31.10.1999

Rússagull - kjarnorkusprengjur

Umræður síðustu daga um að sovésk skjöl liggi fyrir, sem sanna fjárstuðning kommúnista í Moskvu við skoðanabræður á Íslandi staðfesta enn hinu nánu tengsl, sem voru milli kommúnista hér á landi og annar staðar í heiminum. Er í raun undarlegt, hve oft og lengi hefur þurft að ræða með einhverjum fyrirvara, að kommúnistar á Íslandi hafi haft samskonar tengsl við ráðamenn sína í Moskvu og skoðanabræður annars staðar. Að sjálfsögðu voru tengslin við Ísland skipulögð með sama hætti og við kommúnista í öðrum löndum og stuðningurinn með sama hætti. Hefur þessi þáttur í stjórnmálasögu einstakra landa verið misjafnlega mikið kannaður. Í Frakklandi og á Ítalíu hafa ýmsir forystumenn í sveit kommúnista gert upp við fortíðina og þar dregur enginn í efa, hve mikil tengsl voru á milli flokkanna og Moskvuvaldsins.

Hér hef ég oftar en einu sinni vakið máls á því á stjórnmálavettvangi og meðal annars á alþingi, að eðlilegt væri fyrir þá, sem standa vörð um arfleifð Alþýðubandalagsins og annarra stjórnmálaafla, sem nutu sovésks stuðnings, að þeir gerðu hreint fyrir sínum dyrum með ærlegu uppgjöri við fortíðina. Hefur tilmælum af þessu tagi verið mætt með ýmsu móti, en sérkennilegast er þó flissið í gömlum þingmönnum Alþýðubandalagsins í sölum alþingis, þegar þess mál hefur borið á góma þar.

Við, sem stóðum í orðaskaki við kommúnista í blöðum fyrr á árum, vorum oft í þeirri stöðu, að talsmenn kommúnista byggðu málflutning sinn á ályktunum, sem þeir drógu af sagnfræðilegum skjölum frá Bandaríkjunum. Þar er þeirri reglu fylgt, að eftir ákveðinn árafjölda eru opinber trúnaðarskjöl gerð aðgengileg fyrir sagnfræðinga, blaðamenn og aðra áhugamenn um efni þeirra. Varð það oft tilefni líflegra umræðna í blöðum, þegar gömul bandarísk skjöl sáu dagsins ljós, til dæmis varðandi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þá reyndu kommúnistar á Íslandi að draga þá ályktun af þeim, að þau sönnuðu gömul landráðabrigsl þeirra í garð samningamanna Íslands. Þessi málatilbúnaður var jafnan næsta máttlítill, enda ekkert í skjölunum, sem styður þá gömlu kenningu kommúnista, að þjóðin hafi verið svikin inn í NATO eða að baki varnarsamningnum við Bandaríkin hafi búið eitthvert samsæri. Sjáum við ekki lengur röksemdir af þessum toga enda hafa vandaðir sagnfræðingar grandskoðað þessi skjöl og birt um þau hlutlægar niðurstöður sínar, sem sýna, að í hvívetna voru íslenskir hagsmunir hafðir að leiðarljósi við þessa mikilvægu samninga.

Í þessu orðaskaki höfðum við stundum á orði, að kommúnistar gætu skákað í því skjóli í málflutningi sínum, að skjölin í Moskvu yrðu aldrei opnuð, þau yrðu um aldur og ævi geymd í kjöllurum Kremlar eða KGB og engir nema innvígðir fengju að lesa þau. Í þessu efni höfðum við rangt fyrir okkur, því að sovéska kerfið hrundi um okkar daga og skjölin hafa verið skoðuð af sagnfræðingum, blaðamönnum og öðrum. Smátt og smátt berast upplýsingar úr þeim og nú síðast um sovéskar fjárveitingar til kommúnista á Íslandi. Er líklegt, að öll kurl séu ekki enn komin til grafar í því efni.

Hvað segja þessi skjöl okkur? Jú, að við höfðum rétt fyrir okkur, sem héldum því fram, að kommúnistar á Íslandi nytu fjárhagslegs stuðnings frá Moskvu. Það var líka rétt, að tengslin voru mest í gegnum Austur-Þýskaland. Þá var það einnig rétt, að stofnað hefði verið til sérstakra fyrirtækja til að sinna þessum fjármálalegum samskiptum. Stuðningur við blaða- og bókaútgáfu var með skipulegum hætti. Á sínum tíma létu kommúnistar á Íslandi prenta fyrir sig bækur í A-Þýskalandi. Þá var einnig veittur stuðningur við kaup á prentvélum.

Fyrir utan að fá staðfestingu á öllu þessu hafa gamlir KGB-menn einnig staðfest þá skoðun okkar, að í kringum 1970 hafi verið komið fyrir fullkomnum hlerunarbúnaði í sovéska sendiráðinu í Reykjavík. Um þetta ritaði ég oftar en einu sinni og var sakaður eins og oft endranær um að nota Rússagrýluna til að gera andstæðinga mína ófrýnilegri. Menn gleyma því gjarnan nú á tímum, að í öllum lýðræðisríkjum Evrópu voru þeir, sem lögðu sig fram um að vekja athygli á undirróðursstarfsemi kommúnista fyrir hörðum persónulegum árásum. Ástæðan fyrir því var einföld, undirróðursstarfsemin þoldi ekki dagsins ljós eða umræður, enda miðaði hún að því með laumulegum hætti að grafa undan lýðræðislegum stjórnarháttum og búa í haginn fyrir Moskvuvaldið. Þar kröfðust menn þess, að fjárfestingin skilaði árangri, að skjólstæðingarnir kæmu ár sinni fyrir borð og þrengdu að andstæðingum sínum.

Dylgjurnar um, að bandarísk kjarnorkuvopn séu eða hafi verið með leynd á Íslandi er lífseigasti þátturinn í andróðri kaldastríðsáranna gegn varnarsamstarfinu og NATO-aðildinni. Kjarnorkudraugurinn var enn einu sinni til umræðu á alþingi miðvikudaginn 20. október, Ferlið var gamalkunnugt: Frétt birtist í bandarísku blaði, Washington Post að þessu sinni, um að í bandarísku vísindariti væri talið, að bandarísk stjórnvöld hefðu með leynd haft hér kjarnorkuvopn á árunum 1956 til 1959. Var þessu slegið upp sem stórfrétt í hljóðvarpi ríkisins. Mátti jafnvel halda, að alrei hefði verið rætt um svipað mál áður. Nú átti einhver listi að sýna og sanna laumupsil með kjarnorkuvopn. Nafn Íslands var þó ekki á listanum, gátu vísindamenn sér til þess að það væri þar, þótt þeir væru með lista, sem náði til ríkja utan NATO! Þá var William Arkin nefndur til sögunnar, en honum er mjög annt um að sanna, að hér á landi hafi verið kjarnorkuvopn, þótt rökin fyrir því virðist lítil sem engin. Hefur hann orðið að draga í land með fyrri fullyrðingar en hjó nú enn á ný í sama knérunn. Í þingumræðunum 20. október sagði ég, að líklega myndu líða svona tíu dagar, þar til Arkin og félagar drægju að nýju í land. Stóð það á endum, því að í Morgunblaðinu 28. október birtist þessi litla frétt:

"OKKUR kann að skjátlast en ýmsar vísbendingar gefa okkur enn sem fyrr tilefni til að gruna, að kjarnavopn hafi verið staðsett á Íslandi. Bandaríska stórblaðið Washington Post hafði þetta í gær eftir William M. Arkin, einum höfundi skýrslu, sem birtist nýlega í tímaritinu Bulletin of Atomic Scientists , en þar er fullyrt, að kjarnorkuvopn hafi verið á Íslandi á árunum 1956-'59. Bandaríkjastjórn neitaði því formlega fyrir helgi, að kjarnavopn hefðu verið á Íslandi á dögum kalda stríðsins, en slík yfirlýsing er óvenjuleg að því leyti, að það er stefna Bandaríkjastjórnar að neita hvorki né játa neinu um staðsetningu kjarnavopna."

Kjarnorkudraugurinn var lagður á flótta enn einu sinni. Hann þoldi ekki nánari skoðun í opnum umræðum. Er furðulegt, hve fjölmiðlamenn láta oft draga sig á asnaeyrunum, þegar þessi mál ber á góma.

Er ástæða til að skora á menn að bera saman getsakir þeirra, sem ræða um kjarnorkupvopn og Ísland annars vegar, og þeirra, sem fjalla af fullvissu um tengsl kommúnista á Íslandi við Moskvuvaldið hins vegar. Þá er jafnframt lærdómsríkt að fylgjast með því, hvernig brugðist er við þessum fréttum á pólitískum vettvangi. Sérstaklega þegar hugað er að gömlum krötum innan Samfylkingarinnar, sem nú leggja lykkju á leið sína til þess annars vegar að taka undir með Arkin og félögum og sjá sér síðan hag af því að gera sem minnst úr stuðningi frá Moskvu við kommúnista á Íslandi.