4.6.1999

Birnir á ferð

Aðfaranótt föstudagsins 25. júní flugu tvær rússneskar sprengjuvélar, TU-95 Birnir, inn á loftvarnasvæði Íslands og réttsælis umhverfis landið. Flugu fjórar F-15 orrustuþotur flughers varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í veg fyrir þær með aðstoð P-3 Orion-flugvélar úr flotasveit varnarliðsins. Hafði atburður af þessu tagi ekki gerst síðan 1991 en á tímum kalda stríðsins skiptu ferðir rússneskra herflugvéla inn á íslenskt loftvarnasvæði tugum og jafnvel hundruðum á ári. Tæp vika leið frá því að atburðurinn núna gerðist þar til skýrt var frá honum í fréttum, en Morgunblaðið birt eindálka frétt um flugið á baksíðu sinni miðvikudaginn 30. júní. Mesta athygli vakti forsíðufrétt bandaríska blaðsins Washington Post 1. júlí www.washingtonpost.com. Þar var lögð áhersla á, að vélarnar hefðu verið svo nálægt Bandaríkjunum fyrir sunnan Ísland, að þær hefðu getað sent sprengjur sínar þangað með stýriflaugum. Í blaðinu kom fram, að ferðir vélanna vektu undrun hjá NATO. Menn veltu fyrir sér, hvort Boris Jeltsín stjórnaði rússneska hernum eða einhver annar. Þá teldu embættismenn í Washington og sjálfstæðir sérfræðingar, að atburðurinn gæti verið til marks um ótta meðal æðstu manna rússneska hersins um víðtækari fyrirætlanir NATO eftir sigurinn yfir Serbum. Hann kynni einnig að vera tilraun rússneska hersins, sem væri í fjársvelti, til að afla sér stuðnings og virðingar meðal almennings og til að fá meiri fjárveitingar.

Flugvélarnar birtust þegar Rússar höfðu í fimm daga verið við heræfingarnar, sem stóðu frá 21. til 26. júní og nefndust Vestur 99, en allt að 50.000 hermenn tóku þátt í þeim að sögn Rússa og þrjár flotadeildir. Herskipin voru um 30, þar á meðal fjórir kafbátar og risastór kjarnorkuknúinn tundurspillir af Kirov-gerð, flugvélarnar komu frá flugher og flota og voru búnar stýriflaugum, sem skjóta má á skotmörk í lofti eða á landi. Þóttu æfingarnar minna á sambærilegar aðgerðir sovéska hersins á sínum tíma. Markmið þeirra var sagt vera að æfa varnir ættjarðarinnar.

Auk Bjarnanna tveggja, sem flugu umhverfis Íslands, héldu tvær rússneskar Blackjack-sprengjuvélar suður með strönd Noregs, skildi leiðir vélanna yfir miðju Noregshafi. Vélarnar hófu ferðir sínar samtímis frá Engels-flugvelli fyrir austan Moskvu skömmu eftir miðnætti aðfaranótt 25. júní. Norskar orrustuþotur voru sendar á loft en Blackjack-vélarnar sneru aftur til Rússlands, áður en Norðmenn náðu til þeirra. Birnirnir komu næst í 60-65 mílna fjarlægð frá Íslandi á leið sinni umhverfis það. Tvær F-15 orrustuvélar tóku á móti Björnunum, þegar þeir nálguðust landið og fylgdu þeim hálfa leið umhverfis það, þá tóku tvær aðrar F-15 við og fylgdu þeim út af loftvarnasvæðinu, þegar Birnirnir héldu í átt til Norðurpólsins. Þeir voru samtals 15 stundir á lofti að sögn ITAR-Tass fréttastofunnar og úr vélunum var skotið stýriflaugum á skotmörk í Suður-Rússlandi. Talsmenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins sögðu, að virkar sprengjur hefðu ekki í flaugum vélanna.

Í BBC World Service www.bbc.co.uk var sögð frétt um þennan atburð föstudaginn 2. júlí og haft eftir embættismanni í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, að í tæpan áratug hefðu menn þar á bæ ekki séð neitt þessu líkt. BBC sagði, að William Cohen, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefði viljað gera lítið úr atburðinum, menn hefðu vitað um þessa rússnesku heræfingu fyrir fram. Hann viðurkenndi hins vegar að ástæða væri að velta fyrir sér, hvað vekti fyrir Rússum. Wesley Clark, hershöfðingi, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, vildi ekki draga neinar ályktanir af því, hvers vegna Rússar væru að láta reyna á varnir Íslands. Á vefsíðu sinni birtir BBC kort af leið vélanna umhverfis Ísland.

Fréttasjónvarpsstöðin CNN www.cnn.com birti fréttir um atburðinn 1. júlí og að nýju 2. júlí. Í þessum fréttum kemur fram, að 10.000 rússneskir hermenn hafi tekið þátt í æfingunni, sem hafi verið um eitt ár í undirbúningi og því ekki beint unnt að tengja hana óförum Serba og niðurlægingu rússneska hersins í Kosovo. Þar segir einnig, að sérfræðingum þyki tæplega ástæða til að óttast gamlar skrúfuþotur á borð við Birnina. Úr vélunum megi hins vegar skjóta stýriflaugum með kjarnasprenjum og ná til skotmarka í Bandaríkjunum, þegar vélarnar eru í nágrenni Íslands. Fram kemur, að vélarnar hafi verið í 65 mílna fjarlægð frá Íslandi en ekki brotið lofthelgi landsins. CNN vísar til orða Cohens varnarmálaráðherra, sem hafi sagt, að ein æfing boði ekki þáttaskil, en svo virðist, sem vélarnar hafi verið að reyna viðbragðsstyrk Bandaríkjanna. Þoturnar hafi verið skjótar til andsvara. Haft er eftir foringja í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, að þeir hafi ekki talið Rússa geta þetta lengur. Ferðir vélanna sýni, að Rússar búi yfir hernaðarlegri getu, sem margir töldu, að þeir hefðu glatað. CNN vísar til þess, að margir hafi einnig orðið undrandi þegar um 200 rússneskir hermenn náðu tangarhaldi á flugvellinum í Pristina í Kosovo, áður en friðarlið NATO kom þangað og þrátt fyrir fullyrðingar frá Moskvu um að rússneski herinn myndi ekki fara inn í Kosovo. Þá segir CNN, að Rússar grípi til þessara síðustu hernaðarlegu aðgerða sinna, þegar þeir séu að reyna að ná nýju samkomulagi í Kosovo, sem veiti friðarliði þeirra meiri áhrif á serbneskum svæðum. Rússar hafi ekki skýrt Bandaríkjastjórn fyrir fram frá því, hvenær æfingin færi fram og ekki gert ráðamönnum í Washington viðvart um að þeir myndu efna til flugs sem væri næsta ögrandi við Bandaríkin. Embættismaður í Pentagon sagði CNN, að Rússar hefðu undirbúið æfinguna í um það bil ár og hvað sem liði formlegri tilkynningu hefði Bandaríkjamönnum verið ljóst, að hún væri í vændum. Fyrri frétt CNN um atburðinn lýkur á þeim orðum embættismanns bandaríska varnarmálaráðuneytisins, að ferðir sprengjuvélanna í nágrenni Íslands kunni að hafa verið hugsaðar sem skilaboð til Bandaríkjanna, Rússar hafi viljað minna á, að þeir gætu enn látið að sér kveða. Aðgerðin væri með sama sniði og sovéska hernaðarstefnan á sínum tíma.

Seinni frétt CNN er frá Moskvu. Þar er lögð áhersla á niðurlægingu rússneska hersins og sagt, að með því að senda rússneskar sprengjuvélar út á Atlantshaf svo skömmu eftir að NATO tókst með sprengjuárásum að ná markmiðum sínum í Júgóslavíu, komi fram hve brýnt sé fyrir ráðamenn í Moskvu að bjarga herafla sínum eftir áralanga vanhirðu. Lofthernaður NATO í hjarta suðaustur Evrópu hafi minnt rússneska herforingja rækilega á hve bilið sé vaxandi á milli hernaðarstyrks þeirra og afls Vesturlanda. Rússneska ríkisstjórnin hafi lofað að verja 28.5% af fjárlögum til hersins eða 6,7 milljörðum Bandaríkjadala en útgjöld Bandaríkjanna til hermála verði 280 milljarðir Bandaríkjadala á næsta ári. Þótt Rússar hafi forðast árekstra við NATO frá lyktum kalda stríðsins, kunni stríðið í Júgóslavíu að verða til þess að ráðamenn í Moskvu fylgi annarri stefnu á komandi árum. Haft er eftir Sergei Rogov, forstjóra Stofnunar um málefni Bandaríkjanna og Kanada í Moskvu, að stríðið í Júgóslavíu hafi veikt þá ímynd NATO, að eini tilgangur bandalagsins sé að verja aðildarríki sín, og það hafi að sjálfsögðu ýtt undir þann ótta, að stækkun bandalagsins ógni Rússlandi. Fækkað hafi í rússneska hernum úr 5 milljónum manna í 1.2 milljónir á síðustu árum. Herinn hafi ekki fengið ný vopn í mörg ár og flugherinn ekki nýjar flugvélar síðan 1992 og eigi ekki von á þeim fyrr en 2001. Vegna skorts á eldsneyti geti rússneskir flugmenn stundað æfingaflug í 25 stundir að meðaltali á ári en á Vesturlöndum fái flugmenn að meðaltali 200 æfingatíma árlega. Meira en 70% rússneskra herskipa þarfnist viðgerða.


Á tímum kalda stríðsins fjallaði ég oft um atburði af þessu tagi, skrifaði greinar og tók þátt í ráðstefnum um þróun öryggismála á Norður-Atlantshafi. Spennan jókst jafnt og þétt í nágrenni Íslands vegna breytinga á vígbúnaði og stöðugt aukinnar sóknar sovéska hersins út á heimshöfin. Þegar Sovétríkin hrundu réðu þau yfir hættulega hljóðlátum og hraðskreiðum kafbátum, sem sífellt erfiðara var fyrir NATO-ríkin að finna. Flugvélarnar urðu einnig stöðugt langdrægari og vopnin í þeim fullkomnari. Unnið var að smíði stórra flugvélamóðurskipa og ljóst var, að heimahöfn þeirra yrði á Kóla-skaganum í nágrenni Murmansk.

Eftir að Sovétríkin urðu að engu hófst samfellt hnignunarskeið hjá rússneska hernum, eins og áður er getið. Myndir frá Murmansk bera með sér, að stór hluti flotans hefur ryðgað niður í orðsins fyllstu merkingu, mikil vandræði eru við að tryggja öryggi vegna kjarnorkuknúinna skipa og fá eða engin úrræði til að bregðast við augljósum vanda vegna þess, raunar er norðurströnd Rússlands mesta kjarnorkusorptunna heims. Töldu margir, að Rússar hefðu ekki lengur afl til að beita herstyrk sínum frá Kóla-skaga, hvorki skipum né flugvélum. Hið gagnstæða liggur nú fyrir. Ljóst er, að Rússar halda úti kafbátum í Norður-Atlantshafi og nú hafa þeir æft flug véla sinna suður með strönd Noregs og umhverfis Ísland. Hvorugt var gert í vinsamlegum tilgangi í kringum 25. júní, Rússar hafa sagt það eitt um þessar ögrandi athafnir sínar, að þeir hafi ekki brotið nein lög, þeir hafi ekki rofið lofthelgi Íslands.

Um þessar mundir eru um þrjátíu ár síðan menn tóku til við að ræða það utan hóps sérfræðinga og sérstakra áhugamanna, að Sovétmenn væru að færa hernaðarmátt sinn út á Atlantshafið. Jafnt og þétt létu þeir meira að sér kveða. Spurning er, hvort þessi þróun sé að hefjast á ný undir merkjum Rússlands. Vandinn við að skilgreina það, felst meðal annars í því, að menn greinir á um, hver taki ákvarðanir af þessu tagi í Moskvu, hvort það séu stjórnmálamenn undir forystu forsetans eða herforingjarnir sjálfir. Á tímum Sovétríkjanna var herinn bakhjarl flokksins og hann fékk flestar óskir sínar uppfylltar, enda var hernaðarmátturinn tæki kommúnistaleiðtoganna til að skipa sér jafnfætis leiðtogum Bandaríkjanna. Ljóst er, að rússneskir ráðamenn hafa sama markmið og kommúniskir forverar þeirra í þessu efni, þótt aflið skorti. Hvað sem þessum pólitíska þætti líður er nú sem fyrr nauðsynlegt að hafa rússneska hagsmuni í huga og afstöðu rússneskra stjórnvalda, þegar rætt er um öryggi á okkar slóðum í Norður-Atlantshafi ekki síður en þegar menn ræða um stöðu mála annars staðar í Evrópu. Er athyglisvert við þær fréttir, sem hafa verið raktar nokkuð nákvæmlega hér að ofan, hve mikil áhersla er lögð á að tengja flug vélanna umhverfis Ísland við hina herfræðilegu og stjórnmálalegu mynd, sem við blasir eftir að NATO náði undirtökunum í Kosovo. Einnig er ljóst, að vilji Rússar komast í virkt samband við bandaríska herinn, ef svo má að orði komast, gera þeir það á einfaldasta hátt með því að halda út á Norður-Atlantshaf, hvort heldur í lofti, ofansjávar eða neðansjávar. Ísland er útvörður í varnarkerfi meginlands Norður-Ameríku, hvort sem Íslendingum líkar það betur eða verr. Bandarískir varnarhagsmunir tengdir Íslandi eru nú sem fyrr aðrir og meiri en gagnvart flestum öðrum Evrópulöndum.

Í ritgerð um gildi varnarsamningsins eftir lok kalda stríðsins, sem birtist í bók til heiðurs Davíðs Oddssyni á fimmtugsafmæli hans í janúar 1998, komst ég að þeirri niðurstöðu, að ástæðulaust væri að draga skörp skil milli stöðu Íslands á tímum kalda stríðsins og þess ástands sem nú ríkti í alþjóðamálum. Engin grundvallarbreyting hefði orðið, þegar hagsmunir væru metnir á hlutlægan hátt. Frekar væri um huglæg atriði að ræða, sem vægju misþungt eftir því, hver ætti hlut að máli. Íslensk stjórnvöld hefðu markað þá stefnu, að með varnarsamningnum við Bandaríkin væri varanlegra öryggishagsmuna þjóðarinnar gætt. Horfið hefði verið frá skilgreiningu, sem vísaði til hugtaksins friðartíma, og þeim rökum, að sem sumir stuðningsmenn varnarsamstarfsins notuðu, að það væri reist á „illri nauðsyn". Litið væri á varnir landsins með sama hugarfari og ræður, þegar menn keyptu sér heimilis- og fjölskyldutryggingu.

Ég ítreka þessa skoðun hér og minni á, hve fráleitt hefði verið á árunum 1992 og 1993 að samþykkja skoðun þeirra, sem töldu ónauðsynlegt að hafa orrustuþotur jafnan til taks á Keflavíkurflugvelli. Var það eindregin skoðun mín á þeim tíma, að alls ekki kæmi til álita af hálfu Íslendinga að slá af kröfum um þoturnar í viðræðum við Bandaríkjamenn. Er raunar óskiljanlegt, hafi áhrifamenn innan bandaríska flughersins verið þeirrar skoðunar, að dvöl varnarliðs á Íslandi væri trúverðug án þess að það hefði jafnan orrustuvélar á sínum vegum á Keflavíkurflugvelli.

Ímyndum okkur, ef engar orrustuþotur hefðu tekið sig á loft frá Íslandi til að fljúga í veg fyrir Birnina. Þoturnar eru ekki aðeins að gæta íslenskra öryggishagsmuna heldur einnig annarra ríkja í Evrópu og Norður-Ameríku. Á að gæta þeirra með því að senda þotur á vettvang frá Bandaríkjunum eða Englandi, eftir að Rússar hafa lokið ferðum sínum í nágrenni Íslands? Hvar stæði varnarmálaráðherra Bandaríkjanna núna, ef í ljós hefði komið, að enginn hefði náð að fljúga að rússnesku vélunum við Ísland? Hefði slík ákvörðun verið í samræmi við þá afstöðu Bandaríkjastjórnar að gera sem minnst úr atvikinu aðfaranótt 25. júní? Voru Rússar að kanna, hvort tómarúm væri í loftvörnum Íslands? Hvernig hefðu þeir brugðist við, ef svo hefði reynst? Hefðu Rússar túlkað ákvörðun um að efla loftvarnir umhverfis Ísland eftir atburð sem þennan sem stigmögnun? Hvaða pólitísku áhrif hefði það haft hér á landi? Spurningarnar eru margar og viðkvæmar, sem vakna.