Viðbrögð við samfylkingu og breiðari forystu
Sunnudaginn 31. janúar var ég beðinn að segja álit mitt á úrslitum í prófkjöri samfylkingarinnar í Reykjavík við fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Meginályktun mín var sú, að Jóhanna Sigurðardóttir væri svo ótvíræður sigurvegari pófkjörsins, að hún hlyti að leiða þessa fylkingu vinstri manna um land allt. Var þetta sent út í morgunfréttum mánudaginn1. febrúar. Að kvöldi þess sama dags fór ég í sjónvarpsumræður á Stöð 2 um málið við Margréti Frímannsdóttur, formann Alþýðubandalagsins, sem vill ekki viðurkenna forysthlutverk Jóhönnu nema í Reykjavík.
Ég skil ekki hvernig forystumenn samfylkingarinnar halda, að þeir geti látið eins og ekkert hafi í skorist í prófkjörinu í Reykjavík og Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalisti haldi áfram að starfa í óbreyttri mynd. Engu er líkara en litið sé á prófkjörið sem tilraun til að smala sem flestum á kjörstað en ekki atkvæðagreiðslu um fólk og viljayfirlýsingu kjósenda um það, hverjir eigi að hafa forystu. Hvorki Sighvatur Björgvinsson né Margrét Frímannsdóttir hafa sambærilegt umboð og Jóhanna.
Athyglisvert er, að bægslagangurinn í kringum prófkjör samfylkingarinnar í Reykjavík hefur ekki í neinu haggað við miklu fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnun Gallups. Fylgi samfylkingarinnar hefur aukist, en ekki á kostnað Sjálfstæðisflokksins, sem staðfestir aðeins þá skoðun, að gömlu vinstri flokkarnir hafa runnið sitt skeið og Jóhanna tekið við af foringjum þeirra. Árni Þór Sigurðsson, skjólstæðingur Svavars Getssonar í prófkjörinu í Reykjavík, var fljótur að draga þá ályktun að A-flokkarnir ættu að leggja upp laupana. Margrét og félagar hennar eru annarrar skoðunar, þótt Alþýðubandalagið hafi lokað skrifstofu sinni og sjálfsvirðing þess beðið hnekki í prófkjörinu. Deilurnar halda sem sé áfram innan Alþýðubandalagsins, þótt það sé orðið að engu.
Kvennalistinn fær versta útreið út úr pófkjörinu í Reykjavík. Þess vegna var skrýtið að hlusta á kvöldfréttir hljóðvarps ríkisins sunnudaginn 31. janúar, þegar allt í einu var tekið til við að ræða um það við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, sem hvergi var í kjöri og ekki vill ljá máls á því að leiða samfylkiinguna, að konur stæðu sérstaklega vel að vígi eftir prófkjör samfylkingarinnar. Hvers vegna var Ingibjörg Sólrún beðin um álit? Hvaða fréttamat lá að baki því? Kannski sú frétt, sem flaug um allt, að hún hefði sérstaklega beitt sér fyrir því, að Guðný Guðbjörnsdóttir fengi sem fæst atkvæði í prófkjörinu? Guðný lýsti því yfir þetta sama kvöld, að hún ætlaði að draga sig í hlé,enda hefði fjöldi sjálfstæðismanna og framsóknarmanna kosið í prófkjörinu. Hér verður sú pólitíska raunsaga ekki rakin frekar, en Kvennalistinn er ekki lengur til sem stjórnmálaafl, hvað sem yfirlýsingum um hið gagnstæða líður og enginn hefur í raun verið duglegri við að veita honum nábjargirnar en sú kona, sem lengst hefur náð í nafni hans, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Sömu viðleitni til að gera út af við gömlu flokkana sína verður vart hjá ýmsum samherjum Ingibjargar Sólrúnar, til dæmis þeim Helga Hjörvar í Alþýðubandalaginu sáluga og Össuri Skarphéðinssyni í Alþýðuflokknum sáluga. Þetta fólk virðist vilja fá hreint borð með því að þurrka út fortíðina og byrja á núll-punkti. Pólitískar æfingar af þessu tagi eru þekktar úr samtímanum og hafa Pol Pot og hans menn í Kambódíu gengið lengst á þeirri braut að skapa nýja framtíð með því að gera út af við fortíðina.
Að morgni þriðjudagsins 2. febrúar mátti sjá í blöðum viðbrögð við ræðu minni við Mývatn, þar sem ég lagði til breytingar á skipulagi Sjálfstæðisflokksins í þá veru að forystan breikkaði með því að kjósa fimm manna framkvæmdastjórn, sem kæmi í stað eins varaformanns, og gæti í raun verið skipuð fimm varaformönnum, ef það er talið henta. Að sjálfsögðu geta þessir kjörnu fulltrúar verið færri, en höfuðmáli skiptir, að þannig verði búið um hnúta að markvisst verði unnið að innra starfi flokksins og skipulagsmálum.
Fréttastofa hljóðvarpsins rangtúlkaði ummæli Davíðs Oddssonar á þann veg, að hann legðist gegn hugmyndum mínum og vísaði þar til orða hans í Morgunblaðinu. Þar sagði Davíð, að slíkar tillögur hefðu komið fram áður og þær væru athyglisverðar, hins vegar væri stutt í landsfund og það gæti orðið flókið að gera breytingu af þessu tagi með svo skömmum fyrirvara. Flokksfélög mundu þurfa að fjalla um hugmyndina. Allir sjá, að í þessum orðum felst ekki andstaða við hugmyndina. Þegar ég heyrði morgunfréttina hringdi ég í fréttastofuna og mun hafa birst leiðrétting á rangtúlkuninni á orðum Davíðs.
Má segja að svipað viðhorf og hjá Davíð hafi einkennt umsagnir margra um hugmyndina. Í umræðum af þessu tagi er ekki ástæða til að gera mikið úr tímaskorti. Unnt er að bera hann fyrir sig, ef menn vilja fá betra ráðrúm til að gera upp hug sinn, en tímaskortur dugar ekki til að afgreiða málið, sérstaklega þegar leikreglurnar eru þannig, eins og í Sjálfstæðisflokknum, að menn geta borið fram tillögur um hvaðeina allt fram að landsfundi og á fundinum sjálfum, það er til dæmis enginn framboðsfrestur til neinna embætta í flokknum. Fundurinn er sá vettvangur, sem menn hafa til að taka þessar ákvarðanir.
Skiljanlegt er að fráfarandi varaformaður og frambjóðendur til embættisins telji ástæðulaust að leggja það niður. Skárra væri það! Að mínu mati er það hins vegar oftúlkun að beina athyglinni að því að varaformannsembættið sé lagt niður. Spurningin er um það að fjölga þeim sem kjörnir eru til æðstu forystustarfa með formanni flokksins og formanni þingflokksins.
Morgunblaðið birti forystugrein um málið. Hún er ekki skrifuð úr þeirri fjarlægð, sem oft einkennir skrif blaðsins um Sjálfstæðisflokkinn, þegar það vill árétta, að tengsl þess við flokkinn séu úr sögunni, það líti á hann sem hvern annan stjórnmálaflokk og taki afstöðu til málefna en ekki flokka. Þessi forystugrein um ræðu mína er skrifuð á þann veg, að lesandinn gæti haldið, að Morgunblaðið væri einhvers konar samviska Sjálfstæðisflokksins, sem stæði vörð um fornar dyggðir hans og þess vegna sætti það sig ekki við, að varaformannsembættið í Sjálfstæðisflokknum taki breytingum í samræmi við breyttar kröfur. Hvers vegna skrifar það ekki með sama hætti um innri málefni annarra stjórnmálaflokka?
Í raun finnst mér ekki hafa komið fram neinar efnisleg rök gegn hugmyndinni, sem ég kynnti fyrir viku. Auðvitað geta menn sagt, það hefur verið varaformaður í Sjálfstæðisflokknum síðan 1937 og þess vegna á hann að vera það áfram. Við höfum hins vegar dæmi um marga öfluga stjórnmálflokka, sem hafa ekki varaformann heldur láta duga að takast á um formann, hinn pólitíska leiðtoga, en fela síðan hópi kjörinna fulltrúa að sinna innri málefnum flokkanna.