30.5.1999

Ný ríkisstjórn - smáþjóðaleikar - söngvakeppni

Davíð Oddsson myndaði þriðja ráðuneyti sitt föstudaginn 28. maí. Sannar það enn einstæða stöðu Davíðs í íslenskri stjórnmálasögu, að hann er nú að hefja þriðja samfellda kjörtímabil sitt sem forsætisráðherra. Allur gangur stjórnarmyndunarviðræðnanna bar vott um markviss vinnubrögð Davíðs og mikla reynslu hans af því að leysa úr mikilvægum málum með farsælum hætti. Stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt þann tíma, sem flokkarnir tóku sér til að semja stefnuyfirlýsingu sína. Sú gagnrýni er haldlítil og til marks um að stjórnarandstaðan er í jafnmiklum vanda við að finna höggstað á stjórnarflokkunum eftir kosningar og fyrir þær. Kosningarnar fóru fram 8. maí, tuttugu dögum síðar, 28. maí, er ný ríkisstjórn mynduð í góðri sátt flokkanna og innan flokkanna.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar hlaut góðan hljómgrunn í þingflokki og miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, þegar við komum saman til fundar síðdegis fimmtudaginn 27. maí í Valhöll. Þar var yfirlýsingin lesin orð fyrir orð og fluttar tæplega þrjátíu ræður um efni hennar og einstaka þætti. Um kvöldið var síðan boðað til flokksráðsfundar, þar sem heimild var veitt til að ganga til samstarfs við Framsóknarflokkinn á þessum forsendum. Stóð sá fundur aðeins í 40 mínútur og ríkti þar mikill einhugur. Því næst gekk þingflokkur sjálfstæðismanna til fundar og Davíð Oddsson lagði þar fram tillögu sína um ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni og var hún samþykkt samhljóða.

Ég hef orðið var við, að menn eiga erfitt með að trúa því, að í raun viti þeir, sem verða ráðherrar, ekki um það, fyrr en á þessum þingflokksfundi. Þetta er hins vegar staðreynd.

Á fundinum fimmtudagskvöldið 27. maí lá það fyrir, að formaður og varaformaður flokksins myndu sitja áfram á ríkisstjórn. Einnig virtust allir ganga að því sem vísu, að ég myndi áfram sitja í ríkisstjórn, þótt óvissa kynni að vera um ráðuneytið, sem mér yrði falið. Vangaveltur höfðu verið um það, hvort Halldór Blöndal sæti áfram í stjórninni eða yrði tilnefndur sem forseti alþingis. Nöfn þeirra, sem settust í ríkisstjórnina fyrir flokkinn, voru aðeins skýr í kolli Davíðs og einnig hvaða verkefni þeim yrðu falin. Ég tók eftir því, að Davíð var að skrifa á blað, þegar menn tóku sér sæti í miðstjórnarherbergi flokksins í Valhöll. Datt mér í hug, að þá væri hann að festa fyrir framan sig nöfnin á ráðherrunum og verkefni þeirra. Las hann síðan upp nöfnin og ráðuneytin. Ég spurði Davíð síðar að því, hvort það hefði verið rétt tilgáta hjá mér, að hann hefði ekki tekið af skarið um tillögu sína um menn og verkaskiptingu, fyrr en hann skrifaði þau niður þarna á fundinum. Staðfesti hann, að svo hefði verið.

Klukkan 14.00 föstudaginn 28. maí kom fráfarandi ríkisstjórn saman á fundi í ríkisráði með forseta Íslands að Bessastöðum. Þar baðst Davíð lausnar fyrir ríkisstjórnina og Halldór Blöndal var kvaddur sérstaklega, þar sem hann hafði verið tilnefndur sem forseti alþingis. (Er furðulegt að heyra fjölmiðlamenn fjalla um það embætti á frekar niðrandi hátt. Slíkt tal er alls ekki í samræmi við eðli þingforsetastarfsins.) Síðan var gert hlé á fundi ríkisráðsins og nýju ráðherraefnin bættust í hópinn, þriðja ráðuneyti Davíðs Oddssonar varð síðan til og ráðherrar rituðu undir eiðstaf um hollustu sína við stjórnarskrána. Hefðbundnar myndir voru teknar.

Ég fór heim og sótti Rut og síðan fórum við í menntamálaráðuneytið, þar sem starfsfólkið kom saman og fékk sér rjómatertu í tilefni dagsins.
Í fyrsta sinn frá því að Gylfi Þ. Gíslason var menntamálaráðherra í viðreisnarstjórninni fyrir 30 árum situr sami maður í embætti menntamálaráðherra í nýrri ríkisstjórn að kosningum loknum. Gylfi var menntamálaráðherra í 15 ár samfellt, frá 1956 til 1971, svo að það met verður seint slegið og alls ekki ætlan mín.

Ég felst ekki á þá skoðun sumra, að menntamálaráðuneytið sé pólitíkst léttvægt, raunar er það svo, að ríkisstjórnin nær ekki fyrirheitinu í stefnuyfirlýsingu sinni um að Ísland verði í fremstu röð á nýrri öld nema vel sé staðið að menntun, menningu, rannsóknum og vísindum. Ég sé, að ungir framsóknarmenn í Reykjavík eru enn við sama heygarðshornið í ályktunum sínum um að flokkur þeirra hefði átt að fá menntamálaráðuneytið í sínar hendur. Einnig sé ég, að aðstandendur Vef-þjóðviljans hér á netinu segja mér stríð á hendur vegna tónlistarhússins og opinberra útgjalda til þess.

Á hvítasunnudag fór ég til Zürich og síðan daginn eftir þaðan til Vaduz, höfuðborgar Liechtenstein, þar sem Smáþjóðaleikarnir voru settir með glæsibrag þá um kvöldið. Voru leikarnir með þátttöku íþróttamanna frá átta litlum Evrópulöndum mesta alþjóðamót, sem stofnað hafði verið til í Liechtenstein. Fyrir tveimur árum voru leikarnir hér á landi en þeir hófust árið 1985 í San Maríno og er nú að hefjast næsta umferð þeirra, ef að þannig má að orði komast, því að árið 2001 verða leikarnir að nýju í San Marino. Glæsilegur hópur íslenskra íþróttamanna var á leikunum og eins og skýrt hefur verið frá í fréttum náði okkar fólk mjög góðum árangri og hlaut flest gullverðlaun. Í sögu leikanna hafa Íslendingar jafnan staðið sig best þátttökuþjóðanna.

Sú venja hefur skapast, að íþróttamálaráðherrar ríkjanna koma saman til fundar við upphaf þeirra og bera saman bækur sínar. Til dæmis var á þessum fundi núna töluverður áhugi á því að fræðast um nýsamþykkt íþróttalög hér á landi, því að alls staðar vilja menn skipuleggja samstarf ríkis, sveitarfélaga og frjálsra íþróttafélaga á skynsamlegan og sanngjarnan hátt. Héldum við ráðherrarnir fund okkar að morgni þriðjudagsins 25. maí en eftir hádegið gafst tækifæri til að fylgjast með keppni á leikjunum. Ég fór og sá hluta af júdó-keppninni, þar sem við unnum fjögur gull. Einnig sá ég leik kvennaliða Íslands og San Marino í blaki, þar sem okkar lið tapaði. Ég settist á áhorfendabekkinn í þessu litla fjallaþorpi og var undrandi að sjá hóp ungra stúlkna með íslenska fánann og hvatningarorð á vörunum til okkar liðs. Var síðar skýrt fyrir mér, að í grunnskólum Liechtenstein hefði meðal annars verið staðið þannig að undirbúningi undir leikana, að nemendum var úthlutað einhverju keppnislandanna til að kynna sér og síðan styðja á leikunum sjálfum.

Þarna kom einnig til mín Guðmundur Helgi formaður Blaksambandsins og fræddi hann mig um stöðu greinarinnar. Þessi Guðmundur var einng reiður RÚV fyrir að senda ekki sjónvarpstökumann eða menn til að festa leikana og afrek okkar Íslendinga á þeim á filmu fyrir áhorfendur á Íslandi. Taldi hann þetta til marks um mikið áhuga- og virðingarleysi og ekki til þess fallið að efla áhuga á þátttöku í íþróttum. Eftir að hann hafði skýrt þetta fyrir mér í löngu máli, sagðist ég vera sammála honum. Það væri áreiðanlega ekki oft, sem okkur gæfist tækifæri til að vera með rúmlega hundrað manna sveit í alþjóðlegu íþróttamóti og ná jafngóðum árangri. Kvartanir Guðmundar voru ekki einsdæmi því að fleiri Íslendingar í Liechtenstein höfðu orð á þessu sama við mig um leið og allir báru lof á það, hve mikla rækt Morgunblaðið legði við leikana og skýrði vel frá því, sem á þeim gerðist.

Miðvikudagsmorgunin 26. maí hélt ég síðan heim á leið á ný. Næsti stórviðburður í þessari viku, sem vakti alþjóðarathygli ekki síður en stjórnarmyndunin og Smáþjóðaleikarnir var svo sjálf Eurovision-keppnin laugardagskvöldið 29. maí. Raunar vakti hin góða framganga Selmu Björnsdóttur og félaga hennar athygli langt út fyrir Ísland, því að með öðru sætinu komst hún rækilega í sviðsljósið og var raunar lengst af í efsta sæti á meðan atkvæðagreiðslan fór fram. Er vissulega ástæða til að gleðjast yfir þessu góða gengi í keppninni. Ríkisstjórnin var í Ráðherrabústaðnum þetta kvöld og fylgdist náið með framvindu keppninnar og atkvæðagreiðslunni, sendum við keppendum heillaóskir og góðar kveðjur, þegar upp var staðið.

Ekki er neinn vafi á því, að hinn góði árangur Selmu á eftir að nýtast fleirum en henni. Björk hefur aflað sér alheimsfrægðar og með því að ná öðru sæti í þessari keppni fá margir vafalaust enn betri staðfestingu á því en áður, að á Íslandi sé meiri gróska í tónlist en fjölmenni þjóðarinnar segir. Strax eftir úrslitin vöknuðu umræður um það, hvers vegna þessi eða hin þjóðin hefði greitt atkvæði á þann veg, sem gert var. Atkvæðatölurnar sýna að nokkru leyti hug viðkomandi þjóðar eða þekkingu á því landi, sem um er að ræða.

Spurningunni um það, hvernig við myndum standa að því að skipuleggja þessa miklu keppni hér á landi, þurfum við ekki að svara að þessu sinni. Hún minnir okkur hins vegar á þá staðreynd, að við verðum að koma okkur upp húsi, sem uppfyllir strangar kröfur vegna tónlistarflutnings og til að miðla tónlist á öldum ljósvakans, hvort heldur í útvarpi eða sjónvarpi. Tónlistarhúsið, ráðstefnumiðstöðin og nýja hótelið, sem eiga að rísa í miðborg Reykjavíkur, skapa þessa aðstöðu. Ísland verður ekki þjóð í fremstu röð á nýrri öld nema við reisum mannvirki af þessari gerð, þau bæta nýrri vídd við þjóðlífið og styrkja samkeppnisstöðu okkar í öllu tilliti.