11.4.1999

Leikskólar - Smithsonian/Hillary - kosningabarátta

Vinnuvikan eftir páskaleyfi hófst á því að ríkisstjórnin kom saman þriðjudaginn 6. apríl til að ræða um móttöku flóttamanna frá Kosovo. Gekk það síðan eftir í vikunni, að flugvél Landhelgisgæslunnar, sem fór með vistir á flóttamannasvæðin, kom með hóp með sér til baka. Hörmungarnar á Balkanskaga ætla engan enda að taka. Er nauðsynlegt að gripið sé til allra ráða til að binda enda á þær og þann harmleik, sem er þar að gerast fyrir tiltsilli Serba. Eftir blóðbaðið í Evrópu á þessari öld hefði mátt ætla, að menn hefðu lært nóg til að forðast jafnblóðuga framgöngu og við erum vitni að þessa daga. Stórpólitískar hliðar átakanna hverfa í skuggann fyrir fregnum af flóttamönnum og örlögum þeirra, en ekki er síður ástæða til að hafa áhyggjur af pólitísku hlið málsins og hernaðarlegri en hinni mannlegu.

Miðvikudaginn 7. apríl fyrir hádegi efndi ég til blaðamannafundar í leikskólanum Mánabrekku á Seltjarnarnesi og kynnti þar smáritið Enn betri leikskóli, sem snýst um höfuðefni nýrrar aðalnámskrár fyrir leikskóla. Með þessu smáriti er lokið hinni almennu kynningu á námskrám fyrstu þriggja skólastiganna, leikskólans, grunnskólans og framhaldsskólans. Smáritið er sent til foreldra allra barna á aldrinum 0 til 5 ára.

Vinna við aðalnámskrá leikskólans hefur gengið vel og er stefnt að því, að hún taki gildi næsta haust. Taka þá námskrár allra þriggja fyrstu skólastiganna gildi á sama árinu, en koma síðan til framkvæmda stig af stigi eftir efnum og ástæðum.

Eftir hádegi þennan sama miðvikudag hélt ég flugleiðis til Washington um Baltimore og sat um kvöldið málsverð í Georgetown í boði Volvo, sem er annar höfuðstyrktaraðili sýningarinnar Víkingar, Norður-Atlantshafsagan, sem verður í Smithsonian-safninu í Washington á næsta ári í tilefni af nýju árþúsundi og á síðan eftir að fara á fleiri staði í Bandaríkjunum og Kanada. Fór ég einmitt til Washington til að taka þátt í kynningu á sýningunni með Hillary Rodham Clinton, forsetafrú Bandaríkjanna, Hans-Olov Olsson, forstjóra Volvo í Bandaríkjunum, Constance B. Newman, aðstoðarráðherra um málefni Smithsonian, og Robert Fri, forstjóra Nátturugripasafns Smithsonian-stofnunarinnar, þar sem Víkingasýningin verður.

Að morgni fimmtudags 8. apríl fór ég með Laufeyju Guðjónsdóttur, fulltrúa menntamálaráðuneytisins í Landafundanefnd, í heimsókn í bókasafn Bandaríkjaþings, Library of Congress, stærsta bókasafn í heimi, þar sem sett verður upp sérstök sýning á íslenskum bókum vorið 2000 í samvinnu við Landafundanefnd, Landsbókasafn Íslands - háskólabókasafn og bókasafn Cornell-háskóla. Hefur sýningunni verið valinn góður staður við aðalinngang safnsins en í tengslum við hana verður jafnframt efnt til málþings um íslenskan bókmenntaarf.

Klukkan 15.00 var boðað til kynningar á Víkingasýningunni í Smithsonian og rétt fyrir þann tíma stilltum við okkur upp, sem heilsuðum Hillary forsetafrú fyrir athöfnina. Kom hún skömmu eftir klukkan 15.00 og heilsaði þessum hópi fólks, sendiherrum Norðurlandanna, fulltrúum Volvo, Smithsonian og frá Norrænu ráðherranefndinni, sem leggur eins og Volvo eina milljón dollara til sýningarinnar. Var það helsta erindi mitt að koma fram sem fulltrúi ráðherranefndarinnar á þessum kynningar- og blaðamannafundi. Hillary heilsaði hverjum og einum og eftir handtakið var tekin mynd af henni með viðkomandi.

Síðan fórum við inn á sviðið í sal, sem rúmar 4-500 manns og var hann þéttsetinn. Um leið og við gengum inn hafði forsetafrúin á orði, að gaman væri að sjá, hve margir hefðu komið til kynningarinnar. Eftir að Fri forstjóri hafði sett fundinn gaf hann mér orðið og flutti ég stutt ávarp, þá talaði Olsson fyrir Volvo og síðan frú Newman, sem kynnti forsetafrúna.

Ég hafði aldrei hitt Hillary í návígi áður, þegar hún heilsaði mér sagðist hún hlakka til að koma til Íslands á ráðstefnu um stöðu og hlut kvenna næsta haust. Ræða hennar á kynningarfundinum var góð og glæsilega flutt. Var erfitt að átta sig á því, hvað hún las af blöðunum fyrir framan sig og hvað hún sagði frá eigin brjósti. Er greinilegt, að hún hefur einlægan áhuga á þessari sýningu um víkingana og hefur lagt sig fram um að kynna sér sögu þeirra, að öðrum kosti hefði hún ekki getað flutt mál sitt af jafnmiklu öryggi. Ég fór inn á netið við undirbúning eigin ávarps og fletti upp á ýmsu varðandi árþúsundaskiptin á heimasíðu Hvíta hússins. Þar rakst ég meðal annars á tvær ræður Hillary, þar sem hún minnist á Leif Eiríksson og fund Ameríku, telur hún þennan atburð einstakan í tilefni af árinu 2000. Hið sama kom fram í ræðu hennar á kynningarfundinum og var skemmtilegt að fylgjast með því hvernig hún setti sýninguna undir kjörorð forsetahjónanna vegna árþúsundaskiptanna um að hafa beri fortíðina í heiðri um leið og spáð sé í framtíðina. Telur hún Íslendingasögurnar ómetanlega heimild um margt, sem íhuga þurfi enn í dag, samskipti manna af ólíku þjóðerni, stöðu kvenna, umhverfismál og nýjar samskiptaleiðir, víkingaskipin hafi verið internet sinna tíma og hafið upplýsingahraðbrautin.

Eftir kynningarfundinn fylgdum við Hans-Olov Olsson forsetafrúnni út af sviðinu og gafst okkur færi á að ræða við hana, áður en hún kvaddi. Í samtalinu sannfærðist ég enn betur um einlægan áhuga hennar á víkingatímanum og hlut víkinganna. Spurði hún meðal annars, hvaðan víkingarnir hefðu komið. Ég sagði, að nafnið væri unnt að rekja til Víkurinnar, þar sem nú væri Ósló. Já, sagði hún, en hvaðan komu þeir þangað? Ég sagði, að um það væru skiptar skoðanir, meðal annars hefði Thor Heyerdahl sett fram þá kenningu, að þeir hefðu komið frá Azerbajdjan, Azer vísaði til Ása, sem hefðu verið hinir gömlu guðir víkinganna. Þetta þótti henni forvitnilegt, sagðist hafa farið um þessar slóðir og hvers vegna gæti þetta ekki verið rétt. Ég sagði við hana, að hún hefði greinilega mikinn áhuga á víkingunum. Hún hló við og sagði, svo að allir heyrðu, sem þarna stóðu: Hvernig má annað vera um konu, sem kölluð er valkyrja?! Nýlega las ég hina merkilegu bók Helga Guðmundssonar Um haf innan, vestrænir menn og íslenzk menning á miðöldum. Þar færir Helgi rök fyrir því, að víkingarnir hafi einkum verið í viðskiptaerindum og meðal annars farið svo norðarlega við Grænland að þeir veiddu náhval og seldu tennur úr honum fyrir miklar fúlgur sem horn af einhyrningi. Reyndi ég að skýra þetta fyrir forsetafrúnni, áður en við kvöddumst.

Smithsonian bauð kökur, kaffi og gosdrykki og þáði margt manna veitingarnar. Eftir skamma viðdvöl í hófinu var haldið af stað til Baltimore og flugvélin tekin heim eftir rúmlega 24 tíma annasama dvöl.

Fyrir okkur Íslendinga er erfitt að gera okkur grein fyrir því, hve áhrifamikið það getur verið að fá slíka kynningu, sem Smithsonian hefst nú skipulega handa við að undirbúa. Af hálfu safnsins er sagt, að sýningin verði ¡ „centerpiece“ eða þungamiðja í sýningarhaldi safnsins á næsta ári. Er þá ekki lítið sagt miðað við þá virðingu sem Smithsonian nýtur um heim allan. Verður ekki síst forvitnilegt að sjá, hvaða fleti sérfræðingar safnsins sjá helsta á þeim þætti úr sögu víkinganna, sem setur mestan svip á sýninguna, það er úr Norður-Atlantshafssögunni. Er óhjákvæmilegt, að hlutur Íslands verður mikill á sýningunni. Gefst þar einstakt tækifæri til að bregða ljósi á landafundina, frásagnir Íslendingasagna og gildi þeirra fyrir heimsmenninguna. Ekki dregur úr athygli á sýningunni, að forsetafrúin og starfslið hennar í árþúsundanefnd Hvíta hússins skuli hafa mikinn áhuga á henni.

Eftir að hafa hvílt mig í nokkrar klukkustundir fór ég föstudaginn 9. apríl á fund í Valhöll með frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins úr öllum kjördæmum, þar sem við bárum saman bækur okkar fyrir kosningabaráttuna, sem fer nú á fullan skrið. Er mikill og góður liðs- og baráttuandi í hópnum.

Fylking vinstrisinna stillir sér upp sem höfuðandstæðingi okkar sjálfstæðismanna. Kemur það ekki á óvart, hitt er skringilegt að lesa ýmislegt sem fylkingarmenn hafa að segja. Til dæmis las ég í samtali við Össur Skarphéðinsson, að við forsætisráðherra legðum einhverja sjónvarpsfréttamenn í einelti. Össur færir engin rök fyrir þessari fullyrðingu sinni, enda hefur hann þau ekki. Er hún álíka haldlítil og sú staðhæfing Sigríðar Jóhannesdóttur þingmanns fylkingarinnar í Morgunblaðsgrein í vikunni, að Námsgagnastofnun fái 40 milljónir króna til að gera nýtt námsefni en selji Skólavörubúðina fyrir 37 milljónir króna, sem renni í ríkissjóð. Ljóst er, að annað hvort fer Sigríður vísvitandi með rangt mál eða hún skrifar um þetta mál án þess að hafa fyrir að kynna sér það, því að ákvörðun hefur verið tekin um, að söluandvirði Skólavörubúðarinnar renni til Námsgagnastofnunar.

Skringilegar greinar halda áfram að birtast um þá ákvörðun að nota fjárhagslegt svigrúm hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna til að hækka grunnframfærslu fyrir námsmenn.

Kristján Arngrímsson, dálkahöfundur Morgunblaðsins, sem upplýsir nú (7. apríl), að hann sé eilífðarstúdent heldur áfram að nálgast málefni LÍN frá því sjónarhorni. Spurning er hvort hann sé nægilega óhlutdrægur til að skrifa um málefni LÍN sem fastur dálkahöfundur Morgunblaðsins. Er hann ekki að nota sérstaka aðstöðu sína á síðum blaðsins til að skara eld að eigin köku? Hann svarar pistli mínum hér á heimasíðunni í fastadálki sínum í Morgunblaðinu og er það ójafn leikur, ef tekið er mið af útbreiðslu og þeim almennu leikreglum, að í dálkum af þessu tagi leggi menn mat á hluti án þess að eiga sjálfir beinna hagsmuna að gæta. Skrýtnast þykir mér, að hann skuli kveinka sér undan þeim tóni, sem hann segir mig senda sér. Var þar þó ekki annað gert en svara í sömu mynt miðað við þá tóntegund, sem hann notar sjálfur í fyrsta pistli sínum. Þá finnst honum athugavert, að ég líti á karakter hans sjálfs. Hvers vegna skyldi ég gera það? Jú, vegna þess að öll skrif hans um þetta mál eru einhvers konar tilraun til að átta sig á því af hvaða hvötum ég hafi tekið ákvörðun um að bæta hag námsmanna með því að hækka námslánin. Með gamalkunnum aðferðum samanburðarfræðinganna ýtir hann þeirri niðurstöðu að lesendum sínum, að líklega hafi það helst vakað fyrir mér að afla mér atkvæða, þess vegna hafi óheilindi ráðið ákvörðun minni, ég sé að nýta mér bágindi námsmanna til að bæta eigin hag! Hvað vakir fyrir dálkahöfundinum sjálfum? Er hann ekki sem eilífðarstúdent að berjast fyrir takmarkalausum aðgangi að opinberu lánsfé á lágum vöxtum undir hatti dálkahöfundar?

Daginn eftir (8. apríl) ritar Kjartan Örn Sigurðsson, nemi við Háskóla Íslands, grein um LÍN í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: Máttlaust stúdentaráð og misheppnaður ráðherra. Ég ætla ekki að fjalla hér um stúdentaráð í þessu samhengi heldur því, sem að mér snýr. Höfundur gefur sér þessar forsendur:

„Einhver sagði menntamálaráðherra að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fá atkvæði frá stúdentum svo ráðherra fór í vörn, setti upp svip og gerði sjálfan sig að óvini stúdenta. Röskva, önnur fylkinganna innan háskólans, notfærði sér svo þetta og persónugerði Björn Bjarnason sem óvin allra námsmanna. Menntamálaráðherra getur sjálfum sér um kennt og honum er engin vorkunn. En ráðherra er alls ekki sá eini sem ekki hefur staðið sig.....Stúdentaráð verður að vera sterkur og trúverðugur málsvari stúdenta og menntamálaráðherra á ekki að líta á sig sem óvin stúdenta heldur málsvara allra íslenskra námsmanna.“

Þetta er skrýtin röksemdafærsla og stenst alls ekki, því að ég tók við málefnum LÍN í miklu uppnámi og þótt Röskva færi með mál námsmanna við HÍ og margir teldu LÍN-málin helsta pólitíska vandamálið í samstarfi innan ríkisstjórnarinnar náðist góð sátt um breytingar á lögunum um LÍN. Næsta skref var að bæta hag námsmanna með því að hækka lánin og það er unnt að gera nú þegar reynsla hefur fengist af hinum nýju lögum. Fráleitt er að ræða mál með þeim hætti, að samskipti mín við námsmenn byggist á því, að ég sé óvinur allra námsmanna.

Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, skrifar fleiri greinar en flestir aðrir í Morgunblaðið á þessum vetri og gerir það að tilhlutan Frjálsynda flokksins, eins og jafnan er tekið fram í greinarlok. Jón hefur verið með umvandanir gagnvart stjórnmálamönnum. Fer þess vegna einkar vel á því, að nú skiptist þeir á að skrifa greinar fyrir Frjálslynda flokkinn í Morgunblaðið, Jón, Sverrir Hermannsson og Eggert Haukdal. Jón hefur einnig lagt sig fram um að sanna, að aðrir en hann fari með rangt mál á prenti, einkum stjórnmálamenn. Hann skrifar grein 9. apríl og notar þar fyrirsögnina: Söngvar loddaranna. Þar vegur hann sérstaklega að Gunnari Birgissyni, formanni stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sakar hann um að hafa varið tug milljóna króna eða meir til að kaupa sér ráðherrasæti á vegum Sjálfstæðisflokksins og nú ætli hann að nota fé LÍN til að kaupa fylgi námsmanna við Sjálfstæðisflokkinn. Áreiðanlega hefur fleirum en mér blöskrað að lesa þessar dylgjur talsmanns Frjálslynda flokksins. Er óvenjulegt að lesa jafnrætin og ómakleg skrif.

Er tilviljun, að í öllum þessum skrifum um hækkun námslánanna er ríkur vilji til að sverta persónu okkar, sem lögðum til, að fjárhagslegt svigrúm LÍN yrði notað námsmönnum í hag? Engu er líkara en gert hafi verið persónulega á hlut allra þessara greinahöfunda með hækkun námslánanna.

Síðdegis sunnudaginn 11. apríl fór ég sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í sjónvarpsþátt forystumanna framboðslistanna í Reykjavíkurkjördæmi. Þar sátu átta manns auk tveggja stjórnenda og höfðu 90 mínútur til umráða, þar af fóru 10 mínútur í einnar mínútu lokaorð frá hverjum og einum. Hver þátttakandi fékk því 10 mínútur til ráðstöfunar, hvort sem hann hafði mikið eða lítið til málanna að leggja, hvort sem hann hafði stuðning 40 til 50% kjósenda á bakvið sig eða komst ekki á blað í skoðanakönnunum. Þetta eru hinar lýðræðislegu reglur um þátttöku og tíma sem Ríkisútvarpið setur og undir þær er sjálfsagt að ganga fyrir okkur þátttakendur án þess að gera við það athugasemd. Hins vegar er spurning, hvort með þessu sé verið að koma til móts við þá, sem vilja horfa á umræðurnar til að átta sig á höfuðatriðum í kosningabaráttunni, því að kannanir sýna nú, að af þessum átta framboðum í Reykjavík eiga þrjú von á þingsætum. Flestum finnst líklega mest varið í að heyra, hvað við höfum til málanna að leggja, sem komum úr flokkum með eitthvert fylgi á bakvið okkur.

Málflutningur og atkvæðakaup fylkingar vinstri sinna er með eindæmum eins og fram kom hjá Jóhönnu Sigurðardóttur í þessum þætti. Hún fer með talnaflóð og loforðalista og reisir skýjaborgir á grundvelli óljósra kerfislausna. Er makalaust að aðalhöfundur þess húsnæðiskerfis, sem nú er í rústum, skuli hafa pólitískt þrek til að koma fram og boða annað og svipað ofstjórnar- og regluveldi til að bjarga öryrkjum og gömlu fólki.