3.10.1999

Suður-Afríka

Suður-Afríka er heillandi og fallegt land, þar sem unnt er að sjá hina mestu náttúrufegurð til lands og sjávar. Hitt er ekki síður heillandi og forvitnilegt að komast í nokkur tengsl við þjóðina eða þjóðirnar, sem byggja landið. Þar eru ellefu tungumál viðurkennd sem opinber mál og knúið er á um að hið tólfta bætist í hópinn. Menningarstig þjóðarinnar spannar allt frá því, sem við köllum frumstæða menningu skógarbúanna, til hins besta, sem menning Afríku, Asíu og Evrópu hefur að bjóða auk þess sem hnattvæðingin undir amerískum áhrifum setur sterkan svip á þjóðlífið.

Ég dvaldist í fyrsta sinn nokkra daga í S-Afríku í apríl 1994, þegar ég var sendur þangað til að fylgjast með fyrstu frjálsu kosningunum í landinu. Dvaldist ég þá í Jóhannesarborg og nágrenni hennar. Þá spáðu því margir, að ekki liði á löngu eftir að blámenn fengju stjórn landsins í sínar hendur, að öll þjónusta yrði verri og mannvirki myndu drabbast niður í hirðuleysi og taka fljótlega mið af því, sem sjá mætti í nágrannaríkjunum. Minnist ég þess, þegar við fórum saman í eina af Kringlunum við Jóhannesarborgar ég og samstarfsmaður minn við eftirlitið, Hugh Macmillan hvítur sagnfræðiprófessor við Lusaka-háskóla í nágrannaríkinu Zambíu. Varð hann dolfallinn yfir öllu vöruvalinu og glæsileikanum og sagði að heima hjá sér myndu menn telja sig vera komna í Paradís ættu þeir slíka byggingu með öllu því, sem þar var að finna.

Nú eru sem sé rúm fimm ár liðin frá því að þetta gerðist og Nelson Mandela hefur verið forseti þar til síðastliðið vor og leitt ríkisstjórn með þátttöku hvítra og svartra. Ekki sá ég nein merki þess á för minni um landið að þessu sinni og fór ég miklu víðar en 1994, að því hefði hnignað eða mannvirkjum væri illa við haldið. Að vísu var næsta skuggalegt að aka um hjarta Jóhannesarborgar á laugardegi og sunnudegi, þegar fáir voru þar á ferli. Minnti það nokkuð á kvikmynd um framtíðarheim, þegar enginn þorir út á götur af ótta við einhvern óþjóðalýð jafnvel frá öðrum höttum, sums staðar mátti meira að segja sjá hóp manna ylja sér við eld í tunnu. Jafnt innlendir menn í S-Afríku sem útlendingar átta sig fljótt á því, að skynsamlegt er að taka viðvaranir um að gæta fyllsta öryggis alvarlega. Á þeim tíu dögum sem við Rut dvöldumst þarna núna með nokkrum hópi fólks frá öllum Norðurlöndunum varð ég ekki var við að neinn í hópnum yrði fyrir óþægindum vegna áreitis eða þjóðfnaðar.

Erindið var að leggja formlega lokahönd á norrænt menningarverkefni Shuttle '99, samvinnuverkefni milli listamanna á Norðurlöndunum og í S-Afríku, sem Norræna ráðherranefndin hefur stutt. Kom það í minn hlut að verða fulltrúi ráðherranna, þar sem Ísland fer með nú með formennsku í ráðherranefndinni. Við fórum til Jóhannesarborgar, Durban við Indlandshaf og Höfðaborgar (Cape Town) á suðurodda álfunnar í embættiserindum. Síðasta sólarhringin notuðum við Rut síðan til að fara í safari-ferð í þjóðgarði um 200 km fyrir norðan Jóhannesarborg, þar sem sjá má fjölda dýra- og jurtategunda á gömlu eldfjallasvæði.

Ef segja ætti frá öllu, sem fyrir augu bar, mætti rita um það heila bók. Eftirminnilegt er til dæmis að að hafa verið í Joubert-garðinum í hjarta Jóhannesarborgar um hádegisbil á sunnudegi og kynna þar formlega fimm barnabækur sem urðu til í samvinnu s-afrískra og norrænna rithöfunda, einkum íslenskra, undir stjórn Íslendinga í samræmi við verkaskiptingu norrænu þjóðanna við framkvæmd verkefnisins. Ganga síðan um garðinn sem iðaði að lífi og heyra frásagnir af því, að nokkur áhætta hefði verið tekin með því að boða þarna til listahátíðar, af því að venjulega þyrði enginn, hvorki svartir né hvítir, að fara inn í garðinn af ótta við útgangsfólk og fíkniefnaneytendur. Allt í kringum garðinn eru fjölbýlishús svartra og sagði fylgdarkona okkur, að foreldrar skyldu börn sín eftir í húsunum, þegar þau færu til vinnu, og væru þau þar í sérstökum sameiginlegum herbergjum undir umsjá allan daginn og fengju almennt ekki að fara undir bert loft hvað þá út í garðinn. Nú væri ætlunin að reyna að breyta þessu og hátíðin þennan sunnudag var meðal annars liður í því að endurheimta garðinn fyrir börn og hinn almenna borgara.

Hitt var ekki síður spennandi að fara um Durban og heimsækja meðal annars barnadeild á sjúkrahúsi, þar sem unnið var að myndlistarverkefnum með berklaveikum börnum undir merkjum Shuttle '99. Sjá gleði þeirra við að fá tækifæri til að taka þátt í skapandi starfi og njóta þess að vera saman við að teikna myndir eða fá í fyrsta sinn tækifæri til að handleika ljósmyndavél og taka myndir að eigin vali og hengja upp til sýningar.

Í Durban mættast menningarstraumar frá Indlandi, Afríku og Evrópu. Galdurinn er að virkja þessa strauma til að skapa eitthvað nýtt og stuðlaði Shuttle '99 meðal annars að því. Fórum við í menningarmiðstöð við höfnina í borginni og kynntumst þar viðleitni til að ýta undir samstarf listamanna úr ólíkum menningarheimum. Þess má geta, að Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari lék á tónleikum með sinfóníuhljómsveit á hinum formlegu lokatónleikum verkefnisins hinn 30. september, en þá vorum við Rut komin heim aftur.

Í Höfðaborg kom það í minn hlut að taka við menningarverðlaunum til Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir Shuttle '99. Var verkefnið valið til verðlauna af sérstakri s-afrískri dómnefnd og var talið besta erlenda stuðningsverkefnið á menningarsviðinu árið 1999. Við sama tækifæri tóku s-afrískir listamenn, útgefendur og gagnrýnendur við verðlaunum. Þar fórum við einnig í Bókamiðstöð og ræddum við forstöðukonu hennar. Á göngu um miðstöðina bar það við að til okkar kom ung stúlka og ávarpaði okkur á íslensku. Var þar komin Jóhanna Júlía Jochumsdóttir, sem sagðist stunda nám í mannfræði við Háskólann í Höfðaborg og væri hún þarna að safna efni vegna þess verkefnis í námi sínu að kanna viðtökur almennings við menningardegi, sem einmitt var haldinn þennan dag. Sannaði þetta enn einu sinni, hve heimurinn er lítill og hvernig tilviljanir geta leitt fólk saman, sem vissi ekki neitt hvert af öðru áður. Jóhanna Júlía sagðist vera eini íslenski nemandinn við þennan skóla og kannski alla háskóla í S-Afríku. Hafði hún verið þarna í rúmt ár en áður í Ísrael. Ég sagði við forstöðkonu safnsins, að þetta óvænta atvik staðfesti enn einu sinni, hver bókmenntir væru mikilvægar fyrir okkur Íslendinga, við þyrftum ekki annað en fara í Bókamiðstöð til að hittast fyrir tilviljun á fjarlægum slóðum.

Ferð okkar til S-Afríku var í raun tvískipt því að fyrir utan að taka þátt í hinu norræna verkefni ræddi ég við ráðherra í ríkisstjórn S-Afríku um tvíhliða samskipti landa okkar. Hitti ég Ben Ngibeni menningarmálaráðherra og að sjálfsögðu einni Brigitte Mabandla aðstoðar-menningarmálaráðherra, sem kom hingað til lands í byrjun september á ferð sinni um Norðurlöndin, var hún suður-afrískur verndari Shuttle '99. Hún hefur mikinn áhuga á að efla samskipti við Ísland ekki síst varðandi varðveislu tungunnar og tungutækni auk þess sem áhugi er á samstarfi á öðrum sviðum, ekki síst varðandi fiskveiðar en fyrirtæki á borð við Marel, Hampiðjuna og Sæplast hafa þegar haslað sér völl í landinu.

Frú Mabandla bauð öllum norræna hópnum til Robben-eyju rétt fyrir utan Höfðaborg, þar sem Nelson Mandela og flestir forystumenn í frelsisbaráttu svartra gegn aðskilnaðarstefnunni voru í fangelsi, árum og áratugum saman. Var einn fyrrverandi fanganna hr. Denmark, sem nú er aðstoðarforstjóri safns á eyjunni, leiðsögumaður okkar um fangelsið, námuna, þar sem fanganir voru við þrælkunarvinnu, og annað sem við skoðuðum þarna. Er eyjan nú á leið inn á heimsminjaskrá UNESCO, og verður varðveitt fyrir pólitískt og sögulegt gildi sitt. Hafa stjórnvöld í S-Afríku lagt mikið fé í að búa þannig um á eyjunni, að sem flestir geti farið þangað í einskonar pílagrímsferð og fræðst um aðstæður þeirra, sem lögðu grunn að núverandi stjórnarháttum í landinu og sigrinum á hvítum aðskilnaðarsinnum. Undir forystu Mandela nýttu hann og menn hans tímann á eyjunni til að menntast og mennta aðra og búa sig undir að ná völdum í landinu. Fangelsið er því ekki aðeins til marks um það harðræði, sem frelsissinnar máttu þola, heldur einnig staðurinn, þar sem menn þjálfuðu sig og aðra til að geta stjórnað landinu, eftir að lýðræði næði undirtökunum.

Þá bauð frú Mabandla okkur einnig í ferð út á Góðravonarhöfða, sem er í tæplega tveggja tíma akstursfjarlægð frá Höfðaborg. Þar segja S-Afríkumenn, að höfin mætist, Indlandshaf og Atlantshaf. Indlandshafsmegin á skaganum getur sjórinn verið meira en 20 gráðu heitur en aðeins fimm til sjö Atlantshafsmegin. Er meðal annars ekið um vínekruhéruð landsins, en í fáum löndum eru vín betri en í S-Afríku. Einnig sáum við strúta og mörgæsir á ferð okkar. Mörgæsir búa á nokkrum eyjum undan strönd S-Afríku en hafa aðeins tekið sér bólsetu á tveimur stöðum á meginlandinu og heimsóttum við annan þeirra.

Okkur kom á óvart, að ekki skyldi vera hlýrra en raun var í Durban og Höfðaborg. Þótti heimamönnum heldur kalt í lofti og vorið kæmi frekar seint. Í Jóhannesarborg var hitinn hins vegar eins og við væntum 25 til 30 stig.

Flugið frá London til Jóhannesarborgar tók 11 tíma með s-afríska flugfélaginu, flogið er suður og norður aftur að nóttu til, svo að segja má að tíminn nýtist vel, ef manni tekst að ná sæmilegum svefni í vélunum. Klukkan í S-Afríku er tveimur tímum á undan okkar, svo að ekki er um óþægilega mikinn tímamun að ræða, þegar þangað er farið.

Við komum með mjög góðar minningar úr þessu ferðalagi. Í samtölum við fólk skynjar maður, að nokkur óvissa er í hugum þess um framtíð landsins og hvort takist að skapa það jafnvægi áfram, sem tryggir góða framvindu þjóðfélagsmála. Við valdaskiptin í kosningunum 1994 var samið um umþóttunartíma, sem nú er brátt runninn á enda. Hann tryggði meðal annars opinberum embættismönnum í stjórn hvítra setu í embættum sínum um ákveðinn árafjölda. Sumir telja, að við lok umþóttunartímans verði þessu fólki ýtt til hliðar og við það geti orðið mikið umrót. Margir svartir telja hvíta enn hafa of mikil ítök og verði að stugga við þeim. Glæpir eru tíðir í landinu, rán og morð. Var sagt, að ástæðan fyrir því væri meðal annars sú, að hugsunarháttur aðskilnaðarstefnunnar réði enn of miklu í lögreglu- og refsikerfinu. Í blöðum mátti lesa, að menntamálaráðherrann sagði kennurum stríð á hendur og hvatti þá til að sinna störfum sínum af meiri alúð en láta af kröfum um hærri laun. Sorglegast var að heyra lýsingar á því, að ekki hefði tekist að stöðva útbreiðslu alnæmis. Raunar breiðist það jafnt og þétt út, þrátt fyrir harða baráttu gegn því. Herjar það helst á ungt menntafólk, sem ætti að gera sér betur grein fyrir því en aðrir, hvað er í húfi, sé ekki varlega farið. Í landinu þar sem læsir og skrifandi eru tiltölulega fáir, er það sérstaklega mikið áfall og áhyggjuefni ef sá hópur fellur helst fyrir þessum banvæna sjúkdómi, sem sækir með vaxandi þunga gegn öllum þjóðum Afríku.

Á ferðalagi okkar hlýddum við víða á tónlist og horfðum á hrífandi dans. Mest kom á óvart að heyra, að kórsöngur væri vinsælasta grein tónlistar í landinu. Eru það ekki síst fámennir karlakórar, sem halda uppi þeirri hefð. Var okkur til dæmis sagt frá því, að í Durban væri á laugardagskvöldum unnt að fara á skemmtistað eða í tónleikahús og hlusta á þessa kóra keppa fram á morgun næsta dags. Einnig er djass vinsæll og hlýddum við hann fluttan með miklum ágætum. Við hittum víólukeikara frá Bretlandi, sem hefur undanfarin misseri þjálfað ungmenni í hljófæraleik í Soweto, hinni frægu svörtu útborg Jóhannesarborgar. Heitir hópurinn Buskaid og var meðal þeirra, sem fékk menningarverðlaun í Höfðaborg. Kennarinn sagðist ekki hafa kynnst svo hæfileikamiklu ungu fólki í Evrópu eins og úr þeim stóra hópi, sem hún hefði kynnst í Soweto. Væri greinilegt, að þar væru fjölmargir með tónlistina í æðum og hæfileikann til að túlka hana. Danskur ferðafélagi okkar fór í menntaskóla og hlustaði þar á þrjá skólakóra syngja. Þegar hann sagði okkur frá því morgunverðarborðið, hve glæsileg ungmennin voru og hve vel þau hefðu sungið, tárfelldi hann.

Það er í stuttu máli mikil tilfinningareynsla að ferðast um S-Afríku. Andrúmsloftið er ekki síður þannig núna en fyrir fimm árum, þegar ég var þar við kosningaeftirlit. Gleymi ég aldrei kvöldinu sem eftirlitsmenn hvaðanæva að úr landinu komu saman til síðasta kvöldverðar fyrir heimferð. Hitti ég þá þingmann frá Sviss, sem var um sjötugt og hafði áreiðanlega háð margan og harðan pólitískan slag. Ég spurði hann, hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa verið settur til eftirlits skammt frá Durban og farið um fámenna staði. Ég spurði, hvort honum hefði ekki verið vel tekið. Hann sagði jú, og fór þá að gráta, því að hann hefði aldrei kynnst öðru eins þakklæti og hjá því fólki, sem hann hitti og var að njóta lýðræðis í fyrsta sinn.

Grát, ástkæra fósturmold, skrifaði Alan Paton fyrir um hálfri öld, þegar aðskilnaðarstefnan var að koma til sögunnar. Hún rann sitt skeið eins og aðrar einræðisstefnur 20. aldarinnar. Takist S-Afríkumönnum að festa lýðræði í sessi og virða menningu, siði og hefðir hver annars mun þeim vegna vel. Er ekki síður mikilvægt að leggja þeim lið á þessum sviðum en við gerð mannvirkja eða í viðskiptum. Er ég sannfærður um að Norðurlöndin hafa tekið heillavænlega ákvörðun með Shuttle '99 verkefninu og framkvæmd þess. Því er ekki lokið, vegna þess að sköpuð hafa verið tengsl milli um það bil 1000 listamanna sem eiga eftir að þróast og dafna á eigin forsendum. Mun það aldrei líða okkur úr minni að sjá öll börnin í Joubert-garðinum í Jóhannesarborg ganga um með bækurnar, sem við komum með frá Íslandi og eiga vonandi eftir að opna fyrir þeim nýja veröld.