5.9.1999

Léleg málsvörn - hugarburður um RÚV

Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og málsvari Jóns Ólafssonar, sem kenndur er við Skífuna, ritaði grein í Dag þriðjudaginn 31. ágúst, þar sem hann veitist að okkur nokkrum, sem hann telur greinilega helstu andstæðinga umbjóðanda síns, jafnt á viðskiptasviðinu og að því er virðist almennt á vettvangi þjóðfélagsins. Er þessi samsetningur allur hin furðulegasti, því að á milli illmælgi og palladóma er vitnað í bókarkafla, sem eiga að mati höfundar að vera málstað hans til framdráttar.

Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur leitað til lögfræðings í því skyni að ómerkja orð Sigurðar um sig. Reiði Sigurðar í minn garð byggist á því, að ég birti hér á heimasíðu minni orðrétta smágrein Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors, þar sem meðal annars er vikið að samskiptum R-listans og Jóns Ólafssonar. Af þessu tilefni skýrir Sigurður frá því, að ég hafi gert mitt til að eyðileggja viðskipti, sem Jón Ólafsson hafi verið að vinna að. Síðan segir orðrétt: „Væntanlega hafa símtölin, sem menntamálaráðherra átti þá við viðsemjendur Jóns ekki geymt sérstaka lofgjörðarrullu um Jón."
Mér er hulin ráðgáta, hvað hæstaréttarlögmaðurinn er að fara og undrast mjög, að lögmaður skuli telja slíkar dylgjur málstað sínum til framdráttar. Sigurður kallar mig síðan rógbera.

Reyndur og virtur lögfræðingur hafði á orði við mig í tilefni af þessari grein, að málatilbúnaður Sigurður G. Guðjónssonar væri ekki sæmandi lögmanni. Eitt er hafa geðslag til að setja slíkan texta saman, annað er hve mikla athygli samsetningurinn fékk, ekki síst hjá fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Vísað var til greinarinnar á forsíðu Dags en þar segir um greinina, að „vegna umfangs hennar og fréttagildis birtir blaðið þessa aðsendu grein í heild sinni í opnu blaðsins." Fréttagildið felst í órökstuddum fullyrðingum um, að markvisst hefði verið unnið að því af hópi manna að eyðileggja viðskiptatækifæri Jóns Ólafssonar. Líklega hafa einhverjir lesendur greinarinnar velt því fyrir sér, að heldur séu andstæðingar Jóns Ólafssonar máttlitlir, því að við öllum blasir, að maðurinn hefur komið ár sinni vel fyrir borð í íslensku viðskiptalífi. Sjálfur segir Jón, að hann hafi ekki flutt úr landi vegna andstreymis í viðskiptum á Íslandi heldur vegna þess að hann vilji ekki láta börn sín búa í landi, þar sem menntastefna er í molum, eins og hann orðaði það í viðtali við DV.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigurður G. Guðjónsson ritar illskeytta blaðagrein til að halda fram málstað umbjóðanda síns. Þannig vakti athygli mína fyrir nokkru, að fjölmiðlar tóku ekki að ræða skeyti Hannesar Hólmsteins um R-listann, Ingibjörgu Sólrúnu og Jón Ólafsson, fyrr en Sigurður G. Guðjónsson ritaði árásargrein á Davíð Oddsson.

Oft hef ég varað við ýmsum fréttum, sem Sigurdór Sigurdórsson birtir í Degi. Enn er tilefni til að taka upp þennan þráð. Hinn 1. september segir Sigurdór, að ég hafi „oftar en einu sinni lagt til að RÚV verði selt." Þetta er hreinn hugarburður Sigurdórs. Ég hef þvert á móti oft sagt, að ég hafi ekki hug á því að beita mér fyrir einkavæðingu eða sölu á RÚV, hins vegar teldi ég nauðsynlegt að breyta rekstrarformi RÚV.

Eftir að Sigurdór hefur gefið sér þá forsendu, að stefna mín sé að selja RÚV, snýr hann sér til Hjálmars Árnasonar, er hann kynntur í fréttinni sem starfandi formaður þingflokks framsóknarmanna. Hjálmar segir: „Ríkisútvarpið verður ekki selt, það er alveg á hreinu. Það var fjallað um málefni RÚV á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins og þar var það samþykkt að RÚV yrði ekki selt“ Hafi ætlunin með þessari frétt Sigurdórs verið sú að draga fram ágreining milli mín og Framsóknarflokksins vegna hugmynda um sölu á RÚV, tekst það ekki, því að enginn slíkur ágreiningur er uppi.