20.12.1998

Þinghlé

Við þingmenn sátum á fundum fram til klukkan 03.40 eða svo síðustu nótt og lukum þar með störfum okkar fyrir jól. Var það í samræmi við starfsáætlun þingsins, að það lyki störfum 19. desember. Er ár og dagur síðan tekist hefur að halda þá áætlun, því að yfirleitt dragast fundir enn nær jólum. Þegar mál voru í sem mestum hita fyrir nokkrum dögum vegna gagnagrunns og annarra mála, hefði líklega fáum dottið í hug, að þinghaldinu lyki á þessum degi, enda var farið að spá um það í fjölmiðlum, að það myndi sitja milli jóla og nýárs.

Raunar er ég þeirrar skoðunar, að þingmenn eigi ekki að setja það fyrir sig frekar en aðrir að sitja við störf fram á Þorláksmessu eða milli jóla á nýars eins og aðrir, ef þörf krefur. Frá því að Davíð Oddsson varð forsætisráðherra hefur orðið nokkur breyting á samskiptum stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga á þingi. Sá háttur hafði til dæmis löngum verið, þegar dró að þinghléi, að stjórnarandstaðan óskaði eftir lista yfir mál, sem ríkisstjórn vildi, að næðu fram að ganga fyrir hléið. Síðan lagði stjórnarandstaðan á ráðin um það, hvaða mál hún ætti að taka í gislingu eða bregða fæti fyrir. Hófst síðan leikur, oft í fjölmiðlum, í kringum þessi mál og lyktir á störfum þingsins og gafst þá tækifæri til margskonar hrossakaupa eða menn leituðust við að niðurlægja stjórnina fyrir að ná ekki fram einhverju máli. Davíð ákvað, að ekki skyldi lagður fram neinn slíkur listi, ástæðulaust væri að búa til einskonar skotmörk fyrir stjórnarandstöðuna. Hefur þetta gengið eftir síðan, fyrst við hávær mótmæli stjórnarandstæðinga, sem nú hafa áttað sig á því, að ekki þýðir lengur að stíga í ræðustól skömmu fyrir þinghlé, berja sér á brjóst og heimta listann sinn af ríkisstjórninni til að geta byrjað að bregða fæti fyrir einstök mál.

Fyrir þinghlé að þessu sinni tókst að afgreiða öll mál, sem ríkisstjórnin ætlaði sér. Hér er ekki ætlunin að gefa yfirlit yfir afgreiðslu einstakra mála, raunar er handhægara að fá upplýsingar um afgreiðslu mála á alþingi en nokkru sinni fyrr, því að á vefsíðu alþingis er ógrynni af upplýsingum og unnt að sjá afgreiðslu mála og hvað um þau hefur verið sagt, raunar er einnig unnt að fylgjast með öllum umræðum á alþingi á vefnum, held ég, að það séu ekki mörg þjóðþing, sem veita svo góða þjónustu.

Ég var ekki með mörg mál fyrir þinginu þetta haust. Tvö frumvörp, sem ég lagði fram voru samþykkt, það eru annars vegar leiklistarlög og hins vegar breytingar á reglunum um jöfnun á námskostnaði, sem miðuðu að því að fjölga þeim í dreifbýli, sem geta notið svonefndra dreifbýlisstyrkja. Kostar þessi stækkun á hópnum ríkissjóð 25 milljónir króna en þar að auki ákvað alþingi að hækka fjárveitingar til dreifbýlisstyrkja um 40 milljónir liða, hækka fjárveitingar til þessara styrkja því um 65 m. kr. milli ára. Líta margir á það, sem eitt mikilvægasta skrefið til að styrkja búsetu í dreifðum byggðum að efla þennan sjóð til dreifbýlisstyrkja fyrir framhaldsskólanemendur.

Með leiklistarlögunum er stjórnarháttum í Þjóðleikhúsinu breytt. Heimilt er að ráða þjóðleikhússtjóra oftar en tvisvar sinnum, fallið er frá þeirri skipan, að tveir þjóðleikhússtjórar starfi samhliða, sá sem er að hætta og arftaki hans, skipan þjóðleikhúsráðs er breytt og smásmyglileg lagaákvæði um innri málefni Þjóðleikhússins eru afnumin. Á síðasta vori urðu harðar deilur um þetta mál á þingi en nú í haust hefur málið siglt greiða leið í gegnum menntamálanefnd.

Í fjárlögum fyrir næsta ár aukast fjárveitingar til margra þátta á starfssviði menntamálaráðuneytisins. Hér verða þeir ekki tíundaðir, en þó er ástæða til að nefna sérstaklega, að fjárveitingar til Kvikmyndasjóðs hækka um 40 m. kr. milli ára og við fjármálaráðherra gerðum 19. desember samkomulag við forráðamenn í íslenskri kvikmyndagerð, hvernig stuðningi skyldi háttað við kvikmynadgerð á næstu fjórum árum og er stefnt að því að tvöfalda opinberan stuðning við þessa list- og atvinnugrein. Er mjög mikilvægt, að stjórnvöld og kvikmyndagerðarmenn hafi sett sér sameiginlegt markmið í þessu efni.

Þegar umræður um fjárlög fóru fram á síðasta ári og þingmenn gengu til atkvæða í tengslum við þau, varð nokkur hvellur út af því, að Davíð Oddsson var fjarverandi við einhverja atkvæðagreiðslu, þar sem hann var á Gráa kettinum að lesa úr bók sinni, sem var þá nýútkomin. Í gærkvöldi og nótt vakti það athygli mína og vafalaust fleiri þingmanna, að hvorki Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, né Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins, voru á fundum, þegar atkvæði voru greidd um fjárlögin eða önnur málefni afgreidd. Raunar voru það helst þau Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson, sem héldu uppi merki stjórnarandstöðunnar. Þeim var þó eins og öðrum ljóst, að skynsamlegast væri að ljúka afgreiðslu mála á þessum næturfundum í stað þess að koma aftur saman mánudaginn 21. desember. Þess vegna voru ræðuhöld allra í hófi, þótt á einum tímapunkti lá við, að Jóhanna Sigurðardóttir missti stjórn á sér, þegar hún æsti sig einhver ósköp út af frumvarpi um stimpilgjöld, varð hún svona reið, þegar fjármálaráðherra taldi, að hún væri að belgja sig af ástæðulausu, þar sem frumvarpið snerist alls ekki um það, sem hún setti fyrir sig.

Í gær var frumvarp til útvarpslaga lagt fram á alþingi, er þetta mikill bálkur, sem saminn hefur verið í menntamálaráðuneytinu og tekur mið af þróun evrópsks réttar á þessu sviði. Staða RÚV verður óbreytt nái þetta frumvarp fram að ganga, hins vegar vegur Menningarsjóður útvarpsstöðva lagður niður og einnig er menntamálaráðherra heimilað að beita sér fyrir undirbúingi að starfrænum útvarpsrekstri hér samkvæmt frumvarpinu.

Þá hefur ráðuneytið gengið frá frumvörpum um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, sem miða að því að laga starf og stjórnarhætti þessara skóla að nýju rammalöggjöfinni um háskólastigið, sem samþykkt var fyrir ári. Einnig hefur verið samið frumvarp um breytingar á nýjum lögum um Kennaraháskóla Íslands til að samræmi sé í sérlögum þessara þriggja háskóla á þeim sviðum, þar sem það er eðlilegt. Ríkiksstjórnin hefur afgreitt frumvörpin fyrir sitt leyti og þau hafa verið send þingflokkum sjálfstæðismanna, sem hafa afgreitt þau, og framsóknarmanna. Verða þessi frumvörp væntanlega lögð fram og tekin til umræðu, þegar þing kemur saman eftir jólahlé.