18.7.1999

Menningarmál og hægristefna

Ungir hægrimenn á Norðurlöndunum með þátttöku skoðanabræðra frá fleiri löndum efndu til funda hér á landi um helgina um hugmyndafræði hægrimanna og menningarmál. Menningarvitar á vinstri kantinum og marxistar, á meðan þeir þorðu að standa við úrelta þjóðfélagsskoðun sína, hafa löngum haldið því fram, að þeir væru bæði gáfaðri, listhneigðari og meiri bókmennta- eða menntamenn en við, sem fylgjum hægristefnu. Í kosningarbaráttunni núna í vor birtist þessi afstaða meðal annars á fundi, sem Bandalag íslenskra listamanna efndi til með frambjóðendum, þegar Sigurður A. Magnússon rithöfundur kvaddi sér hljóðs til að viðra skoðun sína á menningarleysi hægrimanna og taldi hana sanna það meðal annars, að þeim væri ekki treystandi fyrir Ríkisútvarpinu. Ég varð þess ekki var, að þátttakendur í fundinum tækju undir þessi sjónarmið Sigurðar, enda byggjast þau á deyjandi fordómum. Ekki er nóg með að vinstrisinnar telji sér trú um, að þeir séu bæði menningarlegri og gáfaðri en hægrimenn, heldur einblína þeir á þá í hópi okkar á hægri kantinum, sem vilja minnst ríkisafskipti og krefjast þess með töluverðum þunga, að ríkið hætti rekstri menningarstofnana eða stuðningi við þær og listamenn og tala um alla slíka viðleitni í nöldurtón. Hægrimenn þessrarar skoðunar eru líklega álíka margir og eldheitir skoðanabræður Sigurðar A. á vinstri kantinum, en fámennir hópar geta oft verið háværir eins og kunnugt er og sjónarmið þeirra ber að ræða eins og annarra, þótt umræðurnar verði fljótt næsta klisjukenndar.

Í menningarmálanefnd síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins urðu snarpar umræður um stefnu flokksins í menningarmálum, sem lyktaði á þann veg að viðunandi málamiðlun náðist og enginn getur með nokkrum rökum dregið í efa góðan stuðning okkar sjálfstæðismanna við listir og menningu. Á þessum áratug hefur menningarstarf í landi okkar blómstrað af meiri krafti en nokkru sinni fyrr. Treysta menn sem betur fer ekki á forsjá ríkisvaldsins í því efni heldur sýna listamenn á öllum sviðum æ meira frumkvæði sjálfir en bíða ekki eftir því sem verða vill undir handarjaðri ríkisins. Hitt er svo jafnframt staðreynd að á næsta ári, árinu 2000, er veitt meira fé af ríkisins hálfu til hvers kyns menningarviðburða en nokkru sinni fyrr vegna þeirra hátíðarhalda, sem þá standa fyrir dyrum. Byggist þetta á ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um kristnihátíð, landafundahátíð og aðild að öllu því, sem verður undir merkjum Reykjavíkur sem menningarborgar Evrópu.

Ég hafði tækifæri til að rabba við hið unga hægrisinnaða hugsjónafólk, sem hingað kom til að ræða menningarmál. Varð ég ekki var við gagnrýni á þá stefnu, sem hér er fylgt. Raunar held ég, að hluta af þeirri grósku, sem við sjáum í menningarlífi hér, megi rekja til þess, að ríkið heldur sig á ýmsan hátt meira til hlés í þessum málum en víða í nágrannaríkjunum, þar sem stjórnmálamenn vilja vera með veruleg pólitísk afskipti á þessum sviðum. Raunar felst það í vinstrimennsku, að stjórnmálamenn, sem aðhyllast hana, hafa þá trú, að þeir viti almennt allt betur en allur almenningur, þeir eru þannig sama sinnis og vinstrisinnaðir menntamenn, sem telja það eðlilegt hlutverk sitt að leiða og móta alþýðuna að eigin geðþótta.

Í sjálfu sér er ekki um það deilt í íslenskum stjórnmálum, að af opinberri hálfu skuli leita skynsamlegra leiða til að skapa listamönnum sem best starfsumhverfi á Íslandi. Ágreiningur er oft um leiðir á þessu sviði eins og öðrum. Er án efa farsælast að skilgreina hlut ríkisins sem minnstan en með öllu ástæðulaust að það dragi sig alfarið í hlé. Til dæmis er ég eindregið þeirrar skoðunar, að það brjóti síður en svo í bága við hægristefnu í stjórnmálum, að opinberir aðilar hlutist til um að skapa viðunandi skilyrði til listflutnings með því að beita sér fyrir, að reist sé tónlistarhús eins og nú er á döfinni. Lít ég slíkt mannvirki sömu augum og vegi, hafnir, flugvelli eða skólabyggingar.

Í gagnrýni á opinber útgjöld vegna menningarmála kemur oft fram metingur, sem byggist á persónulegum hagsmunum gagnrýnenda, sérstaklega þegar um það er að ræða, að þeir fái ekki styrk heldur einhver annar. Á slíkum tilfinningamálum er oft erfitt fyrir aðra að taka. Höfuðmáli skiptir að fylgt sé hlutlægum reglum og gætt leikreglna lögum samkvæmt. Miklu minna er um það en áður, að stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokkar séu sakaðir um klíkuskap í þessu efni. Raunar er það svo til dæmis, að úthlutun listamannalauna, sem löngum var mikið og heitt deiluefni, er nú í höndum fulltrúa listamannanna sjálfra. Auðvitað má gagnrýna slíkt kerfi á þeirri forsendu, að þar séu samstarfsmenn að skipta opinberu fé sín á milli. Spyrja má hvort á slíkri skipan sé meiri ágalli en til dæmis dómnefndum, sem segja álit sitt á þeim, sem sækja um stöður í opinberum háskólum eða æskja framgangs innan þeirra. Á þessu tvennu er þó sá munur, að unnt er að krefjast rökstuðnings með ákvörðun, ef manni er synjað um opinbert starf, en ekki ef maður fær ekki styrki á sviði lista, menningar og vísinda. Í skýringu á þessu ákvæði stjórnsýslulaganna um styrkina, segir, að slíkar ákvarðanir séu mjög oft háðar mati og því oft og einatt erfitt að rökstyðja þær með hlutlægum hætti.

Einkavæðingarstefna ríkisstjórnanna á þessum áratug hefur leitt til mikilla og góðra breytinga. Á næstu misserum verða lokaskrefin stigin varðandi símann og bankana. Þá eiga þeir, sem tala fyrir meiri einkavæðingu ekki í mörg önnur hús að venda en sjúkrahús, heilsugæslu, opinberar menningarstofnanir og skólana að ógleymdum ríkisfjölmiðlunum. Við eigum í vændum meiri umræður um stöðu þessara stofnana í þjóðfélaginu og hlutverk ríkisvaldsins. Mestu skiptir að við úrlausn þeirra mála sé ekki fallið í gryfju þeirra, sem telja vinstrisinna eina vita, hvað menningunni er fyrir bestu, eða hinna, sem telja það af hinu illa, að opinberum fjármunum sé varið til að skapa listum og menningarstarfi hæfilega umgjörð.