18.4.1999

Menntun/menning - almenn skynsemi - kosningaferðir

Í kosningabaráttunni leggja menn að sjálfsögðu mikla áherslu á atvinnumál. Réttilega er á það bent, að meðal mikilvægustu afreka ríkisstjórnarinnar er að fækka þeim, sem voru atvinnulausir við upphaf kjörtímabilsins. Okkur hefur þannig tekist að fækka þeim, sem höfðu framfæri sitt úr opinberu bótakerfi. Hlýtur það að vera meginmarkmið, þegar litið er til atvinnuleysisbóta, að sem fæstir þurfi að lifa á þeim. Stöndum við í þessu efni mun betur að vígi en nágrannaþjóðirnar, sem gjarnan eru notaðar til samanburðar. Þar hafa stjórnmálmenn meðal annars gripið til þess ráðs að skilgreina þá, sem hafa lengst notið atvinnuleysisbóta, sem félagslega öryrkja og lækka með því hlutfall atvinnulausra en fjölga öryrkjum. Hér hefur engum slíkum brögðum verið beitt heldur hefur störfum einfaldlega fjölgað. Á hinn bóginn hafa ýmsir talsmenn þeirra skoðana, að Íslendingar standi illa að varðstöðu um hag öryrkja borið gagnrýnislaust útgjöld hins opinbera til öryrkja hér saman við það, sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum, og fundið það út, að hér renni mun minna opinbert fé til þessara hópa en þar. Gleymist þá að geta þess, að samanburðurinn er óraunhæfur vegna ólíkrar skilgreiningar á því, hverjir teljist öryrkjar.

Þegar rætt er um atvinnumálin gefur skilgreiningin ekki heldur rétta mynd, því að megináherslan er lögð á fiskveiðar, landbúnað, iðnað og þjónustu og síðan rætt um einstakar greinar undir þessum hatti. Fæstir nefna menntun, menningarlíf, rannsóknir og vísindi, þegar atvinnulífið ber á góma, umræðan um samstarf skóla og atvinnulífs gefur til kynna, að þarna sé um tvo aðgreinda þætti að ræða. Hef ég vissulega í ræðu og riti fallið í þá gryfju að tala um þessa tvo þætti þjóðlífsins sem ólíka heima og óskyldar greinar. Er ég þar að endurtaka hefðbundnar skoðanir. Eftir því sem ég hugsa meira um þessi mál verður mér betur ljóst, að menntun og atvinnulíf verður ekki aðskilið. Raunar er skólakerfið meðal stærstu atvinnurekenda í landinu, Háskóli Íslands er til dæmis fjölmennasti vinnustaður þjóðarinnar. Starfið innan hans og í öllum skólum landsins skiptir atvinnulífið meira máli en allir erlendir markaðir og öll hlutabréf, því að enginn árangur næst við markaðsstarf eða sölu hlutabréfa nema menn hafi þekkingu til að sinna þeim verkefnum, sem þar er við að glíma.

Íslendingar töldu sér trú um að brjóstvitið yrði í askana látið, þegar þeir urðu að blekkja sjálfa sig í samkeppni við aðrar þjóðir vegna þess að þeir höfðu ekki tækifæri til að menntast með sama hætti og þær. Vissulega geymir Íslandssagan dæmi um frábær afrek manna, sem ekki hafa hlotið langa skólagöngu. Hitt er ljóst, að til dæmis sjálfstæðisbaráttan, forsenda svigrúmsins fyrir þjóðina til að láta að sér kveða undir eigin merkjum, byggðist á þekkingu menntaðara manna. Þeir tileinkuðu sér sigurstranglegar skoðanir og hugmyndir, færðu fram ígrunduð rök og beittu þekkingu sinni á viðurkenndum forsendum.

Menningarstig þjóðar ræður mestu um það í flokk hvaða þjóða hún skipar sér. Íslendingar telja sig eiga sæti í fremstu röð meðal vestrænna þjóða. Við sækjum styrk okkar í menningararfinn og fyrir okkur er ekkert nýnæmi, að menn ræði um upplýsinga- og þekkingarþjóðfélag, af því að við eigum upplýsingar um sögu þjóðarinnar frá upphafi og höfum sótt fram í krafti þeirra upplýsinga. Á það hefur verið bent, að þeir Íslendingar, sem beittu sér fyrir skrásetningu Íslendingasagnanna fyrir um 800 árum, hljóti að hafa verið mjög auðugir, því að þá hafi það verið einstakur munaður að skrá frásagnir á eigin trungumáli í stað þess að nota latínu eins og aðrir eða láta sér nægja að lesa latneska texta. Nú sjáum við líka, að talnaspekingar setjast niður við að reikna það út, hvað megi spara með því að hætta að nota íslensku. Vona ég, að við verðum aldrei svo fátæk andlega eða veraldlega, að við teljum hag okkar best borgið með því að leggja móðurmálið til hliðar.

Ég nefni þetta hér af því að mér hafa orðið þessi mál hugstæð, þegar dregur að kosningum og hver étur upp eftir öðrum, að þetta og hitt séu kosningamálin. Sé ég engan nefna þessa mikilvægu málaflokka og ekki veit ég til þess að nokkur fjölmiðlill sjái sérstaka ástæðu til að gera þá að umræðuefni. Það er alltaf verið að tönnlast á því sama og fáir gera meira af því að þrengja umræðuefnin fyrir kosningar en einmitt fjölmiðlamenn. Stafar það áreiðanlega að verulegu leyti á takmörkuðum áhuga þeirra sjálfra. Fyrir kosningarnar koma menn hins vegar saman til að ræða mörg önnur mál en þau, sem fjölmiðlunum finnst að eigi að vera kosningamálin og snerta ekki síður marga en tískuumræðuefnin, sem hafa verið svo margreifuð, að mörgum finnst meira en nóg komið.

Málið er ekki, hver býður best af frambjóðendum, hver það er, sem lofar mestu á kostnað skattgreiðenda. Hitt skiptir mestu hvaða aðferðum er beitt við úrlausn þeirra mála, sem eru á verksviði stjórnmálamanna. Hvaða árangri hafa þeir náð, sem bjóða fram krafta sína? Hvernig leggja þeir mál fyrir? Hvaða hugmyndafræði ræður afstöðu þeirra?

Guðmundur Ólafsson lektor við Háskóla Íslands hitti naglann á höfuðið, þegar hann benti á með einföldum orðum, sem hann tók úr kosningaslagnum, að við mat á því, sem gerðist að kosningum loknum, yrðu menn að skoða frambjóðendur, störf þeirra og stefnu. Hann beitti almennri skynsemi og sagði, að hættan væri mest að velja þá, sem fylgdu verstu stefnunni og hefðu reynst verst. Ekki væri gott, að þetta fólk hefði nú safnast saman í einum flokki.