7.3.1999

Einkaframtak - mannauður og Morgunblaðið

Í vikunni sem leið tók ég þátt í tveimur atburðum, sem eru til marks um aukinn hlut einstaklinga í skólakerfinu.

Miðvikudaginn 3. mars var ritað undir samning milli menntamálaráðuneytisins, Námsgagnastofnunar og GKS hf. um sölu á skólavörubúðinni til GKS fyrir tæpar 37 milljónir króna. Hverfur búðin í hendur hinna nýju eigenda strax á morgun, 8. mars.

Laugardaginn 6. mars tók ég fyrstu skóflustungu að nýju húsi Iðnskólans í Hafnarfirði. Er það fyrsta skólahúsið, sem reist er á forsendum svonefndrar einkaframkvæmdar. Ríkið og Hafnarfjarðarbær gerðu samning um að fara þessa leið og síðan var verkið boðið út og samið við Nýsi hf. Er ætlunin að næsta haust flytji skólinn í nýtt fullbúið 4500 fermetra húsnæði fyrir 500 nemendur, tæki, mötuneyti og aðstöðu fyrir skólastjórnendur og kennara. Þá sér Nýsir hf. um fleiri grunnþætti skólastarfsins en samið er við fyrirtækið til 25 ára. Verður mjög spennandi að sjá hvernig til tekst við þessa fyrstu einkaframkvæmd á sviði skólamála.

Í þessu sambandi get ég ekki látið hjá líða að minna á, að einn af frammámönnum græna kostsins hans Steingríms H. og Ögmundar, Drífa Snædal, fyrrverandi formaður Iðnnemasambands Íslands, ritaði grein í Morgunblaðið, þegar þessi áform voru fyrst kynnt og gagnrýndi harðlega að treyst skyldi á einkafyrirtæki með þessum hætti við að efla skólastarf. Síðan gerðist það, að Sigríður Jóhannesdóttir, þingmaður Alþýðubandalagsins, sem fór í samfylkinguna, tók undir með Drífu. Er líklegt, að þessi afstaða þessara tveggja vinstrisinna þyki álíka framsýn, þegar frá líður, og kvíði framsóknarmanna yfir því á sínum tíma, að hér yrði litastjónvarp.

Sala Skólavörðubúðarinnar hefur gengið friðsamlega fyrir sig. Stafar það kannski af því, að öllum er orðið ljóst, að ekki er sáluhjálparatriði fyrir skóalstarf í landinu, að ríkið reki verslun sem þessa. Hitt stuðlar þó vafalaust einnig að sáttinni, að menn hafa gefið sér góðan tíma til að ræða málið og fara ofan í saumana á því.

Samhliða því sem skrifað var undir sölu Skólavörubúðarinnar var tilkynnt um stórátak í námsefnisgerð vegna nýrrar námskrár fyrir grunnskólann. Í tilefni af þessum tímamótum skrifar Óli Björn Kárason, ritstjóri DV, leiðara í blað sitt og segir:

„Námsgagnastofnun er ætlað stórt hlutverk á næstu árum, samhliða innleiðingu nýrrar námskrár. Mikilvægt er að vel takist til í þeim efnum og nokkrar vonir vakna við að svo verði, en í áðurnefndri yfirlýsingu Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra segir: „Menntamálaráðherra hefur jafnframt lagt á það áherslu við Námsgagnastofnun að námsefnisgerð verði í auknum mæli boðin út.” Þetta er mikilvæg yfirlýsing og veit vonandi á betri tíma. Með henni er rudd leið fyrir einkaaðila til að hasla sér völl við gerð námsefnis fyrir grunnskóla, með líkum hætti og fyrir framhaldsskóla. Staðreyndin er sú að Námsgagnastofnun í núverandi mynd er úrelt fyrirbæri sem kemur í veg fyrir blómlega samkeppni í námsefni fyrir yngstu nemendurna - samkeppni sem nemendur, foreldrar og kennarar eiga að njóta.”

Nýta ber þá góðu þekkingu sem er fyrir hendi innan Námsgagnastofnunar og hún er nauðsynlegt tæki fyrir ríkisvaldið til að fara með yfirstjórn námsefnisgerðar, á meðan lög fela ríkinu það hlutverk. Hins vegar er brýnt fyrir þessa stofnun eins og aðrar að tileinka sér nýja starfshætti og nýta sér markaðinn í ríkari mæli en fram til þessa. Þekking og hæfni til að gera gott námsefni er ekki og á ekki að vera bundin við eina stofnun á vegum ríkisins. Við gerð námskránna að þessu sinni hafa tugir eða hundruð kennara lagt hönd á plóginn, hjá þeim og öðrum sérfróðum aðilum er mikil vitneskja um það, hvernig námsefni þarf að vera til að ná markmiðum námskránna. Þessa krafta á að virkja, án þess að setja undir kvaðir ríkisrekstrar.

Tónninn í þessum leiðara DV var svolítið annar og bjartsýnni en í Morgunblaðinu sama dag, en seinni leiðari þess blaðs snerist um mannauðinn. Þetta hugtak er í sjálfu sér dálítið skrýtið og forðast ég að nota það í ræðu og riti. Í raun vísar það til aukinna hæfileika einstaklinga, sem þeir afla sér með meiri og betri menntun. Síðan er það fært yfir á þjóðir en menntun þeirra, áhersla á rannsóknir og þróun, eru lykilþættir við nútímamat á samkeppnishæfni þjóða. Í leiðaranum segir: „Það vantar hins vegar að hið opinbera taki almennilega við sér og fylgi þessari þróun [að styrkja mannauðinn] eftir með því að búa vel að þekkingaröflun sem og nýtingu hennar, að þróun og uppbyggingu öflugs og samkeppnishæfs þekkingariðnaðar.” Af leiðaranum má ráða, að hér hafi stjórnvöld setið með hendur í skauti og ekkert sé að marka yfirlýsingar utanríkisráðherra um mikilvægi mannauðsins fyrir sammkeppnisstöðu þjóðarinnar, af því að ekki fari saman orð og efndir hjá stjórnvöldum.

Hvar hefur höfundur þessa leiðara Morgunblaðsins verið? Hvar hefur hann leitað fanga til að afla sér upplýsinga um þróun þessara mála hér á landi? Af leiðaranum má ráða, að höfundurinn styðjist við einhverjar gamlar samanburðartölur. Ég held, að hann ætti að afla sér nýrra tölfræðilegra gagna áður en hann sest næst við skriftir um þetta mál, einnig ætti hann að huga að tilkomu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, gjörbreyttra viðhorfa til þess, hvernig hið opinbera stendur að fjárveitingum á þessu sviði, lagasetningarinnar um hinn miðlæga gagnagrunn o. s. frv. , o. s. frv.

Meginniðurstaða leiðara Morgunblaðsins um þetta mikilvæga mál er í ætt við upphrópanir Ágústs Einarssonar, prófessors og alþingismanns, um að allt sé á hverfanda hveli í menntakerfi þjóðarinnar. Spurningin sé aðeins um það, hvenær Sjálfstæðisflokknum takist endanlega að rústa það. Ágúst kemur hins vegar úr sama umhverfi og Þorvaldur Gylfason prófessor. Um hann sagði Jakob F. Ásgeirsson í ágætri Morgunblaðsgrein fimmtudaginn 4. mars:

„Ætla mætti að fjölmiðlar treystu varlega spádómum Þorvaldar Gylfasonar eftir að hann skrifaði bókina frægu, Síðustu forvöð. Þar hélt Þorvaldur því m. a. fram að allt stefndi á versta veg fyrir íslenskum þjóðarbúskap, ef hans ráðum væri ekki fylgt, hengiflugið eitt væri framundan og það væru „síðustu forvöð” að grípa í taumana. Nú ráðum hans var ekki fylgt - og síðan hefur allt staðið í blóma á Íslandi. Hver alþjóðastofnunin á fætur annarri hefur lokið lofsorði á stjórn íslenskra efnahagsmála.”

Fræðimenn hafa fullt frelsi til að slá fram kenningum og eiga raunar að gera það. Hitt er verra þegar þeir spá hinu versta, spáin rætist ekki og þá sjái þeir ekki vonarglætu í neinu, sem gert er. Á þennan veg talar Ágúst Einarsson sem stjórnmálamaður um íslenska menntakerfið og Sjálfstæðisflokkinn. Hann kom úr háskólanum inn á þing með þá vitlausu skoðun, að Sjálfstæðisflokkurinn væri höfuðandstæðingur menntunar, vísinda og rannsókna í landinu. Síðan hefur hann reynt að sanna vitlausu kenninguna, hvað sem tautar og raular. Niðurstaðan er sú, að hann hefur talað sig út í horn og lætur fara minna fyrir sér en áður. Gálausir sporgöngumenn hans lenda hins vegar í villum eins og sannaðist í leiðara Morgunblaðsins um mannauðinn. Eiga hér við orð úr fyrrnefndri grein Jakobs F. Ásgeirssonar: „Almennt séð er það einn meginvandi íslenskrar blaðamennsku hversu sérhæfing er þar lítil.”