2.8.1999

Álit um háskólanám

Umboðsmaður alþingis gaf hinn 22. júlí 1999 álit vegna kvörtunar Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins og Blaðamannafélags Íslands yfir orðalagi auglýsingar menntamálaráðuneytisins um að laust væri til umsóknar starf framkvæmdastjóra hljóðvarpsdeildar Ríkisútvarpsins. Töldu formenn félaganna, þeir Jón Ásgeir Sigurðsson og Lúðvík Geirsson, að afdráttarlaus skilyrði, sem fram kæmu í auglýsingu og útilokaði stóran hóp félagsmanna framangreindra samtaka frá því að sækja um hið lausa starf hefði verið rýmkuð eftir að umsóknarfrestur rann út. Hefði með því verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Ég veitti þetta starf. Það var auglýst 11. janúar 1998 og rann umsóknarfrestur út 26. janúar 1998 en kvörtunin barst umboðsmanni 6. mars 1998. Kvörtunin laut að því að af orðalagi í auglýsingunni hefði mátt ráða að þess væri krafist að umsækjendur hefðu lokið háskólanámi með tiltekinni prófgráðu. Síðar hefði komið í ljós, að það hefði ekki verið skilyrði að háskólanámi væri lokið með prófgráðu, en sá umsækjandi, sem ráðinn hefði verið, hefði lokið rekstrar- og viðskiptanámi við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Byggðu félögin kvörtun sína á því, að afdráttarlaus skilyrði fyrir ráðningu í starfið hefðu verið tiltekin í auglýsingunni og að hin rúma túlkun menntamálaráðuneytisins á skilyrði um háskólanám hefði farið í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Í bréfi menntamálaráðuneytisins til umboðsmanns segir, að auglýsingin um starfið hafi ekki verið á neinn hátt villandi. Þar hafi þess verið krafist, að umsækjandi hefði lokið háskólanámi. Gera verði greinarmun á því og kröfu um háskólagráðu, almennt eða í ákveðinni grein. Bent er á, að háskólanám sé að taka miklum breytingum. Aukin áhersla háskólastofnana á endurmenntun og símenntun leiði af sér, að margir leggi hart að sér við nám með vinnu í því skyni að efla þekkingu sína og hæfni. Mikilvægt sé, að bregðast við slíkri viðleitni og framtaki með jákvæðum hætti og sanngirni af hálfu vinnuveitanda. Eigi þetta ekki síst við um þá, sem hvetji til símenntunar og endurmenntunar, en menntamálaráðherra sé í þeim hópi. Hefði það komið sem reiðarslag yfir marga, sem hafa nýtt sér þau námstilboð, sem eru fyrir hendi á háskólastigi, hér á landi og erlendis, ef umrædd auglýsing hefði verið túlkuð jafnþröngt og Blaðamannafélag Íslands og Starfsmannasamtök ríkisútvarpsins vildu.

Umboðsmaður leitaði einnig til háskólaráðs Háskóla Íslands, sem studdist við umsögn kennslumálanefndar ráðsins í svari sínu. Er svarið langt og fróðlegt, þegar litið er til þess, hvaða röksemdir eðlilegt er að hafa í huga við mat á háskólanámi. Var þessi umsögn háskólaráðs kynnt menntamálaráðuneytinu, sem sagðist ekki bundið af mati nefndarinnar auk þess sem eðli háskólanáms tæki örum breytingum. Ráðuneytið benti á, að á vegum Háskóla Íslands væri boðið þriggja anna rekstrar- og viðskiptanám, skipulagt í samvinnu Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og samsvaraði 18 einingum. Af umsögn kennslumálanefndar mætti ráða, að umsækjandi, sem fengi umrædda stöðu og fór í þetta þriggja anna rekstrar- og viðskiptanám, hefði lokið sérhæfðu námi á háskólastigi, sem kæmi til móts við tiltekna eftirspurn eftir starfsmenntun á háskólastigi. Ekki hefði verið auglýst eftir starfsmanni, sem hlotið hefði prófgráðu að loknu þriggja eða fjögurra ára námi.

Umboðsmaður reifar lagasjónarmið um álitaefnið og kemst að þeirri niðurstöðu, að samkvæmt auglýsingunni hafi menntamálaráðherra verið óheimilt að veita framkvæmdastjórastöðu hljóðvarps öðrum en þeim, sem lokið hefði háskólanámi, nema með því að auglýsa starfið laust á ný og orða skilyrðið um menntun með öðrum hætti. Umboðsmaður segir, að orðið háskólanám hafi ekki skýrt afmarkaða merkingu. Hann segir ekki unnt að fullyrða, að menntamálaráðuneytinu hafi verið óheimilt að túlka það skilyrði, sem ráðuneytið setti í auglýsingunni, með þeim hætti, að nám í rekstrar- og viðskiptafræðum frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands félli þar undir.

Niðurstaða umboðsmanns alþingis er, að ekki sé ástæða til að gera athugasemdir við þá túlkun menntamálaráðuneytisins, að þeir sem lokið hafi rekstrar- og viðskiptanámi frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands teljist uppfylla skilyrði auglýsingar um hið lausa starf framkvæmdastjóra hljóðvarpsdeildar Ríkisútvarpsins. Á hinn bóginn telur hann, að vanda hefði átt betur orðalag auglýsingarinnar eða auglýsa starfið á ný laust til umsóknar, þar sem ótvírætt væri hvaða skilyrði varðandi menntun væru gerð. Beinir hann því til menntamálaráðuneytisins, að í framtíðinni gæti ráðuneytið þess að orðalag auglýsinga um laus störf gefi ótvírætt til kynna hvaða menntunar og aðrar hæfniskröfur umsækjendur þurfi að uppfylla til þess að fá skipun eða ráðningu í viðkomandi starf. Umboðsmaður minnir jafnframt á að efni slíkra auglýsinga þurfi að taka mið af þeim breytingum sem orðið hafa á námsframboði og því með hvaða hætti námi sé lokið, og þá meðal annars í námi sem fram fer við þær menntastofnanir sem starfa á háskólastigi.

Umboðsmaður felst á niðurstöðu mína varðandi skipun í umrætt starf. Í því felst viðurkenning á þeirri staðreynd, að inntak háskólanáms er ekki einsleitt. Lög mæla ekki fyrir um, að framkvæmdastjóri hljóðvarps ríkisins skuli hafa háskólamenntun. Virðist löggjafinn þurfa að skilgreina inntak slíkrar menntunar, sé hún gerð að kröfu, ekki síður en sá, sem auglýsir starf, ef tekið er mið af áliti umboðsmanns. Ég sé í sjálfu sér ekki, hvers vegna ráðuneytið hefði átt að auglýsa þetta starf með öðru orðalagi eða auglýsa það að nýju, úr því að unnt var að fá niðurstöðu í álitaefninu með þeim hætti, að umboðsmaður gerir ekki athugasemd við hana. Hins vegar er álit umboðsmann til leiðsagnar um það, hvernig staðið skuli að slíkum auglýsingum framvegis í ljósi þeirra spurninga, sem vöknuðu í þessu máli.

Á vegum menntamálaráðuneytisins hefur verið tekið saman yfirlit yfir reglur, athugasemdir og álit, sem fram hafa komið vegna auglýsinga um opinber störf. Hefur mér helst dottið í hug gátlisti, sem flugmenn þurfa að fara yfir, áður en þeir halda af stað, þegar litið er til alls þess, sem hafa verður í huga svo að allra formreglna við auglýsingu á opinberu starfi sé gætt.