15.11.1998

Prófkjör - Þýskalandsferð - vefsíður

Prófkjörsbaráttan í Reykjaneskjördæmi hjá okkur sjálfstæðismönnum var óvenjulega löng og lögðu frambjóðendur mjög hart að sér við að kynna sjálfa sig og skoðanir sínar. Þátttakan í kjörinu var einnig mjög mikil. Um niðurstöðuna þýðir ekki að deila, kjósendur hafa kveðið upp dóm sinn og við stjórnmálamennirnir leggjum verk okkar og framtíð í þeirra hendur. Þeir eiga síðasta orðið. Listinn er sigurstranglegur. Þar eru góðir menn í efstu sætum, sérstaka athygli vekur, hve Þorgerður K. Gunnarsdóttir náði glæsilegum árangri.

Á meðan baráttunni í Reykjaneskjördæmi hefur staðið hafa margir komið að máli við mig og rætt um kosti þess og galla að velja frambjóðendur á lista með þessum hætti. Sjálfur þarf ég ekki að kvarta undan prófkjöri við val á frambjóðendum. Ég komst í fyrstu atrennu inn í þriðja sætið á listanum í Reykjavík og hélt því í næsta prófkjöri, þegar aðrir kepptu einnig um það. Hitt er öllum ljóst, að átök af þessu tagi kosta bæði mikla peninga og umstang auk þess sem hætta er á sárindum, þegar tekist er á í slíku návígi. Stjórnmálaflokkar ná ekki árangri nema innan forystusveitar þeirra ríki mikil eindrægni og samhugur. Sjáum við best, hvernig farið hefur fyrir vinstri mönnum, þegar þeir deila um samfylkinguna og stofna frekar nýja flokka en að sætta sig við hana.

Prófkjör er ein aðferð við að velja frambjóðendur. Aðrar leiðir eru einnig færar til þess og það er á valdi flokka eða samtaka þeirra í einstökum kjördæmum að velja þessar leiðir í ljósi aðstæðna hverju sinni. Menn leggja misjafnlega hart að sér að ná markmiðum sínum í lífinu. Æ fleirum er ljóst, hve góð menntun er mikils virði í þessu sambandi. Festa margir mikið fé í námi sínu og verja til þess löngum tíma. Einnig er flestum ljóst, að ekki er von til þess að vinnuveitendur hafi áhuga á að ráða þá til starfa, sem sýna lítinn metnað við að sækja um auglýst starf. Þó held ég, að fáar leiðir til nýrra starfa séu erfiðari og kostnaðarsamari en þátttaka í prófkjöri á borð við það, sem nýlokið er í Reykjanesjördæmi. Er það í sjálfu sér þakkarvert, að svo margt gott fólk sé fúst til að leggja jafnhart að sér til að ná þessu marki. Prófkjörsbarátta er á margan hátt gefandi, því að hún veitir frambjóðendum einstakt tækifæri til að ná sambandi við umbjóðendur sína, heyra viðhorf þeirra og kynna viðhorf sín.

Þýskalandsferð Davíðs Oddssonar forsætisráðherra hefur vakið verðuga athygli. Sannast enn í henni, hve mikilvægt er að leggja rækt við að fá hingað til lands áhrifamenn í stjórnmálum annarra þjóða, þótt ekki gegni þeir endilega æðstu embættum. Má segja, að með slíkum heimsóknum sé stofnað til kynna, sem auðveldi öll samskipti til allrar framtíðar. Þess vegna var ómetanlegt, að Ingimundur Sigfússon, sendiherra Íslands í Bonn, skyldi beita sér fyrir því fyrir ári, að Gerhard Schröder, þáverandi forsætisráðherra í Neðra-Saxlandi, kæmi hingað til lands, ræddi við stjórnmálamenn og kynntist atvinnuháttum.

Nokkrum vikum eftir að Schröder tók við embætti kanslara Þýskalands gefst síðan forsætisráðherra okkar tækifæri til að hitta hann, rifja upp fyrri kynni og ræða um sameiginleg hagsmunamál þjóða okkar. Davíð Oddsson er einnig kominn í hóp þeirra stjórnmálamanna í Evrópu, sem hafa lengst gegnt forystustörfum fyrir þjóð sína. Hefur þann því meiri yfirsýn en margir aðrir yfir þróun evrópska stjórnmála og NATO-málefna á þessum áratug.

Samskipti Þýskalands og Íslands hafa löngum verið góð. Á sínum tíma sýndi Konrad Adenauer kanslari landi og þjóð vinsemd og sonur hans Max, sem er orðinn háaldraður en var á sínum tíma einn af borgarstjórum Kölnar, hefur í marga áratugi verið ræðismaður Íslands og sérstakur áhugamaður um náin samskipti þjóðanna. Ljóst er, að í sendiherratíð Ingimundar Sigfússonar og konu hans Valgerðar í Bonn hefur verið lögð góð rækt við að efla samskipti við stjórnmálamenn.

Síðustu daga hef ég tekið þátt í þremur athöfnum, sem sýna, hve nýja upplýsingatæknin ryður sér víða rúms. Fyrst nefni ég athöfn síðastliðinn þriðjudag 10. nóvember, þar sem Upplýsingamiðstöð myndlistar kynnti nýjar vefsíður sínar www.umm.is um íslenska myndlistarmenn. Eru þessar síður einstaklega vel og glæsilega úr garði gerðar. Hafði ég orð á því, þegar þær voru opnaðar, að í þessu efni eins og mörgum öðrum á sviði upplýsingatækni gætum við líklega orðið öðrum fyrirmynd, því að ég væri ekki viss um, að margar þjóðir hefðu lagt út í það stórvirki að hanna síðu um alla myndlistarmenn sína með þessum hætti. Það hefur hins vegar tekist hér og fleiri listgreinar ætla að sigla í kjölfarið.

Síðastliðinn fimmtudag, 12. nóvember, opnaði Orðabók háskólans öllum almenningi aðgang að ritmálsskrá sinni. Er ég viss um, að margir verða undrandi, þegar þeir fara inn á þessar síður www.lexis.hi.is og kynnast því, hve mikið er þar að finna og hvernig unnt er að nota tæknina til að kynnast orðum og notkun þeirra. Er efalaust að með þessum hætti fá mun fleiri aðgang að orðabókinni heldur en ef hún yrði gefin út í mörgum bindum. Nú er hún við fingurgóma hvers og eins, hvar sem hann er staddur, sem hefur aðgang að tölvu, mótaldi og síma.

Síðan var það föstudaginn 13. nóvember, að Félag vefbókasafns boðaðið til samkomu í Bókasafni Seltjarnarness og kynnti nýja vefsíðu, www.vefbokasafn.is, sem er einstaklega notendavæn leið til að kynnast hinu gífurlega mikla magni af upplýsingum, sem er að finna á veraldarvefnum. Er ástæða til að hvetja alla, sem til þess hafa aðstöðu, að nýta sér þessa nýju þjónustu og vekja athygli sem flestra á henni.

Endurtek ég það, sem ég hef áður sagt, að nýja upplýsingatækni er sá drifkraftur sem setur hvað mestan svip á allt starf á sviði menningar- og menntamála. Er fagnaðarefni hve margir taka vel við sér í þessu efni og sýna mikinn áhuga á að nýta sér tækninni til hins ýtrasta.