3.4.1999

NATO 50 ára - hlutur Morgunblaðsins - herstöðvaandstæðingar

Hinn 4. apríl 1949 var Atlantshafssáttmálinn, stofnskrá Atlantshafsbandalafsins (NATO), undirritaður í Washington. Hefur þessa merka afmælis verið minnst á margvíslegan hátt og verður það gert enn frekar undir lok mánaðarins, þegar Bandaríkjaforseti býður til leiðtogafundar NATO í Washington. Þar verður meðal annars mótuð ný varnarstefna bandalagsins, sem tekur mið af þeirri staðreynd, að fyrir nokkrum vikum fjölgaði NATO-ríkjunum úr 16 í 19. Fyrstu fyrrverandi aðildarríki Varsjárbandalagsins, Pólland, Tékkland og Ungverjaland, eru komin í NATO. Bandalagsríkin verða einnig að setja styrkari stoðir undir þá stefnu, sem var mótuð 1992, um að unnt væri að beita herafla þess utan hins umsamda varnarsvæðis. Loftárásirnar í Júgóslavíu fyrrverandi sýna, að það eru gerðar allt aðrar kröfur til NATO nú en á tímum kalda stríðsins.

Morgunblaðið gerði afmæli NATO mjög góð skil í sérstöku blaði hinn 31. mars síðastliðinn. Efast ég um að nokkurt blað í öllum aðildarlöndum bandalagsins geri sér dagamun af þessu tagi. Er þetta hátíðarblað í góðu samræmi við hinn dygga stuðning, sem Morgunblaðið hefur ávallt veitt aðild Íslands að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin. Er sérstakt rannsóknarefni í sögu utanríkis- og öryggismála Íslands á síðari hluta 20. aldarinnar að meta hinn áhrifamikla hlut Morgunblaðsins við að ná markmiðum hinnar farsælu utanríkisstefnu. Meðal efnis í afmælisblaðinu var grein eftir mig.

Athygli mína vakti, að ekki var rætt við neinn forystumann hinnar nýju fylkingar vinstrisinna í þessu afmælisblaði Morgunblaðsins. Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru þar spurðir álits á NATO-aðildinni og stöðu mála um þessar mundir. Með hefðbundna samstöðu lýðræðisflokkanna þriggja, eins og Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa verið nefndir, í huga, hefði verið eðlilegt á hátíðarstundu sem þessari að fá forystumenn þessara þriggja flokka til að lýsa skoðunum sínum. Alþýðuflokkurinn er horfinn og samfylking án utanríkisstefnu komin í hans stað. Morgunblaðið ræddi við Ragnar Arnalds herstöðvaandstæðing, sem lýkur 32 ára setu sinni á alþingi í þingflokki samfylkingarinnar. Ragnar var fulltrúi herstöðvaandstæðinga í afmælisblaðinu.

Ragnar Arnalds kemst meðal annars þannig að orði í Morgunblaðsviðtalinu, þegar hann lýsir stefnu hinnar nýju fylkingar vinstrisinna:

„Þótt Samfylking hafi ekki brottför hersins á stefnuskrá sinni þýðir það ekki að Alþýðubandalagsmenn innan Samfylkingarinnar hafi skipt um skoðun. Það er einfaldlega viðurkennd staðreynd að innan Samfylkingarinnar er ágreiningur um málið, eins og raunar í mörgum öðrum stjórnmálaflokkum hér á landi. Samfylkingin setur ekki brottför hersins á oddinn á næsta kjörtímabili þar sem sú stefna er fjarri því að njóta þingmeirihluta í svipinn. Samfylkingin hefur þó lýst þeim vilja sínum að þetta mál verði tekið upp til ítarlegrar skoðunar í ljósi gerbreyttra aðstæðna.”

Þetta er athyglisvert sjónarhorn og svipar til þess sem Sighvatur Björgvinsson notar, þegar hann ræðir um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fyrir síðustu kosningar barðist Alþýðuflokkurinn, sem Sighvatur hefur nú haft forgöngu um að leggja niður, fyrir aðild Íslands að Evrópursambandinu. Nú segir Sighvatur, að ekki sé ástæða til að halda þessari stefnu fram, af því að hún njóti ekki stuðnings meirihluta þingmanna. Sama segir Ragnar Arnalds um varnarleysisstefnuna. Öllum er heildarniðurstaðan ljós, það er að fylking vinstrisinna boðar enga utanríkisstefnu, hún skilar auðu í utanríkismálum og bíður færis.

Fullyrða má, að engum stjórnmálaflokki neins staðar dytti í hug að ganga til kosninga án utanríkisstefnu. Síst af öllu á þetta við nú á tímum, þegar gerð er krafa til stjórnmálamanna um skýr svör við mikilvægum spurningum, sem snerta öryggi og viðskipti í gjörbreyttum heimi. Ég vakti athygli á þessari þögn fylkingarinnar í Morgunblaðsgrein og benti þar jafnframt á þá staðreynd, að vinstrisinnar skila í raun einnig auðu í mennta- og menningarmálum.

Afmæli NATO hefur gefið herstöðvaandstæðingum á Íslandi kjörið tækifæri til að kynna sjónarmið sín. Birna Þórðardóttir hefur verið málsvari þessa fámenna hóps í marga áratugi og hún er enn við sama heygarðshornið, heldur fram samæriskenningum og tekur afstöðu með þeim, sem hallmæla Vesturlöndum, og leggja sig fram um að gera málstað þeirra tortryggilegam, hún telur sig búa yfir upplýsingum, sem hún segir fjölmiðla halda leyndum fyrir öllum almenningi, af því að þeir þjóni annarlegum hagsmunum gróðaafla og úlfa í sauðargæru. Ragnar Arnalds er líklega of hógvær fyrir Birnu, ætli hún sé ekki frekar í flokki með Steingrími J. Sigfússyni og félögum, sem lýstu yfir í vikunni, að þeir óttuðust ekki að leggja fram skýra stefnu gegn NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin. Með Ragnari eru þeir, sem hafa ekki hugsað málið lengra en að komast að þeim punkti, að svonefnd hernaðarbandalög séu undirrót alls hins illa í heiminum og bæta því við, að ekkert þurfi að koma í stað þess að útrýma öllum vopnum af jarðarkringlunni, því að eftir það muni ríkja eilífur friður. Þetta fólk gæti eins sagt, að gullepli ættu að vaxa á trjám í löndum fátækustu þjóða heims, því að þá hefðu allir nóg fé handa á milli. Mesta undrun vekur, að í almennum umræðum skuli skoðanir af þessu tagi vera lagðar að jöfnu við sjónarmið hinna, sem nálgast viðfangsefnið af raunsæi og á traustari forsendum