16.5.1999

NATO-afmæli - utanríkisstefna - Stúdentablaðið

Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg efndu til hátíðarráðstefnu í tilefni af fimmtíu ára afmæli Atlantshafsbandalagsins (NATO) laugardaginn 15. maí í Súlnasal Hótel Sögu, þar sem um hundrað manns snæddu saman hádegisverð og hlýddu á ræður fram eftir degi. Þegar gengið var til fundarins stóðu leifar herstöðvaandstæðinga með spjöld við rauða dregilinn og sungu níðvísur. Haft var á orði, að þeir væru orðnir það hrumir þessir ágætu mótmælendur, að spjöldin væru nauðsynleg fyrir þá til að geta stuðst við eitthvað.

Ræðumenn á fundinum staðfestu allir hollustu sína við NATO, enda er málum þannig háttað nú á 50 ára afmælinu, að alls staðar í Evrópu utan Rússlands og serbneska hluta Júgóslavíu fyrrverandi, eru ábyrgir stjórnmálamenn þeirrar skoðunar, að þjóðum þeirra sé best borgið innan bandalagsins. Hér á landi er þó flokkur, sem vill ekki fara þessa leið, það eru vinstri/grænir og innan fylkingar vinstrisinna eru einnig talsmenn þess, að líta beri á NATO-aðild Íslands sem tímabundið ástand, sem taka þurfi afstöðu til frá kjörtímabili til kjörtímabils.

Þór Whitehead prófessor flutti erindi á afmælisfundinum, þar sem hann lýsti efasemdum sínum um mikilvæg stefnumál NATO á líðandi stundu, bæði varðandi hlutverk bandalagsins utan hins samningsbundna varnarsvæðis og stækkun bandalagsins. Lagði hann út frá þeirri skoðun, að varnarbandalög, sem stæðu ekki undir nafni vegna þess að þau öxluðu ábyrgð án þess að hafa til þess afl, væru hættuleg friði og veittu aðildarríkjum sínum falskt öryggi.

Í mínum huga ráða þrjú meginatriði úrslitum um farsæla framtíð NATO.

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt fyrir bandalagið að móta trúverðuga stefnu, sem nýtur trausts í aðildarríkjunum og virðingar andstæðinga bandalagsins, um hlutverk bandalagsins utan hins samningsbundna varnarsvæðis. Snertir þetta að sjálfsögðu hlutverk NATO í Júgóslavíu fyrrverandi og spurninguna um það, hvort bandalagið á að taka að sér ríkara hlutverk við að gæta friðar í heiminum en Sameinuðu þjóðirnar.

Í öðru lagi verður að takast viðunandi samkomulag í NATO um það, hvernig gæta eigi hinna sérstöku evrópsku öryggishagsmuna innan bandalagsins. Í mörg ár hefur verið viðurkennt, að Evrópuríkin í NATO þurfi að taka á málum með sérstökum hætti og frá öðrum sjónarhóli en aðildarríkin í Norður-Ameríku, Bandaríkin og Kanada. Nú hefur verið stigð nýtt skref á þessu sviði með ráðagerðum um það, hvernig eigi að gæta þessara hagsmuna með herafla innan NATO og Vestur-Evrópusambandsins (VES), þó með þeim fyrirvara, að innan Evrópusambandsins (ESB) eru þær raddir sterkari en áður, að VES hverfi og ESB taki einnig til við að sinna öryggismálum.

Í þriðja lagi þarf að takast samkomulag innan NATO um frekari stækkun bandalagsins.

Þegar þessi þrjú atriði eru rædd, má sú meginstaðreynd ekki gleymast, að NATO er ekki yfirþjóðleg stofnun með sama hætti og ESB, þar sem sérstök framkvæmdastjórn fer sínu fram og eins langt og hún frekast kemst. NATO er alþjóðlegur samstarfsvettvangur, þar sem hvert aðildarríki hefur neitunarvald, bandalagið fer því ekki hraðar en sá, sem er mest hægfara. Í 19 aðildarríkjum þurfa ríkisstjórnir fyrst að fá umboð þjóðþinga sinna og síðan þarf að stilla þetta 19-strengja hljóðfæri þannig að unnt sé að leika á það á áhrifamikinn hátt.

Miklar umræður fara nú hvarvetna fram um einstaka þætti utanríkismála, sem síðan móta afstöðu einstakra ríkisstjórna innan NATO og annars staðar. Átökin um Evrópumálin í Bretlandi vekja ekki síst athygli hér á landi. Ríkisstjórn Tonys Blairs er sífellt að verða hallari undir Evrópusambandið hvort heldur litið er til sameiginlegrar myntar eða sameiginlega gæslu evrópskra öryggismála. Í Bretlandi eru einnig öflugir andstæðingar þess, að landið færist meira undir Brussel-vald ESB og má þar til dæmis nefna Conrad Black, eiganda Daily Telegraph og Sunday Telegraph í Bretlandi, Chicago Sun-Times, National Post í Kanada og Jerusalem Post. Black skrifar grein í nýjasta hefti bandaríska tímaritsins National Interest, þar sem hann leggur til að Bretland verði aðili að NAFTA og skipi sér við hlið Noregs, Sviss, Póllands, Tékklands, Ungverjalands og Tyrklands ásamt Suður-Ameríkuríkjum, Bandaríkjunum og Kanada innan NAFTA undir nýju nafni og þetta gerist sem allra fyrst. Kæmi fríverslunarbandalag af þessu tagi til sögunnar, yrði eðlilegt fyrir Íslendinga að taka þátt í mótun þess.

Gyllivonir um nýskipan af þessu tagi eru fjarri miðað við hugmyndir um stækkun ESB austur á bóginn. Þegar á reynir kann hins vegar að koma í ljós, að ESB verður hikandi við að opna dyr sínar fyrir ríkjunum í austri. Ráðandi öfl í ESB eru enn með ofurtrú á samræmingu og regluveldi til að hrinda henni í framkvæmd. Umræður um samkeppnisstöðu ESB gagnvart Bandaríkjunum bera þess æ meiri merki, að menn átta sig á yfirburðum frelsisins í Bandaríkjunum andspænis ofurþunga evrópska regluveldisins.

Allt frá því að Harry Truman var forseti Bandaríkjanna hefur Bandaríkjastjórn lýst eindregnum stuðningi við hvert skref, sem Evrópuríkin hafa stigið til frekari samruna, hin síðustu ár innan Evrópusambandsins. Larry Summers, sem innan nokkurra vikna tekur við embætti fjármálaráðherra í ríkisstjórn Bandaríkjanna, er i hópi bandarískra áhrifamanna, sem hafa lýst áhyggjum yfir stefnu Evrópusambandsins með myntbandalagi þess, EMU, án þess að um leið séu teknar ákvarðanir um skipulagsbreytingar á vinnumarkaðinum og nýskipan efnahagsmála. Bandaríkjamenn hafa efasemdir um þá stefnu ESB-ríkjanna að láta efnahaglegan samruna stýra stjórnmálalegum samruna. Vísa þeir til þess, að í Bandaríkjunum hafi menn fyrst tekið ákvörðun um að ríkin mynduðu pólitíska heild áður en ákveðið var að sameinast efnahagslega. Það sé hættulegt að fara öfuga leið.

Fyrir okkur Íslendinga er mikilvægt að fylgjast náið með öllum hræringum í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Við höfum mikilla hagsmuna að gæta gagnvart báðum og verði skil á milli þessara nágranna okkar beggja vegna Atlantshafs, stöndum við frammi fyrir nýjum kostum.

Ég minnist þess, að áhyggjur sóttu að okkur mörgum við lok kalda stríðsins yfir því, að vegna slökunar spennu á Atlantshafi við hrun Sovétríkjanna myndi staða Íslands í alþjóðlegu tilliti versna. Á þeim tæpu tíu árum, sem liðin eru frá hruni Berlínarmúrsins, hefur þróunin ekki orðið á þann veg. Alþjóðavæðingin er orðin meiri á Íslandi en nokkru sinni. Hlutur okkar í alþjóðlegum viðskiptum hefur síst minnkað, við erum miklu virkari í alþjólegu mennta-, rannsókna- og menningarsamstarfi en nokkru sinni fyrr. Árið 2000 á enn eftir að opna okkur nýjar leiðir til alþjóðlegra samskipta ekki síst vegna alþjóðlegs gildis íslenskrar menningar. Sjálfstraust okkar hefur eflst í alþjóðlegum samskiptum. Mikilvægt er, að utanríkisstefna okkar endurspegli þessa þróun um leið og menn skilgreina stöðu okkar í öryggis- og varnarmálum á réttum forsendum.

Í kosningabaráttunni kom í ljós, að fylkingu vinstrisinna og vinstri/grænum er ekki unnt að treysta fyrir utanríkismálum. Hvergi í heiminum er unnt að finna stjórnmálaflokk með jafnvitlausa utanríkisstefnu og vinstri/grænir hafa. Utanríkisstefna fylkingarinnar tekur fyrst og fremst mið af hagsmunum þeirra, sem að fylkingunni stamda, hún er moðsuða til að sætta herstöðvaandstæðinga og þá sem hafa stutt aðild Íslands að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin, hagsmunir þjóðarinnar skipta þetta fólk engu. Fylkingin lagði ekki fram neitt um utanríkismál í kosningastefnu sinni og síðustu dagana fyrir kosningar kastaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sprengju inn í raðir hennar með því að krefjast aðildar að ESB.


Eins og lesendur þessara pistla minna undanfarið kjörtímabil hafa séð, hef ég oftar en einu sinni vikið að skrifum Stúdentablaðsins, sem hefur öll þessi ár lotið ritstjórn talsmanna Röskvu og sumir forystumanna hennar hafa síðan haslað sér völl í Grósku, sem er einskonar æskulýðsfylking fylkingar vinstrisinna. Fyrir kosningarnar sendu talsmenn Stúdentaráðs Háskóla Íslands fyrirspurnir til stjórnmálaflokkanna um afstöðu þeirra til ýmissa stefnumála námsmanna. Var það skilningur minn, að spurningarnar og svörin myndu birtast í Stúdentablaðinu fyrir kosningar. Það blað kom út án þess að þessi fróðleikur kæmist á framfæri.

Í síðasta tölublaði Stúdentablaðsins fyrir kosningarnar var hins vegar greint frá niðurstöðum í skoðanakönnun meðal námsmanna við Háskóla Íslands, sem leiddi í ljós, að 48% þeir sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en 34% fylkingu vinstrisinna, 8% Framsóknarflokkinn, og 7% vinstri/græna. Hlýtur þetta að hafa komið hinum háværu vinstrisinnum Röskvu í opna skjöldu, því að þeir hafa ekki síst lagt sig fram um að gera hlut minn og Sjálfstæðisflokksins sem verstan í málflutningi sínum. Stúdentablaðið hefur verið notað purkunarlaust í því skyni eins og lesendur þess geta kynnt sér.

Næstsíðasta tölublaði Stúdentablaðsins fyrir kosningarnar var sérstaklega beint gegn ákvörðunum um að bæta kjör námsmanna hjá Lánsjóði íslenskra námsmanna og voru þær kallaðar kosningadúsa og einnig var spjótum gegnt þeim ákvæðum í nýjum háskólalögum, sem mæla fyrir um það, að menntamálaráðherra tilnefni tvo fulltrúa í háskólaráð Háskóla Íslands. Þótti mörgum ritstjóri blaðsins ganga of langt í því efni.

Ritstjórinn, Erna Kaaber, ver hendur sínar í síðasta Stúdentablaði. Beinir hún gagnrýni sinni sérstaklega að Morgunblaðinu og fjargviðrast yfir því, að blaðið skyldi finna að efnistökum blaðs síns, þar sem Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hafi verið ritstjóri Stúdentablaðsins árið 1959, þegar birt var fræg mynd af þáverandi menntamálaráðherra, Gylfa Þ. Gíslasyni, á forsíðu blaðsins. Fer Erna mörgum orðum um efni þessa fjörutíu ára gamla Stúdentablaðs. Segir hún frá því, að ábyrgðarmenn blaðsins hafi verið kallaðir inná skrifstofu rektors og hótað brottrekstri úr skóla. Erna Kaaber lætur þess ógetið, að Stúdentablaðinu með myndinni af Gylfa var ekki dreift heldur var það gert upptækt af aðstandendum þess. Er ekki vitað til þess, að þeir hafi nokkru sinn hælst um vegna uppátækis síns eins og Erna gerir.

Viðleitni Stúdentablaðsins undanfarið til að gera hlut okkar sjálfstæðismanna sem verstan er í ætt við hinar samfelldu árásir, sem Illugi Jökulsson er með á Sjálfstæðisflokkinn í morgunpistlum sínum á rás 2. Síðast er hann að amast yfir því, að sjálfstæðismenn nýti sér þann sjálfsagða lýðræðislega rétt að fylgjast með framkvæmd kosninganna. Hvarvetna í heiminum nýta stjórnmálaflokkar sér þennan rétt. hafi þeir til þess burði, og er hann talinn óaðskiljanlegur hluti lýðræðislegra stjórnarhátta. Staðreynd er, að aðrir flokkar hér en Sjálfstæðisflokkurinn hafa einfaldlega ekki mannafla til að senda fólk í kjördeildir, enda byggist starf þeirra á kjördag á kaffisamsæti. Er hlægilegt að sjá vinstrisinna snúa þessu máttleysi sínu upp í árásir á Sjálfstæðisflokkinn. Tvískinnungur Egils Helgasonar blaðamanns er besta dæmið um þessa sýndarmennsku. Hann segist ekki vilja láta neinn vita, hvort hann fer að kjósa eða ekki, en kallar síðan sjónvarpið á vettvang til að fylgjast með sér, þegar hann fer til Kópavogs og kýs utankjörstaðar á sjálfan kjördag! Vinur hans, Illugi, notar síðan uppákomuna sem tilefni til árása á Sjálfstæðisflokkinn og persónulegs skítkasts í garð Baldurs Guðlaugssonar hæstaréttarlögmanns.