Landafundir - þjóðveldið
Fyrstu daga vikunnar efndi Stofnun Sigurðar Nordals til ráðstefnu undir heitinu Vestur um haf og snerist hún um ferðir norrænna manna á Norður-Atlantshafi og fund Ameríku. Kom það í minn hlut að www.cnn.com ráðstefnuna að morgni mánudagsins 9. ágúst. Staðfesti þátttaka í ráðstefnunni og áhugi margra víða um lönd á að láta þar að sér kveða og koma saman til umræðna um þessi málefni, að síður en svo er ástæða til að gera lítið úr þessum þætti Íslandssögunnar, þegar fjallað er um land og þjóð eða kynningu á Íslandi.
Nokkrar umræður hafa orðið um það, hvort ástæða sé fyrir okkur Íslendinga til að halda nafni Leifs Eiríkssonar á loft, þegar við vinnum að kynningu í Norður-Ameríku. Í Degi hinn 14. ágúst birtist viðtal við Ingu Dóru Björnsdóttur mannfræðing undir fyrirsögninni: Leifur heillar ekki Bandaríkjamenn, en hún var meðal ræðumanna á ráðstefnu Stofnunar Sigurðar Nordals. Heldur Inga Dóra því fram, að ekki sé vænlegt til árangurs fyrir Íslendinga að ná fótfestu í Bandaríkjunum með því að nýta sér Leif Eiríksson. Þá sé ljóst af rannsóknum, að Bandaríkjamenn telji helst, að Leifur sé sænskur.
Nauðsynlegt er að árétta, að þessar umræður um áhuga okkar Íslendinga á því að halda hlut Leifs Eiríkssonar fram til eigin kynningar í Bandaríkjunum eru ekki allskostar á rökum reistar. Staðreynd er, að árþúsundaskiptin vilja menn nota til að halda hlut Íslands betur fram í Norður-Ameríku en gert hefur verið. Hefur sérstök nefnd haft það verkefni að undirbúa þá kynningu og stórum fjárhæðum verður varið til að sinna þeim verkefnum, sem nefndin telur helst til þess fallin að styrkja stöðu okkar. Auk þess hefur hópur manna í Bandaríkjunum, sem vill efla kynningu á Íslandi þar til lengri tíma, kynnt tillögur og ríkisstjórnin ákveðið að vinna að framgangi þeirra. Þar er Leifur Eiríksson ekki í fararbroddi. Allt tilstandið á þó rætur að rekja til þess, að næsta ár verður þess minnst, að þúsund ár eru liðin frá því að Leifur fann Ameríku.
Í undirbúningi vegna hátíðarhalda í tilefni árþúsundaskiptanna eru það Bandaríkjamenn sjálfir, sem hafa beint athygli sinni mest að Leifi Eiríkssyni og félögum. Hef ég oft áður minnst á hina miklu sýningu, sem Smithsonian-safnið setur upp um vesturferðir víkinganna og Hillary Rodham Clinton forsetafrú og Bill Clinton forseti hafa einnig oftar en einu sinni minnst á Leif Eiríksson í tilefni af árþúsundaskiptunum og Ísland hefur fengið sérstakan sess í hátíðarundirbúningi Hvíta hússins af þessum sökum.
Er með öllu ástæðulaust fyrir Íslendinga að setja sig í þær stellingar, þegar minnst er á Leif, að hann sé til einhverra vandræða fyrir okkur annars vegar eða við treystum of mikið á nafn hans okkur til framdráttar hins vegar. Hitt er mikilvægt, að koma sem bestum upplýsingum um hin einstæðu siglingaafrek Íslendinga og annarra norrænna manna á framfæri í Bandaríkjunum og hvarvetna í veröldinni. Í því skyni er nauðsynlegt að efna til umræðna, kalla saman vísindamenn eins og Stofnun Sigurðar Nordals gerði og kynna niðurstöður þeirra sem best. Það á ekki að gefast upp fyrir fákunnáttu í Bandaríkjunum eða annars staðar heldur halda áfram að miðla upplýsingum á grundvelli haldgóðra heimilda. Sá grunur getur læðst að einhverjum, að þeir, sem telja Leif Eiríksson sænskan, sæki þá vitneskju til nafnsins á sænska símafyrirtækinu Ericsson. Sjálfsagt er að leiðrétta slíkan misskilning sé þess kostur.
Síðari hluta vikunnar var ég á Þingvöllum og sat þar ráðstefnu, sem bar heitið: A Legal Order without Government, the Icelandic Commonwealth, 930-1262 á vegum stofnunarinnar Liberty Fund í Bandaríkjunum. Var til hennar boðað til að ræða íslenska þjóðveldið og efni þriggja Íslendingasagna: Njálssögu, Hrafnkelssögu freysgoða og þáttarins um Halldór Snorrason. Auk Íslendinga voru þátttakendur frá Bandaríkjunum og Evrópu. Voru þetta skemmtilegar og fróðlegar samræður, sem sannfærðu mig enn um, hve þessar einstæðu bókmenntir auka skilning á flestum þáttum mannlegs samfélags fyrir utan einstætt listrænt gildi þeirra. Ljósið, sem brugðið var á ýmis viðfangsefni sagnanna og stjórnarhætti á þjóðveldisöldinni, auðveldar manni að skilja og skilgreina ýmsa þætti í samtíðinni. Auk þess er það eftirminnileg reynsla í sjálfu sér að velta fyrir sér muninum á afstöðu okkar Íslendinga annars vegar og erlendra fræðimanna hins vegar, en sumir þeirra voru að kynnast goðaveldinu og hetjum sagnanna í fyrsta sinn. Þá kom einnig fram, hve erfitt er að þýða ýmis heiti og hugtök þjóðveldistímans yfir á erlendar tungur. Sá vandi einn veldur því, að erlendir menn eiga erfiðara en ella að átta sig á þessu einstæða þjóðfélagi í upphafi Íslandsbyggðar.
Nokkuð hefur verið vitnað til þess í fjölmiðlum, sem stóð í síðasta pistli mínum. Til dæmis hefur Víkverji Morgunblaðsins tvisvar sinnum vísað til þess, sem sagði um hlut fjölmiðla við að upplýsa um einstök málefni. Hinn 12. ágúst segir Víkverji, að ég hafi furðað mig á því, að fjölmiðlar skuli ekki hafa gengið á borgarstjóra og R-listann „um svör við grein sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor ritaði í Morgunblaðið þar sem dylgjað er um að Jón hafi lagt fjármuni í kosningasjóð R-listans." Þeir, sem lesa þessi orð, gætu dregið þá ályktun, að ég hefði talið Hannes Hólmstein vera með dylgjur í grein sinni, svo er ekki. Hannes vísar þvert á móti til þess, sem Jón hefði sjálfur sagt honum, auk þess sem hann nefnir viðtal við fyrrverandi starfsmann Jóns í vikublaði sem heimild. Þetta óheppilega og villandi orðaval Víkverja kann að mega rekja til óvarkárni, það getur þó einnig endurspeglað þá skoðun ritstjórnar Morgunblaðsins, að ekki sé ástæða til að gera mikið með þetta mál, vegna þess að um dylgjur sé að ræða.
Umræður um lóðaúthlutanir í Laugaradal hafa nú leitt til þess, að forystumenn R-listans hafa boðað, að þeim sé ekki fast í hendi að heimila Landssíma Íslands og Jóni Ólafssyni að ráðast þar í framkvæmdir. Lokaleyfi til framkvæmdanna ráðist af því, hve margir mótmæli áformum R-listans í dalnum!