Jómfrúræða brýtur þingsköp - enn um RÚV og Rússagull
Yfirlit
Leikreglur eru öllum nauðsynlegar. Þær setja okkur almenn starfsskilyrði og eftir þeim verðum við að fara til að samskipti okkar séu sem best og snurðulaus. Víst er, að menn getur greint á um efni þessara reglna og túlkun þeirra getur oft valdið vafa. Þetta sjáum við best, þegar litið er til laga og túlkunar á þeim. Ég nefni þetta hér í tilefni af umræðum utan dagskrár á alþingi fimmtudaginn 4. nóvember síðasliðinn vegna Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Til þeirra var stofnað af varaþingmanni fylkingar vinstri sinna, Björgvini G. Sigurðssyni, sem stundar meistaranám við Háskóla Íslands og lýsti yfir því í tilefni af þingsetu sinni í fjarveru Margrétar Frímannsdóttur, talsmanns fylkingarinnar, að hann ætlaði að nota tíma sinn á þingi til að reisa menntakerfi þjóðarinnar úr rústum, hvorki meira né minna. Vildi hann fá tækifæri til að ræða við mig um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og var erindi hans að spyrja um mál, sem þegar hafði verið ákveðið að sinna af stjórn LÍN.
Vegna þess að ég vildi ekki bregða fæti fyrir að þingmaðurinn gæti látið ljós sitt skína, samþykkti ég að taka þátt í þessari umræðu, enda var mér skýrt frá því, þegar tilmælin voru borin fram, að þau hefðu verið samþykkt af forseta alþingis, sem hefur samkvæmt leikreglunum, þingskapalögunum, síðasta orðið um hvort efnt skuli til umræðna utan dagskrár.
Í upphafi ræðu minnar minnti ég á, að í 50. gr. þingskapalaga segði, að utan dagskrár á alþingi gæti forseti leyft, að tekið væri fyrir málefni, sem sé svo aðkallandi að ekki geti beðið meðferðar formlegra þingmála. Sagðist ég ekki geta séð, að tilefni umræðunnar um LÍN rúmaðist undir þetta ákvæði laganna.
Í umræðunum gagnrýndu að minnsta kosti tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar mig fyrir að efast um að ákvæði í þingskapalögunum heimilaði þessa umræðu. Lögðu þeir gagnrýni mína á þessa túlkun á þingskapalögum út á þann veg, að með henni væri ég að víkja mér undan umræðum um efnislega hlið málsins. Í lokaræðu minni svaraði ég þessari gagnrýni með því að skýra frá því, að ég hefði verið beðinn um að taka þátt í umræðunni á þeirri forsendu, að upphafsmaður hennar væri varaþingmaður, sæti því takmarkaðan tíma á þingi og skildi ég það svo, að hann þyrfti tækifæri til að láta ljós sitt skína, kom raunar í ljós, að hann var að flytja jómfrúræðu sína og birtist hún í Degi.
Öllum þingmönnum er ljóst, að ekki er unnt að túlka ákvæði 50. gr. þingskapalaga á þann veg, að þau heimili umræðu utan dagskrár aðeins til þess að gera varaþingmanni kleift að flytja jómfrúræðu, þó merkileg sé, það gerðist þó þennan dag, umræðurnar sýndu, að ekkert í málefnum LÍN kallaði á þessa sérstöku umræðu á alþingi. Beindi ég þeirri athugasemd til forseta alþingis, að hér hefði verið farið á svig við þingskapalög, þær leikreglur, sem gilda um samskipti manna á alþingi, þar sem virðing fyrir lögum ætti að vera mönnum jafnvel ofar í huga en annars staðar. Leit ég á það sem skyldu mína að vekja athygli á þessu, svo að ekki væri skapað gagnrýnislaust fordæmi fyrir þessari túlkun á 50. gr. þingskapalaga.
Í DV laugardaginn skrifar Reynir Traustason dálkinn Sandkorn. þar segir:
"Fjórir varaþingmenn sitja nú á Alþingi. Flutti einn þeirra, Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingunni, jómfrúræðu sína á þingi á fimmtudag þar sem hann bar fram fyrirspurn til Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra um stöðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Björn átti í mestu vandræðum með að finna sig í umræðunni en alls tók á annan tug þingmanna til máls og baunaði hver á fætur öðrum á sjálfan menntamálaráðherrann sem vissi vart hvaðan á hann stóð veðrið og áminnti sjálfan Halldór Blöndal þingforseta að lokum fyrir að hafa leyft utandagskrárumræðuna."
Nú er það svo, að allir, sem hafa aðgang að netinu geta auðveldlega kannað sannleiksgildi þessara orða Reynis Traustasonar með því að fara inn á vefsíðu alþingis www.althingi.is og flett upp á umræðum síðdegis fimmtudaginn 4. nóvember. Þar sjá lesendur, að Reynir fer með rangt mál til þess eins að gera á minn hlut. Er furðulegt, að ritstjórar DV, sem liggja ekki á gagnrýni sinni á það, sem þeim þykir miður fara, skuli ekki vera vandari að virðingu sinni en dálkurinn Sandkorn gefur til kynna.
Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, vék að málefnum RÚV í setningarræðu á miðstjórnarfundi flokksins föstudaginn 5. nóvember. Mátti skilja orð hans á þann veg, að uppi væru hugmyndir hjá einhverjum stjórnmálaflokki að selja RÚV. Svo er ekki. Ég var spurður um ummæli Halldórs af Morgunblaðinu og í sunnudagsblaði þess 7. nóvember eru ummæli mín birt, þar sem ég fagna því, að formaður Framskóknarflokksins viðurkenni nauðsyn þess að breyta fyrirkomulagi innan RÚV til að styrkja það við nýjar aðstæður og aukna samkeppni. Sagðist ég jafnframt vænta þess, að framsóknarmenn kynntu nú tillögur sínar, en eftir þeim hefur verið beðið. Finnur Ingólfsson, varaformaður Framsóknarflokksins, nefndi í útvarpsviðtali 7. nóvember, að Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlit lytu ekki pólitískri stjórn, þar sem stjórnir þeirra væru skipaðar af honum sem viðskiptaráðherra. Taldi hann þessa leið betri til að ákveða yfirstjórn RÚV en kjósa útvarpsráð á alþingi.
Ég sá í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, að Halldór Ásgrímsson hefði reifað þá hugmynd, að RÚV væri fjármagnað beint af fjárlögum ríkisins, þannig að innheimtu afnotagjalda yrði hætt en þess í stað myndu skattar væntanlega hækka og hluti þeirra látinn renna til RÚV. Er þetta ein leið af þremur, sem oftast eru nefndar í þessu sambandi. Hinar tvær eru óbreytt ástand, það er innheimta afnotagjalda miðað við skráð tæki, eða innheimta nefskatts, þar sem til dæmis allir yfir 16 ára aldur yrðu látnir greiða ákveðna fjárhæð, sem renndi afmörkuð til RÚV. Þá hafa einhverjir gælt við að gjaldtaka í þágu RÚV tengist fasteignum.
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er einnig haft eftir Gissuri Péturssyni, varaformanni útvarpsráðs og fulltrúa Framsóknarflokksins þar, að ég leggi RÚV í einelti og fetar hann þar í fótspor Steingríms J. Sigfússonar, sem Halldór Ásgrímsson skammaði harkalega fyrir ómerkilegan málflutning í setningarræðu miðstjórnarfundarins. Gissur hefur áður verið stóryrtur í minn garð vegna málefna RÚV, hef ég raunar ekki heyrt annað frá honum opinberlega um þetta mál en hefðbundið og innantómt vinstra tal, án þess að gerð sé tillaga um nokkrar umbætur. Mætti ráða af viðbrögðum Gissurar, að Halldór Ásgrímsson hafi ákveðið að fela öðrum en honum að kynna mér hinar nýju hugmyndir Framsóknarflokksins um málefni RÚV.
Í umræðum um RÚV á alþingi miðvikudaginn 3. nóvember kom enn einu sinni í ljós, að vinstrisinnar vilja í raun vera með puttana í stóru og smáu í dagskrá RÚV, tvær fyrirspurnir voru bornar fram til mín á alþingi um kostun þáttar að morgni 14. október, þegar Kringlan var opnuð. Var það talið til marks um að RÚV væri á vonarvöl, að þennan morgun hefði þátturinn Poppland verið felldur niður á Rás 2, var ég beðinn að koma í veg fyrir að slík ósvinna gerðist oftar.Var jafnframt gefið til kynna, að þátturinn hefði meira að segja verið felldur niður með þeirri aðferð, að umsjónarmaður hans hefði haft tilefni til að móðgast. Sagði Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri/grænna, það sanna sérstaka óvild mína í garð RÚV, ef ég kæmi ekki í veg fyrir að slík hneyksli gerðust að nýju.
Þegar rætt er um framtíð RÚV er rétt að geta þess sjónarmiðs, sem haldið er fram af sumum, það er að RÚV verði hvorki ríkis- né þjóðarútvarp (en Mörður Árnason telur það allra meina bót að ræða um þjóðarútvarp, sem er í góðu samræmi við þá áráttu vinstrisinna að telja það allra meina bót að skipta um nafn og númer, enda hafa þeir margir setið í flokkum með fleiri nöfnum en aðrir muna, án þess að skoðanir þeirra breyttust) - hugmyndir eru á kreiki um að RÚV verði starfsmannaútvarp. Kjarni þessarar hugmyndar er, að ekki verði nein stjórn yfir RÚV heldur ráði starfsmennirnir sjálfir þar lögum og lofum en greiðendur skatta eða afnotagjalda sjái um að útvega þeim næga fjármuni til að gera það, sem þeir sjálfir ákveða. Jón Ásgeir Sigurðsson, formaður Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins, er helsti talsmaður þessa sjónarmiðs og hafa vinstri/grænir einnig hallast á þessa sveif.
Rússagull.
Kjartan Ólafsson, sem var helsti skipuleggjandi og umsýslumaður Sósíalistaflokksins á sjöunda áratug aldarinnar og síðar ritstjóri Þjóðviljans um tíma segir í Morgunblaðsgrein 5. nóvember:
"Í fréttum fjölmiðla nú síðustu daga hefur komið fram að það var KGB, hin illræmda leyniþjónusta Sovétríkjanna, sem átti á árunum 1956-1966 að færa einum eða fleiri trúnaðarmönnum Kremlverja innan íslenska Sósíalistaflokksins tilgreinda fjárupphæð eða sem svaraði þremur milljónum króna á ári. Það eitt að KGB var falið verkefnið sýnir með ótvíræðum hætti að hér máttu engir af þessu vita nema örfáir innvígðir sem líklega hefur verið hægt að telja á fingrum annarrar handar. Ekki hefur enn verið dregið fram í dagsljósið hvað um þessa peninga varð en vonandi er að fræðimönnum takist að upplýsa það áður en langur tími líður.
Sannleikurinn er sá að stjórnmálahreyfing íslenskra sósíalista þurfti ekkert á slíkum óþrifapeningum að halda, hvorki fyrir 1968 né eftir 1968. Hún átti nægan fjárhagslegan bakhjarl í sínum eigin liðsmönnum sem margir hverjir voru jafnan reiðubúnir að leggja hart að sér til að halda flokknum og Þjóðviljanum gangandi.
Hafi einhverjar rúblur komið inn um bakdyrnar þá hefur þeim verið laumað þar inn ófrjálsri hendi af íslenskum trúnaðarmönnum valdhafanna í Kreml."
Þessi frásögn gerir upplýsingarnar um Rússagullið til Íslands enn merkilegri, því að Kjartan er í raun að segja, að 30 milljónirnar hafi ekki runnið til Sósíalistaflokksins eða Þjóðviljans heldur til einhverra annarra, sem tóku við peningunum í nafni sósíalista á Íslandi, flokks- og útgáfustarfs þeirra. Styður þetta enn frekar kröfuna um að sósíalistar geri upp fortíð sína og sambandið við Moskvuvaldið fyrir opnum tjöldum.