14.3.1999

Góður landsfundur - lánasjóður - háskólalög

Ég sest niður við að skrifa þennan pistil fáeinum mínútum eftir að 33. landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk á sjötta tímanum sunnudaginn 14. mars. Fundurinn hófst síðdegis á fimmtudag með glæsilegri setningarathöfn og ræðu Davíðs Oddssonar flokksformanns, sem í fundarlok hlaut stuðning rúmlega 97% fundarmanna í formannskjöri. Davíð var fyrst kjörinn formaður eftir harða baráttu við Þorstein Pálsson á landsfundi 1991 og hlaut þá um 52% atkvæði. Fylgið, sem Davíð fékk núna sýnir hve vel hann hefur haldið á málum að mati flokksmanna , er líklega einsdæmi, að formaður flokksins fái svo ótvírætt umboð. Er þetta ekki síst sögulegt í ljósi þess, að Davíð hefur jafnframt verið forsætisráðherra í átta ár. Kosningabarátta þeirra Sólveigar Pétursdóttur og Geirs H. Haarde um varaformannsstólinn var ekki háð með neinum hávaða eða látum á landsfundinum. Dreift var kynningarblöðum og á fundum kjördæma, kvenna og ungra sjálfstæðismanna voru frambjóðendur kynntir auk þess fluttu þau bæði framboðsræður síðdegis á laugardaginn.

Landsfundurinn er sérkennileg samkoma að því leyti, að menn nota ekki síður tækifærið til að ræða saman, hitta kunningja og vini, leggja á ráðin um úrlausn mála eða skipuleggja þætti í flokksstarfinu en að sitja hljóðir í fundarsalnum og hlýða á mál manna. Síðan gerist það inn á milli að allt dettur í dúnalogn í fundarsalnum, þar sem um þúsund manns sitja og allir hlusta og fylgjast með því, sem ræðumaður er að segja. Þannig var andrúmsloftið auðvitað þegar Friðrik Sophusson kvaddi sem varaformaður og þau Sólveig og Geir kynntu sig. Einnig gerðist þetta öðru hverju, þegar fluttar voru ræður um einstakar ályktanir og menn áttuðu sig á því, að kynnt voru ný sjónarmið eða einhverju var mótmælt með öflugum rökum.

Greinilegt var að hópur ungra manna úr Heimdalli hafði það að markmiði að sækja frá hægri við stefnumótun. Sumt af því, sem þeir vildu, náði fram að ganga, annað ekki. Ég tók þátt í umræðum við þá um menningarmál. www.andriki.is, en hluti þessara Heimdellinga heldur því netblaði úti af miklum dugnaði og samviskusemi, geta menn til dæmis séð, að þessir hugsjónamenn höfðu sérstaklega horn í síðu ályktunarinnar um menningarmál. Þeir höfðu þó ekki erindi sem erfiði í öllu því, sem þeir vildu þar. Er umhugsunarefni, hvers vegna Heimdellingarnir beina athygli sinni sérstaklega að menningarmálum.

Ég hjó eftir því, að í frétt sjónvarps ríkisins frá landsfundinum nú í kvöld var þess sérstaklega getið, að ekki væri minnst á tónlistarhús í Reykjavík í ályktun landsfundarins, þótt minnst hafi verið á húsið í drögum að ályktun um menningarmál. Þetta er rétt, en í nefnd fundarins um menningarmál var það að tillögu minni, sem þetta var fellt á brott eftir nokkrar umræður, enda má segja, að ekki sé ástæða til að álykta um sérstakar byggingar, sem ákveðið hefur verið að reisa. Ef menn fara yfir ályktanir landsfundarins sjá menn, að þar er ekki ályktað um einstök mannvirki heldur eru þær með almennari hætti.

Vilhjálmur Egilsson alþingismaður var formaður stjórnmálanefndar landsfundarins og kynnti tillögur að almennri stjórnmálaályktun af miklum skörungsskap og var hún samþykkt með lófataki og er gott veganesti fyrir okkur frambjóðendur í komandi kosningum. Þar segir meðal annars um menningarmál:

„Menningarlíf þjóðarinnar stendur nú með miklum blóma enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt rækt við það í stjórnartíð sinni. Íslenskt menningarlíf er ekki einungis ein af undirstöðum þjóðarvitundar Íslendinga heldur er það sífellt mikilvægara samkeppnistæki fyrir þjóðina og tengsl öflugs menningarlífs og árangurs í atvinnustarfsemi fara stöðugt vaxandi. Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram verða bakhjarl menningar og hafa forgang um nýja sókn í íslensku menningarlífi.”

Hér er ekki töluð nein tæpitunga um stuðning við íslenska menningu og auk þess var samþykkt sérstök ályktun um menningarmál. Þá ályktun og allt annað efni frá landsfundinum er unnt að kynna sér á netinu með því að heimsækja Sjálfstæðisflokkinn www.xd.is. Í ályktuninni um skóla- og fræðslumál er áréttuð sú stefna, sem fylgt hefur verið og hvatt til þess að einkaframtakið fái enn frekar að njóta sín á þessu sviði. Var ánægjulegt að heyra á landsfundinum hve jákvæður andi ríkti í umræðum um menntamálin. Svo að ég nefni íþróttamálin, þriðja málaflokkinn á mínu verksviði, sem menntamálaráðherra, þá vakti sérstaka athygli þar, að gerð var tillaga um að bannið við ólympískum hnefaleikum yrði afnumið, samþykkti landsfundurinn hana í atkvæðagreiðslu og umræðum, sem drógu að sér alla athygli fundarmanna. Hér er um það að ræða að afnema lög frá 1956 verður það ekki gert nema með samþykki alþingis.

Að kvöldi setningardags landsfundarins var boðað til þriggja funda um sérgreind málefni, sem höfðu frelsið að samnefnara, þar kom það í minn hlut að flytja framsögu um efnið Frjáls þjóð í frjálsu landi. Voru umræðurnar líflegar, þótt fundarmenn hefðu mátt vera fleiri, en Tómas Ingi Olrich alþingismaður, Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur og María Ingvadóttir viðskiptafræðingur höfðu einnig framsögu á fundinum. Var meðal annars fyrir okkur lagt að skoða viðfangsefni okkar í því ljósi, að í vor verða 70 ár liðin frá því að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður.

Að morgni föstudags sátum við ráðherrar flokksins fyrir svörum í tæpa þrjá klukkutíma og komust færri að en vildu með spurningar sínar. Síðdegis flutti Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri skýrslu sína um flokksstarfið og þá var einnig rætt um skipulagsmál og greint frá því að miðstjórn mundi skipa nefnd til að ræða þau fyrir landsfund eftir tvö ár. Verður í því starfi meðal annars hugað að hugmyndum mínum um að kosið verði beint til framkvæmdastjórnar á landsfundi og þar verði skipt verkum milli manna, sem taki að sér að leiða innra starf flokksins á einstökum sviðum undir forystu leiðtoga flokksins.

Vegna hins góða almenna samkomulags, sem ríkti um málefni á fundinum, beindist athygli fjölmiðla mest að varaformannskjörinu. Því lauk með góðum sigri Geirs H. Haarde, sem hlaut um 75% atkvæða. Er ástæða til að óska báðum frambjóðendum til hamingju með framgöngu þeirra og Geir sérstaklega vegna hins góða árangurs, sem hann náði.

Fyrir nokkrum mánuðum sagði einn stjórnarandstöðuþingmaður við mig í spjalli, þegar við gengum yfir Austurvöll, að við sjálfstæðismenn værum kaldir að efna til varaformannskjörs fáeinum vikum fyrir kosningar, hvort forystan teldi sig hafa svo gott vald á flokknum, að slík átök mundu ekki draga dilk á eftir sér og spilla fyrir í kosningunum. Ég sagðist ekki óttast þetta. Sólveig Pétursdóttir flutti góða ræðu, þegar hún óskaði Geir til hamingju með sigurinn. Er ég sannfærður um, að þessi kosning spillir á engan hátt þeirri miklu einingu, sem ríkir innan flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn kemur sterkur frá þessum landsfundi. Stefnan er skýr og góð eining um forystu flokksins.

Þriðjudaginn 9. mars samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að hækka grunnframfærslu námslána strax og síðan frítekjumark þeirra námsmanna, sem sækja um lán í Lánasjóð íslenskra námsmanna á næsta ári. Þessi ákvörðun var síðan tilkynnt á blaðamannafundi samdægurs og var henni fagnað af námsmönnum.

Ef menn lesa það, sem ég hef skrifað hér á þessum síðum mínum um lánasjóðsmálin síðan ég varð menntamálaráðherra, sjá þeir, að margir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa á þessum árum viljað koma á okkur höggi vegna lánasjóðsmálsins. Margir töldu, að lagabreytingar vegna LÍN og viðbrögð við kröfum námsmanna yrðu til þess að eyðileggja stjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Nægir í því efni að nefna það, hvernig Sigurdór Sigurdórsson, þá blaðamaður á DV og nú á Degi, fjallaði um málið og reyndi að koma illu af stað.

Árið 1997 náðist sátt um breytingar á lögunum um LÍN og hefur þeim verið hrundið í framkvæmd með þeim ágætum, að nú er svigrúm til þess að hækka grunnframfærsluna án þess að óska eftir frekari fjárveitingu úr ríkissjóði, en það er talið, að hækka þurfi fjárveitingar til sjóðsins um 85 milljónir króna á næsta ári til að standa undir kostnaði vegna hærra frítekjumarks.

Deilur vegna LÍN settu mikinn svip á kosningabaráttuna fyrir fjórum árum. Nú eru þessar deilur að baki. Friður um LÍN ætti að gefa færi til þess að huga að öðrum þáttum varðandi þennan mikilvæga lánasjóð, því að aldrei má láta staðar numið við að búa námsmönnum sem best skilyrði.

Þingfundum var frestað síðdegis fimmtudaginn 11. mars. Meðal þeirra lagafrumvarpa, sem alþingi samþykkti og gerði að lögum þennan síðasta dag, var frumvarp til laga um Háskóla Íslands, áður hafði þingið samþykkt ný lög um Háskólann á Akureyri en Kennaraháskóla Íslands voru sett ný lög á síðasta ári. Þannig hefur þremur stærstu háskólunum verið skapaður nýr lagarammi á grundvelli hinna almennu háskólalaga, sem tóku gildi 1. janúar 1998.

Frumvarpið til laga um Háskóla Íslands hefur verið lengi á döfinni. Þegar ég kynnti þá hugmynd fyrst, að menntamálaráðherra skipaði rektor HÍ samkvæmt tillögu háskólaráðs og menntamálaráðherra skipaði tvo menn í tíu manna háskólaráð, var látið í veðri vaka, að í þessu fælist aðför að sjálfstæði HÍ. Auðvitað er það fjarri sanni enda hefur alþingi nú samhljóða samþykkt þessa skipan um æðstu stjórn HÍ.

Þegar háskólafrumvarpið var komið á lokastig var látið í veðri vaka, að það mundi ekki ná fram að ganga vegna þess að ekki yrði samkomulag um málið vegna fyrirvara og andstöðu framsóknarmanna á alþingi. Var látið í veðri vaka, að framsóknarmenn hefðu sett okkur sjálfstæðismönnum úrslitakosti. Fyrst var sagt, að framsóknarmenn vildu, að staðið yrði við samþykkt háskólaráðs frá 19. nóvember um stöðu stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þegar í ljós kom eftir umræður á þingi, að enginn efnislegur ágreiningur væri með vísan til samþykktar háskólaráðs, var tekið til við að ræða málið á öðrum forsendum að því er virtist að frumkvæði forráðamanna stúdentaráðs. Þá komu fram þau sjónarmið, að ekki mætti ganga þannig til verks, að stúdentaráð væri félag. Í greinargerð með frumvarpinu kemur sú ótvíræða skoðun fram, að stúdentaráð sé félag. Beindist athyglin á lokastigi málsins að 2. tölulið 18. greinar frumvarpsins, þar sem stóð: „Háskólaráði er heimilt að semja við stúdentaráð Háskóla Íslands, önnur félög stúdenta, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.”

Eftir umræður um málið í menntamálanefnd alþingis flutti hún þessa breytingartillögu við þennan 2. tl. 18. gr. : „Háskólaráði er heimilt að semja við stúdenta, samtök þeirra og félög, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands enda sé farið að ákvæðum 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.”

Eins og menn sjá af þessari breytingartillögu felur hún það í sér, að ekki er lengur minnst á stúdentaráð og þannig var frumvarpið gert að lögum, að það er ekki minnst á stúdentaráð í þeim. Tveir samfylkingarþingmenn, Svanfríður Jónasdóttir og Guðný Guðbjörndsóttir rituðu undir álit menntamálanefndar með fyrirvara og laut hann að því, að ekki væri minnst á stúdentaráð í lögunum. Eftir umræður um málið aðfaranótt fimmtudags og við þriðju umræðu um frumvarpið fluttu þær eftirfarandi breytingartillögu við þennan tölulið: „Háskólaráði er heimilt að semja við stúdentaráð, félög stúdenta, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands enda sé farið að ákvæðum 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.”

Þessi tillaga, þar sem stúdentaráð er að nýju komið inn í lagatextann, var felld í atkvæðagreiðslu við þriðju umræðu málsins. Ég sagði, að frumvarpið eða lögin breyttu engu um stöðu stúdentaráðs og er það enn skýrara, eftir að ekkert er minnst á stúdentaráð í lögunum, enda er það alfarið á hendi stúdenta að ákveða starfsramma þessa félags síns og stöðu þess í háskólasamfélaginu. Frelsi háskólaráðs til að semja við stúdentaráð er óskorað samkvæmt lögunum.

Öllum sem komu að þessu máli og heyrðu viðhorf forráðamanna stúdentaráðs var ljóst, að þeir lögðu áherslu á, að ráðsins yrði getið í lögunum. Guðný Guðbjörnsdóttir vék að þessu í þingræðu og lýsti undrun sinni yfir því, að stúdentar hefðu lagt blessun sína yfir niðurstöðu menntamálanefndar. Sagði hún, að þetta hefði gerst sama dag og ég hefði tilkynnt um allt 300 milljón króna hækkun á útgjöldum LÍN í þágu námsmanna og gaf beinlínis til kynna, að með þessu hefðu forráðamenn stúdenta við Háskóla Íslands verið keyptir til stuðnings við tillögu menntamálanefndar. Var greinilegt, að mörgum þingmönnum blöskraði þessi málflutningur.

Ég rek þetta svo nákvæmlega hér til að allir hafi alla þætti þessa lokaatriðis við frágang lagafrumvarpsins um Háskóla Íslands á hreinu. Alþingi hefur afgreitt frumvarpið og það er orðið að lögum. Ég sá, að einhverjir talsmenn Grósku, sem eru áhugasamir um málefni stúdentaráðs, fögnuðu því, að háskólafrumvarpið næði ekki fram að ganga vegna fyrirstöðu stúdentaráðs. Ég veit ekki hvar sú fyrirstaða var, en hún hefur þá líklega leitt til þess að mati þessara talsmanna Grósku, að ekki er lengur getið um stúdentaráð í lögunum um Háskóla Íslands.

Háskólalögin öðlast þegar gildi og skulu að fullu komin til framkvæmda 1. maí 1999. Starfandi háskólaráð skal setja reglur til bráðabirgða um kosningarrétt, undirbúning og framkvæmd kosninga kennara og stúdenta í háskólaráð, þannig að nýtt háskólaráð geti hafið störf eigi síðar en 1. maí 1999. Þá skal það háskólaráð, sem nú situr, setja reglur fyrir háskólafund og ákveða hvenær hann verður fyrst kallaður saman.