Þingstörf hefjast - samið við Háskóla Íslands
Alþingi var sett við hátíðlega athöfn föstudaginn 1. október og mánudaginn 4. október flutti forsætisráðherra stefnuræðu sína. Daginn eftir var síðan fyrsta umræða um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2000 og lauk henni þann dag og var frumvarpinu vísað til fjárlaganefndar miðvikudaginn 6. október. Eins og þessi upptalning ber með sér hófst alþingi með skipulegum hætti og á skömmum tíma var helsta máli þingsins fram að áramótum, fjárlagafrumvarpinu, vísað til nefndar. Umræður um frumvarpið leiddu ekki í ljós mikinn ágreining um meginstefnu í efnahagsmálum, enda hefur árangur undir forystu ríkisstjórnarinnar verið á þann veg, að varla er unnt að gera betur.
Helsta gagnrýni á fjárlagafrumvarpið er á þann veg, að hinn mikli afgangur, sem þar er ráðgerður hefði átt að koma til sögunnar á þessu ári. Þá er fundið að því, að útgjöld vegna barnabóta lækka, en það á rætur að rekja til þess að tekjur fólks hækka svo mikið, að það missir réttinn til bótanna. Forsætisráðherra benti á, að eins mætti skamma ríkisstjórnina fyrir að draga úr útgjöldum til atvinnuleysisbóta, en það á augljóslega rætur að rekja til þess, að atvinnuleysi hefur minnkað.
Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra voru með hefðbundnum hætti. Stjórnarandstaðan hefur ekki náð sér á strik eftir kosningarnar sl. vor og er ljóst, að enn hafa vinstri menn ekki gert það alveg upp við sig, hvernig þeir ætla að skipa sér í fylkingar í framtíðinni. Sumir ætla, að enn eigi eftir að kvarnast út úr fylkingunni og einhverjir þingmenn hennar muni ganga til samstarfs við vinstri/græna eins og Ární Þór Sigurðsson borgarfulltrúi ákvað að gera, en hann hefur verið mjög handgenginn Svavari Gestssyni, sem kvaddi stjórnmálin á síðasta vetri og sat lengi á girðingunni en ákvað að fylgja ekki félaga sínum Steingrími J. Sigfússyni heldur lýsti stuðningi við fylkinguna. Töldu margir, að Svavar gerði þetta til að stuðla að friði innan R-listans í borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem Guðrún Ágústsdóttir kona hans var í virðingarsæti sem forseti borgarstjórnar. Nú er sem sagt ekki lengur hugsað með þessum hætti, þegar Árni Þór fer til vinstri/grænna og fær mikla skömm fyrir frá Grósku og öðrum talsmönnum fylkingarinnar.
Raunar er meira spennandi að fylgjast með því sem gerist hjá R-listanum en á alþingi, þegar menn spá í spil vinstrisinna á komandi mánuðum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ekki áunnið sér vinsældir meðal allra samstarfsmanna sinna í borgarstjórninni með því að snúast gegn virkjanaáformum á Eyjabökkunum. Áður hefur því verið haldið fram á þessum vettvangi, að Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi framsóknarmanna, hefði sterk pólitísk tök á Ingibjörgu Sólrúnu. En hvernig fer með þann stuðning, ef borgarstjóri snýst gegn virkjunum á Austurlandi og ýtir jafnframt undir þá skoðun, að hún ætli að hverfa til starfa í landsmálum í því skyni að gera hlut Framsóknarflokksins sem verstan?
Fullyrt skal, að fjölmiðlar fjalli aðeins um yfirborð þeirra átaka, sem í raun eiga sér stað meðal íslenskra vinstrisinna og vandræðin innan flokka þeirra. Fylkingin er forystulaus og til marks um vandræðaganginn er talið um að Stefán Jón Hafstein verði þar forystumaður en Margrét Frímannsdóttir, talsmaður fylkingarinnar, hefur ýtt undir það tal, líklega helst til að skaprauna Ingibjörgu Sólrúnu, því að þau Stefán Jón höfða til svipaðs hóps fólks meðal vinstrisinna.
Vandræði vinstrisinna eru ekki bundin við Ísland, því að víða annars staðar í Evrópu berjast þeir innbyrðis af mikilli hörku. Ágreiningurinn innan forystu þýskra jafnaðarmanna blasir við öllum. Gerhard Schröder á mjög undir högg að sækja og tapar hverjum kosningunum eftir aðrar. Er þó minna gert úr því en þegar hallaði undan fæti hjá Helmut Kohl og hafði hann þá setið í næstum 20 ár við völd. Sömu sögu er að segja um vinstrisinna í Bretlandi, þeir eru síður en svo á eitt sáttir. Ég las til dæmis mikla árasargrein á Tony Blair í þann mund sem þing breska Verkamannaflokksins var að hefjast, þar var hann sakaður um að vega að hugsjónum flokksins, vera andvígur öllum þorra flokksmanna og vilja í raun uppræta sterkustu stoðir flokksins. Þetta var ekki eftir hægrisinnaðan andstæðing heldur Roy Hattersley, sem á sínum tíma var einn af ráðherrum Verkamannaflokksins og í fremstu röð hans.
Þriðjudaginn 5. október rituðum við fjármálaráðherra og Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, undir samning um fjárhagsleg samskipti HÍ og ríkisvaldsins. Með því má segja, að stigið hafi verið lokaskref í mestu breytingum á samskiptum ríkisins og háskólans frá því að hann var stofnaður árið 1911. Hefur þó ekki verið mikið fjallað um þetta á opinberum vettvangi, líklega vegna þess hve friðasmlega hefur verið staðið að lausn þeirra viðkvæmu mála, sem þarna hafa verið til umræðu.
Ég gaf þennan sama dag út reglur um það við hvað skuli miðað, þegar hugað er að fjárveitingum ríkisins til skóla á háskólastigi. Allt háskólanám hefur verið flokkað og settir á það verðmiðar, ef þannig má að orði komast. Verður nú gengið til samninga við aðra háskóla á þessum forsendum og að því er stefnt, að fjárhagsleg samskipti við þá alla byggist á þessum almennu reglum.
Í fjárlagafrumvarpinu er að finna nákvæma greinargerð um það, hvernig staðið er að fjárveitingum til franhaldsskóla á grundvelli samninga og reiknireglna, sem gilda um þá. Hafa slíkar upplýsingar um einstaka skóla aldrei verið birtar áður. Er ætlunin að framvegis verði með sama hætti unnt að fylgjast með kostnaði við nám í háskólum.
Samningar við stofnanir hafa það meðal annars í för með sér, að fjármál þeirra er lögð fyrir alþingi með öðrum hætti en áður. Aðilar, sem gert hafa með sér samning, eru einnig búnir að skuldbinda sig til að ræða sín á millli um þau mál, sem undir samninginn falla og koma sameiginlega fram til að verja samninginn. Allir slíkir samningar eru af ráðherra gerðir með fyrirvara um samþykki alþingis, því að fjárveitingavaldið er hjá því, hins vegar hefur alþingi ekki forsendur til að breyta efni samninga, sem aðilar hafa gert sín á milli.
Samningurinn við Háskóla Íslands er um kostnað vegna kennslu í skólanum en snýst ekki um rannsóknaþáttinn í starfi skólans. Hefjast bráðlega viðræður um hann.