13.2.1999

Heimasíðan - Ingibjörg Sólrún - njósnari KGB

Heimasíða mín veldur vinstrisinnum sífelldu hugarangri. Hafa oftar en einu sinni verið gerðar atlögur að mér á opinberum vettvangi fyrir það, sem hér er sagt. Man ég eftir þeim Guðrúnu Helgadóttur og Svavari Gestssyni í þessu sambandi. Guðrún var að vísu almennt að gagnrýna mig fyrir að nota tölvu og lýsa yfir því, að ég vildi gjarnan eiga samskipti við fólk með tölvupósti. Síðan skipta tölvubréfin til mín líklega tugþúsundum og eru þau mál ótalin, sem ég hef leyst með þessari tækni. Svavar taldi óviðeigandi, að menntamálaráðherra viðraði skoðanir sínar á þessum vettvangi og vildi greinilega hafa einskonar ritskoðunarvald á því, sem ég segði á þessum stað. Síðan hefur hann fetað í fótspor mín og sett upp sína eigin síðu, sem á kannski eftir að fylgja honum til Winnipeg, svo að okkur gefist tækifæri til að sjá milliliðalaust frá honum sjálfum, hvað hann hefur fyrir stafni þar í þágu lands og þjóðar. (Hefði sá þótt frekar óspámannlega vaxinn á sínum tíma, þegar þeir Jón Baldvin Hannibalsson og Svavar Gestsson voru báðir virkir í Samtökum herstöðvaandstæðinga, sem spáði því, að þeir ættu eftir að starfa saman sem sendiherrar Íslands í Norður-Ameríku. Jón Baldvin í aðalhlutverki í Washington en Svavar sem handlangari hans í Winnipeg. Af hógværð sinni telur Svavar kalda stríðinu lokið með því að hann fari í utanríkisþjónustuna!) Guðrún Helgadóttir á að setjast á þing í stað Svavars en þó fyrir annan flokk, sem staðfestir enn ruglið í Alþýðubandalaginu. Er þó gott til þess að vita, að formaður bandalagsins, Margrét Frímannsdóttir, fær nú enn nýja ástæðu til að gleðjast yfir því, að fækki í þingflokki hennar.

Í vikunni hefur verið gerð atlaga að mér vegna heimasíðunnar. Í þetta sinn eru það málsvarar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem fundu það út við lestur síðasta pistils, að ég teldi borgarstjórann í Reykjavík álíka mikinn harðstjóra og blóðhundinn Pol Pot í Kambódíu. Líklega hafa fáir orðið jafnundrandi yfir þessari ályktun og ég, sem hafði nýlega hneykslast á slíkum samlíkingum hér á síðunum og hvatt til þess, að menn stigu varlega til jarðar í samanburði af þessu tagi. Fyrir mér vakti það eitt að nefna sögulegt atvik úr samtímanum en það má greinilega ekki, ef marka má viðbrögðin.

Þau hafa hins vegar kallað fram ferli, sem er fróðlegt að skoða. Það eru Bylgjan og Stöð 2, sem ríða á vaðið og kalla Ingibjörgu Sólrúnu í fréttatíma til að hún fái tækifæri til að láta í ljós vanþóknun sína með fréttamanninum. Báðar eru þær eðlilega sárar og reiðar yfir óskammfeilni minni og ekki bætir úr skák, að ég gegni stöðu menntamálaráðherra. Þarna var tónninn sleginn. Ekki var gerð minnsta tilraun til að ná í mig af þessum talmiðlum, hvorki með Ingibjörgu Sólrúnu né eftir að samtalið birtist við hana. Hentaði það ekki fyrir málatilbúnaðinn. Kom fram, að síst af öllu væri við því að búast, að ég bæðist afsökunar á þessu framferði mínu.

Ef ég man rétt er það að kvöldi þriðjudags 9. febrúar, sem rætt er við Ingibjörgu Sólrúnu í Stöð 2. Að morgni fimmtudags 11. febrúar flytur Illugi Jökulsson reiðilestur um málið í hljóðvarpi ríkisins, birtist hann síðan í heild í Degi föstudaginn 12. febrúar. Í Degi er jafnframt birt mynd af mér og Pol Pot, sem má túlka þannig með aðferð Illuga og félaga, að við Pol Pot séum lagðir að jöfnu sem sálufélagar. Heitir grein Illuga Blóðvellir?, sem er skírskotun til frægrar kvikmyndar um átökin í Kambódíu.

Illugi gerir í þessum pistli sínum lítið úr því, að ég hafi leiðrétt missagnir fréttastofu hljóðvarps ríkisins um afstöðu Davíðs Oddssonar til tillagna minna um breytingar á skipulagi Sjálfstæðisflokksins og setur sig á háan hest í sambandi við það mál allt af furðulegu yfirlæti. Síðan á hann ekki til nógu sterk orð til að lýsa hneykslan sinni á því sem hann lýsir með þessum hætti: „En yfirlýsingar Björns á heimasíðu sinni um Samfylkinguna taka svo steininn úr. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að úr því að ýmsir aðilar innan Samfylkingarinnar vilja stofna nýtt stjórnmálaafl og leggja til hliðar sína litlu gömlu flokka, þá sé helst hægt að líkja þeim við fjöldamorðingja eins og Pol Pot í Kampútseu.” Vill Illugi bregðast við þessum fádæmum með því að snarbanna íslenskum stjórnmálamönnum að taka dæmi frá útlöndum í sinni pólitísku baráttu. Eftir að hafa krafist ritskoðunar af þessu tagi sakar hann menntamálaráðherra þjóðarinnar um „algeran dómgreindarskort” og heimtar afsökunarbeiðni, ekki endilega fyrir samfylkinguna heldur fyrir alla þá, sem máttu þola ódæðisverk í Kambódíu, enda komi þeim að litlu gagni, að nú noti menn örlög þeirra til að „fæla einhvern frá því að kjósa hina stórhættulegu og viðbjóðslegu Samfylkingu uppá Íslandi.” Líklega hafa einhverjir hlustendur Illuga haldið af samhenginu í máli hans, að ég hafi notað þessi orð um samfylkinguna. Síðan spyr Illugi sig, hvernig hann geti tekið mig hátíðlega eftir þetta og endar svo lesturinn með því að segja, að ég eigi að skammast mín.

Þennan sama dag leggur Dagur spurningu um þetta mál fyrir nokkra einstaklinga, er spurningin þannig orðuð: „Fór Björn Bjarnason yfir strikið með því að líkja borgarstjóra við Pol Pot í pistli á heimasíðu sinni?” Af svörunum kemur ekki fram, hvort þeir, sem spurðir eru, hafi lesið það, sem ég skrifaði nema hjá einum þeirra Vilhjálmi Egilssyni alþingismanni, sem segir: „Ég skildi þetta alls ekki þannig að Björn Bjarnason væri í þessum pistli sínum á Netinu að líkja borgarstjóranum við Pol Pot. Til dæmis er ekki hægt að setja samsemmerki milli manns sem drekkur einu sinni eitt rauðvínsglas og forfallins alkóhólista, þó báðir eigi það sameiginlegt að hafa drukkið áfengi.”

Þennan sama föstudag fór ég síðan í viðtalsþátt á dægurmálaútvarpi rásar 2, þar sem þeir Leifur Hauksson og Ævar Örn Jósepsson ræddu við mig um stjórnmál og meðal annars að ég skyldi hafa nefnt Pol Pot. Þar sagði ég, að síst af öllu væri það skoðun mín, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir væri harðstjóri eins og Pol Pot. Alls ekki hefði vakað fyrir mér að gefa það til kynna, ályktun í þá veru, segði meira um þá, sem kæmust að henni en mig. Ég skildi raunar ekki, hvernig nokkrum dytti þetta í hug og spurði, hvort menn mættu hvorki nefna söguleg atvik úr samtímanum í málflutningi sínum né orðtök eins og að tala um mink í hænsnabúi, án þess að fjölmiðlamenn hrykkju í kút og færu að ræða um dýrafræði við stjórnmálamenn.

Laugardaginn 13. febrúar birtist pistill um málið eftir Guðmund Andra Thorsson í DV. Er hann ritaður af sömu umhyggju fyrir mér og hugvekja Illuga og í mjög svipuðum dúr. Daginn áður en þessi pistill birtist hafði ég á rás 2 svarað þeim spurningum, sem Guðmundur Andri spyr. Ein spurning hans er þessi „Eða telur hann Ingibjörgu Sólrúnu vera efni í miskunnarlausan harðstjóra og morðvarg?” Þá tekur Guðmundur Andri til við að tíunda ágæti mitt sem menntamálaráðherra en sér þó þann hæng á málinu, að ég haldi úti heimasíðu og segi þar skoðun mína, meira að segja á Máli og menningu, þar sem hann starfar. Slíkt sé ekki við hæfi, af því að ég sé menntamálaráðherra, líka þegar ég skrifa heimasíðuna. Lýkur hann pistli sínum með einskonar bakþanka um málfrelsið og segir, að ég verði þó að una því, að menn velti fyrir sér út frá orðum mínum, hversu vel ég sé fallinn til ráðherradóms.

Laugardaginn 13. febrúar birtist svokallað Jóhannesarspjall um Pol Pot-málið í Degi. Jóhannes Sigurjónsson ritar þann dálk og segist hann hafa verið róttækur ungur maður og jafnframt sannfærður um, að „Björn Bjarnason væri njósnari Sovétmanna, föðurlandssvikari, eins konar Björn „Philby” Íslands. Björn var þá blaðamaður á Mogga og andskotaðist daglega á rússum og vinstrimönnum og meintum vinstrimönnum.” Síðar segir þessi blaðamaður: „Ég meina, það hefur aldrei verið afsannað að Björn hafi verið Moskvuagent. Ekki eru öll kurl komin til grafar úr skjalsöfnum KGB. Þannig að hver veit nema hinn óttalegi leyndardómur Björns Bjarnasonar eigi eftir að verða lýðum ljós.”

Vafalaust hefur þessi setning mín í síðasta pistli kallað fram fleiri viðbrögð í fjölmiðlum án þess að ég hafi tekið eftir þeim í öllum vaðlinum. Hin tilvitnuðu orð hér á ofan dæma sig flest sjálf. Sé tilgangur þeirra sá að knýja fram yfirlýsingu frá mér um að ég líti ekki á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem fjöldamorðingja er mér ljúft að gefa hana. Slíkt hefur auðvitað aldrei hvarflað að mér frekar en það hefur líklega nokkru sinni hvarflað að þeim mönnum, sem hafa tjáð sig um málið hér að ofan að styðja mig í stjórnmálum. Stóryrði, fúkyrði, sleggjudómar og dylgjur um njósnir í þágu Sovétríkjanna af þessu tilefni hljóta hins vegar að verða fleirum umhugsunarefni heldur en mér. Allt er þetta tíundað í þessum fjölmiðlum án þess að lesendum þeirra sé nokkru sinni birt það orðrétt, sem ég sagði á heimasíðunni, enda hefði birting á því dregið broddinn úr árásunum.

Heimasíðu minni held ég ekki að neinum en býð fólki að skrá sig á póstlista til að fá tilkynningu, þegar nýr pistill birtist á henni. Stækkar sá hópur jafnt og þétt, er jafneinfalt að afskrá sig og skrá sig. Ég mun halda áfram að segja hér það, sem mér býr í brjósti um menn og málefni. Gefur það mér meðal annars einstakt tækifæri til að draga saman atburðarás á borð við þá, sem að ofan er lýst. Hún segir ekki aðeins sögu þessa máls.