13.12.1998

Átakamál - gagnagrunnur - hæstiréttur


Stjórnmálaumræður hafa verið óvenjulega miklar undanfarna daga. Á alþingi hafa menn tekist hart á um miðlægan gagnagrunn, en síðdegis á fimmtudag (10. desember) greiddum við alþingismenn atkvæði um málið, eftir að hafa fengið breytingartillögur frá heilbrigðis- og tryggingamálanefnd þingsins, það er meirihluta hennar en minnihlutinn ákvað að draga allar sínar tillögur til baka. Er nú aðeins eftir þriðja og lokaumræða um málið á alþingi. Á miðvikudagsmorgun (9. desember) kom ríkisstjórnin saman til fundar og þar var sjávarútvegsráðherra heimilað að leggja fram frumvarp til breytingarlaga á lögunum um fiskveiðistjórnun til að bregðast við dómi hæstaréttar frá 5. desember. Föstudag (11. desember) og laugardag (12. desember) var fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1999 til annarrar umræðu á alþingi. Hvert stórmálið rekur þannig annað.

Niðurstöður í skoðanakönnun Gallups voru birtar að kvöldi laugardags 12. desember og samkvæmt þeim hefur ríkisstjórnin sjaldan notið meira fylgis en einmitt núna og fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks heldur áfram að aukast. Bræðingur vinstri manna nýtur ekki mikils trausts og heldur það áfram að minnka. Bræðingurinn er forystulaus og virðist ætla að reyna að þrífast á neikvæðum áróðri og án þess að leggja annað fram en það, sem elur á öfund og úlfúð. Enn hefur kvarnast úr Alþýðubandalaginu, eftir að Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og ætlar hann að berjast undir merkjum hans í komandi kosningum á Vestfjörðum. Á kjörtímabilinu hefur Kvennalistinn orðið að engu og Alþýðubandalagið er á sömu leið, en Alþýðuflokkurinn er óþekkjanlegur frá því að gengið var til kosninga í apríl 1995. Er merkilegt, að þessi þróun, sem er einhver mesta gerjun í íslenskum stjórnmálum frá því fyrir 1916, verður án þess að það veki sérstakar umræður eða menn leggi sig sérstaklega fram um að skilgreina undirrót breytinganna.

Á alþingi er Ágúst Einarsson, þingmaður jafnaðarmanna, sá talsmaður bræðingsins, sem helst heldur hinum neikvæðu öfundarsjónarmiðum á loft. Sérkennilegt var til dæmis að heyra hann úthúða frumvarpi ríkisstjórnarinnar vegna dóms hæstaréttar. Honum var tíðrætt um þá, sem þegið hefðu gjafakvóta. Fréttamaðurinn bað Ágúst því miður ekki að skýra út fyrir sér og sjónvarpsáhorfendum, hvað hann ætti við með gjafakvóta, hvort það hafi til dæmis verið kvótinn, sem Ágúst sjálfur fékk á sínum tíma. Þá er þess sjaldan getið í þessum umræðum öllum um kvótann og afstöðu Ágústs, að hann er varaformaður í stjórn Granda hf., sem er eitt af öflugustu útgerðarfyrirtækjum landsins og hefur styrkt stöðu sína á grundvelli núgildandi laga.

Í umræðum um svokallaðan bandorm vegna fjárlaga, þar sem lögfestar eru skerðingar á fjárstreymi úr einstökum sjóðum eins og Endurbótasjóði menningarbygginga, vék Ágúst Einarsson að því, að skerðing á þessum sjóði sýndi óvild ríkisstjórnarinnar í garð Þjóðarbókhlöðu, en á sínum tíma varð sjóðurinn til vegna Þjóðarbókhlöðunnar. Bókhlöðuhúsið er nú risið og ekki lengur veitt úr þessum sjóði til þess, heldur eru fjármunirnir nýttir til endurbóta á menningarbyggingum eins og Listasafni Einars Jónssonar, Þjóðminjasafni, Safnahúsinu o. s. frv. Ágúst talaði eins og þessi sjóður kæmi við sögu, þegar rætt væri um það, hve lengi Þjóðarbókhlaðan væri opin. Svo er alls ekki. Raunar hefur meirihluti fjárlaganefndar alþingis lagt til, að Háskóli Íslands fái sérstaka fjárveitingu í fyrsta sinn á næsta ári til að bæta lesaðstöðu nemenda, en háskólaráð lokaði nú i haust lesaðstöðu fyrir námsmenn í Odda. Er til þess ætlast, að háskólinn og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn komi sér saman um það, hvernig staðið verði að því að skapa viðunandi lesaðstöðu fyrir námsmenn. Hugmyndir háskólaráðs um þetta efni lágu ekki fyrir, fyrr en eftir að fjárlagafrumvarpið var komið fram og í hendur fjárlaganefndar alþingis. Eftir að fulltrúar þess höfðu kynnt mér hugmyndir sínar um málið, óskaði ég eftir að viðræður færu fram við stjórn safnsins, og ráðið og stjórnin kæmu sér saman um það, hvernig að málum yrði staðið og fjárhagslegar forsendur tillagna frá háskólaráði yrðu rækilega kannaðar. Af hálfu menntamálaráðuneytisins hefur verið vilji til þess að stuðla að því að sem lengst sé unnt að nýta sér safnið hvern dag og hefur ráðuneytið mælt með fjárveitingum í því skyni. Eftir að hinar síðbúnu tillögur frá háskólanum höfðu veriðkynntar fyrir menntamálanefnd alþingis og fjárlaganefnd, fékk málið farsældar lyktir í meðferð nefndanna.

Fjárlaganefnd tók á ýmsum öðrum mikilvægum málum á sviði menntamála í umræðum sínum um fjárlagafrumvarpið. Meirihlutinn gerir til dæmis merkilegar tillögur um fjárveitingar til símenntunar og endurmenntunar í ýmsum landshlutum. Er veitt fé til þeirra þátta sérstaklega, sem ráðstafað verður undir handleiðslu menntamálaráðuneytisins og á grundvelli samninga, sem það gerir við þá aðila víðsvegar um landið, sem hafa tekið höndum saman í því skyni að styrkja forsendur fyrir fleiri námsleiðum utan hins hefðbundna skólakerfis en þó með tilstyrk þess, þar gefur hin nýja upplýsingatækni einstök tækifæri, sem á að nýta til hins ýtrasta.

Ljóst er, að ýmsir hafa komist í feitt, eftir að dómur hæstaréttar í kvótamálinu féll og láta nú ljós sitt skína án þess að vera að skafa utan af hlutunum, þar gengur Valdimar Jóhannesson fram með góðu fordæmi í DV laugardaginn 12. desember, þegar hann líkir Davíð Oddssyni ( og raunar Ingibjörgu Sólrúnu einnig) við Stalín, Hitler, Idi Amin og fleiri ómenni sögunnar. Blaðamaðurinn eða ritstjórn blaðsins lætur velþóknun sína á þessum ummælum í ljós með því að taka þau sérstaklega útúr meginmálinu og slá þeim upp með stóru letri til að draga athygli lesenda að viðtalinu. Er þetta í ætt við þá atburði, sem urðu á mannréttindahátíð í Ráðhúsinu 10. desember, þegar menn gerðu hróp að Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra og sökuðu hann um grimmdarverk í Írak!

Ófrægingarherferð á hendur stjórnmálamönnum er ekkert nýnæmi. Nú virðast ýmsir telja, að hæstiréttur hafi gefið þeim veiðileyfi á æru þeirra stjórnmálamanna, sem vilja stíga varlega til jarðar og túlka niðurstöðu dómsins í kvótamálinu þröngt. Í tólf ár starfaði ég við að rita um stjórnmál í Morgunblaðið og þekki því vel af eigin raun það andrúmsloft, sem getur myndast í fjölmiðlaheiminum, þegar menn telja sig hafa fengið meira svigrúm en áður til að vega að einstökum stjórnmálamönnum, alþingi eða til stuðnings einhverju máli, sem þeim er kært.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem birtist í dag (sunnudaginn 13. desember), tekur blaðið upp þykkjuna fyrir sjálft sig gegn Sigurði Líndal pófessor vegna þess að blaðinu finnst hann hafa talað af of mikilli léttúð um embætti forseta Íslands og skyldur forseta, þar sem Sigurður telur forseta hafa aðra stöðu en Morgunblaðinu finnst við hæfi. Umvandanir af þessu tagi af hálfu fjölmiðla eru þannig, að menn kippa sér kannski ekki beinlínis upp við þær. Morgunblaðið segist að minnsta kosti ekki hafa miklar áhyggjur af því, þótt Sigurður Líndal gagnrýni það.

Morgunblaðið er ef til vill með þessu langa Reykjavíkurbréfi um skoðanir prófessorsins í og með að draga trúverðugleika Sigurðar Líndals í efa vegna þess að hann hefur tekið aðra afstöðu en blaðið í kvótamálinu, sem er blaðinu heilagt. Taki stjórnmálamenn hins vegar á svipaðan hátt upp þykkjuna vegna málefna, sem eru á þeirra borði, eru fjölmiðlar eða sjálfskipaðir siðaverðir í opinberum umræðum oft ekki lengi að bregða á þá framgöngu því ljósi, að allir sem lesa, heyra eða sjá átta sig á því, að stjórnmálamaðurinn fór út af sporinu. Stjórnmálamenn verða því oft í senn að berjast gegn slíkri augljósri eða dulunni andúð fjölmiðla og fyrir því að koma málstað sínum vel og skipulega á framfæri. Þannig hefur ekki farið fram hjá neinum, sem les Morgunblaðið síðan hæstiréttur felldi dóm sinn í kvótamálinu, að það hefur hafið að nýju krossferð sína gegn kvótakerfinu og sér nýja fylgismenn víða á leiðinni til hinnar nýju Jerúsalem.

Hinir sjálfskipuðu siðaverðir vinstrisinna í fjölmiðlum eru ekki mjörg margir eftir. Þeim fækkar eins og fylgismönnunum samkvæmt skoðanakönnunum. Tvö nöfn koma þó i hugann, þegar litið er til gamalreyndra baráttumanna af vinstri kantinum, sem enn taka málstað bræðingsins, þótt þeir séu að vísu ekki alsælir með hann, eru þetta þeir Sigurður A. Magnússon rithöfundur og Árni Björnsson læknir, sem rita dálka í DV. Eru þeir hvatvísir í gagnrýni á andstæðinga sína, þótt þeir hafi ekki alltaf góðan málstað að verja. Má jafnvel greina meira umburðarlyndi hjá Sigurði A. Magnússyni í garð einræðisherranna í Kína en þeirra, sem stjórna hér á landi, þótt himinn og haf sé á milli mannréttinda og frelsis okkar og Kínverja, nægir í því efni að benda á grein eftir Sigurð í Lesbók Morgunblaðsins 28. nóvember síðastliðinn og síðan mörg þung orð, sem hann hefur látið falla um íslenskt þjóðfélag og þá, sem þar ráða. Deilur um mannréttindi á alþjóðavettvangi snúast ekki síst um það, að talsmenn einræðisstjórnarinnar Kína krefjast þess, að önnur mælistika sé notuð um kínverska stjórnarhætti og kúgun, til dæmis á Tíbetum, en á vestræna stjórnarhætti. Sé látið undan þessari kröfu Kínverja er fallist á, að mannréttindi séu ekki algild réttindi, sem hver maður á að njóta.


Umræður um gagnagrunnsfrumvarpið eru á lokastigi á hinum pólitíska vettvangi. Í útvarpspredikuninni í dag varð frumvarpið prestinum tilefni til að draga mörk á milli kærleikans og markaðarins, var helst að skilja, að þetta tvennt færi ekki saman. Ber þá að álykta sem svo, að kærleikurinn hafi þrifist best, þar sem markaðurinn var bannaður? Mannkynið hefur fengið tækifæri til að kynnast slíku stjórnkerfi á þessari öld; þar var markaðurinn ekki aðeins bannaður heldur einnig kærleikurinn, trúin og kirkjan. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að halda því fram, að framfarir í læknavísindum og markaðshyggja eigi ekki samleið? Á fáum sviðum er samkeppni meiri og stærri fjárfúlgur í húfi, þótt þær komi að mestum hluta hér og víða annars staðar úr vasa skattgreiðenda í gegnum ríkissjóð. Er það til marks um mannvonsku markaðarins að vilja nýta þessa miklu opinberu fjárfestingu til að skapa ný verðmæti og betri úrræði í baráttunni við sjúkdóma fyrir tilstyrk upplýsingatækninnar, framtak og fjárfestingu einstaklinga?

Lögin um miðlægan gagnagrunn mæla fyrir um fyrsta samræmda átakið hér á landi til að koma stjórn á skráningu og miðlun upplýsinga í heilbrigðiskerfinu og skilgreina réttarstöðu sjúklinga, lækna og heilbrigðisstofnana með viðunandi hætti í þessu efni eftir að tölvutæknin er orðin ráðandi við meðferð á upplýsingum. Staðreynd er, að meðferð á einstaklingsbundnum upplýsingum um sjúklinga hafa ekki verið með viðunandi hætti. Lögin eru nauðsynleg vegna þess að grunnurinn er einstakur og miðlægur. Lögin eiga að tryggja rekstrarleyfishafa, sem mun stofna til mikilla fjárfestinga vegna grunnsins, að ekki verði heimilað að fjárfesta í öðrum sambærilegum, miðlægum grunni. Ef ekki væri verið að heimila miðlægan grunn væri ekki þörf á sérstökum lögum um hann. Lögin eiga að tryggja aðgang allra vísindamanna að grunninum og hann auðveldar því margskonar rannsóknir.

Svo sem kunnugt er getum við alþingismenn aðeins sagt, hvað okkur finnst vera í lögunum en hæstiréttur á lokaorðið um túlkun á þeim og hvort þau séu gild samkvæmt stjórnarskránni. Vegna hinna miklu hagsmuna, sem eru í húfi innan heilbrigðiskerfisins, er líklegt, að dómsmál eigi eftir að rísa vegna miðlæga gagnagrunnsins.

Nokkrar umræður hafa orðið um stöðu hæstaréttar eftir að hann felldi dóm sinn í kvótamálinu. Skynsamlegt hefði verið fyrir forseta réttarins að kalla sjö dómara til að fjalla um þetta mál, hafði hann allar forsendur til þess, enda hafði rétturinn áður fjallað um málið og vísað því til frekari til frekari meðferðar í héraðsdómi. Þá er sérkennilegt, að hæstiréttur skyldi ekki samþykkja, að þetta mál yrði prófmál, það er að héraðsdómslögmaður mætti flytja það fyrir réttinum til undirbúings því, að hann fengi réttindi sem hæstaréttarlögmaður. Að mál séu ekki viðurkennd sem prófmál er almennt talið sýna, að rétturinn telur þau ekki snúast um verðug álitaefni. Vakin hefur verið athygli á því, að rétturinn hafi tekið þessa afstöðu um að málið væri fremur léttvægt af þeirri ástæðu, að ágripið, það er málskjölin eftir meðferð í héraðsdómi væru svo lítil af vöxtum. Allt ýtir þetta undir þá niðurstöðu, að hæstiréttur hafi ekki talið sig vera að kveða upp dóm aldarinnar, þótt margir vilji líta á niðurstöðuna sem dauðadóm leikreglnanna í starfsumhverfi útgerðarmanna.

Þess er réttilega krafist, að menn sýni hæstarétti virðingu. Krafan snýst um það, að menn virði niðurstöðu réttarins, en að sjálfsögðu er öllum heimilt að túlka hana og velta fyrir sér, hvernig rétturinn kemst að niðurstöðu sinni. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögu sína um, það hvernig brugðist skuli við dómi hæstaréttar. Síðastliðinn miðvikudagsmorgun vorum við sjö lögfræðingarnir, sem sátum yfir málinu við ríkisstjórnarborðið, það er fjórir utan ríkisstjórnarinnar en í þeirra hópi var ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytisins, starfandi hæstaréttarlögmaður og tveir lagaprófessorar, og síðan þrír löglærðir ráðherrar. Allir íslenskir lögfræðingar hafa hlotið sömu grunnmenntun og eiga að þekkja sömu aðferðirnar og vinnubrögðin við að komast að niðurstöðu, sem stenst lögfræðilega gagnrýni. Eftir því umræðurnar hafa orðið meiri um þetta mál hef ég sannfærst betur um að rétt sé að túlka þessa niðurstöðu hæstaréttar með þeim hætti, sem kemur fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Er furðulegt að heyra talsmenn 105 prófessora við Háskóla Íslands lýsa eftir efnislegum viðbrögðum frá ríkisstjórninni við dómi hæstaréttar, þegar stjórnarfrumvarp um málið liggur fyrir alþingi. Efnisleg viðbrögð ríkisstjórnarinnar liggja fyrir. Eru þessir 105 prófessorar einhuga um að túlka eigi dóm hæstaréttar á annan veg? Hafa þeir borið saman bækur sínar um það? Hver var niðurstaðan? Páll Skúlason háskólarektor hefur hvatt til þess, að á vettvangi háskólans taki menn til umræðu málefni, sem eru ofarlega á baugi í þjóðfélaginu og stuðli þannig að málefnalegri umræðum. Hætt er við, að gildi slíkra málþinga rýrni við dreifingu lítt rökstuddum undirskriftalistum í nafni prófessora við háskólann.