22.8.1999

Hólaræða túlkuð - SUS-kosningar

Hólaræða túlkuð - SUS-kosningar 22. 08. 99

Hvarvetna velta menn því fyrir sér, hver sé framtíð Rússlands. Hvernig takist að skapa jafnvægi í stjórnmálum landsins eftir hrun kommúnismans. Boris Jeltsín forseti minnir einna helst á Leonid Brezhnev, sem sat áfram í leiðtogasæti kommúnistaríkisins, þótt öllum væri ljóst, að heilsa hans leyfði það ekki. Voru sagðar margar sögur af því, hve elli og hrumleiki léki hann grátt. Minnist ég þess til dæmis, að hafa hitt sendiherra erlends ríkis, þegar hann var nýlega kominn frá athöfn, þar sem hann hafði setið nálægt Brezhnev. Spurði ég hann, hvort því væri rétt lýst í fjölmiðlum, að Brezhnev virtist út úr heiminum. Sendiherrann komst þannig að orði, að hann minnti helst á gangandi múmíu eða vaxmynd, sem væri látin hreyfa sig. Þá var frægt, þegar Brezhnev fékk bæði frumrit og ljósrit af ræðu og las hverja blaðsíðu tvisvar án þess að veita því athygli. Kremlarbóndinn virðist ekki kominn á þetta stig en Jeltsín hefur mátt þola erfið veikindi og fer heilsubrestur hans ekki fram hjá neinum.

Umræður um stjórnarfar í Rússlandi taka ekki aðeins mið af þessu heldur einnig þeirri staðreynd, að skilin á milli þess sem er löglegt og ólöglegt virðast horfin. Er þetta ekki aðeins áhyggjuefni fyrir þá, sem eru í Rússlandi, heldur ekki síður alla nágranna og samstarfsaðila þessa mikla ríkis. Hafa stjórnmálamenn, sérfræðingar og fjölmiðlamenn um heim allan látið orð falla um þennan vanda og lýst áhyggjum vegna hans. Er það samdóma álit, að hin ólöglegu öfl, mafía og aðrir slíkir hópar, hafi alltof sterk ítök í Rússlandi. Þurfi að hafa þessa staðreynd í huga við allt mat á þróun í landinu og þá jafnframt við mat á áhrifum Rússa í alþjóðlegu samhengi.

Fræg voru ummæli Margaret Thatcher, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, eftir að hún hafði hitt Mikhaíl Gorbatsjov í Bretlandi, þegar hann var lítt þekktur en á hraðri uppleið í valdakerfi sovéskra kommúnista. Thatcher sagði, að hún gæti átt samskipti við þennan mann. Var það gæðastimpill, sem dugði Gorbatsjov vel. Þess verður ekki vart núna, að vestrænir stjórnmálamenn treysti sér til að lýsa ánægju með þróunina í Rússlandi. Þvert á móti lýsa þeir áhyggjum sínum með misjafnlega þungum orðum og vara við áhrifum af þessari þróun í eigin löndum. Alþjóðavæðing glæpastarfseminnar er alkunn og til dæmis mikill vandi fyrir banka og fjármálastofnanir að vara sig á þeim, sem hafa mikla þörf fyrir peningaþvætti. Er fátt betra fyrir slíka aðila en ná tangarhaldi á einhverri fjármálastofnun og láta hana sveigja innri reglur sér í hag.

Davíð Oddsson forsætisráðherra lýsti skoðun sinni á þróun mála í Rússlandi í ræðu á Hólahátíð sunnudaginn 15. ágúst. Minnti hann á, að rússneska stjórnkerfið og efnahagslífið virtist um þessar mundir einkum lúta lögmálum glæpalýðs og eiturlyfjabaróna. Ítrekaði hann, að margir stjórnmálaforíngjar teldu þetta mestu ógnun, sem nú væri við að eiga á Vesturlöndum. Taldi hann þetta víti til varnaðar fyrir okkur Íslendinga, sem hefðum nýlega opnað hagkerfi okkar, við yrðum að gæta þess að verða ekki leiksoppur slíkra afla.

Varnaðarorð Davíðs voru í fullu samræmi við það, sem ráðamenn annarra þjóða hafa látið falla um hættuna í Rússlandi. Strax sama dag og forsætisráðherra flutti þessa ræðu tóku fjölmiðlamenn sér hins vegar fyrir hendur að túlka hana á þann veg, að hún snerist í raun um íslenska einstaklinga. Þróuðust þessar umræður í fjölmiðlum fram eftir vikunni. Illugi Jökulsson flutti pistil um málið í hljóðvarp ríkisins fimmtudaginn 19. ágúst og birtist hann daginn eftir í Degi með stórri mynd af Jóni Ólafssyni, sem er kenndur við Skífuna. Gat lesandinn ekki dregið aðra ályktun en þá, að Davíð hafi verið að fjalla um Jón en ekki ástandið í Rússlandi.

Þegar stjórnmálamenn gera eitthvað, sem fjölmiðlamönnum þykir miður, er oftast gripið til þess að setja orð þeirra og gerðir í alþjóðlegt samhengi. Samanburðarfræðin miða síðan að þeirri niðurstöðu, að íslensku stjórnmálamennirnir séu ívið verri en hinir útlendu, því að þeir hefðu örugglega sagt af sér við svipaðar aðstæður. Þegar fjölmiðlamenn henda orð stjórnmálamanna á loft með sama hætti og gert hefur vegna ræðunnar, sem Davíð Oddsson flutti á Hólahátíð, má spyrja, hvernig framganga þeirra standist alþjóðlegan samanburð. Líklega fengju þeir ekki háa einkunn, því að þeir draga eigin ályktanir af ræðu ráðherrans og krefjast þess síðan, að hann geri þær að sínum! Hef ég lesið marga dálka og hlustað á marga pistla í erlendum fjölmiðlum, þar sem menn leggja út af orðum stjórnmálamanna og túlka þá með sínum hætti. Er þetta sjálfsagt og eðlilegt fyrir þá, sem hafa atvinnu af slíku. Hitt er skrýtnara, að heimta þá skýringu af manninum, sem ræðuna flutti, að hann samþykki túlkun útleggjarans, sérstaklega þegar hún lýtur að því gera hlut ræðumannsins sem verstan að mati túlkandans. Þessi sérstaka umræðuhefð skilar litlu til skilnings á vandasömum viðfangsefnum.

Við ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fórum föstudaginn 20. ágúst til Vestmannaeyja og tókum þar þátt í umræðum á fyrsta degi þings Sambands ungra sjálfstæðismanna með því að svara fyrirspurnum þingfulltrúa. Voru þetta málefnalegar og skemmtilegar umræður. Í viðræðum við þingfulltrúa skynjaði maður spennuna, sem ríkti vegna formannskjörsins. Tveir öflugir frambjóðendur sóttu eftir að ná formannskjöri, en Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður minn, gaf ekki kost á sér til endurkjörs, þar sem hún er farin til framhaldsnáms í Harvard-háskóla.

Dagblaðið Dagur hefur lagt sig fram um að tengja nafn mitt við annan frambjóðandann í formannskjörinu, Sigurð Kára Kristjánsson, af því að ég þáði boð hans um að sækja opið kvöld á Hótel Borg í aðdraganda þingsins. Eftir að hafa komist að þessari niðurstöðu, tekur Dagur sér fyrir hendur að setja hana inn á annað pólitískt plan innan Sjálfstæðisflokksins og túlkar síðan eigin ályktun á þann veg, að um valdabaráttu sé að ræða, sem eigi rætur í varaformannskjöri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þar sem ég var alls ekki í framboði. Þessi pólitíska kjaftasaga Dags verður síðan Rannveigu Tryggvadóttur tilefni til að hringja í Velvakanda Morgunblaðsins, sem birtir sunnudaginn 22. ágúst ummæli hennar á þann veg, að slíkur stuðningur frá mér við Sigurð Kára, sem Dagur lýsi, lykti illa að hennar mati!

Leggst lítið fyrir Velvakanda, þegar hann tekur að sér hlutverk fornsögulegrar förukonu, sem flytur slúður á milli bæja, vonandi þó ekki í þeim tilgangi að koma illu af stað. Raunar skil ég ekki, hvers vegna Rannveig Tryggvadóttir kýs að snúast gegn Sigurði Kára á þessum forsendum. Helst hef ég skynjað, að Rannveigu sárni að faðir minn stóð að því á sínum tíma, að Bæjarútgerð Reykjavíkur kom til sögunnar og Sveinn föðurbróðir minn var þar stjórnarformaður um árabil. Hef ég heyrt Rannveigu flytja ræður um að þessari starfsemi hafi verið beint gegn föður hennar, Tryggva Ófeigssyni, miklum og góðum útgerðarmanni í Reykjavík.

Allt er þetta frekar langsótt og furðulegt, þegar hugað er að kjöri formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna 22. ágúst 1999. Eitt er víst, að hafi tilgangurinn verið að fæla fólk frá því að kjósa Sigurð Kára, heppnaðist það ekki. Hann hlaut 211 atkvæði en Jónas Þór Guðmundsson 143, sem er óvenjulega mikill munur, þegar barist er af þessari hörku um formennsku í SUS.