13.7.1999

Grjótaþorpið - leiðbeinendur

Grjótaþorpið - leiðbeinendur

Oddur Björnsson, íbúi í Grjótaþorpi, hafði um nokkurt skeið nýtt sér kosti tölvunnar og netsins til að senda þingmönnum og borgarfulltrúum bréf um ófremdarástandið í nágrenni við sig vegna skemmtistaða, áður en íbúar Grjótaþorps birtu kvartanir sínar opinberlega. Er öllum, sem hafa kynnt sér sjónarmið íbúanna, ljóst, að þeim er gróflega misboðið og telja nærri friðhelgi heimila sinna vegið með opinberum leyfum til Hlaðvarpans og Clubs Clintons. Vissulega er ekki unnt að bera starfsemi og markmið þessara veitingahúsa saman en fyrir þá, sem í nágrenninu búa, er ónæðið af svipuðum toga.

Umræður, sem sprottið hafa af kvörtun íbúanna, hafa farið um víðan völl eins og gjarnan verður í fjölmiðlum á þessum árstíma, þegar lítið fréttnæmt þykir gerast. Hér skal staldrað við framgöngu talsmanna R-listans, sem hefur meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar hefur Helgi Hjörvar, nýr forseti borgarstjórnar, einkum verið í forsvari. Hefur hann lagt sig í líma við að gera sem minnst úr málstað borgaranna og raunar beitt þeirri aðferð að gera hann hlægilegan með því að lýsa niðurstöðum hávaðamælinga á þann veg, að meiri hávaði hafi borist úr heimahúsi í þorpinu en frá skemmtistöðunum, þegar mælt var. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri hefur ekki heldur gripið kvartanir borgaranna á lofti og snúið þeim gegn veitingahúsaeigendum. Þá hefur verið látið að því liggja, að þetta fólk í Grjótaþorpinu hafi tekið þá áhættu að búa við óþægilegan hávaða á nóttunni og annað ónæði með því að velja sér búsetu í miðbæ. Því sé nær að flytja í rólegra hverfi en kvarta undan hávaða, sem fylgi alltaf miðbæ.

Fyrir nokkru bar svo við, að frá Faxamjöli á Norðurgranda barst ólykt, enda er þar rekin fiskbræðsla. Er þetta eina slíka fyrirtækið í Reykjavík og á sínum tíma, þegar leyfi var veitt til að það starfaði á þessum stað, voru ýmsir Reykvíkingar, einkum í vesturbænum, með hávær mótmæli af ótta við ólykt af verksmiðjunni. Hún var síðan reist í samræmi við ströngustu kröfur og er í raun lyktar- og reyklaus. Hafa forráðamenn hennar lagt sig fram um að hafa allt umhverfi hennar sem snyrtilegast og er athafnasvæði Granda á þessum slóðum til mikillar fyrirmyndar, eins og allir geta séð, sem þangað leggja leið sína.

Þegar ólyktin barst á dögunum, lýsti forstjóri Faxamjöls yfir vonbrigðum sínum vegna atviksins, skýrði það efnislegum rökum og hét umbóta af hálfu fyrirtækis síns. Í ljós kom, að farmur skips, sem landað var til vinnslu í verskmiðjunni var of stór til að hann héldist lyktarlaus fram yfir bræðslu. Rök í ólyktarmálinu voru meðal annars, að ferðamenn í borginni hefðu ekki kunnað að meta óþefinn. Þá taldi borgarstjórinn í Reykjavík sig í aðstöðu til að hóta fyrirtækinu lokun, ef ekki yrði komið í veg fyrir ólykt framvegis. Að vísu er líklega ekki á valdi borgarstjóra að loka verksmiðjunni af þessum sökum heldur heilbrigðisyfirvalda. Hvað sem því líður var hótun borgarstjórans skýr, höfðu þó ekki borist mótmæli á borð við þau, sem komu frá íbúum Grjótaþorps. Er með ólíkindum, ef R-listinn skirrist við að taka á málum í þorpinu á þann veg að komið sé til móts við réttmætar kvartanir íbúanna þar.

Þeir, sem fylgjast með yfirlýsingum talsmanna R-listans vegna viðfangsefna þeirra við stjórn borgarinnar, hljóta oft að verða undrandi. Þannig heyrði ég ekki betur en Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar, teldi það fjöður í hatti R-listans, að lóðaskortur væri í Reykjavík. Það sannaði aðeins, hve margir vildu flytjast undir hina ágætu stjórn R-listans! Var þetta sagt um svipað leyti og strætisvagnagjöldin voru hækkuð um 25%.

Eitt af fyrstu borgarstjóraverkum Davíðs Oddssonar, þegar Sjálfstæðisflokkurinn endurheimti meirihluta sinn í Reykjavík árið 1982, var, að útrýma lóðaskortinum í Reykjavík. Olli það mikilli og góðri breytingu í borginni. Það hefur aðeins tekið R-listann rúm fimm ár að skapa lóðaskort að nýju. Vöxtur á höfuðborgarsvæðinu hefur þó síður en svo stöðvast, eins og sést af framkvæmdum í Kópavogi og kynningu á nýju byggingarsvæði í Bessastaðahreppi á Álftanesi.

-----------

Umræður um stöðu þeirra kennara, sem njóta lögverndar, og annarra, sem í skólunum starfa, halda áfram. Ástæða er til að árétta þá staðreynd, að lög gera ekki ráð fyrir, að kennarar geti í krafti lögverndar komið í veg fyrir að skólar starfi. Fullyrða má, að alþingi hefði aldrei fallist á lögverndina, ef hún hefði leitt til einokunar. Uppsagnir kennara leiða óhjákvæmilega til þess, að fleiri leiðbeinendur verða kallaðir til starfa í skólum. Í kjölfar þess aukast kröfur sveitarfélaga um bætta réttarstöðu þessa fólks.

Við nýlega endurskoðun lögverndunarlaganna samþykkti alþingi tillögu mína um að draga úr kröfum um nám í uppeldis- og kennslufræðum hjá þeim, sem hafa góða sérfræðimenntun eða mikla reynslu í starfi sem iðnmeistarar. Snerust samtök kennara gegn þessum breytingum. Einnig var ferlið við afgreiðslu á undanþágubeiðnum endurskilgreint í samræmi við nýjar stjórnsýslu- og jafnræðiskröfur.