28.2.1999

UT99 - varnarmál - samanburðarfræði

Menntamálaráðuneytið og Skýrslutæknifélag Íslands stóðu saman að ráðstefnu UT 99 um upplýsingatækni í skólastarfi í Menntaskólanum í Kópavogi. Hófst hún klukkan 13.15 föstudaginn 26. febrúar og lauk síðdegis laugardaginn 27. Í setningarræðu minni sagði ég, að kveikjan að ráðstefnunni hefði verið þörfin fyrir að reyna að fá sýn yfir stöðu upplýsingatækninnar innan skólakerfisins, þegar þrjú ár eru liðin síðan menntamálaráðuneytið gaf út stefnu sína undir heitinu Í krafti upplýsinga, en það var Ásdís Halla Bragadóttir, þáverandi aðstoðarmaður minn, sem stjórnaði vinnunni við þá stefnumótun. Þar kom meðal annars Guðbjörg Sigurðardóttir að verki en hún er nú verkefnisstjóri í upplýsingatæknimálum á vegum forsætisráðuneytisins, en ríkisstjórnin mótaði stefnu sína um upplýsingasamfélagið, eftir að menntamaálráðuneytið hafði kynnt stefnu sína, var meðal annars ákveðið þar, að upplýsingatæknimál almennt skyldu falla undir forsætisráðuneytið en hvert ráðuneyti vinna að sínum málaflokki. Hefur menntamálaráðuneytið staðið að margvíslegum verkefnum á þessu sviði og innan þess starfar sérstakur hópur að málaflokknum undir stjórn Péturs Ásgeirssonar deildarstjóra, en hann hafði einnig forystu af hálfu ráðuneytisins við undirbúning ráðstefnunnar. Á þessu ári er í fyrsta sinn um sérgreint fjármagn til upplýsingatæknimála að ræða.

Ráðstefnan UT99 var tímabær, sást það best á aðsókninni, um 600 manns sóttu hana , þar af 93 fyrirlesarar í 44 málstofum. Fór vel um allan þennan stóra hóp í MK, þar sem kennarar og nemendur í matargerð, framreiðslu og bakstri sáu ráðstefnugestum fyrir glæsilegum veislukosti í ráðstefnulok.

Fyrir ráðstefnuna kom Rögnvaldur Ólafsson dósent við Háskóla Íslands á minn fund og kynnti mér skýrslu, sem hann samdi að minni ósk um svonefnda tungutækni, það er tungumálið og upplýsingatæknina og stöðu íslenskunnar í því tilliti. Rögnvaldur var meðal fyrirlesara á ráðstefnunni og kynnti hann niðurstöður sínar þar. Er augljóst, að gera þarf átak til að tryggja stöðu íslenskunnar enn betur. Þótt tæknin auðveldi margt er ljóst, að við getum ekki treyst á að hún leysi það verkefni, sem við stöndum frammi fyrir á þessu sviði. Hið opinbera og fyrirtæki einstaklinga verða að taka höndum saman og leggja rækt við tunguna með nýjum hætti, einnig þarf skólakerfið og íslenskukennslan að taka mið af nýrri tækni og aðferðum. Er þarna nýtt og spennandi verkefni fyrir þá, sem unna íslenskri tungu.

Hér er of langt mál að rekja allt það, sem fram kom á þessari miklu ráðstefnu. Hún gefur þá mynd af skólastarfi og upplýsingatækni, að þar sé gífurlega mikið og merkilegt að gerast. Við þurfum að setjast niður og meta í hvaða farveg ber að beina þróuninni núna. Tvö atriði eru ljós í mínum huga. Í fyrsta lagi ber að taka upp einn samræmdan hugbúnað fyrir fjarkennslu með tölvum. Það ber að stefna að því, að hann sé staðfærður úr alþjóðlegu umhverfi. Í öðru lagi ber að móta stefnu um það, hvernig tölvukerfi verða byggð upp í skólakerfinu og skilgreina, hvernig einkaaðilar geta komi að því að þjónusta skóla í þessu tilliti.

Þótt undarlegt sé með hliðsjón af hinni miklu þátttöku í ráðstefnunni, fór ekki mikið fyrir henni í fjölmiðlum á meðan á henni stóð eða áður en hún var haldin. Vekur undrun, að fjölmiðlar skuli ekki hafa fundið efni við sitt hæfi á ráðstefnunni, einkum þegar hugað er að því, að á hverjum vetri eru meira en 100 þúsund Íslendingar við einhvers konar nám, þar sem upplýsingatæknin skiptir miklu og vaxandi máli. Fjölmiðlun tekur fremur mið af því, sem fer aflaga heldur en hinu, sem vel er gert, þá er það gjarnan fréttnæmara, sem snertir þrönga hagsmunahópa heldur en hitt, sem varðar hvern einstakling, vilji hann njóta sín í upplýsinga- og þekkingarþjóðfélaginu.

Netið var einkum notað til að kynna ráðstefnuna og markhópurinn var einkum í skólunum, boðum var komið til þeirra í gegnum netið og á heimasíðu ráðstefnunnar http://www.ismennt.is/vefir/ut99. Verður væntanlega einnig leitast við að setja sem mest af efni ráðstefnunnar inn á netið. Er ég sannfærður um, að ráðstefnan á eftir að skila sér með margvíslegum hætti inn í skólakerfið og þar með þjóðfélagið í heild. Tilgangurinn var að gera tilraun til að ná utan um þennan málaflokk undir merkjum skólakerfisins. Næst þarf að skilgreina einstaka þætti og efna til ráðstefnu eða málþinga um þá.

Utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson kynnti fimmtudaginn 25. febrúar skýrslu, sem samin var af embættismönnum utanríkisráðuneytisins, og fjallar hún um öryggis- og varnarmál Íslands. Skýrslan byggist á skýrslu um sama mál, sem var birt í mars 1993 en ég átti sæti í nefndinni, sem samdi þá skýrslu. Í niðustöðum þessarar nýju skýrslu segir meðal annars:

„Kannaðar verði leiðir til þess að Íslendingar geti axlað stærra hlutverk, einir eða í samstarfi við önnur ríki, í vörnum landsins, þ. á m. á sviði löggæslu, varna gegn hryðjuverkum, almannavarna, björgnuarstarfa, æfinga og eftirlits á hafinu kringum landið. Sjá verður til þess að mögulegt sé að nýta reynslu og þekkingu þeirra Íslendinga, sem starfað hafa að friðargæslu á erlendum vettvangi, í þágu varna landsins og öryggis eftir að þeir snúa heim.”

Umræður um utanríkismál fóru fram á alþingi fimmtudaginn 25. febrúar. Vegna skyldustarfa annars staðar hafði ég ekki tök á að hlýða á umræðurnar eða taka þátt í þeim. Mér er hins vegar sagt, að Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins sáluga, hafi notað ræðutíma sinn til að skammast út í mig og útlista, að mig hefði dagað uppi á tímum kalda stríðsins og auk þess lagt til að Íslendingar stofnuðu her til að verja land sitt, hefði ég lagt fram miklu róttækari tillögur en samfylkingin, sem gleypti Alþýðuflokkinn, og gælir nú við hugmyndir um Ísland úr NATO og herinn burt.

Þeir, sem skoða ræðusíðu minna hér á vefnum og fara inn á árið 1995 og leita fyrir sér í ágúst eða september það ár geta fundið ræðu, sem ég flutti á ensku um öryggis- og varnarmál Íslands. Þar vék ég að breytingum í öryggismálum og hvernig við þeim skyldi brugðist. Hugmyndir mínar um það voru af svipuðum toga og lýst er í þessari nýju skýrslu embættismanna í utanríkisráðuneytinu, það er að við héldum áfram í NATO og varnarsamstarfi við Bandaríkin en skilgreindum betur, hvað við ætluðum að gera sjálfir við breyttar aðstæður. Einmitt þetta er lagt til í skýrslunni, sem utanríkisráðherra kynnti á fimmtudaginn. Menn þurfa ekki að hafa mikla þekkingu á öryggismálum til að átta sig á því, að ráðstafanir til að ná þeim markmiðum, sem lýst er í skýrslunni, falla utan hefðbundinna löggæslustarfa.

Sighvatur Björgvinsson getur ekki notað texta utanríkisráðherra til að gera lítið úr því, sem ég reifaði fyrir rúmum þremur árum og vissi, að kæmist hér á dagskrá fyrr en síðar. Samfylkingarmenn verða að leita að öðrum rökum til að styðja þá stefnu, sem þeir eru að móta um varnarleysi þjóðarinnar.

Á sínum tíma kallaði ég það samanburðarfræði, þegar vinstrisinnar, einkum málsvarar Sovétríkjanna sálugu, tóku sig til og báru saman framgöngu Vesturveldanna, einkum Bandaríkjanna, og Sovétríkjanna og komust að þeirri niðurstöðu, að Bandaríkin væru ívið verra risaveldi en Sovétríkin, þegar öllu væri á botninn hvolft. Árni Bergmann á Þjóðviljanum var einna liðtækastur í samanburðarfræðunum og virðist enn við sama heygarðshornið í föstum dálki sínum í DV föstudaginn 26. febrúar, þegar hann blandar sér í útúrsnúing vinstrisinna á pistli mínum, þegar ég rifjaði upp þá sögulegu staðreynd að Pol Pot og menn hans í Kambódíu vildu byrja stjórnmálastarf sitt með ártalinu 0 og ryðja fortíðinni í burtu. Hafa vinstrisinnar og sérstaklega sumir málsvarar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra túlkað þessi orð mín á þann veg, að ég líki henni við fjöldamorðingja, ekkert er að sjálfsögðu fjær mér.

Í dálki sínum segir Árni Bergmann meðal annars:

„Menntamálaráðherra flækti saman á Netinu Ingibjörgu Sólrúnu, borgarstjóra í Reykjavík, og Pol Pot, sem stóð fyrir gífurlegum manndrápum í Kambódíu fyrir aldarfjórðungi. Þarf víst ekki að hafa mörg orð um það hve fáránlegar slíkar tengingar eru.”

Ég bendi lesendum á að þarna notar Árni Bergmann allt annað orðalag en þeir Illugi Jökulsson og Guðmundur Andri Thorsson, sem báðir sökuðu mig um að líkja Ingibjörgu Sólrúnu við fjöldamorðingja. Nú er talað um að ég hafi „flækt” þau saman Ingibjörgu Sólrúnu og Pol Pot, hvað svo sem í slíku orðalagi felst. Hitt sem Árni tekur sér fyrir hendur í þessum DV-dálki er að bera Pol Pot saman við aðra grimmdarseggi aldarinnar, að vísu sér hann skyldleika með hugmyndum hans og Tolstoj og Gandhi (hvers eiga þeir að gjalda með slíkum flækjum og tengingum?) Þá segir hann, að sumir nefni Stalín í sömu andrá og Pol Pot en best sé þó að líta á Súharto Indónesíuforseta, sem vildi útrýma íbúum Austur-Tímor, hann hafi hins vegar notið velvildar Vestulanda og verið talinn góður bandamaður gegn kommúnisma. Má lesa það út úr þessum samanburðarfræðum Árna Bergmanns, að Súharto sé líklega ívið verri fjöldamorðingi en Pol Pot, hins vegar ráði viðskiptahagsmunir helstu stórvelda því, hvernig sagt sé frá morðum og kúgun, hvort þagað sé um stórglæpi og hver sé borinn saman við hvern. Athygli vekur, að Árni nefnir ekki Maó Kínaleiðtoga í grein sinni, en í Heimsmetabók Guinness er hann talinn mesti fjöldamorðingi sögunnar, honum er þó enn sungið lof meðal annars nýlega við opinbera athöfn hér á Íslandi.

Eins og menn vita ákváðu nokkrir þingmenn úr Alþýðubandalagi og Kvennalista að stofna grænt framboð. Þegar það gerðist tóku fyrrverandi samstarfsmenn þessara þingmanna upp á því að kalla þá talebana. Í Afghanistan hafa talebanar náð undir sig stærstum hluta landsins með hernaði og grimmdarverkum, eftir valdatökuna krefjast talebanar þess síðan, að fylgt sé ströngum trúarreglum islam, konur eru sviptar mannréttindum og stjórnarhættir verða hinir frumstæðustu. Talebanar eru í stuttu máli trúarlegir og pólitískir ofstækismenn, sem svífast einskis til ná markmiðum sínum. Ég hef ekki orðið var við, að hinir pólitísku siðavöndunarmenn, sem gengu fram fyrir skjöldu með skömmum um mig vegna tilvísana til sögulegra atburða úr samtímanum hafi risið upp og andmælt því að hópi íslenskra þingmanna sé líkt við hina grimmu talebana.

Í sömu andrá og rætt er um samanburðarfræði í fjölmiðlum er ástæða til að vekja athygli á Víkverja í Morgunblaðinu laugardaginn 27. febrúar. Er þetta einn af ritstjórnardálkum blaðsins, sem lýsir því oftast hver er reynsla starfsmanna þess, þegar þeir eru í stórmörkuðum, eiga samskipti við Landssímann eða ferðast með Flugleiðum. Að þessu sinni fjallar Víkverji um stjórnmál á þeirri forsendu, að líklega séu ívið verri stjórnmálamenn á Íslandi en í Danmörku vegna þess hvernig þeir bregðast við dómi hæstaréttar, Svavar Gestsson geti orðið sendiherra, þótt hann hafi alltaf verið andvígur utanríkisstefnu Íslands, af því Halldór Ásgrímsson sat hjá við atkvæðagreiðslu á alþingi um aðild að EES og lítið sé að marka baráttu Heimdellinga fyrir meira frelsi, af því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið með stjórnarforystu í átta ár.