5.12.1999

Grunnrannsóknir - vítamín - Jónmundur hættir

Þriðjudaginn 30. nóvember var efnt til ráðstefnu á vegum Rannsóknarráðs Íslands (Rannís) um stöðu grunnrannsókna á Íslandi. Var þetta gert í tilefni af því, að Inga Dóra Sigfúsdóttir hefur í samvinnu við Þórólf Þórlindsson prófessor lokið við skýrslu um efnið, sem ég fól henni að vinna snemma árs 1998. Er þetta í fyrsta sinn sem litið er á stöðu grunnrannsókna með þessum hætti.

Með skýrslunni er dregið fram, að miðað við fjölmennari þjóðir stöndum við vel að vígi á sviði grunnrannsókna, þótt vissulega megi gera betur. Er ástæða til að óska íslenska vísindasamfélaginu til hamingju með þá mynd, sem dregin er upp í skýrslunni. Í sem ég flutti á ráðstefnunni sagði ég skýrsluna verða hafða til hliðsjónar, þegar gengið verður til þess að endurskoða lög um Rannsóknarráð Íslands. Hef ég ritað öllum, sem tilnefna í ráðið og óskað eftir því, að fyrir 15. janúar næstkomandi verði menntamálaráðuneytinu gert viðvart, ef þessir aðilar telja nauðsynlegt að breyta lögunum um Rannís, sem nú hafa verið í gildi í fimm ár og ber að endurskoða samkvæmt ákvæðum í lögunum sjálfum.

Umræður um skýrsluna bera þess merki, að vísindamenn telja að gera megi enn betur, fái þeir meiri fjármuni. Er ekki að efa, að þetta sé rétt, á hinn bóginn verður ekki framhjá því gengið, að þrátt fyrir að menn telji fjármuni af skornum skammti, hefur margt tekist mjög vel. Þegar ég heyri samanburð við Norðurlöndin og að þar hafa menn meiri fjármuni milli handa en hérna, minnist ég orða, sem einn norrænna starfsbræðra minna lét falla á ráðherrafundi í Kaupmannahöfn, um að OECD gerði þá athugasemd vegna útgjalda í landi hans, að undarlegt væri, að ekki næðist meiri árangur miðað við hin miklu útgjöld.

Fyrir utan peningana er einnig ástæða til að huga betur en áður að því, hvernig ungum vísindamönnum er búið gott starfsumhverfi á Íslandi. Vegna fámennis getur þróun verið á þann veg, að sami hópur vísindamanna sitji árum saman að verkefnum á einhverju ákveðnu sviði og erfitt sé fyrir nýja menn að komast þar inn fyrir dyrnar, ef svo má að orði komast. Vísindastarf þrífst hins vegar hvorki né þróast nema menn séu alltaf tilbúnir til að skoða eitthvað nýtt og leyfa ferskum vindum að leika um fræðin.

Umræður um virkjanamál bera þess nokkur merki, að til sé einhver ein vísindaleg skoðun á umhverfinu og hún sé þar að auki þess eðlis, að hún geti verið lögformlega betri en aðrar skoðanir, ef ákveðnir aðilar fái að fjalla um hana og segja álit sitt á grundvelli umsaminna leikreglna. Þróun í þjóðfélagi okkar er á þann veg, að æ meira tillit er tekið til athugana og rannsókna, minna er treyst á brjóstvitið en áður. Það segir okkur þó til dæmis ekki, að til sé ein kórrétt afstaða til þess, hvort virkja eigi þennan staðinn eða hinn vegna tillits til atriða, sem eru í eðli sínu háð mati. Áfram þurfa menn að taka afstöðu, sem byggist á mati þeirra á kostum, sem sérfróðir aðilar eða aðrir kynna þeim. Þetta er einmitt helsta hlutverk stjórnmálamanna, það er að komast að niðurstöðu, hún ætti almennt að verða betri eftir að þeir hafa kynnt sér fleiri sjónarmið. Ekki er með nokkrum rökum unnt að halda því fram, að öll sjónarmið hafi ekki verið kynnt varðandi fyrirhugaða Fljótsdalsvirkjun.

Þrátt fyrir rannsóknir og að staðreyndir séu með ákveðnum, komast þær ekki næstum alltaf að í umræðum. Þegar rætt er um þá ákvörðun að hætta við nýbyggingar í Laugardalnum kjósa margir til dæmis að líta fram hjá þeirri staðreynd, að hvað sem leið afstöðu borgarstjórnar til undirskrifta, hafði Landssími Íslands hf. ákveðið að hætta við áformin um nýbyggingu á þessum stað. Spurningin var því aðeins um það, þegar tekið var tillit til undirskriftanna, hvort heimila ætti Jóni Ólafssyni að reisa þar kvikmynda- eða tómstundahús.

Sögulegasta undanhald vegna mótmæla síðustu daga var hins vegar í Seattle, þar sem þing Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO) rann í raun út í sandinn ekki síst vegna þess að tæplega var fundarfriður vegna mótmæla. Furðulegt var að heyra forystumann gestgjafaþjóðarinnar, Bill Clinton Bandaríkjaforseta, gefa til kynna, að hann gæti vel hugsað sér að skipa sér í hóp með mótmælendum á götum Seattle.

Í umræðum um frelsi í heimsviðskiptum gætir ákveðinnar tvöfeldni eins og svo oft þegar þjóðir ræða brýna eigin hagsmuni í alþjóðlegu samhengi, stjórnmálamenn þurfa að hafa auga á vilja kjósenda sinna, hundsi þeir hann, eru þeir að bregðast því trausti, sem þeim hefur verið sýnt. Hitt er svo annað mál, að stundarhagsmunir kunna oft að villa mönnum sýn, þegar langtímamarkmið eru þeim í raun hagstæðari. Þegar um mál af þessu tagi er rætt, koma í hugann umræður, sem urðu á alþingi á fyrsta kjörtímabili síðasta áratugar tuttugustu aldar um það, hvort skynsamlegt væri að afnema lög, sem að mig minnir voru frá árinu 1922 og bönnuðu erlendum fiskiskipum að landa afla sínum í íslenskum höfnum, töldu talsmenn laganna, að með slíku frelsi væri mikilvægum íslenskum hagsmunum ógnað. Andstæðingarnir urðu undir og bannið var afnumið, líklega er enginn málsvari þess lengur, að taka upp slíkt bann að nýju, enda hefur fiskur úr erlendum fiskiskipum komið sér mjög vel fyrir marga og stuðlað að því að efla fiskvinnslu og alþjóðaviðskipti Íslendinga með fisk.

Þegar litið er til viðskipatfrelsis, stöndum við Íslendingar illa að vígi á sumum sviðum. Nefni ég til dæmis reglur, sem banna okkur að kaupa hér á landi vítamín eða fæðubrótarefni, sem er að finna í verslunum erlendis. Hér er litið þannig á af yfirvöldum, sem stýra innflutning á þessum efnum, að þau viti betur en sambærilegar stofnanir erlendis, hvað Íslendingum er fyrir bestu í þessu efni.

Fyrir nokkrum misserum ákvað ég að skrifa Lyfjaeftirlitinu vegna fæðubótarefnisins VM-75 , sem er framleitt af hinu heimsviðurkennda Solgar-fyrirtæki í Bandaríkjunum. Leitaði ég svara við því, hvernig á því stæði, að ekki væri unnt að kaupa þetta efni hér á landi, þótt það væri selt annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu, þar á meðal í Bretlandi. Mér hefur ekki enn borist lokasvar við þessari fyrirspurn, vafalaust telja einhverjir sérfræðingar, að mér eða öðrum kunni að verða meint af einhverju, sem er að finna í þessum töflum. Sömu sögu er að segja um annað efni frá Solgar, V-2000, öflugt fæðubótarefni, sem unnt er að kaupa utan Íslands og nýtur mikilla vinsælda hér, enda gerir það fólki ekki annað en gott og styrkir heilsu þess.

Þannig mætti lengi áfram tala um viðskiptahömlur varðandi fæðurbótarefni, sem varla stafa af því, að menn séu að vernda innlenda hagsmuni eða framleiðendur, heldur hljóta að byggjast á því einu, að hér telja eftirlitsmenn sig vita meira en starfsbræður þeirra erlendis og að íslenskum almenningi sé ekki annað hollt en fara að þeirra ráðum. Netið á mikinn og vaxandi þátt í því að brjóta slík boð og bönn á bak aftur. Meðal vinsælustu vefsíða hér og annars staðar eru síður um heilsufar og leiðir til lækninga. Þar getur almenningur milliliðalaust kynnt sér margt af því, sem er efst á baugi og brugðist við í samræmi við það.

Á tímum þegar leita ber allra leiða til að halda ríkisútgjöldum í skefjum, skýtur nokkuð skökku við, að opinberir eftirlitsmenn banni sölu á fæðubótarefnum hér á landi, sem eru til þess eins fallin að bæta heilsu manna og þar með draga úr álagi á heilbrigðisþjónustuna.

Jónmundur Guðmarsson, sem hefur verið aðstoðarmaður minn frá því um síðustu áramót, lætur nú af störfum, því að hann hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækis í Bretlandi. Jónmundi fylgja góðar óskir frá mér og úr menntamálaráðuneytinu. Áður en hann varð aðstoðarmaður minn leiddi hann farsællega hið mikla endurskoðunarstarf á námskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Hann samdi verkáætlanir og fylgdi þeim eftir af miklum dugnaði og með þeim hætti að friður og sátt ríkti um einstaka verkþætti og framkvæmd þeirra. Ef menn vilja líta á snurðulausa framkvæmd á vegum stjórnsýslunnar á stórverkefni, þar sem hátt á þriðja hundrað manns voru ráðnir til starfa og ljuku verki innan hæfilegra tímamarka, ættu þeir að líta til þess hvernig staðið var að endurskoðun námskránna undir daglegri stjórn Jónmundar. Reynslan af þessu verkefni og öðrum störfum í ráðuneytinu nýtist Jónmundi vonandi vel í nýju og spennandi starfi.

Í stað Jónmunar hef ég ráðið Jóhönnu Maríu Eyjólfsdóttur sagnfræðing sem aðstoðarmann minn. Hóf hún störf hinn 1. desember síðastliðinn.