8.11.1998

Hlutur kvenna - Egill kveður - foringjaraunir

Flokkarnir eru teknir til við að ákveða framboðslistana fyrir kosningarnar 8. maí næstkomandi. Eru leiðirnar mismunandi, sem valdar eru í einstökum kjördæmum, svo að ekki sé talað um flokkana. Umræðurnar eru sérkennilegastar innan samfylkingar vinstri manna. Þar er ekki aðeins tekist á um leiðir til að ákveða framboðslista heldur einnig, hverjir það eru, sem eiga rétt til þess að móta leikreglurnar og á hvaða forsendum. Nægir þar að minna á kostina, sem Kvennalistinn hefur kynnt. Er erfitt fyrir þá, sem utan þessarar samfylkingar standa, að skilja hvernig Kvennalistinn getur stillt hinum upp við vegg með þeim hætti, sem hefur verið kynntur. Að vísu hafa talsmenn Alþýðuflokks og Alþýðubandalags látið í veðri vaka, að þeir hafi fengið nóg af kröfugerð Kvennalistans.

Víkverji Morgunblaðsins sýnist ekki mjög upptekinn af þessum vandræðagangi samfylkingarinnar í pistli sínum þriðjudaginn 3. nóvember og sér aðeins þá björtu hlið á framvindu sameiningarinnar, að þar sé Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, að ná undirtökunum sem leiðtogi. Dregur Víkverji þá ályktun af skoðanakönnun DV, sem sumir töldu, að væri gerð að undirlagi Össurar Skarphéðinssonar ritstjóra til að draga fram ósk almennings um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði kölluð til leiðtogasætis innan samfylkingarinnar. Annað viðhorf birtist hins vegar í könnuninni og var greinilega lítill sem enginn áhugi á því að kalla á Ingibjörgu Sólrúnu. Telur Víkverji, að Margrét hafi komið „fram á sjónarsviðið, sem viðfelldinn og sterkur talsmaður vinstra bandalagsins.”

Af skrifum Víkverja má ráða, að hann telur þróunina innan samfylkingarinnar vera á þann veg, að þar komi konur til með að hafa undirtökin. Umræður um hlut kvenna í stjórnmálum taka á sig ýmsar myndir og birtast nú í nýrri auglýsingaherferð, þar sem foringjar stjórnmálaflokkanna birtast við sérkennilegar aðstæður. Vekja myndirnar ýmsa vafalaust til umhugsunar um hið góða málefni, aðrir eiga eftir að undrast aðferðina.

Í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjaneskjördæmi hefur baráttan að nokkru snúist um það, að hlutur kvenna verði sem bestur. Þar er ekki skortur á góðum frambjóðendum vilji menn leggja konum lið sitt. Þá hefur Landssamband sjálfstæðiskvenna hvatt Sólveigu Pétursdóttur alþingismann til þess að gefa kost á sér til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundinum í mars nk. til að rétta hlut kvenna í flokknum. Hvarvetna er því rætt um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum.

Í flokkunum eru leikreglurnar almennt þær, að hið sama gengur yfir konur og karla, þegar menn greiða atkvæði og velja til trúnaðarstarfa. Er að sjálfsögðu mismunandi til hvers menn skírskota, þegar þeir afla sér atkvæða eða hvaða fylkingar standa þeim að baki. Mestu hlýtur að skipta að lokum, hvert er framlag viðkomandi til stjórnmála án tillits til kynferðis og með góðum rökum má halda því fram, að hér sé ríkt tilliti tekið til þeirra sjónarmiða, sem setja mark sitt á jafnfréttisstefnu, hvort heldur það kemur í hlut kvenna eða karla að sinna opinberum verkefnum.

Er með ólíkindum, ef mál ganga þannig eftir í samfylkingunni, að niðurstaða könnunar DV ráði því, að Margrét Frímannsdóttir leiði hana. Varla er unnt að álykta öðru vísi en svo, að í því efni skipti málefni engu. Eru kratar þeirrar skoðunar, að málsvari sérstaks pólitísks sambands við Kastró, einræðisherra á Kúbu, eigi að leiða þá inn í nýja öld undir nýjum pólitískum gunnfána?

Í gær tilkynnti Egill Jónsson á Seljavöllum, sem skipað hefur fyrsta sæti á lista okkar sjálfstæðismanna á Austfjörðum, að hann myndi ekki gefa kost á sér við næstu kosningar. Eftir að ég hóf beina þátttöku í stjórnmálum fyrir kosningarnar 1991 hef ég átt þess kost, að fara um alla Austfirði með Agli. Held ég, að ekki í neinum landshluta hafi ég heimsótt hlutfallslega jafnmörg fyrirtæki og þar. Höfum við farið á milli fjarða, skoðað fyrirtæki á daginn og síðan efnt til funda á kvöldin. Eftirminnileg er ferð, sem við fórum fyrir kosningarnar í apríl 1995 frá Egilsstöðum til Vopnafjarðar. Veður var ekki gott og versnaði eftir því sem ofar dró í Jökuldalnum, varð snjóblint og erfitt að keyra. Fór svo að við fengum ungan mann, sem var í öðrum bíl, til að setjast undir stýrið í bíl Egils og vorum við ef ég man rétt um átta tíma á leiðinni með kærkominni viðdvöl í Möðrudal, þar sem tekið var á móti okkur með góðum veitingum og af einstakri greiðvikni. Héldum við fund á Vopnafirði um kvöldið en þegar við ætluðum að snúa til baka næsta morgun var allt ófært, eftir að hafa sannreynt það, ákváðum við af rælni að aka út á flugvöllinn. Þar voru menn fyrir og sögðu þeir, að á hverri stundu væri von á lítilli flugvél frá Egilsstöðum ofan úr hríðarkófinu og hún sneri síðan strax aftur til Egilsstaða, væru sæti laus í vélinni. Létum við ekki segja okkur þetta tvisvar, viti menn allt í einu sást lítil vél nálgast, við fórum um borð og vorum eftir 15 til 20 mínútur komin á flugvöllinn á Egilsstöðum, það liðu síðan dagar, þar til bílstjórinn okkar góði gat komið bílnum aftur yfir heiðarnar til Egils. Hef ég oft dáðst af dugnaði Egils við að rækta tengslin við kjósendur sína í þessu stóra kjördæmi og eitt er víst, að hann hefur ekki legið á liði sínu við að gæta hagsmuna þeirra á Alþingi.

Víða eru menn að velja sér foringja, þegar litið er til stjórnmálamanna. Þær fregnir berast frá Bandaríkjunum, að Newt Gingrich, foringi repúblíkana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, hafi ákveðið að gefa ekki kost á sér að nýju sem forseti þingdeildarinnar og sé auk þess að velta fyrir sér að hætta þátttöku í stjórnmálum. Vill hann með þessu axla ábyrgð sína á því, að ekki tókst að koma Bill Clinton Bandaríkjaforseta á kné í þing- og fylkisstjórakosningunum í Bandaríkjunum sl. þriðjudag. Niðurstaða kosninganna var varnarsigur fyrir demókrata, flokk forsetans, er það almennt mat, að hinar neikvæðu persónulegu árásir á forsetann hafi ekki skilað þeim árangri, sem að var stefnt. Sannaðist þar, að erfitt er að finna meðalhófið í pólitískum átökum og slá á þá strengi, sem helst vekja stuðning meðal kjósenda. Þótt demókratar hafi staðið sig betur í kosningunum en horfði um tíma, eru þeir eftir kosningarnar í sömu stöðu og áður, þeir hafa hvorki meirihluta í fulltrúa- né öldungadeild þingsins.Í raun skiptir það meira máli þegar til lengdar lætur en stundarumfjöllun í fjölmiðlum um kosningatölur og örlög einstakra frambjóðenda. Brotthvarf Newt Gingrich skapar repúblíkönum nýja ásýnd í þinginu. Demókratar lúta hins vegar áfram forystu og ásýnd Clintons og þingið hefur alls ekki lokið meðferð sinni á máli hans. Þótt forsetinn, þingið og almenningur í Bandaríkjunum kysi líklega ekkert frekar en geta ýtt framgöngu Clintons þegjandi aftur fyrir sig og á öskuhaug sögunnar, er málið flóknara en svo, foringjaraunirnar halda því áfram þar í landi.