21.2.1999

Staða stúdentaráðs - samfylking - framhaldssaga

Nokkrar umræður hafa orðið um stöðu stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna ákvæða í frumvarpi til laga um Háskóla Íslands, sem var til fyrstu umræðu á alþingi föstudaginn 19. febrúar. Þar gerði ég grein fyrir því, að ákvæði frumvarpsins eru að mínu mati í fullu samræmi við það, sem segir í ályktun háskólaráðs frá 19. nóvember 1998, en þá samþykkt hafa allir, sem um málið ræða, vilja leggja til grundvallar. Kom fram í þingumræðunum, að Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, sem helst hefur verið kallaður fram til staðfestingar á meintum, djúpstæðum ágreiningi milli stjórnarflokkanna um málið, telur ekki um efnislegan ágreining í málinu að ræða. Hann tók sérstaklega fram, að hann teldi ekkert ámælisvert við það, hvernig að frumvarpinu hefði verið staðið hjá menntamálaráðuneytinu, en annað hefur verið látið í veðri vaka í fjölmiðlum.

Ég sé í kosningablaði Röskvu vegna stúdentaráðskosninganna, sem eru á næstunni, að þar er því haldið fram, að framsóknarmenn ætli að bregða fæti fyrir framgang frumvarpsins um Háskóla Íslands. Ekkert slíkt kom fram í máli Hjálmars Árnasonar við fyrstu umræðuna um málið. Skil ég ekki í ljósi þeirra orða, sem hann lét falla þar, hvernig menn geta dregið þá ályktun, að Framsóknarflokkurinn standi þver gegn framgangi þessa máls.

Í ljósi þess, sem stendur í Röskvublaðinu, er nauðsynlegt að skýra þetta mál nánar og líta á efni frumvarpsins og afstöðu háskólaráðs til þess. Í 2. málsgrein 18. greinar frumvarpsins segir:

„Háskólaráði er heimilt að semja við stúdentaráð Háskóla Íslands, önnur félög stúdenta, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taja að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.”

Um hvað snerist samþykkt háskólaráðs frá 19. nóvember 1998, þegar sérstaklega er litið á þetta málefni.

Háskólaráð vildi tryggja með ótvíræðum hætti, að það hefði heimild til að semja við stúdentaráð um að ráðið tæki að sér að reka tiltekna þjónustu gegn greiðslu. Háskólaráð vildi ekki lögbinda greiðsluskyldu stúdenta til eins félags, enda yrði um þjónustusamning á grundvelli 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins að ræða. Háskólaráð vildi, að þannig yrði búið um hnúta, að stúdentaráð hefði ekki lögvarinn rétt til þess að háskólaráð gengi til samninga við það um rekstrarverkefni, um heimild yrði að ræða, en síðan mæti háskólaráð það heildstætt út frá rekstrarmarkmiðum sínum, hvort rétt væri að nýta hana hverju sinni. Háskólaráð vildi, að málum yrði þannig háttað, að teldi ráðið sér ekki hagkvæmt að semja við stúdentaráð gæti það samið við aðra aðila um að taka að sér ákveðin verkefni á grundvelli 3. mgr. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

Í hinni umdeildu grein frumvarpsins eru öll þessi skilyrði háskólaráðs uppfyllt. Er í einu og öllu haldið þannig á málum, að háskólaráð hefur það frelsli, sem það óskaði.

Umræður um þetta mál undanfarið minna á helsta einkenni baráttu Röskvu. Hún tekur mál, sem hún veit, að eru komin á úrslitastig, ber sér á brjóst og segist ætla að ná þeim fram. Þegar þau eru síðan komin í höfn, þakkar Röskva sér árangurinn. Á þetta til dæmis við um málflutning Röskvu varðandi afgreiðslutíma Þjóðarbókhlöðunnar. Sjálfumgleði af þessu tagi er alltaf dálítið fyndin.

Í vikunni var sagt, að mestu pólistísku tíðindi aldarinnar hefðu gerst, hvorki meira né minna. Hvað gerðist? Hver var svo upphafinn í yfirlýsingum sínum? Jú, leifar fjögurra flokka gengu í sama þingflokk, þingflokk samfylkingarinnar. Það var Rannveig Guðmundsdóttir, formaður nýja þingflokksins, sem taldi þetta mestu stjórnmálatíðindi aldarinnar. Ekki vantar sjálfumgleðina á þeim bæ. Einu sögulegu stjórnmálatíðindi vikunnar voru þau, að Davíð Oddsson hafði setið lengur samfellt sem forsætisráðherra en nokkur annar Íslendingur. Kannski var það ætlan Rannveigar að draga athygli frá þessari staðreynd með stóryrtum yfirlýsingum sínum?

Þessi skilgreining samfylkingarinnar á sögulegum tíðindum þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Á sínum tíma þótti Sighvati Björgvinssyni það hin merkustu fagnaðartíðindi í blaðasögu aldarinnar, að Alþýðublaðið hætti göngu sinni. Það hafa einnig þótt sérstök gleðitíðindi hjá Margréti Frímannsdóttur, þegar þingmenn hafa horfið úr þingflokki Alþýðubandalagsins. Þá þótti það mikið fagnaðarefni í upphafi vikunnar, þegar það var ákveðið án þess að hafa samráð við Jóhönnu Sigurðardóttur, réttkjörinn leiðtoga samfylkingarinnar, að Margrét Frímannsdóttir yrði talsmaður þessa nýja stjórnmálaafls. Var þessi ákvörðun tekin til að rétta hlut hins aflagða Alþýðubandalags eftir að fulltrúar þess höfðu lotið í lægra haldi fyrir krötum í prófkjörum. Eftir að Margrét og Sighvatur höfðu skipst á skjalli í fjölmiðlum fóru að berast fréttir úr Norðurlandskjördæmi eystra um að þar ætti að ógilda niðurstöður prófkjörs samfylkingarinnar þar með því að bola Sigbirni Gunnarssyni, sigurvegara þess, til hliðar. Er gefið í skyn, að hann sé ekki sannur samfylkingarsinni.

Þegar hinn nýi þingflokkur var stofnaður blasti við Alþýðubandalaginu, að Svavar Gestsson væri að hverfa af þingi, þá yrðu þau fjögur eftir í þingflokki hans: Margrét Frímannsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Ragnar Arnalds og Sigríður Jóhannesdóttir. Ragnar er að kveðja pólitíkina, þannig að í raun hefði orðið næsta raunalegt fyrir þingflokk Alþýðubandalagsins að þurfa að skipta verkum milli þeirra, sem eftir sitja við brottför Svavars. Má segja, að endurskipulagning á deyjandi þingflokki Alþýðubandalagsins hefði enn undirstrikað niðurlægingu flokksins.

Eftir að Rannveig Guðmundsdóttir hafði formlega tilkynnt að hinn nýi þingflokkur væri kominn til sögunnar í upphafi þingfundar 19. febrúar, kom fram, að með því að ganga til liðs við nýja þingflokkinn hefði Guðný Guðbjörnsdóttir farið á bak orða sinna gagnvart Kristínu Halldórsdóttur, sem var með henni í þingflokki Kvennlistans, þótt ljóst væri, að Kristín ætlaði að ganga til liðs við græna framboðið. Þannig lauk Kvennalistinn þingsögu sinni með orðaskaki milli þeirra, sem síðast störfuðu í umboði kjósenda hans. Fer Guðný að sögn með góðan heimanmund til hins nýja þingflokks.

Fyrr á kjörtímabilinu, þegar kannanir sýndu hvað eftir annað, að Þjóðvaki varð orðinn að engu í höndunum á Jóhönnu Sigurðardóttur og Ágústi Einarssyni gekk hann inn í þingflokk Alþýðuflokksins, sem breyttist þá í þingflokk jafnaðarmanna, nú verður þessi sami þingflokkur að þingflokki samfylkingar, þegar leifar tveggja annarra þingflokka ganga þar til samstarfs. Valdaskiptin eru skýr: Margrét er talsmaður en Rannveig formaður þingflokksins. Eftir að Jóhanna vann sinn mesta sigur og tími hennar kom, hafa samfylkingar- og samstarfsmenn hennar lagt sig fram um að sniðganga Jóhönnu ef ekki niðurlægja. Sú framganga öll er í raun meiri pólitísk tíðindi en það, að þessi fjögur brot hafi sameinast í eitt, þótt límið sem heldur þeim saman sé veikt og enginn viti enn hver er stefna þessa nýja stjórnmálaafls.

Þannig má sem sagt skilgreina aðdraganda hinna miklu pólitísku tíðinda sem samfelldan vandræðagang samfylkingarmanna. Hér hefur þó ekki verið vikið að þeirri hlið, sem oft er nefnd í þessu samhengi, það er að hinni bágu fjárhagsstöðu flokkanna og þeirri staðreynd, að flokksskrifstofu Alþýðubandalagsins hefur verið lokað í sparnaðarskyni. Skuldaklafinn verður líklega léttbærari, þegar hann leggst á fleiri herðar.

Einnig má nálgast þessa sameiningu flokksbrota í nýjum þingflokki með sama hætti og gert er í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sunnudaginn 21. febrúar. Höfundur þess fjallar um málið á forsendum þeirra, sem vilja hlut samfylkingarinnar sem bestan. Þar er talið, að nú sé að nást yfirlýst markmið vinstri manna um að sameinast í einum flokki. Þessi fullyrðing er meira en vafasöm, þegar litið er til þess, að við vinstri hlið samfylkingarinnar er flokkur, sem kennir sig við umhverfsmál, melónuflokkur, grænn að utan en rauður að innan. Eins og mál horfa fyrir kosningarnar verða fjórir meginflokkar með lista, fjórflokkurinn lifir sem sagt, þótt samfylkingin hafi stækkað þingflokk jafnaðarmanna.

Í síðasta vikupistli rakti ég hvernig talsmenn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra kusu að snúa út úr orðum mínum og túlka þau á þann veg, að hún skipaði sama sess í heimssögunni og Pol Pot. Hefur þessi lygaþráður verið spunnin áfram í fjölmiðlum. Þó er ljóst, að ekki eru allir málsvarar R-listans á einu máli, því að Stefán Jón Hafstein, fyrrverandi ritstjóri Dags, ritar grein í blaðið miðvikudaginn 17. febrúar. Er hann hinn eini talsmanna R-listans, sem birtir í heild þann kafla úr pistlinum á heimasíðu minni frá því fyrir hálfum mánuði, sem kallaði fram hin hörðu viðbrögð. Eftir að hafa birt kaflann segir Stefán Jón: „Var Björn Bjarnason að líkja Ingibjörgu Sólrúnu við fjöldamorðingja með þessum orðum? Nei. Það er engin ástæða til að fjargviðrast út af þessari klausu. Björn Bjarnason gekk ekki of langt með þessari frekar langsóttu samlíkingu. Hún er hvorki skynsamleg né áhrifamikil, en í felst engin ærumeiðing.”

Málinu var þó ekki lokið á síðum Dags með þessum orðum, því að daginn eftir kom klausa eftir Sigurdór Sigurdórsson, blaðamann og þingfréttaritara á Degi. Í illskiljanlegri klausu setur hann allt í einn pott, varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum, Pol Pot, Ingibjörgu Sólrúnu og kjör fimm manna í framkvæmdastjórn Sjálfstæðisflokksins, og verður þetta að heldur ógeðfelldum graut.

Á sínum tíma varaði ég menn við því að taka of mikið mark á pólitískum „fréttum” Sigurdórs. Ein slík birtist á forsíðu Dags laugardaginn 13. febrúar og var Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, þar borinn fyrir því, að þingflokkur framsóknarmanna hafni óbreyttu frumvarpi um Háskóla Íslands. Eins og fram kom hér að framan er ekki efnislegur ágreiningur um málið að sögn Hjálmars Árnasonar í þingræðu og ekkert bréf hefur verið sent til mín frá þingflokki framsóknarmanna um að breyta þurfi frumvarpinu eins og segir í þessari „forsíðufrétt” Sigurdórs Sigurdórssonar.