Sérkennilegur flótti - símenntun og skólastarf
Í viðtali við DV segir Jón Ólafsson, sem kenndur er við Skífuna, að hann hafi ákveðið að flytjast úr landi vegna umhyggju fyrir menntun barna sinna, menntastefnan sé í molum hér á landi. Gefur Jón til kynna að íslenska menntakerfið sé verra en í því landi, þar sem hann býr núna, það er í Englandi. Hann færir ekki nein rök fyrir þessari fullyrðingu, enda bendir ekkert til þess að hið almenna skólakerfi í Bretlandi sé á nokkurn hátt líklegra til að búa nemendur betur undir lífið en hið íslenska. Á hinn bóginn berast stöðugar fréttir frá Bretlandi af tilraunum stjórnvalda þar til að reyna að hressa upp á grunnskólakerfið. Þar er verið að ræða um hugmyndir, sem hafa þegar verið kynntar hér á landi. Má þar til dæmis nefna áberandi rammafrétt í Morgunblaðinu á dögunum um að breski menntamálaráðherrann hafi boðað, að duglegir nemendur gætu farið hraðar upp úr grunnskóla en aðrir. Þetta er sjónarmið, sem ég kynnti hér snemma árs 1998 í nýju skólastefnunni, það er að duglegir nemendur gætu tekið grunnskólapróf úr 9. bekk í stað 10. Ég hef á hinn bóginn ekki heyrt, að breski menntamálaráðherrann treysti sér til þess að lýsa því markmiði, að allir framhaldsskólanemar í Bretlandi verði með eigin fartölvu og kennsluhættir í skólunum verði lagaðir að þeim kröfum. Þessu lýsti ég yfir í ræðu, sem ég flutti á ársþingi Sambands sveitarfélaga í Norðurlandi vestra föstudaginn 27. ágúst og sagt var frá í útvarpsfréttum sama kvöld.
Þessi hugleiðing í tilefni af því að Jóns Ólafsson segist hafa orðið að flýja land vegna þess að menntastefnan hér í molum og skólarnir ekki nógu góðir er kannski ekki á réttum rökum reist, því að vafalaust treystir hann ekki almenna breska skólakerfinu fyrir börnum sínum heldur sendir þau í dýra einkaskóla, þótt öryrkjar hér á landi hafi ákveðið að taka höndum saman um að styrkja hann vegna hinna lágu tekna, sem hann hefur samkvæmt skattframtali sínu.
Frásögn DV af umsvifum Jóns í íslensku athafnalífi og viðtalið við hann er með því skringilegasta, sem sést hefur lengi í íslensku dagblaði. Umræður í breskum fjölmiðlum væru á annan veg um svo umsvifamikinn og umdeildan athafnamann. Þeir, sem hafa fylgst með því, hvernig fjallað er um það, ef og þegar breskir fjölmiðlar taka sig til og verja hlut athafnamanna á óeðlilegan hátt, vita að fjölmiðlun hér á landi er hreinn barnaleikur. Í Bretlandi hefur barátta um yfirráð yfir fjölmiðlum meðal annars mótast af því, að andstæðingar í viðskiptalífinu hafa reynt að treysta stöðu sína með því að eignast fjölmiðla. Þeim er síðan oft beitt af töluverði heift gegn þeim, sem eigandanum þykir standa í vegi fyrir sér.
Raunar er athyglisvert, hvert gagnrýnendur í fjölmiðlum seilast til að rökstyðja ýmsar fullyrðingar sínar. Illugi Jökulsson veitist til dæmis að nýskipan vísindasiðanefndar á heilbrigðissviði í síðasta pistli sínum og telur það máli sínu til stuðnings, að gagnrýna mig fyrir að skipa skrifstofustjóra menntamálaráðuneytisins í nefndina, þar sem til þess kunni að koma, að hún þurfi að segja álit sitt á frumvarpi til laga frá menntamálaráðherra. Athugum þetta nánar: í hvaða tilvikum er líklegt, að menntamálaráðherra flytti lagafrumvarp, sem snertir heilbrigðissviðið með þeim hætti að falli undir vísindasiðanefnd? Veit Illugi ekki hvert er verksvið nefndarinnar, sem hann fjallar um af svo miklum fjálgleik?
Ekki dylst neinum, sem fylgist með sviptingunum vegna sölunnar á FBA-bréfunum, að skylda stjórnmálamanna til að fylgjast með þróun í fjármálaheiminum hverfur ekki við einkavæðingu. Í þessu máli er annars vegar um það að ræða, að gagnrýnt er hvernig farið hefur verið með bréf, sem ríkið hefur þegar selt, og hins vegar er hugað að því, hvernig best sé að selja þau bréf, sem enn eru í eigu ríkisins, með það fyrir augum að fá sem mest fyrir þau. Davíð Oddsson forsætisráðherra hefur tekið afdráttarlausa forystu í umræðunum og lagt spilin á borðið af þeirri einurð og heiðarleika, sem er helsti styrkur hans sem stjórnmálamanns. Fyrir okkur sem sátum þingflokksfund sjálfstæðismanna síðastliðinn mánudag, þar sem þessi mál voru til umræðu, var lærdómsríkt að sjá síðan frásögn af þessum fundi með flennistórri forsíðumynd í DV daginn eftir, sem var greinilega hreinn tilbúningur í því skyni að gera hlut Davíðs sem verstan. Héldum við margir, að sá tími væri liðinn í íslenskri blaðamennsku, að menn skrifuðu svokallaðar fréttir á þann veg sem hentaði einhverjum annarlegum hagsmunum blaðs eða eigenda þess. Samskonar uppspunafrétt birtist síðan á forsíðu Dags í vikunni, þar sem fullyrt var að Davíð hefði átt í einhverju leynimakki vegna FBA. Elías Snæland Jónsson, ritstjóri Dags, fjallar ekki um þetta mál á hlutlægum forsendum heldur með það að markmiði að koma í veg fyrir að fyrirtæki, sem hann telur höll undir Sjálfstæðisflokkinn eignist verulegan hlut í FBA.
Ef menn telja ástæðu til að leita sér skjóls í Bretlandi vegna þess hve íslenska menntakerfið er lélegt, ættu kannski einhverjir að hugsa sig tvisvar um þátttöku í opinberum umræðum á Íslandi, á meðan fjölmiðlar haga sér á sama veg og við höfum séð dæmi um í þessum FBA-umræðum. Forsætisráðherra vék skýrlega að þessum vanda í sjónvarpsfréttum, þegar hann lýsti skilningi á viðleitni fréttamanna til að þóknast húsbændum sínum.