6.6.1999

Fylkingin mistókst - sagnfræði um landhelgi

Vinstrisinnar leita að skýringum á því, að þeim vegnaði ekki betur í kosningunum 8. maí. Í viðtali við Dag laugardaginn 5. júní segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, að Samfylkingin hafi ekki verið sannfærandi sem ein heild og því hafi henni ekki tekist að skapa sömu stemmningu og R-listinn 1994. Hins vegar hafi Samfylkinguna skort framtíðarsýn, fólk hafi ekki vitað fyrir hvað hún stóð.

Hvað felst í þessum orðum borgarstjóra? Í fyrsta lagi, að fylkinguna hafi vantað leiðtoga. Hvaða stjórnmálaáfl verður ein heild án sterkrar forystu. Í öðru lagi, að fylkinguna hafi skort stefnu. Hvað er framtíðarsýn stjórnmálaafls annað en skýr stefna? Með þessum orðum tekur Ingibjörg Sólrún alfarið undir gagnrýni okkar andstæðinga fylkingarinnar í kosningabaráttunni.

Svar Margrétar Frímannsdóttur talsmanns fylkingarinnar við þessari hörðu gagnrýni borgarstjórans er hið sama og hæst bar hjá fylkingarfólki í kosningabaráttunni, að gagnrýni af þessu tagi sé léttvæg, því að mestu skipti, að flokkar, sem áður kepptu um fylgið hver við aðra, komi nú fram undir einu merki. Þetta séu hin stóru sögulegu pólitísku tímamót, sem marki þátttaskil og nýja framtíð, þótt ekki hafi náðst árangur sem skyldi núna verði hann enn meiri eftir fjögur ár.

Er ástæða til að undrast, hve fjölmiðlamenn og aðrir, sem ræða við stjórnmálamenn eða leggja út af orðum þeirra á opinberum vettvangi, láta talsmenn fylkingarinnar lengi draga sig á asnaeyrunum, þegar rætt er um stöðu þessa nýja stjórnmálaafls og framtíð þess.

Tilraunin til að sameina vinstrisinna í einn flokk mistókst. Vinstri/grænir, melónuflokkurinn, sem er rauður að innan en grænn að utan, sannaði, að ekki hefur tekist að sameina vinstrisinna í einn flokk. Kvennalistinn er að vísu orðinn hluti af Kvennasögusafninu í Landsbókasafni Íslands – háskólabókasafni. Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn eru á hverfanda hveli, ákvarðanir um samruna á dánarbúum þeirra eru sagðar á næsta leiti. Þar gerist það eitt, að sósíalistar, sem hafa verið til skiptis í þessum tveimur flokkum, ganga saman í einn til hægri við nýjan vinstri flokk, sem nú flaggar grænum fána.

Sjálfsmynd fylkingarinnar byggist á blekkingu. Hún er ekki sterkt sameinandi afl, heldur ósannfærandi og sundrað. Hvorki fréttaskýringar Óskars Guðmundssonar, kosningastjóra fylkingarinnar í Reykjavík, né stjórnmálafræðilegar skýringar Svans Kristjánssonar, prófessors og hugmyndafræðings fylkingarinnar, duga til að fela hið pólitíska skipbrot fylkingarinnar.

Saga, tímarit Sögufélags, kom út í síðustu viku. Í formála ritstjóra segir meðal annars: „Margt bendir til, að saga og söguleg viðfangsefni eigi nú um stundir minni hljómgrunn hjá stórum hluta þjóðarinnar en var til skamms tíma. Vafalaust má að einhverju leyti rekja þetta til örra þjóðfélagsbreytinga, sem gengið hafa yfir og fært hafa með sér ógnarlegt framboð á hvers konar afþreyingu og tómstundagamni. Það þarf sannarlega staðfestu við önnur hugðarefni til að standast öll þau áreiti. Ef sagnfræðingar eiga að ná aftur vopnum sínum í hinni harðvítugu samkeppni um athygli fólksins í landinu verða þeir óhjákvæmilega að hyggja meir og betur en gert hefur verið að miðlun fræða sinna. Sú ályktun leiðir okkur að öðru atriði, sem stingur æ oftar í augu í seinni tíð. Fjölmiðlar af ýmsu tagi, ekki síst útvarp og sjónvarp, leita iðulega „álitsgjafa" af ýmsu tagi, þegar stórmál eru til umfjöllunar. Í þeim efnum hefur sú þróun verið áberandi að undanförnu að iðulega er fremur leitað til annarra fræðimanna en sagnfræðinga, jafnvel þótt söguleg nálgun að viðfangsefninu sé vænlegri til skilnings á því en nokkur önnur aðferð. Hvað veldur?"

Þetta eru tímabærar hugleiðingar af hálfu sagnfræðinga. Vissulega er ekki unnt að alhæfa á þann veg, að fjölmiðlar leiti ekki álits sagnfræðinga á einstökum málum. Athyglisvert er þó, að þetta á einkum við um alþjóðleg samskipti Íslendinga, enda hafa sagnfræðingarnir Þór Whitehead og Valur Ingimundarson verið að opna okkur nýja sýn á stöðu okkar í heiminum með rannsóknum sínum og bókum. Til þeirra er einnig oft kallað, þegar rætt er um utanríkismál samtímans í sögulegu ljósi. Ekki er með sama hætti unnt að benda á sagnfræðinga, sem kallaðir eru til að gefa álit á samtímaatburðum í stjórnmálum í sögulegu ljósi. Þar hafa stjórnmálafræðingarnir gengið fram fyrir skjöldu og er leitað álits þeirra, þegar hræringar eru í stjórnmálum eða gengið til kosninga.

Í nýjasta hefti Sögu birtist ritgerð eftir Guðmund J. Guðmundsson sagnfræðing um samningaviðræður Íslendinga og Breta í þorskastríðinu 1958 til 1961. Eftir lestur ritgerðarinnar er ég þeirrar skoðunar, að hún sé rituð í þeim tilgangi að bregða fremur neikvæðu ljósi á þá, sem stóðu að þessari samningsgerð. Leitast er við að gera lítið úr ummælum forystmanna Sjálfstæðisflokksins um samninginn án þess að dregin séu fram nokkur sagnfræðileg gögn máli höfundar til stuðnings. Má skilja höfundinn þannig, að honum takist að sýna fram, að sú niðurstaða Bjarna Benediktssonar sé röng, að Ólafi Thors hafi tekist að vinna Macmillan til skilnings á aðstöðu Íslendinga í landhelgisdeilunni, þegar þeir hittust á Keflavíkurflugvelli 25. september 1960. Frásögn Macmillans í æviminningum hans eða í punktum hans fyrir embættismenn sína breytir engu um þá staðreynd, að eftir fundinn var komið á samband milli æðstu manna landanna, sem nýttist til lausnar á deilunni. Raunar leitist höfundur ritgerðarinnar við að gera sem minnst úr fundi forsætisráðherranna. Segir hann, að Guðmundi Í. Guðmundssyni utanríkisráðherra hafi ekki þótt mikið til fundarins koma. Erfitt er að sjá, hvernig höfundur getur rökstutt það með þeim gögnum, sem hann birtir. Guðmundur Í. Guðmundsson segir meðal annars í þeim um það, sem gerðist á fundinum: „Landhelgismálið leyst án þess að ræða einstök efnisatriði málsins." Verður ekki önnur niðurstaða dregin af þessari setningu en hin sama og Bjarni Benediktsson gerði, að þarna hafi Ólafur unnið Macmillan til skilnings á aðstöðu Íslendinga þótt enn væri eftir að semja um einstök atriði. Höfundur riðgerðarinnar telur það hins vegar „fjarri öllu lagi að Ólafur hafi unnið Macmillan til skilnings á stöðu Íslendinga."

Höfundur hafnar ekki alfarið þeirri niðurstöðu Bjarna Benediktssonar, að samningurinn um 12 mílurnar hafi verið stærsti stjórnmálasigur Íslendinga. Honum finnst það hins vegar hálf andkannalegt við ummælin, að sigurinn hafi fyrst og fremst unnist vegna þess hve lítill meirihluta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, viðreisnarstjórnin, hafði á alþingi, því að stjórnin hefði án þeirrar stöðu samið fyrr og á öðrum forsendum við Breta. Er þetta sagnfræðileg ályktun?