1.11.1998

Upplýsingaöldin - pólitísk raunasaga

Föstudaginn 30. október boðaði menntamálaráðuneytið blaðamenn til fundar í kennslustofu ráðuneytisins í húsakynnum þess við Sölvhólsgötu. Þessi kennslustofa er einkum notuð til að þjálfa fólk við að tileinka sér hið nýjasta í tölvutækninni. Blaðamannafundurinn var einmitt haldinn til að kynna nýtt útlit á heimasíðu ráðuneytisins á vefnum og nýtt efni, sem þar er að finna. Ráðuneytið hefur nú sett um 1300 blaðsíður af efni inn á netið og í gegnum slóð þess er unnt að nálgast ógrynni af upplýsingum.

Hið nýja, sem við vorum núna að kynna, er árangur, sem náðst hefur í samræmi við verkefnaáætlun mína frá því í febrúar 1996., sem var gefin út undir heitinu Menntun og menning - forsendur framtíðar. Þar eru tíunduð 59 áherslu- og stefnuatriði, sem ég lýsti viðfangsefni ráðuneytisins undir forystu minni sem ráðherra. Nú hefur verið farið yfir þessa áætlun og greint, hvað hefur áunnist í samræmi við hana. Er það skráð inn á heimasíðuna, þannig að í senn er unnt að sjá markmiðið og síðan með því að slá á lykil getur lesandinn kynnt sér árangurinn og á þeim hluta síðunnar eru einnig tenglar inn á mikið af upplýsingalindum. Er þetta í fyrsta sinn sem hin nýja tækni er notuð með þessum hætti. Eru málin lögð fram með skýrum hætti um hálfu ári fyrir kosningar, þannig að unnt ætti að vera fella dóm á traustum forsendum um það, sem hefur verið að gerast á vettvangi menntamálaráðuneytsins.

Af þessum blaðamannafundi til kynningar á nýju heimasíðunni fór ég í Odda, hús Háskóla Íslands, og þar niður í kjallara í fjarkennsluver skólans. Voru þar fyrir Páll Skúlason rektor HÍ og Þórir Ólafsson rektor Kennaraháskóla Íslands ásamt samstarfsfólki sínu og Ólafi Stephensen, sem er nýráðinn upplýsingafulltrúi Landssímans hf. Fjarfundur var hafinn og ræðuhöld byrjuð í Verkmenntaskóla Austurlands á Norðfirði, þegar ég fékk mér sæti. Þarna var formlega verið að stofna Fræðslunet Austurlands, sem hefur orðið til á nokkrum misserum og sameinar framhaldsskóla og háskóla með fjarfunda- eða fjarkennslubúnaði, sem styðst við svokallaða byggðabrú, sem Byggðastofnun hefur lagt sig fram um að styrkja, og tækjakost frá Landssímanum hf. Hefur þessi tækni sífellt verið að eflast hér á landi og að þessu sinni vorum við á sama fundi og ræddumst við frá Hornafirði, Norðfirði, Egilsstöðum, Akureyri, Borgarnesi og Reykjavík. Gekk þetta allt eftir eins og að var stefnt, Fræðslunet Austurlands var formlega stofnað.

Við sjáum það ekki fyrir, hvaða áhrif þessar tækninýjungar hafa en í ræðu, sem ég flutti á Hólmavík, þegar 50 ára afmæli grunnskólans þar var fagnað laugardaginn 31. október, benti ég á, að við værum ekki síður nú að taka þátt í spennandi breytingum í skólastarfi og menntamálum en fyrir 90 árum, þegar fyrstu íslensku fræðslulögin voru sett, eða fyrir 50 árum, þegar skólahald á Hólmavík komst í núverandi horf. Fjarlægðir skipta ekki lengur máli fyrir þá, sem vilja afla sér menntunar, einangrun er úrelt hugtak í umræðum um skólamál.

Fyrir mörg okkar, sem höfum ekki alist upp við hina nýju tækni, er margt framandi á þessu sviði og okkur kann að þykja það sýndarveruleiki að sitja á fundum með mönnum á fjarlægum stöðum og taka sameiginlegar ákvarðanir fyrir tilstilli fjarfundabúnaðar og sjónvarpa. Hinir yngri, sem hafa alist upp við tölvur, sjónvörp, myndbönd og tölvuleiki, líta ekki á styrk tækninnar með sömu augum og við, þeir sjá fleiri kosti við að nota hana en við og eiga eftir að krefjast æ meiri hagnýtingar á þessari tækni í eigin þágu.

Í vikunni komu að minnsta kosti tveir aðilar á minn fund, sem starfa utan hins hefðbundna skólakerfis, til að kynna mér áform sín um að bjóða nám til að svala áhuga almennings á því að tileinka sér tölvutæknina. Í báðum tilvikum var um það ræða að námskröfur svara til alþjóðlegra krafna og þeir, sem stunda námið og ljúka því fá alþjóðlegt skírteini, þannig að námið nýtur viðurkenningar í mörgum löndum. Þetta er staðreynd, sem allir skólamenn standa frammi fyrir, nemendur krefjast þess, að nám þeirra standist alþjóðlegar kröfur.

---------------

Morgunblaðið segir frá því á baksíðu í dag, sunnudag 1. nóvember, að rætt sé um að loka skrifstofu Alþýðubandalagsins í Reykjavík vegna fjárhagsvanda flokksins, en skuldir hans nema um 50 milljónum króna. Í blaðinu er það haft eftir Sigríði Jóhannesdóttur þingmanni flokksins úr Reykjaneskjördæmi, að hún hafi mestar áhyggjur af fjármálum flokksins, þegar hún hugleiði stöðu hans og verkefni. Þetta kemur engum á óvart, sem fylgst hefur með fréttum af Alþýðubandalaginu eða til dæmis lesið greinar Úlfars Þormóðssonar í blöðum um fjármál þess, en hann hefur beint skýrum spurningum til flokksforystunnar án þess að fá nokkur svör. Líklega hafa þessar greinar Úlfars ekki dregið úr áhyggjum Sigríðar.

Skýrt hefur verið frá því, að af þeim þremur flokkum, sem standa að samfylkingunni, sé Kvennalistinn sæmilega staddur fjárhagslega. Um fjármál Alþýðuflokksins hefur ekki verið rætt með jafnskýrum hætti og Alþýðubandalagsins. Með brotthvarfi þingmanna úr Alþýðubandalaginu hefur fjárhagslegur styrkur þess enn versnað, því að fjármunir fylgja hverjum þingmanni, samkvæmt því kerfi, sem gildir um opinberan fjárhagslegan stuðning við þingflokka.

Landsbankinn er viðskiptabanki Alþýðubandalagsins, hann var einnig viðskiptabanki Þjóðviljans og hefur fjárhagslegt uppgjör vegna þessa gamla málgagns kommúnista og alþýðubandalagsmanna oftar en einu sinni borið á góma í opinberum umræðum. Hafa forystumenn Alþýðubandalagsins reynt að drepa þeim umræðum á dreif með því að tala um önnur og óskyld mál eins og örlög Almenna bókafélagsins. Séu örlög þess og Þjóðviljans borin saman kemur fljótt í ljós, að þar er mjög ólíku saman að jafna.

Í dönskum blöðum er hvað eftir annað fjallað um tengsl flokksbræðra Alþýðubandalagsins í Danmörku við Sovétríkin, kommúnistaflokkinn þar, og í sovésku leppríkjunum, einkum Austur-Þýskalandi. Hér á landi hafa þessar umræður verið með allt öðrum hætti en þar. Þeir Árni Snævarr og Valur Ingimundarson gáfu árið 1992 út bókina Liðsmenn Moskvu. Miklar upplýsingar hafa komið fram síðan, sem hafa verið lítið ræddar hér á landi. Þegar ég minntist á þennan sögulega uppruna Alþýðubandalagsins á Alþingi fyrir kosningarnar vorið 1995, hófust miklir póltískir kveinstafir og úr ólíklegustu áttum heyrðist, að ekki væri við hæfi að ræða þennan þátt í stjórnmálasögu okkar, skömm þeirra manna, sem aðhyllst hefðu kommúnisma og sósíalisma væri nóg, þótt ekki væri hún opinberuð frekar.

Ekki verður þagað um blóðuga raunasögu kommúnista á þessari grimmu öld. Þegar ég var í Frakklandi á dögunum keypti ég bókina Le livre noir du communisme - Svörtu bókina um kommúnisma, þar sem lýst er glæpum, grimmd og kúgun kommúnismans á rúmlega 800 blaðsíðum. Bókin er ekki skrifuð af þeim, sem alla tíð hafa barist gegn kommúnistum, heldur sagnfræðingum, sem afhjúpa blekkingar kommúnismans með því að lýsa því, sem raunverulega gerðist á grundvelli nýjustu heimilda. Hefði Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, og fylgdarfólk hennar til Kúbu gott af að lesa kaflann um Castró í þeirri bók, áður en það heldur þangað í einskonar pólitíska pílagrímsferð. Höfundar telja, að síðan 1959 hafi meira ein 100.000 Kúbumenn setið í fangabúðum Castrós og 15.000 til 17.000 hafi verið teknir af lífi. 20% Kúbumanna búa nú utan lands síns og hafa flúið harðstjórann og grimmdarverk hans.

Ég er sannfærður um, að það hefði á ýmsan hátt auðveldað sameiningu vinstri manna hér, ef gengið hefði verið hreint til verks innan Alþýðubandalagsins og gert upp við hina pólitísku fortíð eins og kommúnistar hafa gert í öðrum löndum í stað þess að flissa, þegar um málið er rætt, og stinga síðan hausnum í sandinn með aðstoð fjölmiðlunga. Dæmalaus vandræðagangur samfylkingarmanna í utanríkis- og varnarmálum er til dæmis afleiðing þess, að enn halda margir alþýðubandalagsmenn í stefnuna, sem þeir mótuðu undir forystu Sovétríkjanna og með hagsmuni Varsjárbandalagsins sáluga að leiðarljósi, en það var einna fyrst alþjóðastofnanana til að hverfa á öskuhaug sögunnar eftir fall Sovétríkjanna. Utanríkisstefnan, Ísland úr NATO - herinn burt, lifir hins vegar góðu lífi og meira að segja Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins, er farinn að gæla við hana í stað þess að krefjast uppgjörs og sýna síðan fram á gildi þeirrar utanríkisstefnu, sem Alþýðuflokkurinn fylgdi, áður en niðurlagning hans og samfylking varð höfðukappsmál flokksformannsins.