22.11.1998

Flokksráðsfundur - bræðingurinn

Við sjálfstæðismenn efndum til flokksráðfundar okkar laugardaginn 21. nóvember. Hófst hann með yfirlitsræðu Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra og flokksformanns. Síðan sátum við ráðherrar flokksins fyrir svörum fundarmanna, þá var sérstaklega rætt um tvo málaflokka, kjördæmamálið og menntamál.

Samkvæmt skipulagsreglum flokksins ber að efna til flokksráðfundar árið, sem ekki er landsfundur, en til þess fundar er boðað í mars næstkomandi, þegar um tveir mánuðir eru til kosninga. Núna þegar tæpt hálft ár er þar til kosið verður, er staða Sjálfstæðisflokksins sterk meðal kjósenda, síðasta Gallup-könnun sýnir 47% fylgi okkar sjálfstæðismanna og ríkisstjórnin nýtur um 70% stuðnings, sem er einstakt, þegar dregur að lokum kjörtímabilsins. Davíð Oddsson minnti á það í ræðu sinni, að á skemmri tíma en hálfu ári gæti margt gerst í stjórnmálum.

Lánleysi andstæðinga ríkisstjórnarinnar er með ólíkindum og varla geta þeir farið lengra á vandræðabraut sinni fram að kosningum. Hljóta þeir að halda þannig á málum, að fylgi þeirra aukist frekar en minnki meira næstu mánuði.

Til marks um fráleita hluti í stjórnmálum er sú ákvörðun forystumanna Alþýðuflokksins að ljá máls á umræðum um varnarleysi þjóðarinnar og að ekki sé hafið yfir allan vafa, að Ísland skuli skipa sér í sveit með aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins. Guðmundur Árni Stefánsson hefur staðið upp á Alþingi og sagt rangt, að kratar séu að fara inn á nýjar brautir í utanríkismálum með þátttöku í bræðingnum, sem stofnaður er undir heitinu samfylking. Mér finnst ekki sannfærandi að hlusta á Guðmund Árna tala um öryggis- og varnarmál. Minnist ég þess frá þeim tíma, þegar harðast var deilt um aðild Íslands að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin, að Guðmundur Árni skipaði sér í raðir þeirra innan Alþýðuflokksins, sem voru lengst til vinstri og þá snerust ýmsir sósíaldemókratar gegn þeim áformum, sem NATO greip til í því skyni að sporna gegn vígbúnaðaræði Sovétmanna.

Á sama tíma og Alþýðuflokkurinn er leiddur undir nútímalega útgáfu á kjörorðinu: Ísland úr NATO - herinn burt, fer forystusveit Alþýðubandalagsins í opinbera heimsókn til Kúbu. Er með ólíkindum, að formanni flokksins, Margréti Frímannsdóttur, og formanni þingflokksins, Svavari Gestssyni, þyki það sér til framdráttar að fara í þessa pólitísku pílagrímsför á þeim tíma, þegar þjóðfélagsgerðin á Kúbu er orðin að pólitískum forngrip og íbúarnir þrá það helst að losna lifandi úr þessari prísund.

Raunar er það eins og gefa samtímanum langt nef að taka sér fyrir hendur að verja stjórnarhætti á Kúbu fyrir vel upplýstu fólki. Sá söngur Margrétar Frímannsdóttur, að við höfum eitthvað að sækja til Kúbu í menntamálum eða heilbrigðismálum er út í hött. Í stjórnmálum getum við ekkert lært af Castró annað en vítin til að varast, en það var ekki tilgangur sendinefndar Alþýðubandalagsins. Fréttamenn ræddu við Íslendinga, sem dveljast á vernduðum ferðamannasvæðum á eyjunni, og sögðu þeir það einstæða tilbreytingu að fara út af þessum svæðum og sjá, hvernig Kúbverjar draga fram lífið í fábreytni og fátækt kommúnismans.

Margrét Frímannsdóttir kemur svo fram í útvarpsþáttum og lætur eins og það sé fjölmiðlamönnum að kenna, að menn ræði hve vandræðalega er að því staðið að skipa framboðslista fyrir bræðinginn. Í vikunni notaði Össur Skarphéðinsson baksíðu DV, sem hann hætti að ritstýra fyrir viku, til þess að skora á Margréti Frímannsdóttur í einvígi í prófkjöri um framboðslistann í Reykjavík, taldi Össur, að með slíku einvígi mundi einnig koma í ljós, hvor yrði hinn raunverulegi leiðtogi bræðingsins. Margrét kveinkar sér undan fréttum af þessu tagi og segir, að leiðtoginn þurfi ekki að koma úr Reykjavík og gefur einnig til kynna, að kannski verði enginn leiðtogi, það verði samvirk forysta, af því að það hafi gefist svo vel til þessa!

Eigi að meta pólistíska dómgreind þeirra, sem leiða bæðinginn undir merkjum samfylkingarinnar eftir þessum verkum þeirra, er ekki á góðu von úr þessum herbúðum. Leiðtogaskorturinn stendur þessu pólitíska afli einnig í vaxandi mæli fyrir þrifum. Ekki tekur betra við, þegar litið er á flokksraunir Sverris Hermannssonar. Sá flokkur er klofnaður, áður en hann er stofnaður. Er með ólíkindum að lesa um deilurnar, sem þar eru uppi.

Framsóknarmenn efndu til flokksþings í vikulokin og bjóða landsmönnum að koma með sér á miðjuna. Þegar ég var í blaðamennsku og átti orðastað við Tímann, málgagn Framsóknarflokksins, undir ritstjórn Þórarins Þórarinssonar vakti ég oft athygli á því í Staksteinum, að framsóknarmenn skilgreindu sjálfa sig með því að skírskota til stjórnmálamanna, sem áttu velgengni að fagna erlendis. Voru hinir ólíklegustu leiðtogar víða um lönd kenndir við framsóknarstefnuna, þótt þeir hefðu aldrei heyrt á Framsóknarflokkinn minnst. Kjörorðið um miðjuna núna er í ætt við kosningaslagorð þýskra jafnaðarmanna undir leiðsögn Gerhards Schröders, en í alþjóðasamstarfi stjórnmálaflokka skipar Framsóknarflokkurinn sér í sveit hinna hefðbundnu miðjuflokka og þar hafa Frjálsir demókratar verið samstarfsmenn flokksins til þessa í Þýskalandi. Áhersla Halldórs Ásgrímssonar á Evrópumálin í setningarræðu flokksþingsins vakti nokkra athygli. Margrét Frímannsdóttir taldi hann þar fara inn á sömu braut og Alþýðubandalagið og túlkaði orð Halldórs sem vísbendingu um samstarf að kosningum loknum.

Verði Evrópumálin til þess að skapa ný tengsl milli Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins, auka þau ekki á einhuginn innan Framsóknarflokksins, því að Páll Pétursson félagsmálaráðherra andmælti skoðunum formanns síns, ef þau væru túlkuð á þann veg, að hann vildi Ísland inn í Evrópusambandið. Flokksþingið samþykkti ekki tillöguna um að fara í umhverfismat vegna Fljótsdalsvirkjunar og Finnur Ingólfsson hlaut góða kosningum sem varaformaður í keppninni við Siv Friðleifsdóttur, sem gekk til baráttunnar með þau orð á vörunum, að Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn hættulega stór, hvað svo sem þau ný þýða.

Á sama tíma og þessar hræringar eru í vinstri flokkunum er einhugur meiri í Sjálfstæðisflokknum en verið hefur um langt árabil. Á flokksráðsfundinum voru mjög málefnalegar umræður almennt um stjórnmálum og þau sérstöku umræðefni, sem voru á dagskránni. Í umræðum um menntamálin kom það í minn hlut að flytja framsöguræðu.