21.11.1999

Tungan og sagan

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í fjórða sinn 16. nóvember, á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar. Í tilefni dagsins var margt gert til að efla vitund manna um móðurmálið. Er enginn vafi á því, að dagurinn hefur festst í sessi og ánægjulegt er að sjá, hve hann nær fljótt fótfestu í skólastarfi. Í fyrsta sinn var dagurinn haldinn hátíðlegur á laugardegi, þegar ekki var unnt að skipuleggja dagskrá með hliðsjón af starfi skóla. Nú var hann í annað sinn á skóladegi og er ljóst, að nemendur og kennarar nýta tækifærið á margvíslegan hátt til að minna á Jónas og efla virðingu fyrir móðurmálinu.

Hin opinbera athöfn á vegum menntamálaráðuneytisins var að þessu sinni haldin í hinum glæsilega Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Eftir að hafa flutt ræðu kom það í minn hlut að afhenda mínum gamla húsbónda á Morgunblaðinu Matthíasi Johannessen, skáldi og ritstjóra, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir ómetanlegt framlag í þágu tungunnar. Framkvæmdanefnd, sem undirbýr dagskrána, lagði til, að Matthías fengi verðlaunin og er hann vel að þeim kominn. Fáir hafa verið afkastameiri á ritvellinum en hann og undir stjórn Matthíasar hefur Morgunblaðið fylgt strangri og skýrrri stefnu við meðferð tungunnar auk þess er honum kappsmál, að hlutur Jónasar sé sem mestur og bestur. Matthías hefur opinberlega tekið þá afstöðu að þiggja ekki verðlaun, en hann féll fyrir freistingunni, eins og hann sagði sjálfur í þakkaræðunni, þegar verðlaun Jónasar Hallgrímssonar voru í boði. Þau Vilborg Dagbjartsdóttir, skáld og kennari, Gísli Jónsson, fyrrverandi menntaskólakennari, og Þórarinn Eldjárn skáld hafa áður hlotið þessi verðlaun. Þess má geta, að Íslandsbanki hf. hefur frá upphafi lagt fram verðlaunaféð, 500 þús. krónur, auk þess sem hann kostar skinnbókband á ritsafn Jónasar Hallgrímssonar, sem fellur í skaut verðlaunahafa.

Íslendingar eru líklega eina þjóðin í heiminum, sem heldur dag móðurmáls síns hátíðlegan með þessum hætti. Raunar er það svo, að líklega getur verið erfitt að gera það í mörgum löndum, þar sem íbúarnir tala ekki sama tungumál. Hátíðarhöld af þessu tagi gætu leitt til þjóðernisátaka og vandræða af ýmsu tagi. Hitt kann að vera, að í ýmsum ríkjum haldi minnihlutahópar hátíðlega daga til að efla trú manna á eigin tungumáli.

Í Frakklandi, þar sem stjórnvöld leggja mikla áherslu á að standa vörð um franskrar tungu og vilja ýta undir virðingu hennar á alþjóðavettvangi, er andstaða við að staðfesta sáttmála Evrópuráðsins um réttindi tungu minnihlutahópa af ótta við, að þá muni landshlutatungur víðsvegar í Frakklandi eflast og styrkjast. Minnist ég heimsóknar til Bretagne-skaga, þar sem íbúar sögðust vilja endurvekja bretónsku og víða mátti til dæmis sjá götuskilti á tveimur tungumálum, frönsku og bretónsku. Á Spáni er katalónska höfð í hávegum í Barcelona og annars staðar í Katalóníu. Hefur það styrkt stöðu hennar, að Pujol, forsætisráðherra Katalóníu, hefur oftar en einu sinni haft lykilstöðu í spönskum stjórnmálum og knúið á um viðurkenningu á sérstöðu tungu sinnar. Pujol þekkir vel til Íslendingasagna og lítur til Norðurlanda sem fyrirmyndar í ýmsu tilliti. Á vettvangi UNESCO studdi ég Katalóníumann til setu í nefnd um tungumál og fékk bréf frá ýmsum málverndarsamtökum með miklum þökkum. Íslendingar þurfa ekki að berjast á þessum forsendum fyrir réttarstöðu tungu sinnar.

Virðing fyrir tungunni og minningu Jónasar Hallgrímssonar er ekki aðeins hluti af málrækt heldur áminning um að sjálfstæði Íslands er sprottin úr jarðvegi skáldskapar og stjórnmála. Bilið þar á milli er ekki alltaf langt og skáldin hafa oft lagt mikið af mörkum í stjórnmálabaráttunni, ekki síst þegar nauðsynlegt er að veita þjóðum innri styrk. Tungan og sagan verða ekki aðskilin.

Gunnar Karlsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, hefur andmælt nýrri námskrá í sögu og í vikunni gekk hann fram fyrir skjöldu í Degi og gagnrýndi ákvörðun menntamálaráðuneytisins um að ganga til samninga við Nýja bókafélagið um ritun og útgáfu kennslubóka í sögu á grundvelli nýju námskrárinnar. Gunnar hefur ritað margar þeirra bóka, sem verða úreltar vegna nýju námskránna og þarf þess vegna engan að undra, að honum þyki miður, að ný stefna hefur verið mótuð um sögukennslu og hún framkvæmd með nýjum námskrám fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Í viðtalinu við Dag, segir Gunnar, að ég sé "að reyna að leggja sögukennslu í framhaldsskólunum undir pólitíska stjórn", af því að ég hafi ákveðið að menntamálaráðuneytið semji við Nýja bókafélagið, telur Gunnar þetta "tilraun hjá menntamálaráðherra til að endurvekja kaldastríðslínu í sögukennsluna." Þá segir prófessorinn í þessu viðtali: "En ég óttast að ungt fólk verði svipt því uppeldis- og menntunargildi sem sagan getur haft, ef í henni er gætt pólitísks jafnvægis og ef henni er haldið sem því álitamáli sem hún er í eðli sínu."

Ég hef ekki séð þessa setningu leiðrétta í Degi, en einkennilegt er að sjá sagnfræðiprófessor andmæla því, að samið sé við bókaútgefanda um útgáfu á sögukennslubókum á þeirri forsendu, að í bókunum eigi að gæta pólitísks jafnvægis og setja fram mál á þann veg, að í mörgu tilliti kunni að vera um álitamál að ræða.

Friðrik Þór Guðmundsson, blaðamaður Dags, sem ræðir við prófessor Gunnar sendi mér fyrir nokkru tölvupóst með spurningum um samninginn við Nýja bókafélagið. Birtir hann hrafl úr svörum mínum með viðtalinu við Gunnar. Sleppir FÞG að geta þess, að ráðuneytið auglýsti eftir umsóknum um ritun sögukennslubóka á grundvelli nýju námskránna. Nýja bókafélagið sendi inn umsókn í samvinnu við hóp sagnfræðinga, sem ætlar að rita bækurnar og hafa þær tilbúnar fyrir upphaf haustannar árið 2000. Hvorki Vaka-Helgafell né Mál og menning sinntu þessari auglýsingu, svo að dæmi sé tekið. Gunnar Karlsson sendi ekki heldur inn umsókn. Hann getur ekki kennt neinum öðrum en sjálfum sér um að hafa ekki komið til álita á grundvelli þessarar auglýsingar ráðuneytisins. Hann er hvorki að vega að mér, ráðuneytinu né Nýja bókafélaginu í fýlukasti sínu vegna þessa máls heldur að starfsbræðrum sínum meðal sagnfræðinga, sem stóðu að umsókninni með Nýja bókafélaginu - þeir bera ábyrgð á því, sem í nýju sögukennslubókunum kemur til með að standa og fara þar eftir kröfum nýju námskránna en ekki duttlungum eða skoðunum mínum.

Í september síðastliðnum birtust tvær blaðagreinar um hlut sögunnar í nýrri námskrá framhaldsskóla, annars vegar eftir Gunnar Karlsson í DV og Margréti Gestsdóttur, formann Félags sögukennara, í Morgunblaðinu. Gunnar hélt því fram, að sögukennsla hefði verið skorin niður um helming í kjarna og Margrét talar um umtalsverða rýrnun sögukennslunnar. Hvorugt þeirra virðist viðurkenna þá meginstefnu við gerð námskránna, að þær taki mið af því að nemandinn geti sniðið nám sitt í ríkum mæli að eigin áhuga. Staðreynd er að á málabraut og stærðfræðibraut var vægi sögu í kjarna aukið úr 5 einingum að lágmarki í 6 með nýju námskránni. Á félagsfræðibraut er saga hins vegar 9 einingar í kjarna að lágmarki í stað 12 áður, en á hinn bóginn gefst nemendum kostur á að velja sögu á kjörsviði eða í frjálsu vali og geta þeir þannig lagt stund á meira en 12 einingar, ef þeir kjósa. Námskrá í sögu gerir ráð fyrir, að einstakir skólar og kennarar hafi meira svigrúm en áður til þess að velja ólík viðfangsefni og fella að inntaki fyrstu námsáfanga í sögu. Gert er ráð fyrir, að sagan verði fjölþætt og tengi Ísland við umheiminn yfir tiltekin tímaskeið. Er skólum og kennurum gefið færi á að velja mismunandi efnisflokka eða þemu og fella að innihaldi áfanganna.

Nýju námskránum er almennt vel tekið, enda voru þær samdar af kunnáttufólki í einstökum námsgreinum. Deilur um inntak námskránna einkenna því ágreining, sem hlýtur að vera fyrir hendi innan greinafélaga viðkomandi kennara. Mér finnst þess vegna oft sérkennilegt að heyra gagnrýni á þeirri forsendu, að verið sé að troða einhverju upp á kennara eða skóla, sem hafi orðið til án samráðs við þá. Því fer víðs fjarri, að þannig hafi verið staðið að málum.

Í tilefni af degi íslenskrar tungu var efnt til málræktarþings 20. nóvember í hátíðasal Háskóla Íslands um íslenskt mál og menntun. Flutti ég <ávarp> við upphaf þingisins, sem snerist að verulegu leyti um nýju námskrárnar. Einnig var rætt um inntak kennaranáms og námskránna. Ítrekaði ég í pallborðsumræðum það meginsjónarmið mitt, að ekki væri aðalatriði að lengja kennaranámið, heldur að það tæki mið af kröfum námskránna, auk þess sem leggja bæri meiri áherslu á endurmenntun og símenntun kennara til að þeir gætu brugðist vel við breytingum. Nýju námskárnar fyrir öll skólastigin gerðu ráð fyrir því, að lögð yrði rækt við íslensku í öllum greinum, þess vegna bæri einnig að gera hafa það hugfast við menntun kennara. Á þinginu kom fram, að leikskólakennarar legðu ótvírætt grunn að málkennd barna, þess vegna er nauðsynlegt, að þeir fái góða þjálfun í íslensku. Fram kom, að miklar umræður færu fram um nýja námskrá innan Kennaraháskóla Íslands og verður fróðlegt að sjá, hver verður niðurstaða þeirra. Háskólarnir móta sjálfir inntak náms inna vébanda sinna.