9.5.1999

Glæsilegur árangur - vandræði vinstrisinna

Við sjálfstæðismenn getum unað vel við úrslit kosninganna í gær. Þau eru hin bestu, sem flokkur okkar hefur fengið síðan 1974, þegar hann hlaut 42,7% atkvæða. Aðstæður voru allt aðrar þá en nú, því að á árinu 1974 hafði þriggja flokka vinstri stjórn setið við völd síðan 1971, en þetta var síðasta ríkisstjórnin á Íslandi, sem hafði á stefnuskrá sinni að loka varnarstöðinni í Keflavík. Snemma árs 1974 var efnt til undirskriftasöfnunar undir kjörorðinu Varið land og rituðu 55.522 kjósendur undir mótmæli við stefnu ríkisstjórnarinnar. Í þessu andrúmslofti í varnarmálum og þegar eyðslustefna vinstri stjórnarinnar í ríkisfjármálum var tekin að kynda undir verðbólgubálinu auk þess sem stjórnarsamstarfið liðaðist í sundur vegna innbyrðis ágreinings, var gengið til kosninga eftir þingrof sumarið 1974. Geir Hallgrímsson leiddi kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í fyrsta sinn í þingkosningum eftir farsælan feril sem borgarstjóri. Við þessar kjöraðstæður í stjórnmálum náði Sjálfstæðisflokkurinn þessum frábæra árangri. Þá voru 11 ár liðin frá því að flokkurinn hafði síðast komist yfir 40%-markið, það er í þingkosningunum 1963, þegar viðreisnarstjórnin hafði starfað í eitt kjörtímabil undir forystu þeirra Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar og hrundið í framkvæmd stefnu frjálsræðis í stað hafta og skömmtunar, þá fékk flokkurinn 41,4%. Þá var einnig boðið fram á þeirri forsendu, að flokkarnir tveir, sem að ríkisstjórninni stóðu, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur, myndu starfa saman eftir kosningar, fengju þeir stuðning til þess.

Hér skal ekki farið lengra aftur í tímann í sögulegum samanburði, því að aldrei fyrr hefur Sjálfstæðisflokkurinn leitt ríkisstjórn í átta ár og fengið síðan umboð til að gera það áfram með jafnafgerandi hætti, þegar 40,7% kjósenda greiddu flokknum atkvæði. Þegar úrslitin liggja fyrir er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum landsins nema einu, Austurlandskjördæmi. Þegar litið verður yfir 70 ára sögu flokksins á afmælisdegi hans hins 29. maí næstkomandi, munu menn minnast kosninganna hinn 8. maí 1999 og telja þær meðal stærstu stunda í sögu flokksins, hvorki meira né minna.

Árangur sem þessi næst ekki nema vegna þess að margir leggja hönd á plóginn í öllum byggðum landsins. Allir sem fylgdust með landsfundi flokksins fyrir tveimur mánuðum skynjuðu að innan hans var mikill sóknarandi. Davíð Oddssyni tókst í setningarræðu landsfundarins að gefa þann tón, sem hefur dugað í öllu kosningastarfinu til að skapa flokknum traust fleiri kjósenda en nokkru sinni fyrr við þessar aðstæður.

Sjálfstæðisflokknum var spáð góðu fylgi í öllum könnunum, sem gerðar voru í aðdraganda kosninganna. Voru meðal annars ýmsir, sem töldu, að líklegt væri, að flokkurinn fengi meirihluta á þingi. Frá mínum bæjardyrum séð er ágætt að eiga þennan draum en ég trúði því aldrei, að hann mundi rætast í þessum kosningum og sagði jafnan, að í mínum augum yrði glæsilegt að fá 40% fylgi.

Hið góða gengi flokksins í könnunum hefur vafalaust orðið til þess að hann fékk færri atkvæði á kjördag en kannanir spáðu. Raunar eru þrjú dæmi úr kosningabaráttunni að þessu sinni til marks um áhrifamátt kannana. Í fyrsta lagi ríkti visst andvaraleysi gagnvart framboði Frjálslynda flokksins á Vestfjörðum, af því að kannanir sýndu lítið fylgi við hann. Almennt heyrði ég þá skoðun, að engum dytti í hug að kjósa lista, sem væri hvort sem alveg vonlaus. Annað sýndu úrslitin. Í öðru lagi varð viðvörunin, sem Framsóknarflokkurinn fékk á Austurlandi til þess að menn slógu þar rækilega í á endasprettinum. Í þriðja lagi varð hið mikla fylgi, sem ein könnun sýndi við Sjálfstæðisflokkinn á Suðurlandi til þess að kjósendur töldu í góðu lagi að leggja öðrum lið.

Á alla almenna stjórnmálalega mælikvarða hlýtur gott gengi Sjálfstæðisflokksins að teljast markverðustu tíðindin úr þessum kosningum. Í sjálfu sér er ekkert merkilegt við að klofningsframboð á borð við Frjálslynda flokkinn fái fylgi í kosningum. Kosningalöggjöf okkar kallar á að menn nýti sér þau tækifæri, sem hún býður í þessu efni. Hefur það oft verið gert en jafnan reynst um pólitískar blöðrur að ræða, sem linast jafnvel á skemmri tíma en tekur að blása í þær.

Úrslit kosninganna staðfesta, að tilraunin til að sameina alla vinstrisinna í einum flokki misheppnaðist. Græna vinstra framboðið er með tæplega 10% fylgi og 6 þingmenn en fylking vinstrisinna með rúmlega 26% fylgi og 17 þingmenn. Græna framboðið er utan um ákveðinn kjarna í Alþýðubandalaginu, sem skreytir sig mið umhverfismálum að þessu sinni, eins og hann skreytti sig með krötum og þjóðvarnarmönnum áður. Margrét Frímannsdóttir hefur hins vegar flutt sig með Össuri og félögum yfir í Alþýðuflokkinn og breytt honum í fylkingu fjögurra flokka, sem allir hanga á horriminni. Hvorug þingmanna Kvennalistans á síðasta þingi, sem buðu sig fram núna undir nýjum merkjum, Kristín Halldórsdóttir eða Guðný Guðbjörnsdóttir náðu kjöri.

Sjónvarpsumræður forystumanna stjórnmálaflokkanna kvöldið fyrir kjördag staðfestu annars vegar markvissan málflutning Steingríms J. Sigfússonar og hins vegar flatneskjuna hjá Margréti Frímannsdóttur. Steingrímur höfðaði til ákveðins hóps kjósenda á vinstra kanti og náði eyrum hans, Margrét fór undan í flæmingi, þegar hún var spurð um atriði í stefnu flokks síns.

Fylkingarfólkið lætur eftir kosningar eins og það lét fyrir hana, að þetta sé allt í góðu gengi hjá því. Ég nefndi það gleðistefnu Margrétar Frímannsdóttur, þegar hún fagnaði því sérstaklega í hvert sinn, sem þingmaður sagði sig úr þingflokki Alþýðubandalagsins. Nú fylgir hún þeirri gleðistefnu, að í kosningunum hafi fæðst pólitískt undrabarn með fylkingunni, ekki skipti máli hvort það sé 26 merkur eða 36 eins og boðað var fyrir nokkrum vikum, ef það átti ekki að verða ennþá þyngra. Til marks um hollustu Margrétar við sannleikann má nefna að á kjördagsnóttina vék hún úr vegi til að koma höggi á Davíð Oddsson með þeim orðum, að hann hefði ekki enn náð því fylgi í Reykjavík, sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk í þingkosningunum 1991 og tók Margrét sérstaklega fram, að flokkurinn hefði þá lotið forystu Friðriks Sophussonar. Fjölmiðlamenn gerðu ekki athugasemd við þessi ósannindi, en í kosningunum 1991 bauð Davíð Oddsson sig í fyrsta sinn fram sem fyrsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann var þá jafnframt borgarstjóri og nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég man þetta vel, því að ég var þá í fyrsta sinn í framboði og skipaði 3ja sætið á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Í sjónvarpsumræðum formanna flokkanna kom oftar en einu sinni fram, að Margrét taldi Davíð fara með ósannindi um stefnu fylkingarinnar, þetta sagði hún án þess að segja hver stefnan væri og hafði oftar en einu sinni á orði, að hún yrði eftir þáttinn að upplýsa Davíð um hið rétta. Allt er þetta til marks um veika stöðu eins og sú yfirlýsing allra fylkingarmanna, að þeir líti á lítinn árangur sinn í kosningunum sem staðfestingu um að þeir hafi fest sig í sessi og muni lifa í næstu fjögur ár í einum og sama flokki. Er sérkennilegt, að helsta fagnaðarefni stjórnmálamanna á kjördagsnótt sé, að þeir hafi ekki gert út af við króann, sem þeir voru með í höndunum, eða fengið endanlegan dauðadóm yfir honum heldur umboð til að halda áfram að reyna að halda í honum líftórunni.

Í kosningabaráttunni ritaði ég grein í DV um sérkennilegan hlut Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra í kosningabaráttunni með því að vísa til yfirlýsinga hennar um aðild að Evrópusambandinu, sem brutu í bága við stefnu fylkingarinnar. Borgarstjóri hefur ekki aðeins dregið að sér neikvæða athygli vegna þessa frumhlaups heldur einnig vegna nýlegrar Japansferðar, uppsagnar fatlaðra starfsmanna hjá Reykjavíkurborg og ágreinings við kennara. Borgarstjóri var með stórar pólitískar yfirlýsingar í fjölmiðlum um kjördagsnóttina án þess að hún ætti annan hlut að þingkosningunum en þessi neikvæðu afskipti. Þá átti Ingibjörg Sólrún einnig sérstakan málsvara í umræðuþáttunum þar sem var Helgi Hjörvar, varaforseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Var greinilegt, að taplið fylkingarinnar í Reykjavík vildi skýla sér á bakvið R-listann, þegar úrslitin lágu fyrir. Þarna voru þeir einnig á ferð, sem vilja setja strik yfir pólitíska sögu fylkingarinnar til þessa og hefja nýja göngu með hið létta, pólitíska undrabarn í fanginu frá árinu 0. Einn þeirra, sem fékk ekki umboð til að gæta króans á alþingi, var Mörður Árnason. Þegar ég sá hann á sjónvarpsskjánum lýsa skoðun sinni á fylgisleysinu við fylkinguna, minntist ég ókvæðisorðanna, sem hann hrópaði að mér á Lækjartorgi eftir borgarstjórnarkosningarnar og ég sagði frá í einum pistla minna fyrir um það bil einu ári.

Fylkingarfólk getur vafalaust lengi enn haldið saman á þeirri forsendu, að verið sé að mynda mótvægi við höfuðandstæðinga í Sjálfstæðisflokknum. Neikvæð flokksstarfsemi af þessu tagi höfðar hvorki til kjósenda né skilar árangri á öðrum sviðum. Hve lengi það tekur þetta fólk að losna undan ólund sinni í garð Sjálfstæðisflokksins verður að koma í ljós, en það á ekki eftir að vinna neina sigra með ólunda að leiðarljósi.

Framsóknarflokkurinn kemur ekki í verri stöðu frá þessu stjórnarsamstarfi en 1991, þegar Steingrímur Hermannsson hafði leitt vinstri stjórn í nokkur misseri, stjórn, sem hrósar sér síðan af því að hafa lagt grundvöllinn af efnahagslegri velgengni þjóðarinnar á þessum áratug. Hefur því meðal annars verið haldið fram af fréttaritara Le Monde á Íslandi, að í þeirri stjórn hafi Ólafur Ragnar Grímsson tekið til hendi í efnahags- og fjármálum með þeim hætti, að tryggði honum forsetaembættið nokkrum árum síðar. Þótt ekki sé fallist á þessa söguskýringu, er hún nefnd til að minna á, að ekki lakari stjórn en þessi undir forystu Steingríms Hermannssonar veitti Framsóknarflokknum álika sterka stöðu og hann fékk í þessum kosningum núna. Er því rangt að halda því að fólki, að Framsóknarflokkurinn fari eitthvað sérstaklega illa út úr samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Hér ætla ég að láta staðar numið um þetta mál, þótt margt fleira komi í hugann, ég ætla ekki að ræða næstu skref, því að þau eru stigin eftir náið samráð milli þeirra aðila, sem nú munu taka til við að ræða ríkisstjórnarsamstarf næstu fjögur árin. Sjálfstæðisflokkurinn getur myndað stjórn áfram með Framsóknarflokknum, hann getur einnig myndað meirihluta með grænum/vinstri, loks getur flokkurinn og fylkingin tekið höndum saman um landsstjórnina, heldur er það ólíklegur kostur.

Ég hef heyrt á mörgum, að þeim þótti hlutur fjölmiðlamanna ekki mjög merkilegur í þessari kosningabaráttu. Þá er ekki átt við það, að ekki hafi verið nægilega mikið fjallað um kosningarnar, heldur hitt, að spurt hafi verið á þann veg, einkum í sjónvarpi, að lítinn eða engan áhuga vakti. Allar umræður af þessu tagi hér á landi eru staðnaðar og staðlaðar. Æ fleiri Íslendinga geta horft á erlendar sjónvarpsstöðvar, þar sem samtals- og viðræðuþættir eru með því skemmtilegasta, sem í boði er, vegna þess hve vel spyrlar og stjórnendur komast frá verki sínu. Hér gefa fjölmiðlamenn sér í upphafi kosningabaráttunnar, að einhver mál séu kosningamálin og síðan er kallað í frambjóðendur og þeim hlýtt yfir um þessi mál eins og um einhvers konar munnlegt próf sé að ræða auk þess sem stundum er leitast við að finna snöggan persónulegan blett á viðmælandanum. Lengst gekk þetta að þessu sinni gagnvart utanríkisráðherra, sem þurfi að verjast dylgjum um mikla kvótaeign sína, en hún átti að gera hann vanhæfan að fjalla um sjávarútvegsmál og fiskveiðar. Íslenskir fjölmiðlamenn hljóta að geta lært betri og skemmtilegri tækni á þessu sviði en þeir tileinka sér núna, hún krefst þess meðal annars að fjölmiðlamenn og blaðamenn þekki vel til þeirra mála, sem rædd eru við stjórnmálamenn og aðra.

Pistill Illuga Jökulssonar, sem hann flytur á rás 2 hvern fimmtudagsmorgun, birtist í Degi næsta dag. Er þetta einstakt með fast efni, sem framleitt er fyrir og á kostnað RÚV. Renni ég þar í gegnum það, sem Illugi hefur fram að færa, ef ég man eftir því. Dreg ég þá ályktun af lestrinum, að Illugi leggi sig fram um að gera málflutningi og framgöngu Davíðs Oddssonar skil með þeim hætti, að hlutur Davíðs verði hallærislegur, sé þess nokkur kostur. Sjálfsagt er fyrir pistlahöfunda af þessu tagi að velja sér verðug viðfangsefni og af stjórnmálamönnum rís Davíð vissulega hæst, en að bregða alltaf neikvæðu ljósi á það, sem hann gerir, er meira en einhæft og að minnsta kosti ekki óhlutdrægt. Þegar ég les pistlana minnist ég þess, að vinur minn Hannes Hólmsteinn Gissurarson var rekinn frá rás 2, af því að forráðamenn RÚV neyddust til að leysa Illuga frá störfum vegna málflutnings hans í þessum pistlum. Síðan var Illugi ráðinn aftur en ekki Hannes Hólmsteinn, líklega vegna óhlutdrægni Illuga og nú er ekki lengur unnt að reka Illuga til að losna við Hannes Hólmstein. Kom þetta í huga minn, þegar ég sat undir árásum Sigurðar A. Magnússonar talsmanns málfrelsis og mannréttinda á kosningafundi með listamönnum, þar sem hann sagði ólæsa hægrimenn einoka RÚV.