21.3.1999

Glímutök - Röskvuraunir

Stjórnmálamræður eru að taka á sig þá mynd, sem eðlileg er, þegar kosningar nálgast. Fjölmiðlamenn spyrja stjórnmálamenn með öðrum hætti en áður. Ljóst er, að framsóknarmönnum stendur ekki á sama um fylgi sitt samkvæmt skoðanakönnunum, sérstaklega ekki, þegar þær sýna flokk þeirra aðeins með 13.% fylgi, telur Halldór Ásgrímsson það tæplega duga til að hann líti á það sem nægilegt traust til að setjast í ríkisstjórn. Hann hefur þó ekki fetað í fótspor þeirra stjórnmálamanna, sem hafa sett kjósendum þann kost, að því aðeins setjist flokkur hans við stjórnvölinn, að hann fái ákveðið hlutfall í kosningum. Þetta gerði Thorbjörn Jagland, leiðtogi jafnaðarmanna í Noregi, í síðustu kosningum þar eins og frægt er, þegar hann málaði sjálfan sig út í horn, þar sem flokkur hans fékk ekki þá prósentutölu, sem hann óskaði.

Framsóknarflokkurinn hefur orðið fyrstur til að hefja kosningabaráttuna með auglýsingaherferð í Morgunblaðinu og kynningu á henni með auglýsingum í öðrum fjölmiðlum. Sama dag og þessi herferð framsóknarmanna hefst birtist opnuviðtal við Halldór Ásgrímsson í Morgunblaðinu og í Degi var í síðustu viku forsíðufrétt um, að Gissur Pétursson, fulltrúi framsóknarmanna í útvarpsráði, hefði lagt fram fyrirspurnir í ráðinu um efnistök fréttastofu sjónvarps, því að þar lægju framsóknarráðherrar og framsóknarþingmenn óbættir hjá garði, afrekum þeirra væri ekki gerð nægilega góð skil. Fellur þessi kvörtun vel að auglýsingaherferðinni í Morgunblaðinu, því að hún byggist á því, að í ríkisstjórninni hafi framsóknarráðherrarnir og flokkur þeirra náð glæsilegum árangri.

Jafnhliða þessu heldur Siv Friðleifsdóttir, sem skipar efsta sæti Framsóknarflokksins í Reykjaneskjördæmi, áfram einskonar hræðsluáróðri gagnvart Sjálfstæðisflokknum, þegar hún básúnar hættuna af því, að Sjálfstæðiflokkurinn fái það, sem henni finnst, of mikið fylgi. Hvort þessi áróður verður bundinn við Siv á eftir að koma í ljós, en hún leggur mál þannig á borðið, að vegna hins mikla fylgis, sem kannanir sýni við Sjálfstæðisflokkinn í Reykjaneskjördæmi, sé sæti hennar sjálfrar í hættu, hún sé þess vegna að berjast fyrir pólitísku lífi sínu. Yrði það vafalaust saga til næsta bæjar, ef framsóknarmenn næðu ekki einum þingmanni í þessu fjölmenna kjördæmi. Meðal framsóknarmanna í Reykjavík, þar sem Finnur Ingólfsson skipar efsta sætið, gætir óróa, ef marka má fregnir. Sagt er, að tveir fyrrverandi frambjóðendur Framsóknarflokksins í Reykjavík, Arnþrúður Karlsdóttir og Guðmundur G. Þórarinsson, séu að velta fyrir sér framboðum fyrir aðra, þó ekki sömu samtökin eða flokkana. Líklega er rétt að taka þessum fréttum með fyrirvara, því að þær sýnast ekki endilega byggjast á því, sem sannara reynist og eru sýnist mér flestar skrifaðar af þeim blaðamanni Dags, sem skrifar helst pólitískar „fréttir” um óorðna hluti.

Næsta sérkennilegt er að lesa og heyra umræður um ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um sjávarútvegsmál. Þeir, sem fylgst hafa með skrifum Morgunblaðsins um þessi mál og afstöðu þess til stefnu Sjálfstæðisflokksins, hljóta að taka eftir því, að um og eftir landsfundinn breyttist afstaða blaðsins. Telur blaðið nú, að stefna Sjálfstæðisflokksins beini umræðum um þetta mikla ágreiningsmál inn á nýjar og farsælar brautir. Síðan eru hinir, sem hafa verið sporgöngumenn blaðsins eða samherjar, og vilja ekki sætta sig við þá skýringu þess, að stefna Sjálfstæðisflokksins sé nú að réttu markmiði. Er enn samhljómur á milli þeirra félaga Illuga Jökulssonar á Rás 2 og Guðmundar Andra Thorssonar í DV, þegar þeir fjalla um sjávarútvegsstefnu Sjálfstæðisflokksins. Finnst þeim frekar lítið til hennar koma. Eins og ég hef áður rakið gefa þeir félagar tóninn fyrir stóran hóp vinstrsinna í umræðum um stjórnmál. Taki þeir báðir til máls um gerðir sjálfstæðismanna með svipuðum hætti er það til marks um, að þeir hafi áhyggjur af því, að sjálfstæðismenn séu að slá of marga keilur, eða þeir telja sig geta komið höggi á sjálfstæðismenn.

Röskvuliðið í Háskóla Íslands sér ástæðu til þess að verja miklum hluta nýjasta Stúdentablaðs til að fjalla um embættisverk mín og þann árangur, sem náðst hefur í lánamálum námsmanna og með nýjum lögum um Háskóla Íslans. Eru efnistök blaðsins með þeim hætti, að ýmsir hneykslast á þeim, ef marka má það, sem birst hefur í Morgunblaðinu og DV um viðbrögð meðal stúdenta. Margrét Einarsdóttir, sem hefur átt sæti í ritnefnd Stúdentablaðsins fyrir Vöku, sagði sig úr nefndinni vegna offorsins í málflutningi ritstjóra Röskvu.

Ástæða er til að nefna það sérstaklega, að Stúdentablaðinu er dreift ókeypis til allra námsmanna við Háskóla Íslands og vafalaust fleiri. Talsmönnum Röskvu á Stúdentablaðinu og annars staðar er oft ósýnt um að leggja mál fram á hlutlægan hátt og hafa mikla þörf fyrir að slá sjálfa sig til riddara, jafnvel þótt ljóst sé, að það sé á hæpnum forsendum gert, svo að ekki sé meira sagt. Þannig hefur mér þótt fyndið að fylgjast með því, hve mikið þeim er í mun að sanna, að svokölluð eftirseta námsmanna í Þjóðarbókhlöðunni hafi leitt til þess að afgreiðslutími hennar var lengdur. Sérstaklega er þessi sjálfumgleði skrýtileg með það í huga, að ýmsir innan háskólans, sem voru að vinna að lausn málsins höfðu beinlínis af því áhyggjur, að þessi uppákoma í bókhlöðunni kynni að spilla fyrir framgangi þess og létu mig vita um þessar áhyggjur sínar.

Reiði Röskvu í minn garð byggist nú á þrennu:

Í fyrsta lagi, að ég skyldi hafa hækkað námslán án þess að Röskva gæti eignað sér þá ákvörðun með einum eða öðrum hætti. Talsmennirnir reyna þó að klóra í bakkann með því að lítillækka samstúdenta sína á þann veg, með því að teikna þá þannig á forsíðu Stúdentablaðsins, að þeir séu við hungurmörk að þiggja kosningadúsu úr minni hendi. Einnig eru þeir sárir yfir því, að fjárhagsstaða LÍN sé svo sterk, að svigrúm er til að hækka grunnframfærslu námsmanna án þess að fara fram á aukafjárveitingu úr ríkissjóði. Er engu líkara en talsmenn Röskvu telji þessa sterku stöðu LÍN sérstakt áhyggjuefni fyrir sig og leitast við að gera sem minnst úr henni.

Í öðru lagi er Röskvuliðið í sárum vegna þess að alþingi samþykkti frumvarpið til laga um Háskóla Íslands. Á heimasíðu Grósku, sem er einskonar eldri deild Röskvu, hafði því verið slegið föstu, að frumvarpið væri komið í gislingu að kröfu Röskvuforystu stúdentaráðs um, að orðalag tengt stúdentaráði í lögunum mætti túlka á þann veg, að ráðið hefði aðra stöðu en námsmannafélög almennt. Alþingi samþykkti frumvarpið og það varð að lögum án þess að stúdentaráð sé nefnt í þeim. Tók menntamálanefnd alþingis fram, að þetta væri gert til að lög um Háskóla Íslands væru að þessu leyti sambærileg við lög um Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands. Eru Röskvuliðar mjög reiðir mér fyrir að skilgreina stúdentaráð sem félag, þótt ég geri á góðum almennum forsendum og einnig með vísan til þess, að ég var á sínum tíma varaformaður og síðar formaður stúdentaráðs, en eðli ráðsins hefur ekkert breyst frá þeim tíma. Í Stúdentablaðinu kemur fram, að forystusveit Röskvu í stúdentaráði hafi fellt sig við, að ekki er minnst á ráðið í nýju háskólalögunum. Það var einmitt þessi staðreynd, sem Guðný Guðbjörnsdóttir alþingismaður undraðist í þingumræðunum um málið og gaf hún raunar þá til kynna, að stúdentaforystan hefði verið keypt til þessarar afstöðu með hækkun námslánanna!

Í þriðja lagi eru Röskvuliðar reiðir yfir því, að menntamálaráðherra skuli eiga að tilnefna tvo menn í tíu manna nýtt háskólaráð. Gerðu þeir þá furðulegu tillögu, að Hollvinsasamtök háskólans ættu að senda alþingi tilnefningu um fulltrúa í háskólaráð. Slík skipan er með öllu óþekkt enda tók enginn undir þessa tillögu af neinni alvöru á þingi. Raunar hafði alþingi samþykkt með rammalögum um háskóla, sem tóku gildi 1. janúar 1998, að menntamálaráðherra skyldi skipa menn í háskólaráðið. Í tilefni af þessari niðurstöðu alþingis, setur ritstjóri Stúdentablaðsins höfuðið á mér á tvo hundsbúka og stillir þessum voðaskepnum upp fyrir framan háskólabygginguna.