31.1.1999

Varaformennska - tími Jóhönnu

Í fjölmiðlum hafa blaðamenn og fréttamenn, sem aldrei höfðu fyrir því að ræða við mig, verið með vangaveltur um, að ég væri í framboði til varaformanns á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Fundurinn verður um miðjan mars, en þá lætur Friðrik Sophusson af störfum, en hann hefur setið nær óslitið sem varaformaður síðan árið 1981.

Tal fjölmiðlamanna um varaformannsmál í Sjálfstæðisflokknum eru líklega í ætt við nútímaþjóðsögur, sem gerðar voru að umtalsefni í Lesbók Morgunblaðsins í gær. Þar var meðal annars skýrt frá því, að dálkurinn Sandkorn í DV gæti rakið ættir sínar til þjóðsagnagerðar úr samtímanum. Raunar er það orðinn hluti af stjórnmálaumræðum í fjölmiðlum hér, að menn gefa sér órökstuddar forsendur og ræða síðan málin frá eigin sjónarhóli út frá þeim og nota þá gjarnan tækifærið til að gera lítið úr hlut þeirra, sem þeim er í nöp við af einhverjum ástæðum. Á þetta eftir að færast í vöxt eftir því sem nær dregur kosningum. Sigurdór Sigurdórsson, sem nú er blaðamaður á Degi, hefur löngum verið iðinn við þessa tegund blaðamennsku, frá því að hann hóf hana á Þjóðviljanum sáluga. Felst hún meðal annars í þeirri aðferð að skjóta sér á bakvið nafnlausa (tilbúna?) heimildarmenn til að komast að einhverri niðurstöðu.

Í upphafi vikunnar átti ég þess kost að ræða um fjölmiðla og stjórnmál í Háskóla Íslands, þegar dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson bauð mér að koma í tíma hjá sér og ræða um efnið. Var það til að skerpa sýnina á ýmsa þætti í blaðamennsku nútímans að skiptast á skoðunum við stóran hóp áhugasamra nemenda, sem hafði greinilega velt málum fyrir sér og hefur alist upp í allt öðru umhverfi en ég gerði á sínum tíma og ekki kynnst af eigin raun þeirri flokkspólitísku hörku, sem þá einkenndi fjölmiðla. Er ég ekki viss um að traustið á fjölmiðlunum sé endilega meira núna en þá. Ein goðsögnin, sem við ræddum, var, að eigendur fjölmiðla hefðu ekki áhrif á efni þeirra og afstöðu. Þurfa menn ekki að lesa margar bækur um erlend blöð eða fjölmiðlakónga til að sjá, hve mikil áhrif þeir hafa á blöðum sínum.

Fjölmiðlamenn lifa á margan hátt í verndaðra umhverfi en aðrir þátttakendur í opinberu lífi, því að dagblöð eru hætt að gagnrýna hvert annað og ljósvakamiðlarnir gera það ekki heldur. Hvergi er birt markviss fjölmiðlagagnrýni eins og algengt er í öðrum löndum og ég veit ekki til þess að gefið sé út neitt faglegt tímarit um fjölmiðlun hér á landi, þar sem menn skiptast á skoðunum um starfsemi þeirra og starfshætti. Siðanefnd blaðamannafélagsins er viss öryggisventill en hún kemur ekki í stað málefnalegra umræðna og faglegrar gagnrýni. Er umhugsunarefni, hvers vegna umræður um íslenska fjölmiðla eru svona lítið þróaðar. Áhuginn í tímanum hjá dr.Hannesi Hólmsteini gaf mér þó góða vísbendingu um að umræður um fjölmiðla og stjórnmál séu að þroskast.

Getsagnir um stjórnmálamenn í fjölmiðlum eru þess eðlis, að oftast fara þær inn um annað eyrað og út um hitt. Stundum er þó nauðsynlegt að staldra við, sérstaklega þegar málið snertir marga, eins og umræður um varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum gera. Til að slá á allar umræður um hugsanlegt framboð mitt ákvað ég að nota tækifærið og gera hreint fyrir mínum dyrum, þegar tækifæri gafst til þess á kjördæmisþingi sjálfstæðismanna í Norðurlandskjördæmi eystra, sem haldið var við Mývatn laugardaginn 30. janúar. Þar flutti ég ræðu og undir lok hennar skýrði ég afstöðu mína. Raunar lagði ég til, að embætti varaformanns yrði lagt niður og í stað hans kjörinn fimm manna framkvæmdastjórn, sem starfaði með formanni flokksins og formanni þingflokksins og sinnti innri málefnum flokksins.

Pétur Magnússon varð fyrsti varafomaður Sjálfstæðisflokksins árið 1937. Þá kom embættið kom til sögunnar, þegar skipulag flokksins tók á sig þá mynd, sem hefur haldist í megindráttum síðan. Eftir andlát Péturs 1948 tók faðir minn, Bjarni Benediktsson, við varaformennskunni. Gegndi hann henni til 1961, þegar hann var kjörinn formaður flokksins í stað Ólafs Thors, sem gegndi því embætti frá 1934 til 1961. Þegar faðir minn tók við formennsku af Ólafi varð Gunnar Thoroddsen varaformaður og ákvað landsfundur þá í fyrsta sinn, hverjir gegndu formennsku og varaformennsku. Var kosningin óbundin, þannig að allir á landsfundi voru í raun í framboði til þessara embætta og hefur sú skipan haldist síðan eða í 38 ár. Þegar Gunnar varð sendiherra í Kaupmannahöfn 1965 kannaði faðir minn vilja þingflokksins til þess að kjósa Geir Hallgrímsson varaformann, en hann var þá borgarstjóri og ekki á þingi. Þingflokkurinn vildi, að varaformaður kæmi úr sínum röðum og Jóhann Hafstein var kjörinn á landsfundi, en náið samstarf og vinátta var milli hans og föður míns. Eftir andlát föður míns sumarið 1970 tók Jóhann við formennskunni. Á landsfundi í apríl 1971 kepptu þeir Geir og Gunnar um varaformennskuna og sigraði Geir með 375 atkvæðum gegn 328. Síðan var um það samið skömmu fyrir landsfund 1973, að Gunnar yrði formaður þingflokksins og þá var Geir endurkjörinn varaformaður með 505 atkvæðum en Gunnar fékk 69 atkvæði. Skömmu eftir landsfundinn veiktist Jóhann Hafstein alvarlega og Geir tók við formennskunni, á flokksráðsfundi haustið 1973 var Magnús Jónsson á Mel kjörinn varaformaður, hann veiktist einnig alvarlega þá um veturinn. Á flokksráðsfundi haustið 1974 var Gunnar Thoroddsen kjörinn varaformaður. Sátu þeir Geir og Gunnar, sem margir töldu þá andstæða póla í flokknum, saman sem formaður og varaformaður. Gunnar myndaði ríkisstjórn í óþökk meirihluta þingflokks sjálfstæðismanna í febrúar 1980. Hann var áfram varaformaður og það var ekki fyrr en á landsfundi 1981, sem Friðrik Sophusson var kjörinn varaformaður, hann náði ekki kjöri sem formaður 1983, þegar Geir hætti og Þorsteinn Pálsson tók við af honum. 1989 vék Friðrik svo úr varaformennsku fyrir Davíð Oddssyni en Friðrik var kjörinn varaformaður að nýju 1991, þegar Davíð felldi Þorstein úr formannsstólnum í hörðum slag á landsfundi.

Með því að kjósa Gunnar Thoroddsen varaformann á landsfundi 1961 og á flokksráðsfundi 1974 var leitast við að skapa jafnvægi innan flokksins, þótt ólíku hafi verið saman að jafna. Þegar Friðrik Sophusson var kjörinn varaformaður árið 1981 var einnig verið að leita eftir jafnvægi innan flokksins, því að hann var talinn höfða til þeirra, sem stóðu nærri Gunnari Thoroddsen, sem þá var forsætisráðherra í ríkisstjórn í andstöðu við flokksráð og þingflokk sjálfstæðismanna.

Hér er ekki ætlunin að rekja þessa sögu frekar. Hún er hins vegar rifjuð upp til að árétta, að varaformannsembættið er 62 ára gamalt í Sjálfstæðisflokknum. Fyrstu 24 árin sátu í því menn, sem valdir voru af miðstjórn flokksins. Síðustu 25 árin hefur verið kosið í embættið undir þeim formerkjum að skapa hæfilegt jafnvægi eða breidd í forystu flokksins. Síðasta aldarfjórðung hefur varaformennska ekki verið öruggur stökkpallur í formennsku við kjör á landsfundi. Kjör Davíðs Oddssonar, sem var varaformaður 1989 til 1991, er undantekningin sem sannar þessa reglu. Hann er einnig eini varaformaðurinn, sem hefur boðið sig fram gegn sitjandi formanni.

Ýmsir hafa vakið máls á því á undanförnum árum, að embætti varaformanns hafi runnið sitt skeið í Sjálfstæðisflokknum. Það dugi ekki lengur til að skapa nauðsynlega breidd eða hæfilegt jafnvægi. Í þessari afstöðu felst engin gagnrýni á þá, sem í embættinu hafa setið, heldur byggist hún á tilliti til hagsmuna flokksins. Á það hefur verið bent, að óheppilegt sé að stofna til harðra átaka milli einstakra fylkinga í flokknum um einstaklinga í starf, sem krefst þess umfram annað að skapa frið og festu í flokknum. Næstu misseri er mikilvægt að öflug og breið forystusveit einbeiti sér að innra starfi Sjálfstæðisflokksins og leggi rækt við það, kjördæmum verður breytt, flokkakerfið er að riðlast og forysta Sjálfstæðisflokksins í landstjórninni krefst allrar athygli leiðtoga flokksins.

Það er fastur liður á dagskrá landsfundar Sjálfstæðisflokksins að fjalla um skipulagsmál og þar starfar skipulagsnefnd. Hennar bíða mörg mikilvæg verkefni á næsta landsfundi í ljósi fyrrgreindra breytinga á starfsumhverfi stjórnmálaflokkanna. Tel ég nauðsynlegt, að landsfundurinn taki afstöðu til þess, hvort kjósa eigi framkvæmdastjórn sem starfi með formanni og formanni þingflokks að innri málefnum flokksins.

Tími Jóhönnu Sigurðardóttur kom loksins í prófkjöri bræðingsins eða samfylkingarinnar í Reykjavík laugardaginn 30. janúar. Hún sigraði þar glæsilega marga skæða keppinauta. Er einsýnt, að hún á að taka við forystu í samfylkingunni á landsvísu. Hefur enginn þeirra, sem hafa barist undir merkjum hennar, fengið jafnvíðtækt umboð frá kjósendum og Jóhanna í þessum slag. Raunar gekk Össur Skarphéðinsson, sem hlaut annað sætið, til þessa baradaga með það á vörunum, að þar væri ekki aðeins tekist á um þingsæti heldur leiðtogastólinn í hinni nýju fylkingu. Jóhanna sagði, að Össur hefði tekið úrslitunum karlmannlega og hún hlakkaði til að vinna með honum. Hvort tilhlökkunin er gagnkvæm má draga í efa miðað við forsöguna. Hitt er ljóst, að Jóhanna bregst trausti þeirra, sem veittu henni brautargengi í prófkjörinu, sækist hún ekki eftir forystu í samfylkingunni. Allur aðdragandi málsins var einnig þannig, að Jóhanna lagði mikið undir í baráttunni. Hún hafði fjórða sætið á hendi en vildi taka slaginn um fyrsta sætið. Þeim mun óvenjulegra er, ef hún lætur hlut sinn, þegar að því kemur að fara með forystu fyrir þessu nýja stjórnmálaafli, sem er að mótast. Jóhanna gefur meira að segja til kynna, að sigurinn undir sinni forystu sé meiri en hjá Ingibjörgu Sólrúnu og R-listanum, því að færri hafi tekið þátt í prófkjöri hans, þótt Framsóknarflokkurinn hafi verið fjórða hjólið undir þeim vagni. Láta þær Jóhanna og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sem hlaut 5. sætið, í það skína, að ekki sé útilokað að fá hreinan meirihluta á alþingi í kosningunum í vor.

Bæði Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið guldu afhroð í þessum kosningum. Þetta kann að þykja einkennileg fullyrðing, þegar til þess er litið, að í fjölmiðlum er talið, að hlutur Alþýðuflokksins sé mjög góður, hann hafi fengið stuðning 68% þeirra, sem kusu. En hvaða Alþýðuflokkur er þetta? Jóhanna Sigurðardóttir snerist gegn Alþýðuflokknum í síðustu þingkosningum með því að stofna Þjóðvaka. Össur Skarphéðinsson tók hús á Alþýðuflokknum, þegar hann hvarf úr Alþýðubandalaginu, af því að það vildi ekki gera upp við stalínismann og kommúnismann. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sem varð þriðja í röðinni innan Alþýðuflokkshólfsins kom úr Framsóknarflokknum inn í Þjóðvaka og þaðan í þetta hólf, næstur er svo Mörður Árnason, sem kemur upphaflega úr Alþýðubandalaginu en fór þaðan í Þjóðvaka með Jóhönnu og Ástu Ragnheiði, Jakob Frímann rekur lestina í 9. sæti á listanum, hann er sá, sem Jón Baldvin studdi með bréfi frá Washington. Alþýðuflokknum hefur einfaldlega verið stungið í vasann af þeim, sem nota nafn hans sér til framdráttar. Alþýðuflokkurinn er ekki til lengur, þótt hann sé notaður sem nafn á eitt prófkjörshólfið. Þjóðvakaliðið hefur náð undirtökunum í flokknum og Össur, sem stefndi á toppinn, er einskonar gísl þess í öðru sætinu.

Slátturinn var ekki lítill á Þjóðvaka undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur í aðdraganda síðustu kosninga og flokknum gekk betur en margir væntu í þingkosningunum. Misserin voru hins vegar ekki mörg, sem liðu eftir kosningar, þar til fylgi við Þjóðvaka var hætt að mælast í könnunum. Síðan klifraði þjóðvakaliðið upp í vanbúna þingflokksskútu Alþýðuflokksins og þar var fáni jafnaðarmennskunnar dreginn að húni.

Með ólíkindum er að sjá hvaða útreið Alþýðubandalagið fær í þessu prófkjöri. Fylgið við það er svo lítið, að það dugar ekki einu sinni til að ná öðru sæti á listanum. Allt þrasið í haust stóð þó einmitt um að tryggja, að það stóra hólf, sem ekki fengi fyrsta sætið, fengi að minnsta kosti annað sætið. Svavar Gestsson komst þannig að orði fyrir prófkjörið: „Það er nauðsynlegt fyrir sjálfsvirðingu Alþýðubandalagsins að flokkurinn komi sterkur út einmitt í Reykjavík.” Þetta gekk alls ekki eftir. Bryndís Hlöðversdóttir, sem varð efst í Alþýðubandalagshólfinu, lendir í þriðja sæti á listanum, enda greiddu aðeins um 26% kjósenda því hólfi atkvæði. Er Bryndís þó kampakát yfir úrslitum. Má segja að afstaða hennar sé í anda þeirrar gleðistefnu, sem Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, hefur fylgt undanfarna mánuði, þegar sífellt hefur fækkað í þingflokki Alþýðubandalagsins við mikinn fögnuð Margrétar. Telur hún fækkunina jafnan til marks um glæsta framtíð flokksins. Framtíðin hefur líklega aldrei verið bjartari en einmitt núna, þegar ljóst er, að fráleitt er fyrir Margréti að gera kröfu um að leiða samfylkinguna á landsvísu og Alþýðubandalagið hefur tapað sjálfsvirðingu sinni að mati formanns þingflokks þess.

Á kjördag og síðustu daga fyrir hann glumdu auglýsingar í útvarpi, þar sem minnt var á hólf Alþýðubandalagsins í þessu mikla, flokkslausa bræðralagi. Neyðarópin bentu til þess, að forkólfar Alþýðubandalagsins undir forystu Svavars Gestssonar, sem sat á girðingunni, eftir að Steingrímur J. tók af skarið í fyrra, gerðu sér loks grein fyrir hvert stefndi: þeir yrðu að engu í hinni nýju samfylkingu. Skriftin hefur verið lengi á veggnum, enda ákvað Svavar frekar að hætta í stjórnmálum en hætta sér út í slaginn við Jóhönnu og Össur. Barátta Svavars og félaga fyrir Árna Þór Sigurðsson bar ekki meiri árangur í þessum slag en á vettvangi R-listans í borgarstjórnarkosningunum. Er þetta ekki síst athyglisvert fyrir þá sök, að öll forysta kennarahreyfingarinnar lýsti opinberlega stuðningi við Árna Þór. Hann er í 7. sætinu vegna öryggisnetsins fyrir hina pólitísku lítilmagna.

Alþýðubandalagið hefur glatað forystuhlutverki sínu meðal samfylkingarsinna í prófkjörinu í Reykjavík. Flokkurinn hefur lokað skrifstofu sinni. Hann starfar í raun ekki lengur á landsvísu. Hver frambjóðandi í hans nafni berst á eigin vegum. Fyrir þá í flokknum, sem vilja ekki vera sjálfsvirðingarlausir í bræðingnum, er annar kostur, hinn græni, sem Steingrímur J. og félagar bjóða. Mennirnir, sem veðjuðu ekki á rangan hest eins og Svavar og félagar. Fróðlegt verður að sjá, hvernig græningjarnir bregðast við niðurstöðum prófkjörsins og hvað þeir gera í framhaldi af því. Í prófkjörinu var rifjað upp, að Árni Þór var kosningastjóri Steingríms J. innan Alþýðubandalagsins, þegar hann barðist við Margréti um formannsstólinn. Skyldu Árni Þór og félagar nú snúa sér til græna framboðsins?