6.12.1998

Vinstri skattar - kvótakerfið - Kaupmannahafnarferð

Ákvörðun R-listans um að hækka álögur á Reykvíkinga og hafa af þeim skattalækkun, sem eru hluti kjarasamninga, er til marks um dæmigerða stjórnarhætti vinstri manna. Fyrst eru útgjöldin ákveðin og síðan eru skattarnir einfaldlega hækkaðir til að borga brúsann. Á síðasta kjörtímabili kom holræsaskatturinn til sögunnar nú er útsvarið hækkað en hvergi verður vart við neina viðleitni til að spara eða sporna við útgjöldum. Enn heldur Ingibjörg Sólrún áfram að skella skuldinni á ríkisvaldið eða sjálfstæðismenn, þótt meira en fjögur ár séu liðin frá því, að hún tók við völdum í ráðhúsinu og henni hafi gefist nægur tími til að setja sitt mark á borgarsjóð og umsvif borgaryfirvalda. Greip hún síðan til þess ráðs í vörn sinni fyrir auknum álögum á borgarana að fara með rangfærslur um tekjuöflun ríkisins.

Afsakanir og útskýringar borgarstjórans eru næsta marklitlar, því að undirrót vandans er að finna í meirihlutanum að baki Ingibjargar Sólrúnu. Hann hefur ekki þrek til að stunda það aðhald, sem er nauðsynlegt til að halda útgjöldum í skefjum eða forgangsraða með þeim hætti, að ekki sé nauðsynlegt að þyngja í sífellu byrðar borgaranna. R-listinn kaupir innri frið í meirihluta borgarstjórnar með því að hækka útgjöldin og borgarbúar sitja uppi með reikninginn. Skuldasöfnun borgarsjóðs er með ólíkindum í góðærinu og ber miklu ábyrgðarleysi vitni.

Stjórnarhættir R-listans eru fálmkenndir og ómarkvissir. Skipulagsbreytingar í stjórnsýslu borgarinnar eru tíðar og erfitt fyrir viðmælendur borgaryfirvalda að átta sig á því, hver það er, sem kemur fram fyrir hönd þeirra í einstökum tilvikum. Er þetta mikil breyting frá því, sem áður var undir stjórn sjálfstæðismanna. Þá gerðu menn sér vel grein fyrir því, hvar ábyrgðin lá. Hef ég oft áður vakið máls á því hér á þessum síðum, að stjórnarhættir Ingibjargar Sólrúnar mótist frekar af því, að hún bendir á blóraböggla en axlar þá ábyrgð, sem starfi hennar fylgir.

----------

Fimmtudaginn 3. desember kvað hæstiréttur upp dóm í máli, sem Valdimar Jóhannesson höfðaði gegn íslenska ríkinu vegna synjunar sjávarútvegsráðuneytisins á leyfi til fiskveiða. Hefur niðurstaða dómstólsins vakið verðskuldaða athygli og miklar umræður. Samkvæmt íslenskri stjórnskipan hefur hæstiréttur síðasta orðið um það, hvort lög séu í samræmi við stjórnarskrána, komist rétturinn að þeirri niðurstöðu, að lög stangist á við stjórnarskrána ber að laga löggjöfina að stjórnarskránni. Þetta eru þær leikreglur, sem gilda.

Á þessum áratug hafa stjórnvöld, ríkisstjórn og alþingi, beitt sér fyrir mörgu, sem skerpir ábyrgð ríkisvaldsins og leggur meiri skyldur en áður á herðar þeirra, sem sitja í ríkisstjórn og sinna stjórnsýslu um vönduð vinnubrögð. Þá hefur stjórnarskránni verið breytt og eru mannréttindaákvæði hennar á við það, sem best gerist, auk þess sem mannréttindasáttmáli Evrópu hefur verið lögfestur. Í máli Valdimars Jóhannessonar leit hæstiréttur á löggjöfina um fiskveiðistjórnun í ljósi hinna auknu krafna um virðingu fyrir rétti einstaklingsins, sem komið hafa til sögunnar á síðustu árum.

Lagði rétturinn mat á 5.gr. laganna um fiskveiðistjórnun, þar sem segir í upphafi:

„Við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni koma til greina þau skip ein sem veiðileyfi fengu skv. 4. og 10. gr. laga nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða, og ekki hafa horfið varanlega úr rekstri. Enn fremur bátar undir 6 brl. enda hafi beiðni um skráningu þeirra á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum borist ásamt fullnægjandi gögnum innan mánaðar frá gildistöku laga þessara. Auk þess skal gefinn kostur á veiðileyfi fyrir nýja báta undir 6 brl. enda hafi smíði þeirra hafist fyrir gildistöku laganna og haffærisskírteini verið gefið út innan þriggja mánaða frá þeim tíma.”

Taldi hæstiréttur, að þessi aðferð við að úthluta veiðileyfi væri í andstöðu við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. grein stjórnarskrárinnar, sem kom inn í hana á árinu 1995, og þau sjónarmið, sem gæta þyrfti við takmörkun á atvinnufrelsi samkvæmt 1. mgr. 75. greinar stjórnarskrárinnar.

1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar er þannig: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.”

Í 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.”

Í forsendum dóms hæstréttar er þannig komist að orði:

„Eins og áður getur taldi löggjafinn brýnt að grípa til sérstakra úrræða á árinu 1983 vegna þverrandi fiskistofna við Ísland. Var skipting hámarksafla þá felld í þann farveg, sem hún hefur síðan verið í, að úthlutun veiðiheimilda yrði bundin við skip. Er óhjákvæmilegt að líta svo á, að þessi tilhögun feli í sér mismunun milli þeirra, sem leiða rétt sinn til veiðiheimilda til eignarhalds á skipum á tilteknum tíma, og hinna, sem hafa ekki átt og eiga þess ekki kost að komast í slíka aðstöðu. Þótt tímabundnar aðgerðir af þessu tagi til varnar hruni fiskistofna kunni að hafa verið réttlætanlegar, en um það er ekki dæmt í málinu, verður ekki séð, að rökbundin nauðsyn hnígi til þess að lögbinda um ókomna tíð þá mismunun, sem leiðir af reglu 5. gr. laga nr. 38/1990 um úthlutun veiðiheimilda. Stefndi hefur ekki sýnt fram á, að aðrar leiðir séu ekki færar til að ná því lögmæta markmiði að vernda fiskistofna við Ísland. Með þessu lagaákvæði er lögð fyrirfarandi tálmun við því, að drjúgur hluti landsmanna geti, að öðrum skilyrðum uppfylltum, notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi eða sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru, og þeir tiltölulega fáu einstaklingar eða lögaðilar, sem höfðu yfir að ráða skipum við veiðar í upphafi umræddra takmarkana á fiskveiðum.”

Á það hefur verið bent í umræðum um þennan dóm, að orðalagið í þeim kafla, sem vitnað er til hér að ofan er bæði ónákvæmt og í nokkrum véfréttarstíl. Til dæmis er ekki talað um „veiðiheimildir” í 5. grein fiskveiðistjórnunarlaganna heldur um „veiðileyfi”. Þá tekur rétturinn fram, að hann sé ekki að dæma um réttmæti þess að grípa til tímabundinna aðgerða til að varna hruni fiskistofna, honum finnst hins vegar ekki rökbundin nauðsyn til þess að reglan í 5. gr. gildi um aldur og ævi, þegar veiðiheimildum er úthlutað. Þá gerir rétturinn því skóna, að sjávarútvegsráðuneytinu beri að sýna fram, að unnt sé að ná því lögmæta markmiði að vernda fiskistofna við Ísland með öðrum hætti en ákvæðum 5. greinarinnar. Engin leiðsögn er hins vegar veitt um það, hvernig þetta verði best gert. Loks er það meginniðurstaða þessa kafla, að ekki sé um jafnræði borgaranna að ræða vegna „fyrirfarandi” tálmunar í 5. greininni.

Um það er ekki deilt, að á Íslandi eiga dómstólar úrskurðarvald um það, hvort lög standist stjórnarskrána. Reglan um þetta er þess eðlis, að eðlilegt er að túlka niðurstöðu dómstóla um ákvarðanir alþingis þröngt. Er ég sammála þeim, sem telja, að ekki eigi að leggja meiri merkingu í dóm hæstaréttar í þessu máli, en fram kemur í honum sjálfum. Niðurstaða dómstólsins var sú að fella synjun sjávarútvegsráðuneytisins úr gildi, án þess að tekin væri afstaða til þess, hvort ráðuneytið ætti að svo búnu að verða við ósk Valdimars um veiðileyfi, enda var málið einungis höfðað til að ógilda ákvörðun ráðuneytisins en ekki til að fá viðurkenningu á rétti Valdimars til að fá tilteknar veiðiheimildir í sinn hlut.

Dómur hæstaréttar hefur vakið umræður um kvótamálið en sérstök nefnd skipuð fulltrúum allra flokka vinnur nú að því undir formennsku Jóhannesar Nordals að móta tillögur um framtíðarskipan þessara máli. Hlýtur hún að taka mið af þessum skilaboðum frá hæstarétti ekki síður en aðrir. Þeir kveða alltof fast að orði, sem segja, að með þessum dómi sé stjórnkerfinu á fiskveiðum við Ísland kollvarpað. Hitt hefur gerst, að lögin um þetta efni hafa verið túlkuð af hæstarétti í samræmi við ný jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. Að kalla þá niðurstöðu áfellisdóm yfir alþingi á ekki við nokkur rök að styðjast. Alþingi samþykkti jafnræðisregluna og felst að sjálfsögðu enginn áfellisdómur í því að hæstiréttur túlki lög í samræmi við hana.

Orðalagið í forsendum dómsins bendir til að þar hafi verið leitast við að sætta ýmis sjónarmið en viðleitni til þess hefur oft í för með sér óljósan texta. Úr þessum texta les síðan hver og einn það, sem hann vill sjá í honum. Árétta ég þá skoðun mína, að hættulegt og glannalegt sé að lesa of mikið í textann, túlka beri hann þröngt og af mikilli varúð. Þannig nálgast menn einnig af mestri skynsemd það viðfangsefni að laga 5. grein laganna um fiskveiðistjórnun að ákvæðum stjórnarskrárinnar og þeim sjónarmiðum um jafnræði, sem þarf að gæta, þegar atvinnufrelsið er takmarkað, en það er unnt að gera með almennum lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess, þau skilyrði eru vissulega fyrir hendi, þegar í húfi er að vernda fiskistofna við Ísland.

Þegar umræðurnar um skattahækkun R-listans stóðu sem hæst og hæstiréttur kvað upp dóm sinn var ég úti í Kaupmannahöfn. Hélt ég þangað mánudaginn 30. nóvember, en daginn eftir, 1. desember sat ég fund norrænna menntamálaráðherra, og sama dag flutti ég einnig ávarp á fullveldishátíð Félags íslenskra stúdenta í Jónshúsi. Þar var Böðvar Guðmundsson rithöfundur gerður að heiðursfélaga hjá stúdentum.

Daginn eftir fór ég til Malmö og heimsótti þar Kunsthallen, sem Bera Nordal. fyrrverandi forstöðumaður Listasafns Íslands, veitir forstöðu. Fimmtudaginn 3. desember fór ég í Louisiana-safnið og skoðaði þar sýningar eftir Miró og arkitektinn Frank O. Gehry, sem er frægur fyrir margar merkilegar byggingar, nú síðast Guggenheim-safnið í Bilbao. Einnig átti ég fundi með forráðamönnum Norðurlandaráðs til undirbúnings á því, að ég tæki við formennsku í ráðherranefndunum tveimur, sem fjalla annars vegar um menntamál og hins vegar um menningarmál. Erindi mitt á ráðherrafundina að þessu sinni var meðal annars að kynna stefnu Íslands á formennskuárinu. Yfirleitt er unnt að ljúka báðum fundunum á einum degi en að þessu sinni var óhjákvæmilegt að slíta þá í sundur og í stað þess að vera fjóra daga í flugvélum á einnig viku ákvað ég að dveljast í Kaupmannahöfn.

Föstudaginn 4. desember hittust norrænu menningarmálaráðherrarnir á fundi í Kaupmannahöfn og einnig komu útvarpsstjórar ríkisútvarpanna á Norðurlöndum ( þó ekki frá Finnlandi) til fundar við ráðherrana og lýstu áhyggjum sínum yfir framtíð stofnana sinna við gjörbreyttar aðstæður í útvarpsmálum. Síðdegis skoðaði ég Statens Museum for Kunst í Kaupmannahöfn, sem nýlega var opnað að nýju eftir gagngerar breytingar og stækkun, hefur nýju húsi verið bætt við hið gamla og virðulega safnhús. Um kvöldið flutti ég síðan ræðu á aðventukvöldi íslenska safnaðarins í Kaupmannahöfn, sem var í Sankt Paulskirkju. Var ánægjulegt að eiga þessa stund með söfnuðinn en margir foreldrar komu með ung börn sín og sýndu meðal annars helgileik og sungu. Eftir athöfnina í kirkjunni var haldið í Jónshús og drukkið heitt súkkulaði með rjóma, sem kom sér vel í kuldanum.

Eftir að hafa sótt tvær athafnir í Jónshúsi með Íslendingum á þessum dögum er ég betur sannfærður en áður um nauðsyn þess, að forsætisnefnd alþingis taki af skarið um framtíð Jónshúss og nýtingu þess.

Sneri ég heim aftur laugardaginn 5. desember. Miklar umræður voru þessa daga í Danmörku um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem miða að því að draga úr ríkisútgjöldum með því að skerða eftirlaunarétt fólks. Mælast aðgerðirnar ákaflega illa fyrir hjá verkalýðshreyfingunni og fylgi jafnaðarmanna hefur stórminnkað samkvæmt skoðanakönnunum.