreiðslu fjárlaga var sýnt aðhald en þó ekki gengið fram með þeim hætti, að unnt sé að segja, að stakkurinn sé of þröngt skorinn. Auðvitað telja flestir, sem njóta fjár af fjárlögum, að þeir hafi þurft eða þurfi að fá stærri sneið af kökunni til að sýna í raun, hvað í þeim býr.
Stjórnarandstaðan var sundruð í afstöðu sinni til fjárlagafrumvarpsins. Rauðgrænir vildu auka útgjöldin, en þeirra meginstefna er, að það sé af hinu góða að hafa skatta sem hæsta og treysta ríkisfyrirtækjum fyrir sem mestum fjármunum, það sé besta leiðin til að bæta hag allra og þó sérstaklega til að ýta undir meiri hlut ríkisins á öllum sviðum. Trúir þessari stefnu sinni leggjast þeir gegn öllu, sem hefst á orðinu einka-, sjáist það eða heyrist, rísa þeir upp til að andmæla og telja mikla vá fyrir dyrum.
Í utanríkismálum og þó sérstaklega öryggismálum eru rauðgrænir við sama heygarðshornið og rauðasti hluti Alþýðubandalagsins á sínum tíma, það er þeir, sem héldu lengst í trúna á sósíalismann og á ágæti Sovétríkjanna. Við afgreiðslu fjárlaga ársins 2000 lögðu rauðgræmir til dæmis til, að ekki yrði veitt fé til varnarsmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins eða til að standa undir kostnaði af aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Er leitun að vinstri flokki í allri Evrópu, utan Serbíu, Rússlands og Hvíta-Rússlands, sem hefur það á stefnuskrá sinni að grafa undan NATO, hvað þá heldur vill engar ráðstafanir til að tryggja öryggi eigin þjóðar,- líklega er enginn stjórnmálaflokkur neins staðar í veröldinni, sem vill láta taka mark á sér, með slíka stefnu.
Fylking vinstri sinna, samfylkingin, skilaði í raun auðu í fjárlagaafgreiðslunni. Þingmenn hennar sátu hjá nema þegar um var að ræða hækkunartillögur þeirra sjálfra, þótt þeir berðu sér í hinu orðinu á brjóst og ávítuðu ríkisstjórnina fyrir að fylgja of mikilli eyðslustefnu. Hvað sem því líður, verður það skýrara með hverjum deginum sem líður, að fylkingin er ekkert stjórnmálaafl. Líklega stendur það henni mest fyrir þrifum nú orðið, að þessi staðreynd er ekki viðurkennd af forystusveit hennar, sem situr á alþingi.
Fyrir fáeinum vikum tók ég þátt í umræðuþættinum Silfur Egils á Skjáeinum með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra. Þar komst ég einhvern veginn þannig að orði, að á sínum tíma, áður en hlutabréfamarkaðurinn hafði náð sér á strik, hefðu menn gjarnan rætt þannig um félög, sem voru illa stödd, að þau væru eins og munaðarleysingjar og það yrði einhver að taka þau í fóstur, ef unnt ætti að vera að bjarga þeim. Ég sæi fylkinguna fyrir mér í þessum sporum núna, það vildi enginn taka hana að sér og hún væri að verða að engu.
Ég sé, að í viðtali við Viðskiptablaðið 15. til 21. desember, tekur Ingibjörg Sólrún undir þessa skoðun mína þegar hún segir: "Sameining á vinstri vængnum hefur verið draumur margra svo lengi að menn hættu að sjá skóginn fyrir trjám. Flokksstofnunin varð einhvern veginn að aðalatriði. En fólk flykkir sér ekki um flokk heldur hugmyndir og það vantar einfaldlega meira kjöt á beinin og meiri hugmyndafræðilega nýsköpun hjá Samfylkingunni til þess að fólk laðist að henni. Loks má segja að það skorti nokkuð á að afgerandi hópur taki Samfylkinguna að sér sem pólitískt viðfangsefni. Ég er ekki tilbúinn að koma að því að leiða Samfylkinguna að svo stöddu en ég er að sjálfsögðu reiðubúin að leggja mitt af mörkum til hugmyndafræðilegrar nýsköpunar á þessum væng stjórnmálanna og ég tel reyndar að Reykjavíkurlistinn sé að því. Ef Samfylkingin vinnur heimavinnuna sína fyrir næstu kosningar held ég að hún hafi alla burði til að ná vopnum sínum í þeim kosningum."
Í fyrrgreindu samtali okkar Ingibjargar Sólrúnar sagðist ég ekki skilja þá áráttu að ætla að halda áfram með fylkinguna í þeim ógöngum, sem hún væri. Hún taldi, að tilrauninni til að sameina vinstri menn væri ekki lokið og það yrði að halda henni áfram. Ég sagðist hins vegar líta þannig á, að tilraunin hefði mistekist og óskiljanlegt væri hve lengi einhverjir forystumenn vinstrisinna og tilraunasmiðir ætluðu að halda áfram þessum vangaveltum sínum og líta á stjórnmálin sem eitthvert stofudjásn í tilraunaglasi. Þá dró ég í efa, að R-listinn gæti orðið fylkingunni til hjálpar, því að hann er ekki annað en hagsmunahópur til að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum, hann hefur enga aðra hugmyndafræði. Trúa menn því, að framsóknarmenn gangi til kosninga undir merkjum rauðgrænna og Ingibjargar Sólrúnar eftir átökin um Fljótsdalsvirkjun? Hvernig ætla rauðgrænir að sanna styrk sinn í Reykjavík, ef þeir verða þar innan R-listans í borgarstjórnarkosningum?
Í ágætum þætti Egils Helgasonar, Silfri Egils, sunnudaginn 12. desember benti Davíð Oddsson forsætisráðherra á þá staðreynd, að borgarstjóra var nauðugur einn kostur að falla frá áformum sínum um að reisa stórhýsi í Laugardalnum eftir að Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, snerist gegn framkvæmdunum. Þessi brotalöm blasir við öllum, sem huga að samstarfinu undir merkjum R-listans. Hins vegar kemur það betur út fyrir borgarstjórann að lokum að segjast beygja sig undir vilja þeirra, sem rituðu undir mótmæli gegn nýframkvæmdunum. Er skrýtið, að glöggir fjölmiðlamenn, sem hafa ritað um þetta, skuli ekki hafa beint athyglinni að þessum þætti málsins. Að vísu fellur sú skýring ekki að sjónarmiðum allra, sem um málið fjalla og vilja setja það í mun stærra samhengi og túlka sem þáttaskil í stjórnmálasögunni, að tekið hafi verið mark á undirskriftum almennings.
Eftir að fjárlögin hlutu afgreiðslu á þingi var tekið til við önnur mál og síðan hófst lokaumræða um Fljótsdalsvirkjun síðdegis laugardaginn 18. desember. Enginn veit, hve hún stendur lengi. Meiri gögn hafa verið lögð fyrir þingmenn um þetta mál en nokkurt annað á þessu hausti og þótt lengri tími væri kannaður. Er víst, að öll sjónarmið í málinu verða kynnt og síðan taka þingmenn ákvörðun eins og þeir eru kjörnir til að gera.
Halldór Vilhjálmsson menntaskólakennari ritaði grein um Fljótsdalsvirkjun í Dag föstudaginn 17. desember. Hefði hún mátt birtast í viðlesnara blaði, því að þar varpað fram sjónarmiðum, sem fleirum kynni að þykja forvitnileg en lesendum Dags. Halldór nefnir til dæmis, að frá því í ágústbyrjun í ár og fram í desember hafi báðar rásir RÚV og þá ekki síður sjónvarpsstöð ríkisins komið með rúmlega 320 margendurtekna fréttapistla, fréttaskýringar, innskot, athugasemdir, umræðuþætti og tikynningar varðandi fyrirhugaða Fljótsdalsvirkjun. Telur Halldór, að með aðeins örfáum undantekningum hafi þessi málflutningur allur verið á einn veg: lýst eindreginni neikvæðri afstöðu til virkjunaráforma á Austurlandi. Hér skal ekki lagður dómur á þessa fullyrðingu Halldórs, því að ég hef ekki haft tök á að fylgjast með allri þessari umræðu, heldur er vakin athygli á grein hans til að árétta, hve mikið hefur verið rætt um þetta mál. Fróðlegt væri að telja og skilgreina allar greinarnar, sem birst hafa í Morgunblaðinu um málið.
Hvernig sem á þetta mál er litið, er ekki með neinum rökum unnt að halda því fram, að ekki hafi markvisst verið að því unnið að skýra alla þætti þess. Ef lögformlegt umhverfismat hefði farið fram, hefðu umræður orðið formlegri og innan stjórnkerfisins en ekki meðal almennings og á alþingi. Menn hefðu hneigst til þess að leggja traust sitt á embættismenn, sem þeir geta ekki kallað til ábyrgðar, en ekki á stjórnmálamenn, sem þeir geta þó veitt ráðningu á fjögurra ára fresti í almennum kosningum. Talsmenn hins lögformlega umhverfismats, sem lögum samkvæmt gildir um allar stórframkvæmdir, eftir að lögin um það efni tóku gildi, hljóta að átta sig á þessu. Lögmæti ákvarðana alþingis um Fljótsdalsvirkjun verður ekki dregið í efa, þær voru teknar, áður en hin nýju lögformlegu skilyrði voru sett. Hér eftir fara ákvarðanir um þessi mál boð- og kæruleiðir milli embættismanna innan stofnana ríkisins lögum samkvæmt. Þá er lítið gert úr allri hinni miklu vinnu, sem þingnefndir hafa lagt á sig vegna þessa máls, ef talsmenn hins lögformlega mats hengja, þegar upp er staðið, hatt sinn helst á það, að fulltrúar Norsk Hydro hafi ekki verið kallaðir fyrir þingnefndir. Ósannfærandi er að túlka ákvörðun um að gera það ekki sem ótta við, hvað fram kæmi hjá talsmönnum Norsk Hydro.
Gleymum því ekki í þessu máli frekar en öðrum, að í opinberum umræðum ræður efnislegt mat ekki alltaf afstöðunni. Í Degi mátti laugardaginn 18. desember sjá fjölmiðlapistil undir fyrirsögninni: Hlutleysi í Efstaleiti. Þar er því enn haldið fram, að óeðlilegt sé fyrir Rás 2 að semja um kostun við Kringluna, en vinstrisnnar hafa oftar en einu sinni kvartað undan þessu á alþingi í haust. Hitt er þó öllu einkennilegra, að fárast yfir því, að Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor skuli vera höfundur þriggja þátta heimildarmyndar um Atlantshafsbandalagið (NATO), sem höfundi þykja þó fróðlegir. Persónuleg óvild af þessu tagi í garð Hannesar Hólmsteins, sem byggist ekki á efnislegum rökum, heldur ómenguðum fordómum er með ólíkindum.