2.1.1999

Félagshyggja í uppnámi - nýir ritstjórar

Gleðilegt og farsælt nýtt ár! Við upphaf þessa fyrsta pistils á nýju ári vil ég þakka öllum, sem líta á þessar síður mínar fyrir áhugann. Telst mér til, að á síðasta ári hafi ég skrifað 49 pistla inn á síðuna og var það fjórða árið, sem ég miðlaði upplýsingum með þessum hætti. Þá sýnist mér, að við áramót hafi 54 ræður og greinar bæst á síðasta ári inn á þá síðu, sem geymir þetta efni. Útliti síðunnar var breytt nokkuð á árinu. Meðal annars var tryggum lesendum gefinn kostur á að skrá sig á póstlista og fá senda tilkynningu um það, þegar nýr pistill bætist á síðuna. Vil ég þakka því tölvufólki, sem gerir mér kleift að halda þessari vefsíðu úti. Verð ég víða var við, að margir heimsækja hana, þótt ekki haldi ég neina skrá yfir það og hafi aldrei gert.

Að morgni laugardagsins 2. janúar hlustaði ég með öðru eyranu á umræðuþátt í útvarpinu undir stjórn Þorfinns Ómarssonar um atburði vikunnar. Þar voru þau komin saman Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Jóhanna Sigurðardóttir, Þjóðvakakona og samfylkingarsinni, og Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem telur sig talsmann lýðræðislegra sjónarmiða og hvetur til vakningar meðal borgaranna til að veita stjórnmálamönnum aukið aðhald. Heldur voru þessar umræður einsleitar, því að allir viðmælendur Þorfinns nálguðust viðfangsefnið frá svipuðu sjónarhorni.

Umræður af þessu tagi eru leiðigjarnar, þegar ekki gefst tækifæri til að hlusta á ólík sjónarmið. Í þessum þætti voru viðmælendur stjórnandans allir vinstra við miðjuna og telja sig svonefnda félagshyggjumenn, hvað sem í því felst. Ólafur Björnsson prófessor hefur hvað best rökstutt, að enginn viti í raun, hvað felst í hugtakinu félagshyggja. Bendir margt til þess, að í kosningabaráttunni á komandi vormánuðum verði þó enn tekist á um málefni með því að skilgreina viðfangsefni á þeirri forsendu, hvort þau samrýmist félagshyggjuviðhorfum eða ekki.

Eitt af því, sem félagshyggjumenn nefna, þegar þeir vilja greina sig frá okkur hinum, er umhyggja þeirra fyrir menntamálum. Telja þeir sig greinilega betri vini menntunar en aðra eins og þeir séu betri vinir sjúkra og öryrkja. Vandi þessa fólks er hins vegar sá sami og annarra, þegar að því kemur að framkvæma loforðin, það þarf að láta enda ná saman. Ekki er endalaust unnt að hækka skatta eða aðrar álögur. Hvarvetna eru ríkisstjórnir að fikra sig inn á þær brautir að skilgreina kostnað við opinbera þjónustu og láta þá, sem njóta hennar bera stærri hluta af honum. Tony Blair, forsætisráðherra félagshyggjumanna í Bretlandi, hefur til dæmis beint ríkisstjórn sinni meira inn á þessar brautir en íhaldsmenn gerðu, þegar litið er til innheimtu skólagjalda í háskólum. Sá breska stjórnin fram á, að háskólarnir gætu ekki veitt öllum, sem streyma inn í þá nægilega góða menntun, ef standa ætti undir henni með skattfé almennings.

Félagshyggjumenn þurfa að rökstyðja með betri hætti en almennum slagorðum, að íslenska menntakerfið hafi farið halloka í samkeppni við aðra. Fullyrðingar um það eru álíka haldgóðar og þegar því er slegið fram, að fátækt aukist á Íslandi eða hér sé meira efnalegt misrétti en í öðrum löndum. Orð af þessu tagi kunna að hafa eitthvert áróðurslegt gildi í hita leiksins en þau standast ekki mat, sem byggist á rannsóknum. Er til dæmis tiltölulega skammt liðið síðan tekið var til við að leggja mat á skólastarf og birta upplýsingar um það, bæði í alþjóðlegu tilliti og einnig með samanburði milli skólastofnana hér á landi. Það er því ekki fyrr en á síðustu árum, sem unnt er að bera íslenska skólakerfið saman við menntakerfi annarra landa, og skortir þó því miður enn nokkuð á, að héðan berist tölfræðilegar upplýsingar um alla þá þætti, sem um er spurt í slíkum samanburði.

Margir þeirra, sem nú tala um mikilvægi þess að ná mælanlegum árangri í skólastarfi, voru fyrir nokkrum árum á móti því, að nemendur tækju próf, svo að ekki sé talað um miðlun upplýsinga um niðurstöður í prófum. Með nýju skólastefnunni Enn betri skóli, sem var kynnt á fyrri hluta síðasta árs, og með endurskoðun námskránna fyrir grunnskólann og framhaldsskólann er stefnt að því að gera skýrar kröfur um árangur í skólum.

Gera verður kröfur til að menn nái árangri, á þetta við á öllum sviðum, hvort sem er í skólum eða annars staðar. Ef félagshyggja í menntamálum felst í því að gera ekki kröfur og halda að allt breytist til hins betra með því einu að veita meira fé til menntunar, skilar hún ekki því, sem að er stefnt. Hún verður jafnmarklaus á þessu sviði og öðrum.

Ástæða er til vara við innhaldslausri yfirboðastefnu félagshyggjumanna. Hún er ekki síst hættuleg á tímum sem þessum, þegar við það er glímt í stjórn landsmála, að skila auknum þjóðartekjum út á meðal borgaranna. Við sáum þetta vel, þegar vinstri stjórn tók við af viðreisnarstjórninni 1971. Undir forystu sjálfstæðismanna, sem sátu með alþýðuflokksmönnum í viðreisnarstjórninni, tókst að leiða þjóðina sterka út úr hinum miklu efnahagsáföllum, sem á henni skullu 1967 og 1968 og leggja grunn að nýrri framfarasókn. Vinstri stjórn með félagshyggju að leiðarljósi stofnaði hins vegar til aukinna ríkisútgjalda án nægilegrar fyrirhyggju, við sigldum inn í verðbólguárin, þar sem verðmæti urðu að engu, upplausn varð í stjórnmálum og atvinnulífi. Lauk þessu óróa- og eyðsluskeiði ekki fyrr en sjálfstæðismenn komust í forystu ríkisstjórnar vorið 1991 undir stjórn Davíðs Oddssonar. Árangur þjóðarinnar á síðasta áratug 20. aldarinnar er með ólíkindum, hvaða mælistika, sem er notuð.

Næstum má kveða svo fast að orði, að allt hafi tekið á sig nýjan og betri svip nema forneskjuleg viðhorf félagshyggjumanna. Hefur til dæmis gleymst, þegar Steingrímur Hermannsson tók við embætti forsætisráðherra undir lok níunda áratugar aldarinnar með þau orð á vörunum, að hér ætti ekki að stjórna með þeim hætti í efnahagsmálum, sem best hefði gefist á Vesturlöndum? Hvernig hefði okkur vegnað undir slíkri forystu á þeim áratug, sem nú er að kveðja? Hvað hefði gerst, ef ekki hefði verið ýtt undir samkeppni, horfið frá sjóðasukki og stuðlað að einkavæðingu?

Þegar vel tekst til um landstjórnina og góðir stjórnarhættir hafa ríkt um nokkurt skeið, ganga menn tiltölulega fljótt að því sem vísu, að þannig hljóti þetta alltaf að vera án tillits til þess, hver heldur um stjórnvölinn. Við þær aðstæður er nokkur hætta á ferðum í stjórnmálum, þá geta skapast kjöraðstæður fyrir lýðskrumara og yfirbjóðendur, sem leitast við að telja mönnum trú um, að rétt sé að efla sig til valda, enda muni þeir gera allt fyrir alla og ráðast gegn sérhagsmunum, græðgi og peningahyggju með félagsleg sjónarmið að leiðarljósi. Félagshyggjuliðið er tekið til við að kyrja þennan gamalkunna söng, þegar tíminn til kosninga styttist.

Hið grátbroslega er, að við upphaf þingkosningaárs, að loknu ári samfylkingar og sambræðslu vinstri aflanna, eru fleiri talsmenn flokka þeirra kallaðir til að segja álit sitt á atburðum liðins árs og svara spurningum fjölmiðla en var um síðustu áramót, brotum og brotabrotunum fjölgar, eftir því sem meira er á sig lagt í þágu sameiningar og samvinnu. Forystuleysið er algjört. Málefnavinna í molum. Meira er treyst að skoðanamyndandi áhrif þeirra, sem starfa utan hefðbundinna félagshyggjuflokka en innan þeirra, og nægir þar að nefna umræður og ágreining um kvóta, hálendi og gagnagrunn.

Um áramótin bættist nýr ritsjóri á DV, Óli Björn Kárason, sem stofnaði Viðskiptablaðið fyrir fimm árum og hefur stýrt því síðan. Með Viðskiptablaðinu sannast hér hið sama og gerst hefur alls staðar, þar sem viðskipti með hlutabréf og önnur verðbréf aukast, að þörf vex fyrir blað, sem sérhæfir sig í þjónustu fyrir þá, sem hafa áhuga á slíkum viðskiptum og vilja nýta sér markaðinn. Hefur ótrúlega mikil breyting orðið í þessu efni á þeim tíma, sem Viðskiptablaðið hefur verið að hasla sér völl. Víða um heim eru blöð, sem leggja verulega rækt við þennan þátt atvinnulífsins, meðal hinna ríkustu og öflugustu. Í tímans rás þróast þau og breikka þjónustu sína, þótt kjarni hennar sé þó enn þessi. Má þar nefna vikublaðið The Economist og dagblöðin The Financial Times og The Wall Street Journal. Sameiginlegt einkenni þessara blaða, að þau hafa mjög alþjóðlegt viðhorf, þótt þau leggi einnig rækt við heimamarkað, eins og öllum fjölmiðlum er nauðsynlegt. Sjónvarpsstöðvar eru einnig teknar til við að sérhæfa sig meira í þjónustu sinni við þá, sem stunda viðskipti. Nægir þar sérstaklega að nefna bandarísku alheimsstöðina CNBC. Loks er ljóst, að netið gegnir æ mikilvægara hlutverki sem upplýsinga- og þjónustumiðill á þessu sviði. Undir ritstjórn Óla Björns hefur Viðskiptablaðið farið inn á þessar brautir, því að það hefur miðlað upplýsingum í talmiðlum, staðið fyrir föstum þáttum á Bylgjunni, og einnig haslað sér völl á netinu.

Ari Edwald, fráfarandi aðstoðarmaður Þorsteins Pálssonar, í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á síðasta kjörtímabili og í sjávarútvegsráðuneytinu á því kjörtímabili, sem nú er að líða, tekur við ritstjórastarfi Viðskiptablaðsins af Óla Birni. Bætist þar nýr og röskur maður í ritstjórahóp, en þar hafa ekki orðið miklar breytingar um árabil nema vegna þess að blöð leggja upp laupana eins og Þjóðviljinn, Alþýðublaðið, Tíminn og Dagur á Akureyri, allt blöð, sem hafa barist undir merkjum félagshyggjunar, þótt ekki hafi þau alltaf verið sammála.

Stefán Jón Hafstein, sem hefur í nokkur ár verið ritstjóri hins endurreista Dags, lætur af störfum nú um áramótin. Hef ég áður látið þau orð falla, að hinn nýi Dagur væri hvorki fugl né fiskur. Blaðinu hefði ekki tekist að skipa sér skýran sess. Stefán Jón ætlar nú að snúa sér að lausamennsku í fjölmiðlun og leggja jafnt til efni í tal- og ritmiðla. Er hópur lausamennskufólks sístækkandi í fjölmiðlaheiminum. Einkum eru að talmiðlarinir, sem nýta sér þjónustu þess og starfskrafta.

Fjölmiðlaheimurinn er lokaður að því leyti, að ekki er mikið fjallað um hann í fjölmiðlum! Hér eru engar hefðir fyrir slíku, þótt á stundum hafi verið fjölmiðlagagnrýni í blöðum. Hins vegar giltu þær leikreglur fram á síðustu ár, að ritmiðlar gagnrýndu hverja aðra í ritstjórnardálkum og oft fjallaði til dæmis Morgunblaðið með gagnrýnum hætti um efnistök í fréttum Ríkisútvarpsins. Nú er heyrir þetta að mestu sögunni til, þótt hér eigi vaflaust við hið sama og í öðrum löndum, að efni af þessu tagi er mikið lesið.