17.10.1999

Evrópuumræður - borgarstjóri - Reykholt - Akureyri - Egilsstaðir

Um miðja viku bárust þær fréttir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB), að hún ætlaði að taka upp viðræður við 13 ríki um aðild að sambandinu. Ætlar framkvæmdastjórnin að ganga til viðræðnanna með því hugarfari, að gert verði upp á milli ríkja, eftir því hve vel þau eru i stakk búinn til að taka á sig kröfur sambandsins. Tyrkland er sett á þennan lista útvaldra en þó í eigin dilk, því að tekið verður á málum þess með sérstökum hætti. Um leið og framkvæmdastjórnin sendi frá sér tilkynningu um þetta, var þess getið, að ákvörðun um stækkun bandalagsins byggðist ekki aðeins á því að ræða við aðra heldur yrði ESB jafnframt að huga að tveimur málum, áður en lyktir fengjust: Í fyrsta lagi væri nauðsynlegt að gera fjárhagslegar áætlanir fyrir bandalagið fyrir árin 2000 til 2006. Í öðru lagi þyrfti bandalagið að breyta innra skipulagi sínu á þann veg, að stofnanir þess gætu tekist á við málefni 28 aðildarríkja.

Ástæða er til að fagna þessari ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB, því að í henni felst viðurkenning á því, að ekki sé eðlilegt af hennar hálfu að draga Evrópuríki í dilka eftir því hvort þau eru verðug eða óverðug til aðildar að samtökum, sem gera kröfu til þess að vera fulltrúi Evrópuþjóða og hefur nafn álfunnar sem helsta vörumerki sitt. Raunar hefði stjórn ESB fyrir löngu átt að lýsa yfir stefnu sem þessari. Fyrir þau ríki, sem hefur verið haldið útundan, hefur dilkadrátturinn þótt niðurlægjandi. Sérstaklega hefur Tyrkjum þótt miður, að njóta ekki þeirrar viðurkenningar valdamanna í Brussel, að þeir kæmu að minnsta kosti til álita sem hugsanlegir aðilar ESB.

Umsóknarríkin eru misjanlega á vegi stödd. Viðræður við þau verða flóknar og langvinnar. Innan ríkjanna eru menn ekki heldur á einu máli um aðild og líklegt er, að þar geri ekki allir sér jafnglögga grein fyrir því, hvaða skyldur fylgja aðild og hvaða stigi ríki þurfa að ná að mati ESB til að verða það gjaldgengir þátttakendur. Þótt ríkin hafi fengið aðild að Evrópuráðinu og eigi þannig að hafa uppfyllt ákveðin skilyrði með tilliti til lýðræðislegra stjórnarhátta, sýnist ESB ætla að meta þennan þátt sérstaklega og kannski gera strangari kröfur en Evrópuráðið, sem er umhugsunarvert fyrir þá, sem ráða ferð innan þess. Þrjú umsóknarríkjanna hafa fengið aðild að NATO og flest óska þau eftir að komast í bandalagið, þótt það eigi ekki við um Kýpur og Möltu. Ekki er unnt að slá því föstu að aðild, að NATO tryggi aðild að ESB. Andstaða Rússa er til dæmis miklu meiri við stækkun NATO en ESB, þótt undarlegt megi virðast, ekki síst þegar litið er til þess, að ESB ætlar að sinna utanríkis- og öryggismálum með nýjum og markvissari hætti undir forystu Javier Solana, fráfarandi framkvæmdastjóra NATO. Rússar eiga hvorki að ráða, hvort NATO stækkar né ESB, en pólitísk afstaða þeirra kemur að sjálfsögðu til álita eins og aðrir þættir. Hagsmunamatið er annað þegar litið er til stækkunar NATO en ESB. Raunar hefur ESB ekki gert nákvæma grein fyrir því, hvernig það ætlar að sinna öryggismálunum og hvað verður um Vestur-Evrópusambandið (VES).

Ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB hefur á sér tvær hliðar. Í fyrsta lagi er hún fagnaðarefni fyrir stuðningsmenn aðildar í ríkjunum, sem nefnd eru til sögunnar. Þeir geta nú sagt, að þjóðir sínar séu verðugar að mati ráðamanna í Brussel. Í öðru lagi gerir hún nýjar kröfur til ESB, sem geta leitt til þess að það dragist á langinn að fá niðurstöðu með stækkun sambandsins. Nauðsyn þess að stjórnendur ESB komist að samkomulagi um útgjöld þess og stjórnarskrárbreytingu vegna stækkunar vex. Þar eru mörg ljón á veginum og jafnvel mætti álykta á þann veg, að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar seinkaði frekar stækkun sambandsins en flýtti henni, því að flóknara yrði að komast að niðurstöðu með fleiri umsækjendur í biðsalnum en færri.

Í sama mund og framkvæmdastjórn ESB hafði kynnt ákvörðun sína tóku menn eðlilega að ræða það hér, hvaða áhrif þessi ákvörðun hefði á stöðu Íslands gagnvart ESB. Er eðlilegt, að utanríkisráðuneytið leggi mat á það í ljósi reynslunnar af aðild að evrópska efnahagssvæðinu (EES), þátttöku í Schengen og stöðu okkar utan við myntsamstarfið.

Stjórnarandstaðan hóf að kyrja sama sönginn um að óviðunandi væri, að aðild að ESB væri ekki á dagskrá. Er tóninn í þeim söng sífellt að verða falskari hjá fylkingu vinstri sinna, sérstaklega krötum innan hennar, sem settu aðild að ESB á oddinn í kosningabaráttunni 1995 en sögðu fyrir kosningarnar vorið 1999, að málið væri ekki á kosningaskrá þeirra, af því að það hefði ekki hlotið hljómgrunn 1995! Stjórnarandstaða á í máli sem þessu ekki að gera kröfu til annarra um að þeir sjái til þess að mál séu á hinni pólitísku dagskrá, heldur á hún að sjá um það sjálf og nota þá málið til að skapa sér stöðu gagnvart kjósendum. Vandi stjórnarandstöðunnar er hins vegar sá, að fylking vinstri sinna hefur enga stefnu í málinu. Spurningin um aðild eða ekki aðild að ESB klýfur hana nefnilega ofan í rót, eins og margsinnis hefur komið í ljós. Það er ekki stefna hjá stjórnarandstöðu að krefjast þess af ríkisstjórn, að hún segi henni, hvaða stefnu hún eigi að hafa í málum af þessu tagi.

Frá mínum bæjardyrum séð breytir þessi ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB ekki miklu fyrir okkur Íslendinga. Við munum eiga auðveldara með það en áður að komast inn í Evrópusambandið, ef við kjósum það. Við erum eitt fárra ríkja í Evrópu, sem uppfyllir öll skilyrði aðildar og er þar að auki svo auðugt, að við mundum greiða með okkur inn í sambandið en ekki þiggja af því fé eins og þjóðirnar, sem standa utan evrópska efnahagssvæðisins. Að sjálfsögðu stendur okkur ekki frekar en öðrum aðild til boða, fyrr en ESB hefur unnið heimavinnu sína varðandi fjárlögin fyrir árin 2000 til 2006 og breytingar á stjórnarháttum sínum. Bæði málin eru mikil hitamál innan ESB. Öllum er ljóst, að aðild ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu kostar mikið fé. Stjórnmálamenn og embættismenn innan ESB hafa um langt árabil ýtt því á undan sér að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnskipan sambandsins.

Ég ætla ekki að spá neinu um það, hvort, hvenær og hvernig ESB leysir þessi mál. Framkvæmdastjórnin hefur gefið tóninn en völd hennar í þessu efni eru takmörkuð þegar til kastanna kemur, ríkisstjórnir einstakra landa og Evrópuþingið taka hinar pólitísku ákvarðanir. Fer það eftir styrk hinnar pólitísku forystu, hvernig að þeim verður staðið. Ég var í hópi efasemdarmanna um að þjóðunum tækist að uppfylla hinar fjárhagslegu kröfur Maastricht-samkomulagsins, sem var forsenda þess að myntsamstarfið og seðlabanki Evrópu kæmist á laggirnar. Það markmið náðið, ekki síst fyrir harðfylgi Helmuts Kohls, þáverandi kanslara Þýskalands. Sami pólitíski styrkur er ekki fyrir hendi innan ESB lengur. Tony Blair, forsætisráðherra Breta, gerir kröfu um að vera fremstur meðal jafningja innan ESB, ekki síst sem vinstrisinni. Hann hefur engan slagkraft í Evrópumálunum og verður sífellt umdeildari með evrópskra sósíalista, sem líta á Schörder, kanslara Þýskalands, sem helsta fórnarlamb hans.

Ég varð ekki mjög undrandi þegar ég las grein Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, borgarstjóra í Reykjavík, um málefni Listaháskóla Íslands í Morgunblaðinu föstudaginn 15. október. Þar kvað við sama reiðitóninn og jafnan, þegar þennan nýja háskóla ber á góma. Allt frá því að ég varð menntamálaráðherra og óskaði eftir samvinnu við Reykjavíkurborg undir forystu Ingibjargar Sólrúnar um þetta mál, hef ég mætt svipuðu hugarfari og skein út úr Morgunblaðsgreininni. Það er eins og verið sé að skaprauna yfirvöldum borgarinnar, þegar rætt er við þau um þátttöku þeirra í því að gera hlut þessa skóla sem mestan og bestan. Borgarstjóri hefur einnig alla tíð býsnast yfir því að Reykjavíkurborg standi að Tónlsitarskólanum í Reykjavík og Myndlista- og handíðaskólanum.. Um þetta voru teknar ákvarðnir fyrir áratugum, þegar meiri stórhugur réð í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur en um þessar mundir og meiri vilji til að efla skóla- og menningarstarf innan borgarmarkanna.

Um nokkurt árabil hefur legið fyrir, að áhugamenn um listaháskóla kysu annað húsnæði, væri það í boði, en SS-húsið á Laugarnestanga, sem var byggt til að hýsa kjötvinnslu og sláturhús. Áður en skólinn var formlega stofnaður beitti ég mér fyrir því, að ýmsar húseignir í borginni væru skoðaðar með hagsmuni skólans að leiðarljósi. Fannst ekkert hús, sem menn teldu, að gæti komið í stað SS-hússins. Listaháskóli Íslands hefur nú tekið til starfa sem einkaskóli með sérstakri stjórn, sem réð rektor skólans. Ríkið hefur heitið skólanum að búa honum viðunandi húsnæði. Ljóst er, að það mun kosta stórfé að búa um skólann með viðunandi hætti í SS-húsinu.

Stjórnendur skólans hafa leitað eftir því við Reykjavíkurborg að komast á annan stað í borginni. Yfirvöld borgarinnar töldu, að hugsanlega yrði unnt að koma skólanum fyrir í miðborginni á lóð þar. Þar virðist um tálsýn að ræða. Þá gera borgaryfirvöld sér lítið fyrir og benda á tvær húseignir ríkisins, Tollstöðina og Landssímahúsið, og gefa til kynn að skólinn geti farið þangað. Engar úttektir liggja að baki þessum hugmyndum og grein borgarstjóra gefur til kynna, að þær séu settar fram til að geta síðan sagt, að ríkisvaldið hafi ekki viljað rýma hús fyrir skólann! Ég hef sagt, að þessar tillögur séu til þess eins fallnar að drepa málinu á dreif.

Á meðan borgarstjórn Reykjavíkur hrekst úr einu víginu í annað vegna listaháskólans og borgarstjóri lætur reiði sína yfir eigin úrræðaleysi bitna á mér, er bæjarstjórn Hafnarfjarðar á fullri ferð við að kynna góða umgjörð um Listaháskóla Íslands þar í bæ. Er ljóst, að viðmótið í garð skólans er annað þar en hjá R-listanum í Reykjavík. Allir unnendur Listaháskóla Íslands hljóta að fagna slíkum skilningi á málefnum hans.

Mánudagur 11. október Annan hvorn mánudag eru svonefndar óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á dagskrá alþingis. Þá geta þingmenn spurt ráðherra um hvaðeina, sem þeir telja, að eðlilegt sé að þeir svari. Eru 30 mínútur ætlaðar í þennan lið á dagskrá þingsins og hefst hann klukkan 15.00 að loknum þingflokksfundum. Þennan mánudag spurði Svanfríður Jónasdóttir mig um menningarhús og Ísólfur Gylfi Pálmason um Fræðslunet Suðurlands. Menntamálaráðuneytið efnir að minnsta kosti tvisvar sinnum á skólaárinu til samsráðsfundar með skólameisturum. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í Reykholti í Borgarfirði. Fór ég þangað síðdegis, tók þátt í umræðum og kvöldverði. Þriðjudagur 12. október Að kvöldi þriðjudagsins stóð Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, fyrir opnum fundi í hátíðarsal Háskóla Íslands um rannsóknir og kennslu við HÍ. Var hann vel sóttur og umræður málefnalegar en ég tók þar þátt í pallborðsumræðum. Miðvikudagur 13. október Dagskrá alþingis gerir ráð fyrir því að síðdegis á miðvikudögum svari ráðherrar fyrirspurnum. Ég svaraði að þessu sinni fyrirspurn um símenntun og fjarkennslu frá Svanfríði Jónasdóttur. Klukkan 17.00 fór ég í dægurmálaútvarp rásar 2 hjá RÚV og ræddi við Leif Hauksson, einkum um RÚV. Gat ég þar leiðrétt þann misskilning, að ég væri talsmaður þess að RÚV færi að senda út efni á annarri rás. Sagðist ég ekki sjá neina ástæðu fyrir ríkið til að standa að íþróttarás í sjónvarpi, það væri verkefni, sem einkaaðilar gætu sinnt. Fimmtudagur 14. október Klukkan 11.00 hélt ég til Akureyrar. Þar tók ég þátt í umræðum á aðalfundi Útvegsmannafélags Norðurlands um menntamál. Voru þar kynntar hugmyndir um að einkavæða nám stýrimanna og vélstjóra í samræmi við ályktun á síðasta aðalfundi LÍU. Þá fór ég í Menntaskólann á Akureyri og hitti forvígismenn hans. Ég leit inn í Listasafn Akureyrar og ræddi við Hannes Sigurðsson, nýráðinn forstöðumann. Loks var ég viðstaddur þegar Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, rituðu undir samstarfssamning um skrifstofu ÍSÍ á Akureyri. Tók ég flugvél klukkan 18.10 og var kominn á frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum í Borgarleikhúsinu klukkan 20. Föstudagur 15. október Klukkan 20 flutti ég ræðu og opnaði kynningarsýningu á vegum Hönnunarsafns Íslands, sem er að hefja starf sitt í Garðabæ. Laugardagur 16. október Klukkan 10.45 flaug ég til Egilsstaða. Í hádeginu efndi ég til fundar með forvígismönnum Gunnarsstofnunar, sem hefur aðsetur á Skriðuklaustri. Klukkan 14 hófst 20 ára afmælishátíð Menntaskólans á Egilsstöðum í Valaskjálf. Að loknum ávörpum og skemmtiatriðum nemenda var boðið í kaffi í skólahúsinu, síðan var opnuð sýning á andlitsmyndum Kjarvals á Austfirðingum í Safnastofnun Austurlands. Þá átti ég fund um framtíð Eiða en þar standa mannvirki ónotuð eftir að ákveðið var, að starfsemi Menntaskólans á Egilsstöðum var sameinuð á einum stað. Tók ég flugvél heim klukkan 19.25.