Nýjar umræðuaðferðir - RÚV og framsókn - Norðurlandaþing
Umræðuaðferðir hér eru eitthvað að breytast. Meira er rætt um formlegar hliðar mála en hina efnislegu þætti þeirra. Trú á sérfræðilegt mat er meiri og óskir um að mál gangi lögformlegar boðleiðir eru háværari en áður. Nægir í þessu sambandi að nefna undirskriftasöfnun vegna fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar. Hún snýst ekki um það, hvort fólk sé með eða á móti virkjuninni, ef ég skil málið rétt, heldur hitt, að tryggt sé að allir lögbundnir opinberir eftirlitsmenn fái að segja álit sitt á mati sérfræðinga á áhrifum virkjunar á umhverfi sitt. Um það er ekki deilt í málinu, að fyrir liggi umhverfismat, enda ekki unnt að deila um það, eftir að þetta mat hefur verið lagt fram á alþingi og öllum almenningi til fróðleiks og athugunar. Rannsóknir á þessu svæði hafa verið meiri en nokkru öðru á landinu, að minnsta kosti ef tekið er mið af því, að meira en 3 milljörðum króna hefur verið varið til þeirra. Eru það háar fjárhæðir á alla okkar mælikvarða. Ekki er nóg að sérfræðingar í umhverfismálum hafi verið kallaðir til að skoða málið. Einnig hafa verið kynntar niðurstöður, sem sýna, að virkjunin verði líklega aldrei arðbær. Þá hefur verið leitað álits lögfræðings, sem hefur sérhæft sig í evrópskum umhverfisrétti. Þannig mætti lengi áfram telja. Hafa fá verkefni hlotið meiri umræður og skoðun, þrátt fyrir það finnst mörgum ekki nóg að gert í þessu efni. Finna það að málsmeðferðinni að hún hafi ekki lögformleg og krefjast þess þá, að lög verði afturvirk, sem stríðir gegn almennum reglum í þjóðfélagi okkar.
Þegar rætt er um Evrópumálin, snúast umræðurnar helst um það, að tímabært sé að taka málin til umræðu, það sé hið mesta hneyksli, að þau séu ekki á dagskrá. Einkennilegt er að heyra slíkar yfirlýsingar frá forystumönnum stjórnmálaflokka eða talsmönnum stjórnmálafylkinga. Hitt er jafnframt furðulegt í hve mörg ár stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn geta tönnlast á þessu máli á þeirri forsendu, að það þurfi að fara að ræða það. Hverjir eiga að ræða það, aðrir en þessir menn sjálfir? Hverja vilja þeir fá til að ræða málið?
Fyrir alþingiskosningarnar síðastliðið vor var það beinlínis ákveðið af þeim, sem boðuðu aðild að Evrópusambandinu (ESB) fyrir kosningarnar 1995, að þeir myndu ekki fylgja málinu eftir núna, af því að það hefði hlotið svo lítinn hljómgrunn 1995. Vilji menn ræða aðild að ESB eiga þeir að gera tillögu um hana og kveikja þar með umræður um málið. Enginn getur vænst þess, að sérfræðingar eða embættismenn leggi slíka tillögu fram til pólitískrar umræðu. Það verða stjórnmálamenn eða flokkar þeirra að gera. Ef ég man rétt er einn leiðarahöfundur á landinu þeirrar skoðunar, að Ísland eigi að fara í ESB, það er Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV. Hins vegar er mér ekki ljóst, hvort DV sé þessarar skoðunar, því að þar rita menn forystugreinar undir nafni og getur greint á um afstöðu til einstakra mála.
Sérfræðileg þekking hefur aukist í landinu og sjálfsagt að treysta á hana við töku ákvarðana. Við höfum mörg og dýrkeypt dæmi um, að ráðist hafi verið í fjárfestingar án þess að mál hefðu verið nægilega vel ígrunduð. Reynslan af því að fara eftir sérfræðilegri ráðgjöf um nýtingu fiskistofnana er einnig á þann veg, að trú manna á sérfræðilegt mat hefur aukist. Á hinn bóginn er þess jafnframt að geta, að ekki eru allir á einu máli um allt, sem varðar mat á einstökum fiskistofnum og jafnvel er kvartað undan því, að of mikil einstefna ráði þar á vísindalegum vettvangi. Hér skal ekki lagt mat á það, en víst er, að innan vísindasamfélagsins eins og á öðrum sviðum þjóðlífsins er oft hart tekist á um málin og sitt sýnist hverjum.
Ráðherrar starfa við mikið lýðræðislegt og opinbert eftirlitskerfi. Í fyrsta lagi verða þeir að sætta sig við dóm kjósenda á fjögurra ára fresti. Í öðru lagi fá þeir ekki setið í embættum sínum nema alþingi veiti þeim umboð til þess. Í þriðja lagi setja stjórnsýslulög þeim skýrar reglur um starfshætti. Í fjórða lagi er unnt að krefjast upplýsinga um störf þeirra á grundvelli upplýsingalaga. Í fimmta lagi verða þeir að laga sig að niðurstöðum dómstóla. Í sjötta lagi getur umboðsmaður alþingis lagt mat á ákvarðanir þeirra. Samkeppniseftirlit getur sett þeim stólinn fyrir dyrnar. Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með opinberum fjárreiðum þeirra.
Mörg lögformleg úrræði eru fyrir hendi til að komast að raun um, hvort ákvarðanir eða störf ráðherra standist lögmætar kröfur. Í ljósi slíkra úrræða er nauðsynlegt fyrir ráðherra að huga að mörgum fleiri þáttum en póltískum, þegar þeir taka ákvarðanir sínar. Vegna gæslu opinberra hagsmuna verða þeir að standa að öllum yfirlýsingum með flóknar leikreglur í huga. Hér hefur þróunin orðið hin sama og víða annars staðar, að farið er með fleiri mál fyrir dómstóla en áður. Verði menn undir á pólitískum vettvangi leitast þeir við að ná fram rétti sínum annars staðar. Því hefur verið spáð, að ágreiningur vegna miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði eigi eftir að setja svip sinn á dómstólana á næstu árum. Þá kunna áhugamenn um umhverfismál að skjóta ákvörðun um Fljótsdalsvirkjun fyrir dómstóla bæði innlenda og erlenda, ef þeir meta stöðu sína á þann veg, að fyrir því séu lögfræðileg rök.
Ég tel það gefa ranga mynd af íslensku stjórnkerfi að fjargviðrast yfir því, að ákvörðun um Fljótsdalsvirkjun skuli lögð fyrir alþingi, og láta í veðri vaka að með því sé verið að brjóta lýðræðislegar leikreglur. Sú málsmeðferð útlikokar alls ekki, að menn beiti lögformlegum úrræðum og öllum hugsanlegum lagakrókum í málinu. Alþingi losar ráðherra ekki undan hinu opinbera eftirlitskerfi, þótt það samþykki Fljótsdalsvirkjun. Ráðherrar hafa hins vegar sama rétt og aðrir til að færa rök fyrir máli sínu og vitna til laga og leikreglna máli sínu til stuðnings. Sérfræðingar geta ekki losað ráðherra undan að bera lokaábyrgð á ákvörunum.
Í síðasta pistli vék ég að reiðilestri Gissuar Péturssonar, varaformanns útvarpsráðs og fulltrúa Framsóknarflokksins í ráðinu, í minn garð með ásökunum um að ég legði Ríkisútvarpið í einelti. Lagði ég ekki mat á þessi ummæli Gissurar með hliðsjón af stöðu hans innan Framsóknarflokksins, enda hef ég engar forsendur til þess. Sama verður ekki sagt um Indriða G. Þorsteinsson, fyrrverandi ritstjóra Tímans, sem ritar dálkinn sjónvarp á laugardegi í Morgunblaðið. Indriði G. er gjörkunnugur innviðum Framsóknarflokksins og segir í dálki sínum laugardaginn 13. nóvember, að flokkurinn hafi tekið til í húsi sínu eftir langa vinstrivillu. Hluti þeirrar villu hafi komið fram í því, hvernig flokkurinn skipaði í útvarpsráð. Nú sitji þar enn fulltrúi, sem hafi meira við störf menntamálaráðherra að athuga en starf minnihluta útvarpsráðs. Indriði G. segir, að framsóknarmenn verði að athuga heimavinnuna sína áður en þeir fari að endurskipuleggja útvarp og sjónvarp og þeir verði fyrir alla muni að sleppa því að þjösnast á ráðherra ríkisútvarps á meðan hús þeirra hefur ekki verið rutt af flokkaflækingum.
Þing Norðurlandaráðs var haldið í Stokkhólmi í vikunni. Þar var verulegum tíma varið til að ræða utanríkis- og öryggismál. Meðal ræðumanna var Steingrímur J. Sigfússon, leiðtogi vinstri/grænna. Vakti ræða hans athygli fyrir það hve langt hann var til vinstri og hve illa hann talaði um NATO og Kosovo. Sagðist Steingrímur J. óhræddur við að verja málstað sósíalista en honum var andmælt af þingmönnum frá Danmörku og Noregi. Norski þingmaðurinn vakti athygli á því, að í hans landi hefðu vinstri sósíalistar stutt NATO og aðgerðir þess í Kosovo. Lýsti hann á þeirri forsendu sérstakri undrun yfir málflutningi Steingríms J. Staðfestist þarna enn og aftur sérstaða vinstri/grænna, sem hafa málað sig út í horn í utanríkismálum eins og í fleiri málaflokkum.