28.3.1999

Trúskiptingar í utanríkismálum - á háu plani

Námsmenn við Háskóla Íslands kölluðu okkur nokkra stjórnmálamenn, tvo sagnfræðinga og fulltrúa Samtaka um vestræna samvinnu og Samtaka herstöðvaandstæðinga til almenns fundar í Háskólabíói laugardaginn 27. mars í tilefni af 50 ára afmæli NATO.

Furðulegt var að hlýða á málflutning Guðmundar Árna Stefánssonar alþingismanns fulltrúa Samfylkingarinnar. Er óskiljanlegt, hvers vegna flokkur, sem vill láta taka sig alvarlega og gengur til kosninga undir þeim merkjum að ætla að verða öflugt stjórnmálaafl, setur ekki fram neina stefnu í utanríkis- og varnarmálum þjóðarinnar. Verður þetta þeim mun undarlegra, þegar til þess er litið, að á þessum fundi las Guðmundur Árni upp úr einhverjum texta frá fylkingunni, sem þó er settur fram með þeim fyrirvara, að hann sé hluti af verkáætlun en ekki stefna. Í þessum texta er haldið fram andstæðum sjónarmiðum og síðan kom það í hlut frambjóðandans að láta líta svo út, að dæmið gengi upp.

Guðbergur Bergsson rithöfundur skrifaði grein í DV föstudaginn 19. mars, þar sem hann komst meðal annars þannig að orði:

„Við eigum langa trúskiptingahefð með lina hugsun og teljum hana æskilega: Léttara er að breyta linu en hörðu. Helsta þjóðartáknið í nútímanum, Laxness, var dæmigerður trúskiptingur. Forsetinn er margfaldur trúskiptingur. Flestir karlar og konur á æðri stöðum eru það líka með hrærigraut í höfðinu. Okkar líkar það. Þetta er fólk sem kann að bjarga sér, en það er okkar ógæfa. Undir stjórn þess gætum við hætt að vera þjóð, orðið þjóðleysi, svipað því að trúskiptingur er mannleysa, þótt hann sé valdamaður.

Fjaðrafokið vegna Svavars Gestssonar er fáránlegt. Davíð hefur séð með illkvittni sinni að hann hafði dottið af baki, orðinn eins konar Vestur-Íslendingur í vinstrihreyfingunni og best að láta hann mæta í Manitoba fyrir Íslands hönd með hyrndan hjálm að hætti túristavíkinga, jafn óskaðlegan Nató og Ólafur Ragnar. Í Winnipeg mun sendiherrann éta með jafn miklu ágæti tertuna randalín og forsetinn Prins Póló í Varsjá.

Hitt gæti hent að þjóðin fái nóg af trúskiptingum og kjósi í vor meirihluta eina íslenska stjórnmálaflokksins með örlitla kjölfestu, þó húnn byggist á ósvífni auðvaldsins. Þjóðir eru jafn óútreiknanlegar og þær eru útreiknanlegar.”

Guðbergur hefur oft dregið athygli að málum efst á baugi með skarpari hætti en aðrir. Fylkingin er að boða lina stefnu, sem getur leitt til þess að hér verði til þjóðleysi, eins og hún er sjálf flokksleysi; stjórnmálaafl úr brotum og brotabrotum, sem eru innbyrðist sundurlynd en of veik til að standa á eigin fótum. Skipt er um trú í von um að komast til valda og áhrifa. Litið er á almennar leikreglur með misnotkun þeirra í huga eins og þegar fylkingarþingmaðurinn Ágúst Einarsson kvaddi sér hljóðs á þingslitafundi undir fölsku flaggi og hóf almennar stjórnmálaumræður þvert á loforð sitt við forseta alþingis.

Á fundinum um afmæli NATO í Háskólabíói voru þær saman í báti Birna Þórðardóttir frá herstöðvaandstæðingum og Kristín Halldórsdóttir frá melónuflokknum, þeim græna að utan og rauða að innan. Þær hafa stungið höfðinu í sandinn fyrir 30 til 40 árum og standa síðan í þeirri trú, að með innantómum slagorðum og hæfilegri óvild í garð Bandaríkjanna og annarra vestrænna forysturíkja sé unnt að bæta heiminn. Er ótrúlegt að hlusta á firrur af þessu tagi undir lok aldarinnar, þegar hinn vestræni málstaður hefur sigrað.

Kristján Arngrímsson er dálkahöfundur á Morgunblaðinu. Á dálk sinn laugardaginn 27. mars setur hann einskonar áskorun á mig í fyrirsögn. Eftir lestur þessara skrifa verð ég að viðurkenna, að ég veit ekki, hvert höfundurinn er að fara, náði ég hvorki punktinum né skildi boðskapinn.

Líklega er Kristján að taka upp hanskann fyrir þá, sem ritstýra Stúdentablaðinu og hafa sætt ámæli frá námsmönnum fyrir það, hvernig þeir kynna hækkun námslána í blaðinu. Eru þetta næsta sérkennilegar varnir, af því að þær byggjast á annarlegum skoðunum um, að verið sé að skammta námsmönnum úr hnefa vegna þess að kosningar séu í nánd. Kristján lítur alfarið fram hjá þeirri staðreynd, að jafnt og þétt hefur verið unnið að því að styrkja fjárhagslega stöðu Lánsjóðs íslenskra námsmanna og nú hefur verið ákveðið að nýta fjárhagslegt svigrúm sjóðsins til að hækka námslánin og síðan frítekjumarkið á næsta ári. Þá er ekki deilt um lögin um sjóðinn eða hlutverk hans.

Í þessum dálki Kristjáns er mikið af yfirlýsingum á hæpnum forsendum eins og þessum: „Það eru ekki ráðherrar eða aðrir stjórnmálamenn sem ráða því að menntun er til góðs.” Hver hefur haldið þessari kenningu fram? Hefur einhver íslenskur stjórnmálamaður gert það? Einnig segir: „Það er fádæma þröngsýni að líta svo á, að menntun sé til þess eins fallin að gera manni auðveldara um vik að komast í hálaunuð störf.” Hver er þessarar skoðunar? Er höfundur að vísa til niðurstöðu í könnun meðal námsmanna, sem Morgunblaðið kynnti fyrir nokkrum mánuðum? Þá er setning eins og þessi: „Það er gömul og sennilega séríslensk venja að segja að námsmenn eigi sko barasta að vera þakklátir fyrir að fá að læra, og að námsmenn séu almennar frekjur.” Hvaða íslenskur stjórnmálamaður talar á þennan hátt um námsmenn?

Dálkurinn er ritaður á þann veg, að höfundur telur sig greinilega á æðra plani en almennt tíðkast í umræðum um opinber málefni, þótt hann að þessu sinni stigi náðarsamlegast af stallinum til að ræða um frekar ómerkilega stjórnmálamenn og taka undir með vinstrisinnuðum námsmönnum í Háskóla Íslands, sem beita Stúdentablaðinu í eigin þágu. Á að skilja greinina sem svo, að hugi stjórnmálamenn að fylgi í kosningum sé um annarleg viðhorf að ræða? Í kosningum leggja stjórnmálamenn verk sín undir dóm kjósenda. Er óeðlilegt að þeir leitist við að ljúka sem mestu á kjörtímabilinu, svo að kjósendur fái sem skýrasta mynd af verkum þeirra? Hvað af fullloknum verkum eiga stjórnmálamenn að skilja eftir fyrir arftaka sína? Hvenær eiga ráðherrar að leggja niður störf fyrir kosningar?