18.10.1998

Þorsteinn hættir - samfylkingarraunir - rógur Sverris

Þorsteinn Pálsson dóms- og kirkjumálaráðherra tilkynnti í gær, laugardaginn 17. október, að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram við næstu þingkosningarnar. Hann dregur sig í hlé frá stjórnmálum á besta aldri eftir 16 ára setu á þingi.

Ég er ekki í neinum vafa um, að margir munu sakna Þorsteins úr stjórnmálabaráttunni. Við höfum átt samleið innan Sjálfstæðisflokksins í 25 ár og víða látið að okkur kveða saman. Í formannskjörinu 1991 kaus ég Davíð Oddsson en ekki Þorstein.

Á fyrra kjörtímabili mínu sat ég í allsherjarnefnd þingsins undir formennsku Sólveigar Pétursdóttur, en í þeirri nefnd er fjallað um málefni frá dóms- og kirkjumálaráðherra. Þá og á því kjörtímabili, sem nú er að líða, hefur Þorsteinn beitt sér fyrir miklum umbótum í dómsmálum svo að ekki sé minnst á þá gjörbreytingu, sem er orðin á sambandi ríkis og kirkju með auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar. Í ráðherratíð Þorsteins hefur dómstólaskipan verið gjörbreytt, Hæstiréttur hefur fengið nýjan og glæsilegan samastað, saksóknaraembættið hefur fengið á sig nýtt snið og löggæsla hefur verið endurskipulögð.

Í sjávarútvegsmálum hefur Þorsteinn marga hildi háð og staðið að því að taka verulega dýfu með vísan til vísindalegra ráðlegginga um styrk fiskstofna. Nú er að koma í ljós að varðstaða um kvótakerfið og erfiðar ákvarðanir um hámarksafla eru að skila árangri.

Ljóst er, að þrír ráðherranna, sem sátu í öðru ráðuneyti Davíðs Oddssonar við upphaf kjörtímabilsins, gefa ekki kost á sér að nýju í næstu kosningum, allir menn á besta aldri, sem ákveða sjálfir að snúa sér að öðru en stjórnmálum.

Þeir Friðrik Sophusson, Þorsteinn Pálsson og Guðmundur Bjarnason hverfa ekki frá stjórnmálum undir þeim formerkjum, að þeir séu að yfirgefa sökkvandi skip. Þvert á móti kom fram í síðustu viku, að verulegur meirihluti þjóðarinnar telur víst og vill, að eftir kosningar eigi sömu flokkar áfram aðild að ríkisstjórn.

Gallup birti að þessu sinni könnun, sem sýndi að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefði minnkað um 5% úr um 47% í um 42% á milli Gallup-kannanna. Þegar könnun Gallup sem sýndi sjálfstæðismenn með 47% fylgi var birt fór eitthvað í handaskolum hjá fyrirtækinu, þannig að það varð að leiðrétta aðra þætti í könnun sinni, meðal annars að Sjálfstæðisflokkurinn fengi hreinan meirihluta, ef hann stæði frammi fyrir hinni margræddu samfylkingun vinstri manna. Daginn eftir að könnun Gallup um 42% fylgi sjálfstæðismanna birtist sagði DV [föstudaginn 16. október] frá niðurstöðum í nýrri könnun sinni, þar sem Sjálfstæðisflokknum var spáð 50,5% fylgi eða hreinum meirihluta á þingi, 33 þingmönnum af 63.

Hvað sem þessum könnunum líður, er ljóst, að samfylkingin hefur ekki náð sér neitt á strik. Síðast gerðist það, að Kristinn H. Gunnarsson sagði skilið við þingflokk Alþýðubandalagsins en hann var nýlega kjörinn formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis í nafni flokksins. Raunar er óskiljanlegt, hvernig Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, getur áfram látið eins og það sé næsta eðlilegur hlutur og samfylkingunni til framdráttar, að hver þingmaðurinn eftir annan yfirgefi Alþýðubandalagið til að berjast gegn þessari veikburða fylkingu. Nú eru þær þrjár eftir í Alþýðubandalaginu á þingi Margrét, Sigríður Jóhannesdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir auk tveggja fyrrverandi formanna flokksins, Svavars Gestssonar og Ragnars Arnalds. Ef ég man rétt er Ragnari Arnalds, sem hefur lengstan starfsaldur þingmanna, ekki fast í hendi að halda áfram í stjórnmálum eftir næstu kosningar. Svavar Gestsson sat of lengi á girðingunni í sumar, þegar Steingrímur J. Sigfússon tók af skarið, og fór síðan vitlausu megin niður af henni, ef fyrir honum vakir að hafa martæk pólitísk áhrif og bjóða sig fram að nýju.

Ég staldraði í vikunni við níðangurslega grein Sverris Hermannssonar í Morgunblaðinu, þar sem hann ber sér á brjóst sem málsvari gamalla hefða í Sjálfstæðisflokknum og ræðst síðan sérstaklega að Þorsteini Pálssyni og vegur í garð Davíðs Oddssonar. Ég hef áður kallað skrif Sverris í þessum dúr róg. Þau bera að minnsta kosti ekki mikinn vott um, að Sverri sé annt um það, sem sannara reynist, eða kunni að meta hinn mikla árangur við stjórn þjóðmála undir forystu Sjálfstæðisflokksins á þessum áratug. Fráleitt er fyrir Sverri að eigna sér eitthvað af því, sem þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson fengu áorkað. Blómaskeið flokksins og þjóðarinnar allrar á þessum áratug skynjar hann sem ófarir og harðræði. Er með ólíkindum að lesa þessa samsuðu.

Í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein segir Sverrir Hermannsson meðal annars:

„Það hefir áður komið fram margsinnis, að sá sem hér heldur á penna sá sér þann kost vænstan 1988 að segja af sér þingmennsku af því sem hann hafði til þess enga skapsmuni að leika skjöldum við muddumanninn Þorstein Pálsson og nóta hans.”

Sverrir Hermannsson gaf út minningarbrot sín, skráð af Indriða G. Þorsteinssyni, á árinu 1989, árið eftir að hann fór í Landsbankann. Þar segir hann frá því, að eftir að Þorsteinn Pálsson kom í ríkisstjórn með Sverri hafi Þorsteinn látið flest eftir Sverri og hann hafi verið sér góður og samvinnuþýður. Þar er einnig tekið sérstaklega fram, að Sverrir hafi alltaf stutt Þorstein eftir að hann var orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Á hinn bóginn hafi Sverri orðið það ljóst, þegar dró að alþingiskosningum 1987, að Þorsteinn Pálsson ætlaði ekki að styðjast við það ráðherragengi sem fyrir var í flokknum, eins og það er orðað, en Sverrir var í þessu gengi. Vegna þessa snerist Sverrir gegn Þorsteini, sem myndaði ríkisstjórn í júlí 1987 án Sverris. Þá sótti Sverrir um stöðu bankastjóra Landsbankans, þegar ljóst var strax í ágúst 1987 að hún myndi losna. Um áramótin 87/88 var ráðið mál, að Sverrir yrði bankastjóri. Í þessum minngarbrotum er hvergi minnst á það, að Sverrir hafi hætt í stjórnmálum heltekinn af áhyggjum vegna nýfrjálshyggjunnar innan Sjálfstæðisflokksins eða málefnalegs ágreinings af öðru tagi, þvert á móti er sú skýring gefin, að honum hafi leiðst svo þófið, að hann vann sér það helst til frægðar að sofna á framboðsfundum. Honum fannst hann vera orðinn fyrir þeim, sem vildu stjórna sjálfir, hann deildi ekki við þá um hugmyndafræði heldur völd.