28.11.1999

Rússar berjast - varnarsamstarf Evrópu

Stríð Rússa í Tsjetsjeníu er til marks um að ráðamenn í Moskvu líta á sjálfstæðishreyfingu landsmanna þar sem alvarlega ógnun við framtíð Rússlands. Rússneska sambandslýðveldið er í raun samnefnari fyrir margar ólíkar þjóðir, sem una því ekki til lengdar að lúta erlendu valdi frá Moskvu. Spá því margir, að Rússneska sambandslýðveldið muni liðast í sundur eins og Sovétríkin áður.

Fyrir rúmri viku var efnt til leiðtogafundar Öryggissamvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, í Istanbul í Tyrklandi. Þaðan bárust þær fréttir, að Boris Jeltsin Rússlandsforseta hefði verið mjög misboðið vegna þess hvernig Bill Clinton Bandaríkjaforseti talaði um stríðið í Tsjetsjeníu og ávítaði Rússa fyrir framgönguna þar. Í Rússlandi hafa málsvarar herfararinnar varið hana með þeim rökum, að rússenski herinn sé í raun í sömu sporum og herafli NATO fyrr á árinu, þegar efnt var til loftárása á Júgóslavíu til að fæla Serba frá því að leggja undir sig Kosovo og hrekja Albani þar á brott frá heimilum sínum. Þessi samanburður stenst ekki gagnrýni og sýnir best, hve léleg rök Rússar hafa fyrir hernaði sínum.

Fyrir rússneskum ráðamönnum vakir það eitt að sýna Tsjetsjenum í tvo heimana með þeim hætti, að þeir og aðrir sjálfstæðissinnar innan Rússneska sambandslýðveldisins hugsi sig tvisvar um, áður en þeir láta til skarar skríða gegn Moskvuvaldinu. Fórnarlömb þessa valdabrölts og grimmdarverka eru saklausir borgarar, sem flýja eða búa við algjört öryggisleysi og örbirgð.

Lýðræðissinnar annars staðar í Evrópu, sem hafa verið talsmenn þess, að Rússar hljóti sæti í Evrópuráðinu og litið sé á þá eins og hverja aðra Evrópuþjóð, eiga í vaxandi erfiðleikum með að verja málstað sinn. Hættan er sú, að tilrú mikilvægra stofnana eins og Evrópuráðsins eigi eftir að minnka mikið, ef á þeim vettvangi er ekki veitt sterkt viðnám gegn því, sem er að gerast í Rússlandi. Því miður virðist Evrópuráðið ekki vera að undirbúa neinar aðgerðir til að sýna rússneskum stjórnvöldum fram á, að ekki verði við það unað, að þau virði ekki þau skilyrði, sem þeim ber að hafa í heiðri sem aðilar að ráðinu. Í nýjasta tölublaði vikuritsins The Economist er fjallað um þetta á gagnrýnan hátt og ekki af ástæðulausu. Hljóta allir, sem vilja veg Evrópuráðsins og stofnana mikinn að hafa áhyggjur af því, ef virðing þess minnkar í réttu hlutfalli við yfirgangsstefnu Rússa og virðingarleysi fyrir mannréttindum, en þeir eru nú fjölmennasta þjóðin innan ráðsins.

Samhliða því sem Rússar fara sínu fram með hervaldi, ræða Vestur-Evrópumenn um framkvæmd þeirrar stefnu, sem lengi hefur verið á döfinni, og miðar að því að Vestur-Evrópusambandið (VES) og nú líklega Evrópusambandið geti staðið að hernaðarlegum aðgerðum í Evrópu án þess að treysta alfarið á herstjórnir Atlantshafsbandalagsins (NATO) eða bandarískan herafla. Í mörg ár hefur verið ályklað um það á leiðtoga- og ráðherrafundum NATO, að skilgreina skuli sérstaka evrópska varnar- og öryggishagsmuni og nú hin síðari ári hefur athygli beinst að því, hvernig Evrópuríki NATO ætli sjálf að verja þessa hagsmuni.

Hafa komið fram tillögur um flókin samskipti NATO og Vestur-Evrópusambandsins og nú síðast Evrópusambandsins (ESB), þar sem rætt er um, hvernig herafli, sem ætlaður er NATO, geti nýst Evrópuþjóðunum á grundvelli ákvarðana, sem yrðu teknar innan vébanda ESB. Íslendingar hafa verið aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu, sem Evrópuríki innan NATO og höfum við sent fulltrúa til ráðherrafunda VES og einnig á þingmannasamkundu þess. Ef VES verður lagt niður og Evrópusambandið kemur í stað þess undir forystu Javier Solana, yfirmanns öryggismála innan ESB og fyrrverandi framkvæmdastjóra NATO, óttast Íslendingar og aðrar evrópskar NATO-þjóðir utan ESB, að þær verði einangraðar frá ákvörðunum um þessi sérgreindu öryggis- og varnarmál Evrópu.

Íslenskir ráðherrar hafa ítrekað hvatt ráðamenn ESB til þess að útiloka ekki Evrópuríki utan ESB frá sér-evrópsku öryggissamstarfi. George Robertson, nýorðinn framkvæmdastjóri NATO, fullyrðir, að Íslendingar þurfi ekki að óttast þessa einangrun. Raunar sagði hann í tilefni komu sinnar hingað til Íslands í vikunni, að herafli VES eða ESB væri ekki annað en orð á blaði, því að NATO hefði allan þann herafla, sem ESB ætlaði að nýta, á sinni hendi.

Sérkennilegast er við þetta mál, ef hinir miklu áhugamenn um gæslu sérstakra öryggis- og varnarhagsmuna Evrópu telja sér fært að móta trúverðuga stefnu í þessu efni án aðildar Íslands, því að dýptin, sem Ísland veitir í vörnum Evrópu, veldur því, að allar evrópskar vangaveltur um varnar- og öryggismál yrðu marklausar í framkvæmd án aðildar Íslands. Á sama hátt og Ísland skapar dýpt í varnir Norður-Ameríku geta Evrópuþjóðir ekki komist hjá að líta út á Atlantshaf vilji þær skilgreina öryggishagsmuni sína og vernd þeirra með trúverðugum hætti.

Að nokkru leyti stjórnast umræðurnar um hina sérgreindu evrópsku öryggis- og varnarhagsmuni af mikilli minnimáttarkennd gagnvart Bandaríkjunum. Menn þurfa ekki að sitja lengi á evrópskum fundi um eitthvert mál, þar til samanburður hefst við Bandaríkin, sem lýkur oft með því að Evrópuríkin berja sér á brjóst og segjast geta gert betur en þeir í Bandaríkjunum, og síst af öllu þurfi þeir að vera háðir Bandaríkjunum.

Í nýjasta hefti bandaríska tímaritsins National Interest ritar Robert Conquest, skáld og rithöfundur, sem varð heimsfrægur fyrir bókina The Great Terror og lýsti harðstjórn Stalíns, var hún tímamótaverk, síðan hefur komið í ljós, að þar var alls ekki of fast að orði kveðið um hungursneyð og fjöldadráp. Snemma á áttunda áratugnum kom Conquest hingað til lands og flutti fyrirlestur á vegum Samtaka um vestræna samvinnu. Minnist ég ferðar með honum austur fyrir fjall. Þótti mér mikið um að kynnast þessum merka manni lítillega. Þótt hann hljóti að vera orðinn háaldraður hefur hann ekki sest í helgan stein og miðlar enn af mikilli reynslu sinni og þekkingu. Nú ritar hann um að enskumælandi þjóðir eigi að taka saman höndum og mynda alþjóðasamband sitt til að stuðla að auknum viðskiptum og samskiptum, sé miklu eðlilegra fyrir Breta að taka þátt í slíku samstarfi en vera innan ESB. Hann segir, að engin trygging sé fyrir samheldni og friði innan ESB, þótt yfirlýst meginmarkmið þess sé að tryggja frið í Evrópu. Conquest segir, að saga Evrópu sýni ekki að stórar evrópskar heildir séu líklegar að halda saman. Nefnir hann þar Sovétríkin og nú Rússland sem dæmi, einnig það sem hefur verið að gerast í Júgóslavíu fyrrverandi, klofning Tékkóslóvakíu í tvör ríki o.sv.frv. Spáir hann ESB ekki langlífi sé tekið mið af evrópskri sögu. Talsmenn Evrópuhugsjónarinnar hafa fært þau rök fyrir ESB, að með sterkri stjórn í Brussel fengju héruð innan Evrópu, þar sem menn stefna að því að skapa sér sjálfstæði, að njóta sín betur í ESB en utan. ESB-krafan um einsleitni spornar gegn þessu markmiði og kann að hafa neista upplausnar í sér, því að gangi menn of langt á þessari braut, leiðir það til andófs og síðan sundrungar. Hrun kommúnismans sýnir, að aðeins er unnt að halda ólíkum þjóðum saman innan eins ríkis, ef þar er mikið miðstjórnarvald og vilji til að beita hervaldi, ef nauðsyn krefst. Berlínarmúrinn var úr sögunni, þegar Mikhaíl Gorbatsjov, síðasti leiðtögi Sovétríkjanna, treysti sér ekki til að beita hervaldi til að verja hann.