8.1.1999

Tónlistarhús - menningarhús - þróunarskólar

Vikan hefur einkennst af tilkynningum um ný mannvirki fyrir menningarstarfsemi. Þriðjudaginn 5. janúar efndum við samgönguráðherra og borgarstjóri til blaðamannafundar og kynntum ákvörðun ríkisstjórnar og borgarráðs Reykjavíkur um að standa að byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar í miðborg Reykjavíkur, það er á milli Tryggvagötu og Ingólfsgarðs. Fundurinn var haldinn í Háskólabíói og hófst með því, að Sinfóníuhljómsveit Íslands lék hátíðarmars eftir dr. Pál Ísólfsson, var það í fyrsta sinn, sem ég hef verið á blaðamannafundi, sem hefst með svo hátíðlegum hætti.

Er gleðilegt til þess að vita, að í sömu viku og þetta gerist ákveða öflugir fjárfestar á borð við þá, sem áður áttu Hagkaup að festa stórfé í hótelbyggingum og leigja þær síðan Flugleiðum til afnota. Er þar með að hefjast sama þróun hér og víða erlendis, þar sem fjárfestar sjá sér mikinn hag í því að festa fé í mannvirkjum, sem aðrir reka og nýta í samræmi við sérþekkingu sína. Þannig yrði skynsamlegt að standa að því að byggja hin nýju hús í miðborg Reykjavíkur, sem eiga jafnvel eftir að hafa meiri áhrif en bygging Kringlunnar á sínum tíma, en að þeirri miklu framkvæmd stóðu þeir, sem áttu Hagkaup og sýndu frumkvæði og framsýni á mörgum sviðum og hafa með framtaki sínu breytt miklu í íslensku þjóðfélagi á síðustu áratugum tuttugustu aldarinnar.

Ákvörðunin, sem við kynntum 5. janúar, felur í sér skuldbindingu um að ríki og borg standi að því að greiða kostnað við nýjar stórbyggingar, tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð. Með þessari ákvörðun tel ég, að ekki sé aðeins verið að tryggja Sinfóníuhljómsveit Íslands góð og varanleg heimkynni heldur að skapa nýjar aðstæður til að veita þjónustu á öllum sviðum, sem snerta mannvirki af þessu tagi. Ljóst er, að hér skortir aðstöðu til unnt sé að keppa við þá, sem bjóða hágæðaþjónustu fyrir ferðamenn með hóteli og ráðstefnuaðstöðu. Hér vantar betra hótel til að Ísland sé gjaldgengt á þessum markaði.

Fimmtudaginn 7. janúar var svo efnt til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum. Forsætisráðherra boðaði til fundarins og auk hans sátum við utanríkisráðherra og félagsmálaráðherra fundinn. Með því að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson formenn stjórnarflokkanna voru á þessum fundi var áréttað, að efnið, sem þar var kynnt, ætti öflugan pólitískan stuðning. Þarna var verið að kynna tillögu um, að reist verði á næstu árum svonefnd menningarhús á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum. Næsta skrefið er, að ég skipa nefnd til að vinna að þessu verkefni.

Þessar hugmyndir um menningarhús eru í samræmi við ábendingar um það, að menning og menntun skipti miklu, þegar leitað er úrræða til að tryggja búsetu um land allt. Verður spennandi að sjá, hvernig tekst að vinna úr þessu máli á næstu árum. Ég hef orðið var við, að ýmsir staldra við, þegar við blasir, að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um fimm staði í þessu efni. Er það þó forsenda þess, að skipulega verði að málinu unnið, síðan þarf að raða þessum stöðum í forgangsröð, því að forsætisráðherra kynnti á blaðamannafundinum, að stefnt yrði að því að ljúka verkefninu á tíu árum eða svo og eðlilegt væri, að kostnaðarskipting yrði 60% hjá ríki og 40% hjá sveitarfélögum.

Ég minni á í þessu sambandi, að vegna menningarborgarverkefnis Reykjavíkur árið 2000 hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja um 230 milljónir af mörkum. Sambærileg fjárveiting um nokkurt árabil í þágu menningarhúsa á landsbyggðinni myndi skipta sköpum fyrir menningarhúsaverkefnið.

Síðdegis föstudaginn 8. febrúar fór ég í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, þar sem ritað var undir samning menntamálaráðuneytisins við þrjá grunnskóla og þrjá framhaldsskóla um að þeir tækju að sér hlutverk þróunarskóla í upplýsingatækni, er það í samræmi við stefnu, sem mótuð var af ráðuneytinu undir heitinu Í krafti upplýsinga og kom út snemma árs 1996. Á þremur árum hefur gífurlega mikið áunnist í þessu efni og skólakerfið í raun tekið stakkaskiptum. Hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þessari þróun. Á fundinum á Selfossi sagði Tryggvi Gíslason, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, að fyrir fjórum árum hefði hann verið þeirrar skoðunar, að sá gamalgróni skóli gæti látið töluvutæknina lönd og leið, hann þyrfti ekki á nýrri tækni að ræða, gæti náð góðum árangri áfram með gömlu aðferðinni. Á þeim árum, sem síðan eru liðin, hefur skólameistarinn áttað sig á því, að skóli hans stenst ekki kröfur tímans nema með nýrri tækni. Er MA nú orðinn einn þriggja framhaldsskóla, sem á að hafa forystu um þróun á þessu sviði.

Það hefur þannig verið mikið um að vera við ýmiskonar kynningarstarf á liðnum dögum. Gjarnan er það lagt þannig út, þegar við stjórnmálamenn kynnum verk okkar, að við séum að auglýsa okkur vegna þess að kosningar séu í nánd. Vissulega ber ekki að gera lítið úr mikilvægi þess fyrir stjórnmálamenn eins og aðra, að láta það berast til sem flestra, sem ber vott um að árangri sé náð. Ég tel það beinlínis skyldu mína að ljúka sem flestu, sem ég hef ýtt af stað í störfum sínum sem ráðherra. Þannig tel ég mig búa best í haginn fyrir þann, sem við tekur að loknum kosningum. Að segja frá því, sem áunnist hefur, eða skýra frá ákvörðun ríkisstjórnar um framfaramál, sem hafa verið undirbúin á kjörtímabilinu er ekki kosningaglamur.

Glamur fyrir kosningar felst í því að lofa upp í ermina á sér eða lofa öllum gulli og grænum skógum nái maður kjöri. Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki gengið til kosninga undir forystu Davíðs Oddssonar, hins vegar hefur flokkurinn náð miklum árangri og aflað sér trausts meðal kjósenda. Þykir mér skjóta skökku við þegar Matthías Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra flokksins, situr í sólinni á Spáni og semur kalda og með öllu ómaklega áramótakveðju til okkar, sem höldum merki flokksins á lofti. Hefði ég haldið, að meiri ástæða væri til að gleðjast yfir þeim árangri, sem hefur náðst en boða svartsýni og öfund.